Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ómanneskjulegt samfélag

Hvernig er að alast upp í þjóðfélagi þar sem lífsskoðanir manns eru ekki virtar til jafns við þær sem ríkið hefur ákveðið að skuli ríkja? Dóttir mín er átta ára gömul og það sem hefur valdið mestum vandræðum, leiðindum og vanlíðan hjá henni síðan hún byrjaði í skólanum eru trúmál. Ekki hafði hún verið lengi í skólanum þegar ákveðið var að halda skemmtun fyrir foreldra og áttu yngstu börnin að syngja lag. Kennarinn hafði fengið upplýsingar um að dóttir mín væri ekki trúuð, en þrátt fyrir það ákveður hún að börnin skuli syngja lagið „Ég er furðuverk sem guð bjó til“ sem Rut Reginalds gerði frægt fyrir mörgum árum. Af öllum þeim aragrúa af skemmtilegum barnalögum var sem sagt ekki hægt að velja lag sem öll börnin í bekknum gátu sungið með gleði og ekki fundið sig lítilsvirt.

Síðan byrjaði kristnifræðikennslan og þá byrjaði ballið. Dóttir mín hafi lært það heima hvernig maðurinn og dýrin urðu til, en þegar hún kom heim úr fyrsta kristinfræðitímanum, sagði hún mér að kennarinn hefði sagt að guð hafi skapað hana og allan heiminn, sólina tunglið og allt sem væri til. Þetta setti stelpuna í mjög erfið aðstöðu. Átti hún að trúa því sem mamma, pabbi og stóru systur hennar sögðu eða átti hún að trúa kennaranum? Henni fannst líklegra að heimilisfólkið hefði rétt fyrir sér, en henni fannst þó líka skrýtið að kennarinn væri að segja vitleysu. Í kristinfræðitímum spunnust miklar umræður og þar sem dóttir mín er alin upp erlendis töldu hin börnin að þetta fólk í útlandinu væri bara svona vitlaust að það væri bara ekki búið að heyra um guð. Þetta setti stelpuna í þó nokkurn vanda, því nú varð hún að rökræða við heilan bekk um trúmál og það er meira en hægt er að ætlast til af 6 ára gömlu barni sem þar að auki talar bjagaða íslensku. Nú hafa börn á þessum aldri mikla þörf fyrir að setja sig í hópa. Til dæmis er eitt það fyrsta sem börn í Hafnarfirði verða að gera upp við sig þegar þau byrja í skóla hvort þau séu FH-ingar eða Haukarar. Þarna var dóttir mín ein í hóp og það held ég sé stór orsök fyrir því að hún varð fryst úti í bekknum.

Rétt fyrir jól fékk ég miða með dóttur minni heim. Þar stóð að þau mættu koma í skólann með smákökur og kók því þau ætluðu að gera sér glaðan dag. Þennan saman dag mundu þau svo líka fara í kirkju þar sem yrði barnamessa. Þarna lentum við aftur í vandræðum svo ég lét stelpuna velja hvort hún vildi fara í skólann, kirkjuna og allan pakkann, hvort hún vildi fara í skólann og fara svo heim þegar krakkarnir færu í kirkjuna eða hvort hún vildi vera heima. Hún valdi að vera heima, því ef hún færi heim úr skólanum myndu krakkarnir fara að spyrja og það sama mundi gerast ef hún færi með í kirkjuna. Þetta varð til þess að hún missti af þeim degi þegar krakkarnir fengu að taka með sér smákökur og gosdrykk.

Einn daginn þegar hún var komin með hjálm, legg-, hné- og olnbogahlífar og var að fara út á línuskauta, sagði hún mér að einhverjir krakkar í bekknum hennar hefðu sagt að það væri hættulegt fyrir hana að fara á línuskauta, því þar sem hún trúði ekki á guð mundi hann ekki passa hana. Þess vegna væri betra fyrir hana að fara ekki niður brekkur á línuskautunum. Hún var því að velta því fyrir sér hvort ekki væri betra að taka kristna trú, svona í viðbót við hjálminn og hinar hlífarnar.

Eg sagði henni að nauðsynlegt væri fyrir alla krakka á línuskautum, hvort sem þeir eru kristnir eða ekki að fara varlega og vera ekki að fara niður brattar brekkur sem þeir valda ekki. Við fórum svo að ræða um guð og komumst að þeirri niðurstöðu að ef hann væri til þá gæti hann ekki verið góður guð ef hann léti krakka detta bara vegna þess að þau tryðu ekki á hann.

Það er svo algengt að dóttir mín þurfi að svara fyrir trúmálin sín að það getur ekki talist eðlilegt. Allt frá því að hún sé bara heimsk og viti ekkert um guð upp í svona hræðsluáróður að hún sé ekki örugg í leik nema trúa á guð. Börnin hafa þetta frá fullorðnum og mikið af því kemur frá skólanum þar sem kristinfræðin er í raun trúboð. Eg varð aldrei vör við þetta í Noregi eða Svíþjóð þegar eldri stelpurnar voru að alast upp. þær þurftu ekki að skera sig úr á nokkurn hátt, enda voru trúmál lítið til umræðu hjá börnum á barnaskólaaldri.

Að vísu var venjan að skólaslit væru haldin í kirkjunni. Þar sem mér fannst ekki hægt að eyðileggja þennan gleðidag sem skólaslit eiga að vera með því að þvinga börnin í kirkju, hringdi ég í bæjarfélagið og spurði hvernig bæjarfélagið túlkaði lögin um trúfrelsi og jafnrétti í skólum. Það tók bæjarstjórann 3 mánuði að svara þessari spurningu, en síðan voru skólaslit bönnuð í kirkjum í því bæjarfélagi.

Ég held því fram að börn á barnaskólaaldri sem ekki trúa á guð eiga á hættu að verða fyrir aðkasti vegna þessa. Er það svo mikilvægt fyrir þjóðkirkjuna að troða sínum áróðri á börn sem eru alltof ung og óþroskuð til að geta af nokkuru viti tekið afstöðu til trúmála að það réttlæti þessa ómanneskjulegu meðferð?

Ásta Norrman 03.06.2007
Flokkað undir: ( Aðsend grein )

Viðbrögð


FellowRanger - 03/06/07 17:59 #

Það er án efa afar mikilvægt því börn eru ekki með nægan þroska til að greina milli raunveruleiks og ímyndaðrar töfraveru. Ef "Þjóð"kirkjan myndi ekki beina sínum spjótum á þá sem geta ekki varist þeim myndi hún væntanlega deyja út.


Ásta - 03/06/07 18:22 #

Ég er ekki alveg eins bjartsýn og þú, held að alla tíð verði til fólk sem hefur þörf fyrir að einhver þeim æðri hjálpi þeim með ábyrgðina. Aftur á móti held ég að það væri kirkjunni til góðs að í henni væri fólk sem meðvitað hefur tekið þá ákvörðun að tilheyra henni, en ekki fullt af unglingum sem hafa verið keyptir til þess. Kirkjan mundi örugglega verða mun fátækari en hún er í dag. Prestar yrðu presta af köllun, en ekki af gróðrafíkn, en kirkjan yrði þá kannske eins og hún boðar.


Halli - 03/06/07 22:03 #

Góð grein hjá þér Ásta.

Þetta er virkilega uggvænleg frásögn af erfiðleikum barnsins þíns. Þetta virðist sérstaklega slæmt í skólanum hennar.


Ásta - 03/06/07 22:41 #

Þakka þér Halli! Ég held þetta sé ekkert verra í hennar skóla, en í skólum almennt. Það er bara spurning hvort maður vill taka áhættuna og ala börnin sín upp í trúleysi. Þar sem trú, trúleysi og almenn mannréttindi eru mikið rædd á heimilinu, kemst sú litla ekki hjá því að hlusta og stundum taka þátt í umræðunum. Auðvitað hefði lífið orðið auðveldara ef við hefðum bara látið kirkjuna vaða yfir okkur án þess að bregðast við og ég skil foreldra sem gera það, því ef við hefðum gert það, hefði stelpan átt auðveldari daga í skólanum. En stelpan er sterk og mér finnst mikilvægt að ala börnin upp þannig að þau eru samkvæm sjálfum sér. Það sem ekki brýtur, það styrkir. Hún ræður þessu líka sjálf, ef hún vill flokka sig með kristnum, má hún það, en hún hefur ekki sýnt því áhuga. Mér finnst mikilvægt að ekki þröngva börnum inní ákveðnar aðstæður. þau verða að fá að ráða eins og þau hafa aldur og þroska til


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 04/06/07 13:05 #

Þessi reynsla Ástu og dóttur hennar er ekkert einsdæmi í samfélagi okkar. Siðmennt birtir á vefsetri sínu svipaðar sögur og sögð er hér.


Gyða (meðlimur í Vantrú) - 04/06/07 13:15 #

Við þekkjum þetta vel á okkar heimili. Mið dóttirin sem var að klára 1. bekk kemur reglulega með setningar frá bekkjarfélögum s.s. að allir þurfi að trú á eitthvað og slíkt. Hún þarf oft að svara því af hverju hún trúi ekki á Guð og slíkt.

Hún er mjög opinská persóna og byrjaði t.d. skólaárið á að ganga á línuna og spyrja hverjir trúa á Guð og hverjir ekki. Það fór því ekki fram hjá neinum í skólanum að hún trúir ekki á Guð og hefur því að mörgu leiti stillt henni enn frekar upp fyrir rökræður bekkjarfélaganna.

Ég hef samt ekki orðið vör við að kennarinn kenni kristinfræðina á þann hátt sem þú lýsir. Við erum mjög ánægð með kennarann hennar í alla staði og að þessu leyti meðtöldu.

Hún fór þó í kirkjuna um jólin með bekkjarfélögunum þar sem okkur fannst við ekki geta rifið hana til hliðar þann dag og gert trúleysi fjölskyldunnar enn meira áberandi en það er. Verð samt líka að taka það fram að besta vinkona hennar er búdda trúar og því ekki kristin sem hjálpar dóttur minni áræðinlega mikið. Þær eru þá alltaf tvær allavegana sem trúa ekki á Guð.


Asta - 04/06/07 14:25 #

Sem betur fer eru kennarar mismunandi. Það sem mér finnst alvarlegast er að við höfum ákeðin lög í landinu, sem skólayfirvöld sjá ekki ástæðu til að fylgja. Hvernig kennarar kenna kristinfræðina er mjög einstaklingsbundið og oft erfitt að sanna að stundað sé trúboð. Heimsókn í messu í skólatíma er afturámóti mjög auvelt að sanna að eigi sér stað og er náttúrulega greinilegt brot á öllum lögum. Yfirvöldum virðist vera alveg saman þó það sé brotið. Nú á ekki að skipta máli hverra trúar skólastarfsmenn eru, það á að vera hægt að krefjast fagmennsku. Vill kennarinn kenna börnunum virðingu fyrir lögum, verða þeir að fylgja lögunum, hvað sem þeim finnst um þau.

Hvernig er með alla sem hafa talað fyrir kristnum skóla, hafið þið ekkert að segja um afleiðingarnar?


Árni Árnason - 04/06/07 15:56 #

Því miður er það svo að margir kennarar og skólastjórnendur líta á trúlausa sem eitthvað skrítið lið sem engin ástæða sé til að taka tillit til. Á meðan svo er,er þess vart að vænta að börnin læri að virða trúleysi skólasystkina sinna. Það er sorglegt að árið 2007 skuli kirkjan enn hafa svo sterk ítök í skólastarfinu að kristniboð þyki þar sjálfsagt og eðlilegt.

Trúleysi er alls staðar eitt og hið sama, hvar sem er á jörðinni og sama á hvaða tíma viðkomandi er fæddur. Trúin er aftur á móti háð þeirri tilviljun hvar í heiminum og á hvaða tíma menn fæðast. Væri ekki nær að trúleysið væri normið og trúin frávikið ?

Er það ekki bara helvítis frekja af kristnum að ætlast til að þeirra trú sé staðall á Íslandi ?


Dor - 04/06/07 19:52 #

Sorglegt...


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 04/06/07 20:04 #

Og auðvitað eru svo vantrúarbörn í öðrum löndum að súpa seyðið af þessu sama.


Halli - 04/06/07 23:14 #

Eins og einhver sagði: People who need the government to enforce their religion must not have much faith in the power of its message.

Sem kristinn maður skammast ég mín fyrir hönd trúbræðra minna, að halda boðskap sínum svona að varnarlitlum börnum.

Í minningunni var ég alveg laus við trúarsálma og kirkjuráp í mínum grunnskóla í Breiðholtinu, en kannski er ég bara búinn að gleyma öllu slíku.


Asta Norrman - 05/06/07 11:30 #

Eg sá myndbandið sem þú bentir á Birgir. Þetta er hrikalegt. Sem betur fer er þetta ekki eins slæmt hér á Íslandi, en ég held samt að ef allir trúleysingjar krefjast síns réttar, munum við fyrr ná árangir. Þó ber að varast að nota börnin sem spjót. Ekki láta þau gera eitthvað sem þau vilja ekki. Því eins og fram kemur í myndinni er ekki skrýtið þó margir foreldrar fylgi straumnum. þetta getur orðið of erfitt fyrir börnin.


Arnar G - 05/06/07 12:33 #

Er það kannski ekki það sem trúarnöttarar treysta á, að flestir sitji aðgerðarlausir barna sinna vegna. Ég hef talsverða trú á því.


Kristín Kristjánsdóttir (meðlimur í Vantrú) - 05/06/07 12:50 #

Ég var að koma úr leikskóla sonar míns þar sem hann er í aðlögun þessa dagana. Ég var beðin um það að fylla út ýmis eyðublöð þar sem ég var meðal annars að samþykkja það að hann mætti fara í göngutúr út fyrir leikskólann og slíkt. Á einum stað átti ég að merkja við hvort hann mætti taka þátt í kirkjulegum hátíðum eins og jólum og páskum. Nú er það þannig að við höldum hér hiklaust upp á jól og páska, á okkar forsendum sem eru ekki trúarlegar. Hvort á ég að merkja við já eða nei þar sem að það voru einu kostirnir sem mér voru gefnir?

Þetta er atriði sem er ekki afgreitt á svo einfaldan hátt. Helst hefði ég viljað skrifa bara við þessa spurningu að þar sem trúfrelsi eigi að vera á Íslandi þá ætti ég ekki að þurfa að svara slíkri spurningu, ekki í þessu formi. Mér hefði fundist eðlilegra að spurt hefði verið hver væri sýn fjölskyldunnar á þessar hátíðir og hefðir hennar þá í kringum það. Ég ræddi þetta beint við fóstru sonar míns til að minnka líkur á misskilningi sem hefðu getað sprottið af því litla svigrúmi sem ég fékk til að tjá mig á eyðublaðinu. Ég sagði henni að ég færi fram á það að ástæðu hans fyrir því að halda jól og páska yrði gert jafn hátt undir höfði og annarra- EF þau sæju ástæðu til þess að ræða þessi mál eitthvað að ráði í leikskólanum.

Það sem ég óttast mest er ekki það að börnin mín komist að því að það sé til eitthvað sem heitir kristin trú eða að sumir trúi á einhvern guð á himnum (ég segi þeim líka hiklaust frá því sjálf), heldur það að þeim sé innrætt að það sé það EINA RÉTTA, sem skiljanlega fengi þau til að álykta að þau væru að gera eitthvað skelfilega rangt og að móðir þeirra væri að ljúga að þeim þegar hún segði að trú hvers og eins væri undir hverjum og einum komin. Út frá þessu eru fordómar barnanna sprottnir, þessu svart og hvítt viðhorfi sem börn hafa ekki þroska til að meta sjálf, trúaður=góður vs trúlaus/annarrar trúar=vondur. Þú þarft líka ekki einu sinni að halda því fram að trúlausir séu vondir, það er nóg að fullyrða það að guð sé óvéfengjanlega til eða að kristin trú sé það sem "allir" aðhyllast á Íslandi eða að hún sé forsenda allra góðra hluta og börnin draga sínar eigin illa upplýstu ályktanir af því.

Ég er þó það heppin að það eru engar prest- eða kirkjuheimsóknir í leikskólanum okkar, sem reyndar ætti ekkert að teljast heppni, heldur sjálfsagt mál. Þegar börnin komast svo á skólaskyldu aldur þá höfum við ekki val um það hvort við sendum þau í skóla eða ekki, þar með er verið að skikka okkur til að láta þau sitja undir trúboði í þeim skólum þar sem prestar eru hiklaust boðnir velkomnir í. Eldra barnið mitt á tvö ár í það að komast á skólaskyldualdur. Ef ég get ekki valið skóla fyrir hana sem virðir trúfrelsi barnanna að fullu þá hef ég velt því fyrir mér hvort ástæða væri til að mótmæla því með því að neita að senda hana í skólann. Hef ekki tekið ákvörðun í því því að ég óttast umtal trúaðra foreldra í eyru barna sinna sem myndi skila sér í fordómum gagnvart dóttur minni þegar hún færi svo í skólann.


Asta Norrman - 05/06/07 13:41 #

Það er ýmislegt sem við getum gert án þess að beita börnunum. Við getum prentað út þennan bækling og látið skólann eða leikskólann fá. Við getum á þessari síðu fundið staðlað bréf sem við getum breytt að eigin aðstæðum og sent skólanum. Við getum sent bréf til bæjarfélagsins og kvartað. það sem ég held sé best er að tala við skólayfirvöld og bæjaryfirvöld og gera þeim grein fyrir hversu erfitt þetta geti orðið fyrir börnin. Eins og þegar ég kvartaði við bæjarfélagið í Svíþjóð, voru bæjarblöðin full af lesendabréfum frá kristnum fjölskyldum. Ég tók þátt í þeim skrifum en ekki undir nafni og gerði lesendum grein fyrir því að ég gerði það til að vernda börnin mín. Börnin urðu ekki fyrir aðkasti í skólanum, vegna þess að það voru svo fáir sem vissu hver hafði "eyðilagt" hefðina þeirra.


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 05/06/07 16:14 #

Kristín kemur með mikilvægan punkt. Ég stóð sjálfur frammi fyrir því að trúarfasísk skólastjórn bauð mér að sleppa barni mínu við kristinfræðikennslu prestsfrúar en þá þyrfti ég að taka mér frí í vinnu, hverju sinni, og koma og sækja barnið í tíma og fara með það út úr skólanum! Skýringin var sú að þau hefðu ekki mannskap til að passa "svona börn" og því þyrftu foreldrar að sjá um það sjálf. Einmitt. Þetta eru þau mannréttindabrot sem við trúlausir stöndum frammi fyrir og þarna var auðvitað verið að skrifa út recept á einelti ef foreldri kæmi alltaf í tíma að sækja barnið sitt þegar "allir hinir" eru að læra um góða Jesú o.s.frv. Því var best að láta hindurvitnakennslu prestsfrúarinnar yfir sig ganga fremur en að láta einelti og stríðni ganga yfir barnið. Djöfull getur maður orðið pirraður af að hugsa um þetta!


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 05/06/07 16:52 #

Athyglisverðar umræður. Annar sonur minn lenti í þvi í skóla þegar hann var 8 ára að aðalkennarinn hans setti oft ofaní við hann vegna þess sem hann teiknaði í myndlist. Hann var og er mjög flinkur að teikna. Svolítill dellukarl og var með mikinn áhuga á geimvísindum og geimverum þegar hann var krakki og myndirnar hans báru þess merki. Eftir að hann teiknaði mynd af geimveru sagði kennarinn hans að hann ætti ekki að teikna það sem væri ekki til. Þá sagði sá stutti eitthvað á þessa leið: Sumir teikna engla, eru þeir til? Þú segir aldrei neitt þegar krakkarnir teikna engla. Geimurinn er til, við vitum það og hnettirnar og sólirnar eru lifandi. Mjög líklega er líf annars staðar í geimnum. En við vitum ekki hvar himnaríki er eða hvort það er til! .........þessi sonur minn varð beinlínis fyrir aðkasti og einelti af kennurum sem þoldu ekki þegar hann kom með rök á móti því sem þeir héldu fram og hann vissi að var vitleysa. Ég þurfti talsvert oft að fara á fund kennara út af svoleiðis málum.


Viddi - 05/06/07 21:58 #

Ef kristinfræði eða trúarbragðakennsla er orðin það ágeng að fólk af annarri trú neyðist til að yfirgefa kennslustund er eitthvað að.

Það eiga allir jafnan rétt á kennslu, og ekki á að þurfa að vísa börnum úr annarri trú (eða engri) úr tímum eða skilja þau eftir í skólanum þegar farið er í vettvangsferðir. Börn úr öðrum trúarbrögðum (og engum) þurfa að sjálfsögðu að læra um kristindóminn, því hann er jú stór hluti af menningu og sögu Íslands, enginn hér neitar því, alveg eins og ef ég færi til íslamsríkis þyrfti ég að sjálfsögðu að kynna mér þau trúarbrögð svo ég geti til fulls skilið fólkið í landinu. Það er vel hægt að fræða nemendur um kristni án þess að ógna trú þeirra eða véfengja á einhvern hátt skoðanir þeirra.

Það sama gildir um vettvangsferðir, kirkjur eru oftar en ekki ein elstu og merkustu hús þeirra staða sem þær tilheyra, því er ekkert annað en gott að nemendur kynnist þessum húsakynnum. Ef hinsvegar er ekki hægt að fara í skoðunarferð um eina kirkju án þess að trúarhugmyndum sér þar troðið ofan í kog að þá er menntakerfið að bregðast okkar.

Í þessu samhengi mætti auðveldlega fella kristinfræði niður sem fag og innlima hana algerlega inn í sagnfræði og íslenskukennslu.


Ásta - 05/06/07 23:55 #

Vettfangsferðir í kirkju finnst mér allt í lagi. Guðþjónustur eru allt annar handleggur. Eg held að allar kennslubækurnar í kristinfræði séu samdar af prestum. Eg held það yrði meiri fræðsla ef námsefnið væri samið af hlutlausari aðila.

Þegar kemur að siðfræði, man ég ekki eftir að neinar af mínum stelpum( ég á tvær sem eru búnar með grunnskóla) hafi velt fyrir sér í kristinfræðitímum, hvort það hafi verið siðferðislega rétt af guði ( ef hann er á annað borð til) að drekkja öllum í Nóaflóðinu sem hann var ósammála og gerðu ekki eins og hann vildi.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 06/06/07 00:05 #

Í sjálfu sér hefði ég ekkert á móti vettvangsferðum í kirkjur ef þær væru hlutlaus kynning en raunin er sú að það er ekki hægt að treysta starfsfólki kirkjunnar til að stunda ekki trúboð. Þau kunna ekki annað!

Í Seljahverfi misnotar kirkjan allar heimsóknir. Þannig er leikskólabörnum boðið á Brúðuleikhúsið í kirkjunni einu sinni á ári. Áður en sýning hefst ræðir prestur aftur á móti við börnin og fer með bænir með börnunum. Foreldrar hafa ekkert val um þessar ferðir.

Hvað er að þessu fólki? Hvernig tengist brúðuleikhúsið kristniboði? Jú, þetta er beitan sem kirkjan notar til að lokka börnin til sín.

Sýningin sem börnin horfa á er alls ekki trúarleg.

Svo mæta prestar reglulega í leikskólana í Seljahverfi og stunda þar "kristniboð" eins og þeir kallar það. Ég hef bloggað um það síðustu ár.


Steindór J. Erlingsson - 06/06/07 00:37 #

Í ljósi umræðunnar sem hér fer fram langar mig að fjalla lítillega um reynslu barnanna minna af kristinfræðslunni. Ég á tvö börn og hef alið þau upp í trúleysi. Það vill svo til að sonur minn, sem er núna í 6. bekk, hefur alltaf haft mikinn áhuga á spurningunni um lífsskoðanir, ólíkt dóttur minni, sem nú er að ljúka 2. bekk. Sonur minn hefur frá því í 1. bekk verið ófeiminn við að gagnrýna það sem fram fer í kristinfræðitímunum, sem hefur oftar en einu sinni orðið til þess að kennarar hans hafa spurt okkur foreldrana hvort við vildum endilega hafa hann í tímunum. Við höfum hingað til talið rétt að sonur okkar hlyti þessa fræðslu, en næsta vetur, þegar hann fer í 7. bekk, höfum við í samráði við hann ákveðið að hann sleppi við kristinfræðsluna.

Sonur minn hefur aldrei liðið fyrir að vera svona gagnrýninn á kristindóminn og hefur honum raunar tekist að snúa mörgum vina sinna í átt að grimmri efahyggju. Hann hefur einnig þvingað kennarana til þess að svara erfiðum spurningum sem eflaust hefur orðið þess valdandi að samnemendur hans hafa fengið innsýn inn í heim hins trúlausa.


Asta Norrman - 06/06/07 13:44 #

Auðvitað er til fullt af krökkum sem geta staðið á móti straumnum, að mín stelpa gat það ekki 6 ára gömul, talandi bjagaða íslensku, með heilan bekk á móti sér og þar að auki á AKUREYRI sem er þekkt fyrir að vera besti bæri í heimi og nafli alheimsins og þeir sem koma annarstaðar frá skulu bara aðlagast eða eiga sig, held ég að sé ekki einsdæmi og ég held það sé full ástæða til að reyna að gera eitthvað í málinu þó svo að einhverir krakkar fari ekki illa útúr þessu.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 06/06/07 14:02 #

Ég er alveg sammála Ástu. Þó dóttir mín (og Gyðu) sé sjálfstæð og með bein í nefinu finnst mér afskaplega óheppilegt að hún skeri sig úr hópnum útaf trúleysi fjölskyldunnar. Þess vegna er svo mikilvægt að í skólum sé engum mismunað vegna trúarskoðana. Þess má geta að ef ekki væri fyrir leikskólatrúboðið væru hún ekki með svona ákveðnar skoðanir á þessum málum.

Þannig þarf að endurskoða kristinfræðikennslu og stoppa kristniboð í formi vinaleiðar og kirkjuheimsókna.


Steindór J. Erlingsson - 06/06/07 15:54 #

Ég er sammála ykkur Matti. Dóttir mín myndi t.a.m. aldrei þora að standa uppi í hárinu á kennaranum eins og sonur minn gerir.


Bogi Brimir - 06/06/07 18:09 #

Ég man eftir kristinfræðikennslu þegar ég var í grunnskóla. Ég hef alla tíð verið trúlaus þrátt fyrir tilraunir skólakerfisins til að sannfæra mig um mátt og tilvist almættisins. Í áttunda bekk kenndi ungur prestur okkur kristinfræði, honum líkaði greinilega ekki spurningar mínar (væntanlega af því að þessir tímar voru skólabókardæmi um trúboð) og dró mig a.m.k. eitt sinn út úr stofunni og grátbað mig að biðja um leyfi til að sleppa tímunum. Mér þótti og þykir enn hinsvegar gaman að læra um siði og menningu í sögulegu samhengi og sat því sem fastast. Eina trúarbragðakennslan sem mér þykir eðlileg er sú sem ætti að vera hluti af almennri sögukennslu. þar sem fjallað er almennt um sögu ýmissa trúarbraga án þess að efni þeirra sé sérstaklega tekið fyrir. Af hverju ættu börn að þurfa að taka próf úr biblíusögum? Af hverju þurfa foreldrar að vera sérstaklega á varðbergi gagnvart opinberu skólakerfi til að koma í veg fyrir trúboð eða aðra mismunun á grunni trúarbragða?


Kristján Hrannar Pálsson - 06/06/07 18:52 #

Sjálfur var ég í Landakotsskóla frá fyrsta upp í níunda bekk. Þar vorum við látin biðja faðirvorið áður en kennsla hófst á hverjum einasta degi (sumir kennarar létu okkur líka fara með trúarjátninguna). Kristinfræði skipaði stærri sess í námsskránni heldur en í öðrum skólum undir yfirskriftinni trúarbragðafræði.

Í níunda bekk, síðasta árið kenndi aðstoðarskólastjórinn okkur heimspeki, sem gekk aðalllega út á að rökstyðja sannleiksgildi sköpunarkenningunnar(með kostulegri samlíkingu um hvirfilbyl og varahluti úr Volvo), upprisu Krists og svo framvegis, að sjálfsögðu við miklar mótbárur okkar nemendanna sem vildu ræða hlutina út frá fleiri sjónarhornum.

Með því að troða þessu svona ofan í mann, hálfstálpuðum unglingnum leiddi það til þess að ég seldi upp öllum þessum trúaráróðri sem hafði verið matreiddur ofan í mig síðan úr frumbernsku. Ég hef síðan oft velt því fyrir mér hvort það stangist á við námsskrá að skylda nemendurna til að biðja bænir á undan kennslu. Ef til vill er einhver mér fróðari um þau mál.


khomeni (meðlimur í Vantrú) - 06/06/07 20:41 #

Ég held að Landakotsskóli geti gert það sem hann vill. Þetta er jú eihverskonar einkaskóli. Annars þekki ég til fjölmargra sem voru í þessum skóla og enginn þeirra ber honum vel söguna. Ofbeldi, niðurlægjing nemenda og annar níðingsháttur virtist vera partur af skólastarfinu.

-Fussum svei!


óðinsmær - 07/06/07 20:06 #

skólar eiga ekki að sjá um neitt annað en almenna trúarbragðafræðslu. Mér finnst þessi frásögn skelfileg, og almennt bara þegar farið er með saklaust ungviðið í hópmessur. Þær geta nákvæmlega eng breytt ef það er ekki trúarhiti á heimilunum. Ég vildi óska þess að foreldrar almennt myndu ala börnin sín upp með Krist og Biblíuna að leiðarljósi, en að öðru leiti kemur mér þetta mál ekkert við. Þetta er góð grein og gerir mig virkilega pirraða. Skólarnir eiga ekki að standa í svona misrétti og kjaftæði.

En ekki gleyma því að víða erlendis verða kristin börn fyrir sérlegu aðkasti í skólum, vegna sinna lífsskoðana. Þau eiga í rauninni í sömu baráttu og trúleysis foreldrarnir hér á landi.


Ásta - 07/06/07 22:40 #

Þakka þér Óðinsmær! Það er alltaf hughreystandi að hitta fyrir kristið fólk sem virðir mannréttindi og virðir skoðanir og lífssýn annara, þó það sé ekki sammála. Það er eitt að óska einhvers og annað að taka frá fólki þau sjálfsögðu mannréttindi að velja fyrir sig og sína. Við skulum vona að einn daginn verði enginn, hvorki trúaðir nér trúlausir, fyrir aðkasti vegna skoðanna sinna, trúar eða hugmynda.


hjalti hilmarsson - 08/06/07 15:36 #

persónulega man én þetta vel enda bara 14 ára, enn þegar ég átti að læra kristinnfræði í 3.bekk neitaði ég bara að gera það og mér var aldrey strítt (enn að vísu var ég langstærsti og sterkasti krakkin í bekknum). þetta er bara yfirgangur í þessum jésúíta fávitum.


Elías Karl - 10/06/07 21:02 #

Ég hef lengi undrast afhverju Íslenska þjóðin lætur enn viðgangast kristinfræði kennslu. Að beinlínis troða kristnum hugsunarhætti inn í ung börn er í raun glæpur og stríðir gegn trúfrelsi. Það ætti frekar að kenna allsherjar trúarbragðafræði og þá á ég við létt yfirlit yfir trúarbrögðin, en ekki kafa djúpt í Kóraninn eða Biblíuna, það getur beðið þangað til í háskóla.


Eríkur - 11/06/07 01:13 #

Trúð þið ekki á anda? Hafið þið aldrei fundið fyrir reimleika?


khomeni (meðlimur í Vantrú) - 11/06/07 01:18 #

Eini andinn sem ég hef fundið er vín-andi. Reimleika þekki ég ekki enda fyrirbærið ekki til nema í hugum móðursjúkra.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 11/06/07 12:03 #

Trúð þið ekki á anda? Hafið þið aldrei fundið fyrir reimleika?

Sjá hér.


hildigunnur - 12/06/07 08:35 #

Ég hef bara tvisvar lent í svona dæmum með mín börn, í annað skiptið fékk yngri dóttirin mjög trúaðan kennara og kristnifræðitímarnir urðu að trúboði (nokkuð sem er almennt ekki í Austurbæjarskóla), mjög margir foreldrar mótmæltu (líka svolítil sérstaða hér í miðbænum).

Síðara skiptið baðst eldri dóttirin, þá þrettán ára, undan kirkjuferð um jólin. Fékk nei á þeirri forsendu að "þá myndu allir hinir líka vilja fá frí". Ég var að sjálfsögðu mjög ósátt við þetta og sendi harðort bréf til kennara og skólastjóra. Ekki hefur borið á slíku síðan.

Þvílíkt rugl að börnin geti ekki sleppt kirkjuferðum, algjör óþarfi að þau fái frí í staðinn, eru ekki bókasöfn og vinnustofur í skólum sem börnin geta dvalið í á meðan, lært eða lesið?


Asta Norrman - 12/06/07 13:19 #

Mér finnst hvert skipti sem kennarar virða ekki trúfrelsi vera of mikið. Mér finnst skrítinn starfsmettnaður hjá kennurum að fara ekki að lögum. Þó svo það standi í grunnskólalögunum að viðhaft skuli kristið siðferði, þá afsakar það ekki að brotið se´fullt af öðrum lögum. Að þeir sem eru utan þjóðkirkjunar þurfi að skilja sig út og fara í bókasafn eða vinnustofu á meðan hinir eru í kirkju, finnst mér heldur ekki í lagi. Trú er hægt að iðka á frítíma. Kirkjurnar eru duglegar að auglýsa barnastarf og ef þetta væri ekki í skólanum, mundi framboðið hjá kirkjunum líka aukast. svo burt með allar messur á skólatíma.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.