Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

"Þingmenn ganga til kirkju"

Sumarþing Alþingis var sett í dag, setning hófst að sjálfsögðu í Dómkirkjunni eins og lesa má um í morgunblaðsfrétt.

Hvernig er hægt að halda því fram að hér sé alvöru aðskilnaður milli ríkis og Þjóðkirkju þegar setning Alþingis hefst með guðþjónustu? Þetta er blaut tuska í andlit fjórðungs þjóðarinnar sem er trúlaus. Vissulega er stór hluti þjóðarinnar (82%) skráður í Þjóðkirkjuna, en ekki nema helmingur þess hóps telur sig kristinnar trúar. Það þarf að byrja á því að leiðrétta trúfélagaskráningu hér á landi, þannig að hún gefi rétt mynd af viðhorfi þjóðarinnar. Þá er hægt að eiga vitrænar umræður um þessi mál.

Það eru engin rök þó þetta hafi alltaf verið svona, þetta sé hefð og eigi því bara að vera svona áfram. Slík röksemdarfærsla er ekkert annað en hefðarrökvilla

Árið er 2007. Það er fáránlegt að Alþingi hefjist með blessun trúarleiðtoga, sérstaklega í ljósi þess að þessi trúarleiðtogi hefur barist gegn ýmsum framfaramálum eins og nýleg umræða um hjónabönd samkynhneigðra sannar.

Þetta er skammarlegt.

Matthías Ásgeirsson 31.05.2007
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 31/05/07 20:48 #

Þetta er hefð sem mætti missa sín. Nær væri að finna upp á einhverri skemmtilegri athöfn fyrir setningu Alþingis heldur en þessa forneskjulegu guðþjónustu. Láta Sinfóníuna spila nokkur vel valin ættjarðarlög á Austurvelli eða eitthvað. Flest annað væri skárra.

Ég vona að aðskilnaður ríkis og kirkju komist á dagskrá þingsins sem fyrst og verði afgreitt fljótt og vel. Verð samt að viðurkenna að ég hef litla trú á því að það gerist bráðlega. Kannski eftir að skipt verður um kirkjumálaráðherra, hver veit?


khomeni (meðlimur í Vantrú) - 01/06/07 00:21 #

Ógeðfelt. -Afar ógeðfelt.


Ásta - 01/06/07 02:00 #

Alveg sammála, þetta er brot á mannréttindum. Skiptir engu máli hversu margir eru í þjóðkirkjunni. þær þjóðir sem vilja teljast siðaðar, virða réttindi minnihlutahópa. Góð hugmynd hjá Lárussi Viðari. Ef symphoniuhljómsveitin spilaði á Austurvelli, gæti þetta orðið mjög hátiðleg stund sem allur almenningur gæti fengið að horfa á.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 01/06/07 17:42 #

Það er uppörvandi að lesa um þingmenn sem standa fastir á skoðunum sínum. Atli Gíslason, þingmaður VG, mætti ekki til messu til að sýna samstöðu með samkynheigðum. Það væri óskandi ef fleiri þingmenn hefðu kjark til að sýna skoðun sína í verki.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 01/06/07 17:47 #

Gott hjá Atla, vonandi fylgja fleiri í kjölfarið.

Ég ítreka að ég hef ekkert á móti því að kristnir Alþingismenn fari í kirkju í frítíma sínum. Mér finnst það bara móðgun við mig og aðra íslendinga sem eru trúlausir eða ekki kristnir að hefja löggjafarsamkomu landsins í guðsþjónustu. Alþingismenn eiga ekki að þjóna Gvuði fyrst heldur íslendingum, gvuðinn þeirra verður að vera í öðru sæti.

Það er góð hugmynd að halda tónleika eða einhverja almenna skemmtun við setningu Alþingis. Þá myndi fólk hópast í bæinn til að verða vitni að þessum atburði sem annars fer framhjá flestum.


Magnús - 02/06/07 11:33 #

Samt gat Atli ekki komið því út úr sér að þetta væru mótmæli gegn kirkjunni, heldur væri hann að sýna samstöðu með samkynhneigðum. Hvernig var hann að því ef hann var ekki að mótmæla kirkjunni? Voru samkynhneigðir að sniðganga kirkjur þennan dag?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 03/06/07 10:04 #

Ég mæli með bloggfærslu Viðars Eggertssonar og umræðum sem þar fylgja.


Khomeni (meðlimur í Vantrú) - 04/06/07 11:23 #

Rosalega virðast margir vera andstæðingar ríkiskirkjunnar. Þessi umræða hefði verið óhugsandi fyrir nokkrum árum síðan.

Ég rek þessa afhelgun ríkiskirjunnar beinustu leið til vinnu og starfsemi Vantrúar!


Geiri - 10/06/07 23:43 #

Og verði þér að því minn kæri, frábært starf hér á ferð...

Hvað með það þó ríkið sé kristið? Þýðir það að fólkið verði að vera það eða eigi að vera það?

Algjörlega ekki.

Ef einhver vogar sér að mótmæla því þá vil ég að sá hinn sami velti þessu fyrir sér:

Er ríkið til fyrir tilstilli fólksins eða erum við til í þeim tilganga að bugta okkur undir ríkið og þjóna því?

Hvort kom á undan, hænan eða eggið?

Ég held því sé auðsvarað.


Frikki - 01/08/07 04:33 #

Aðskilnaður ríkis og kirkju má alveg eiga sér stað. Enda eins og margir hafa bent á og víst gengur þetta spjallborð út á það að flest allir Íslendingar séu ekki Kristnir. Nú jæja, ég er annars þeirrar skoðunnar að án trúar sé ekkert réttlæti og við hvað eigi að miða án hennar er ekki auðsvarað.

Hvað varðar framfaraspor um giftingu samkynhneigðra þá á sú umræða engann veginn heima í kirkjunni hvað þá uppá borð á hinum Kristna einstaklingi eða leiðtoga. Samkynhneigð er fordæmd í Biblíunni, því riti sem kirkjan byggir á og einstaklingurinn trúnna(samkynhneigð er synd, en Guð hatar syndina ekki syndarann). Að reyna kalla það framfaraskref að reyna þröngva kirkjulegri giftingu samkynhneigðra inná hina Kristnu kirkju er fáránlegt! Það er nákvæmlega það sama og að reyna þröngva trú uppá einstakling sem sækist ekki eftir henni.

"Réttindi" í samfélaginu, eða öllu heldur lögleysan er löngu komin út fyrir öll skynsamleg mörk. (Ég segi lögleysa þar sem fólk virðist ekki vilja hafa neinar hömlur á neinu og það á rétt á öllu sem hugur þess óskar).


Andri - 01/08/07 16:05 #

Það er enginn að reyna að þröngva giftingu samkynhneigðra upp á kirkjuna. Það er kirkjan sem er að reyna að koma í veg fyrir að önnur trúfélög eða stofnanir geti gift samkynhneigða. Gifting er ekki einkaeign kirkjunnar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.