Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kjaftæði í Kastljósi, áhrif hugsana á vatn

Af hverju er fólk ginkeypt fyrir kjaftæði? Þó það sé vinsælt að segja að fólk sé fífl er raunin sú að flestir eru þokkalega skynsamir, a.m.k. á einhverjum sviðum. Samt er það svo að afar margir eru tilbúnir að trúa fjarstæðukenndum hugmyndum.

Vafalítið er ein helsta ástæðan fyrir þessu gagnrýnislaus umfjöllun fjölmiðla. Þegar fluttar eru fréttir af undarlegum fyrirbærum án þess að reynt sé að finna eðlilegar skýringar er ekkert skrítið þó fólk trúi vitleysunni.

Síðasta fimmtudag fjallaði Kastljós um stórmerkilegt fyrirbæri. Svo virðist sem hægt sé að tala við vatn og hafa þannig áhrif á eiginleika þess. Umfjöllunin var afskaplega einhliða og þeir sem horfðu á fengu enga fyrirvara. Rætt var við hjúkrunarfræðinginn Vigdísi Steinþórsdóttur sem náði að koma með afskaplega margar vafasamar fullyrðingar í stuttu viðtali. (Getur einhver útskýrt fyrir mér af hverju hjúkrunarfræðingar virðast svo margir ginkeyptir fyrir kjaftæði?)

Já, máttur hugans er mjög mikill og þar af leiðandi er mjög mikilvægt hvað við segjum og látum frá okkur fara. Við erum dáldið mikið eins og útvarpstæki og bylgjurnar okkar sem við sendum frá okkur fara eru líkt og útvarpsbylgjur. Þú, sem viðtakandi, þitt tæki, getur tekið ótrúlega mikið á móti mínum hugsunum og mínum orðum og misjafnt hvað ég segi, hvernig þú tekur á móti því.

Já, það var mjög merkilegt fyrir mig að komast að, eða sjá þessar myndir frá þessum japanska vísindamanni sem heitir Emoto. Hann hefur gert miklar tilraunir á vatni og sýnir þar svart á hvítu hvernig orðin okkar og orkan sem við sendum frá okkur hefur áhrif á vatnið. Hann setur vatn í tilraunaglös og talar síðan við vatnið eða hann spilar fyrir það músík eða setur hugsanir sínar, því það er ekki minna mikilvægt. Hann skrifar hugsanir á blað, límir það síðan á glasið, síðan frystir hann öll þessi glös og tekur síðan myndir af frostrósunum sem myndast því mólikúlin breytast í vatninu eftir því hvaða tíðni þú sendir frá þér.

Telur þú að fólk geti notfært sér þess vitneskju?

Engin spurning, því við erum allt of lítið meðvituð um hvað við erum að senda frá okkur eins og þegar við erum að hugsa eitthvað ljótt eða segja eitthvað ljótt við einhvern annan - það hefur miklu djúpstæðari áhrif en við höfum gert okkur grein fyrir - og það sjáum við á þessum myndum. Við sjáum líka mátt bænarinnar, hversu mikilvæg bænin er, á myndunum, að það hefur áhrif og þá skyldi ég - þegar ég sá þessar myndir - virkilega, vá, hvernig bænin er að vinna.

Sko, eftir því hvernig þessi tíðni sest í okkur - og eins og við sjáum á myndunum - hvernig þetta breytir okkur, við erum jú 70% vatn og alls staðar er vatn í kringum okkur þannig að við breytumst líka eða það setjast í okkur stíflur í orkuna. Allt er þetta orka sem er að flæða og þegar orkan okkar stífast í líkamanum okkar, þá koma fram líkamleg einkenni, líkamleg vanlíðan eða líkamlegir kvillar.

Japanski vísindamaðurinn sem Vigdís nefnir heitir Masaru Emoto. Hann heldur því reyndar ekki fram að starf hans með vatn sé vísindalegt enda er það ekki þannig unnið. Rannsóknir eru ekki tvíblindar og fara þannig fram að Emoto velur þær niðurstöður sem honum finnast heillandi. Slíkt er aldrei gæfuríkt í vísindum. Emoto varð frægur þegar kvikmyndin vafasama, What the bleep do we know kom út. Þar var fjallað um rannsóknir hans og gefið í skyn að eitthvað merkilegt væri í gangi.

Vigdís tengir þessar myndir Emoto á einhvern undarlegan hátt við mátt bænarinnar, eða eins og hún segir "þegar ég sá þessar myndir - virkilega, vá, hvernig bænin er að vinna". Ég verð að játa að ég næ ekki þessari tenginu.

Ef Kastljós hefði kynnt sér málið með hefði fljótt komið í ljós að fullyrðingar Vigdísar standast ekki rýni. Ekki hefði þurft mikla vinnu til, nóg hefði verið að styðjast við leitarvélar og lesa nokkrar vefsíður.

Það er að mínu mati áhyggjuefni að Kastljós ríkissjónvarpsins fjalli á svo gagnrýnislausan hátt um augljóst kjaftæði. Staðreyndin er sú að það er bransi á bak við þessa vitleysu sem veltir háum upphæðum. Bransi sem byggist á hæpnum fullyrðingum og jafnvel vörusvikum. Jóhanna Jóhannsdóttir vann þessa umfjöllun fyrir Kastljós, vonandi vandar hún sig betur næst.

Matthías Ásgeirsson 30.05.2007
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin , Nýöld )

Viðbrögð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 30/05/07 13:25 #

Tja, við hverju er svo sem að búast hjá samborgurum okkar þar sem meirihlutinn er tilbúinn að trúa því að algóður guð hafi sett heiminn af stað og sé blanda sér í persónuleg mál hvers og eins og fylgjast með hegðun okkar? Hafi fólki verið innrætt fjarstæðukennd heimsmynd í æsku verður það auðvitað ginnkeyptara fyrir fjarstæðukenndu rugli á fullorðinsárum.

Það þarf að fara að gera gagnrýna hugsun að skyldunámsgrein í skólakerfinu.


Sigurður Hólm Gunnarsson - 30/05/07 13:56 #

Það merkilegasta (og sorglegasta) er að svona gagnrýnislaus umfjöllun fari fram í "fréttatengdum" sjónvarpsþáttum.

Stöð 2 hefur líka verið duglegt við að stunda álíka árufréttalestur. Sjá:

Nýöldin á Stöð 2 – Ábyrgð fjölmiðlamanna

og

Ó nei, tunglið er fullt!


Kristján Atli - 30/05/07 14:14 #

Vá. Beethoven fer betur með ferskvatn en þungarokk. Ég er farinn út í Skífuna að versla nokkrar klassískar ...


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 30/05/07 22:01 #

Þetta var afskaplega slöpp umfjöllun og Sjónvarpinu til skammar. Reyndar held ég að þessi "fréttaskýring" hafi verið unnið af stúlku í starfskynningu þarna, eða eitthvað álíka. En svona súpa hefði ekki átt að fara á borð landsmanna.


FellowRanger - 30/05/07 23:11 #

Ég veit nú ekki með ykkur en mér finnst við mannfólkið vera óttalega mikil fífl.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 30/05/07 23:15 #

Það finnst mér stundum líka.

Það er rétt Reynir, Jóhanna Jóhannsdóttir gerði þetta innslag í starfskynningu, en það er samt sent út á ábyrgð Kastljóss.

Þetta er dálítið svekkjandi því Kastljósið hefur stundum staðið sig afar vel, t.d. þegar þau fjölluðu um detox í vetur. Þessi umfjöllun var aftur á móti fyrir neðan allar hellur og sannfærði vafalítið fjölda fólks um að það sé þjóðráð að tala blíðlega við vatnið sitt!


LegoPanda (meðlimur í Vantrú) - 31/05/07 01:02 #

Þvílíkt og annað eins kjaftæði. Ótrúlegt að þetta var spilað athugasemdalaust af hálfu Kastljóss-kempa.


Kristín Kristjánsdóttir (meðlimur í Vantrú) - 31/05/07 08:54 #

Náinn fjölskyldumeðlimur gerði eigin "tilraun" eftir að hafa heyrt af þessu og sagði að niðurstöður sínar hefðu verið í samræmi við þessi fræði.

Tilraunin fór þannig fram að hún spilaði "góða" tónlist í eldhúsinu hjá sér fyrri daginn en "slæma" þann seinni og var með skál af vatni uppi á bekk á meðan. Hún stakk skálunum svo inn í frysti í bæði skiptin og sagði að það hefði verið greinilegur munur og að áhrifin af góðu tónlistinni hefðu komið fram í fallegri útkomu eftir frystingu til móts við eitthvað óásjálegt í seinni skálinni.

Það merkilega er svo að góða tónlistin í þessari tilraun var harmoníkutónlist en slæma tónlistin var klassísk tónlist :)

Ég er búin að biðja hana að endurtaka tilraunina í nokkur skipti svo að hægt sé að taka eitthvert mark á niðurstöðum hennar og bíð bara spennt eftir niðurstöðunum!


Khomeni (meðlimur í Vantrú) - 31/05/07 09:00 #

Ha ha ha....

Er mikið af vísindamönnum í fjölskyldunni þinni? :)


Kristín Kristjánsdóttir (meðlimur í Vantrú) - 31/05/07 09:19 #

Ja, alla vega einstaklingar með galopinn huga en það mætti kannski þjálfa hana upp í smá gagnrýnni hugsun og þá verður hún dúndur vísindamaður :)


Viddi - 31/05/07 09:52 #

Svona vatn er kannski hið fínasta tæki til að skera út um hina eilífu þrætu, er ein tónlist betri en önnur. Nú þarf fólk ekki lengur að vera ósammála um tónlist, nú spyr það bara vatnið (eða spilar fyrir það tónlist) og daginn eftir mun það sýna rétta útkomu, þvílík snilld.

Ætli vatnið fíli Bob Dylan?


Kristín Kristjánsdóttir (meðlimur í Vantrú) - 31/05/07 10:26 #

He he... já verst að það gæti kannski tekið smá tíma að finna staðla fyrir það hvenær vatnið telst kristallast fallega og hvernig það kristallast þegar er verið að misbjóða því.


gimbi - 31/05/07 17:19 #

...sanniði til, vatnið mun ekki þola Bob Dylan. En Friðrik Karlsson mun kristalla sjálfa kritallanna af kosmíkum unaði.


Dvergurinn - 31/05/07 19:24 #

Mig grunar sterklega að vatnið hafi lélegan smekk...


0013 - 01/06/07 23:31 #

Afhverju hjúkrunarfræðingar virðast vera opnir fyrir rugli hef ég ekki einhlyta skýringu á. Nám þeirra´hlýtur þó að vera eitthvað beiglað. Legg til að þrír kúrsar í gagnrýnni hugsun verði sett inn í hjúkrunarfræði.


jogus (meðlimur í Vantrú) - 02/06/07 11:57 #

Ætli meint trúgirni hjúkrunarfræðinga tengist ekki frekar fjölda hjúkrunarfræðinga? :)


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 02/06/07 15:03 #

Það er reyndar góður punktur :-)


zoldan - 03/06/07 04:58 #

Hérna er tilraun: hóta vatninu öllu illu með góðu. og spila góða tónlist undir og sjá hvort vatnið "skilji" hótunina frá hinu góða.


Lalli - 04/06/07 03:14 #

[ athugasemd færð á spjallið ]


Guðmundur - 05/06/07 16:14 #

Æj æj, þið eruð nú ekkert skárri, farið bara í hinar öfgarnar á meðan hinir er í sínu horni. Þið munið seint sjá stóru myndinni ef þið leggist svona geysihart gegn einhverjum fyrirbærum sem eru svona "framandi" fyrir ykkur. Mér finnst ekkert ótrúleg frétt heldur mjög skynsamleg, hugsanir eru það sem skapa alheiminn.


Khomeni (meðlimur í Vantrú) - 05/06/07 16:55 #

Þið munið seint sjá stóru myndinni ef þið leggist svona geysihart gegn einhverjum fyrirbærum sem eru svona "framandi" fyrir ykkur

Guðmundur... Ef þú sérð einhverja dellu í gangi, afgreiðir þú hana sem "framandi"... Þetta vatns-gums er ekkert "framandi", þetta er bara kjaftæði, -sérhannað til þess að skaffa einhverjum sniðugum (og siðlausum) einstaklingi fé.

Gangið þér ekki heill til skógar Guðmundur? Talar þú kannski við vatnið áður en þú drekkur það? Biður þú vatnið afsökunar þegar þú sturtar niður? -Spyr sá sem ekki veit.


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 05/06/07 17:04 #

Mér finnst ekkert ótrúleg frétt heldur mjög skynsamleg, hugsanir eru það sem skapa alheiminn.

Þetta þykir mér hins vegar ótrúleg frétt.


Hugsuður - 06/06/07 11:09 #

Hvet ykkur öll til að horfa á þessar myndir:

www.thesecret.tv og What the bleep do we know (fæst á videoleigum).

Það er rökrétt að efast um hluti og taka ekki öllu hráu en hinsvegar verður maður að vera reiðubúinn að rannsaka hlutina til að fá niðurstöður. Ég hvet forsprakka Vantrúar að athuga þessar tvær myndir með opnum huga og sér til gamans. Mér sýnist þessi síða vera á þá leið að öll umfjöllun um trú eða trúarbrögð sé af neikvæðum meiði.

Trú gefur manni það stórkostlegasta í alheimi, von, gleði og hamingju - ef kenningarnar eru rökréttar, tilgangurinn hamingja einstaklingsins og samtökin sjálf laus við spillingu og hroka. Slíkt finnst. Meira að segja kristin trú, þó þversagnakennd sé hefur gefið fólki hamingju en kenningarnar eru þó alltof brotnar v/ sífelldra breytinga og mistúlkana ásamt spillingu innan kirkjunnar að henni mun aldrei takast að færa heiminum hamingju og frið. Þar með fellur tilgangur hennar um sjálfa sig þar sem kenningarnar eru of takmarkaðar fyrir nútímafólk.

Þessi síða á sannarlega rétt á sér - en það er ekki nóg að röfla og vera á móti, það breytir engu - árangurinn felst í að finna eitthvað stórkostlegt sem færir okkur öllum hamingju. Ætti það ekki að vera markmið þessarar síðu?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 06/06/07 11:12 #

Í greininni vísa ég á umfjöllun um What the bleep do we know. Hér er umfjöllun sama bloggara um The Secret - skoðið vísanir hjá honum, hann bendir á aðrar umfjallanir.

Báðar þessar myndir eru uppfullar af kjaftæði.

Annars ætti umfjöllun The Onion (sem er grínsíða) um The Secret að duga.


Khomeni (meðlimur í Vantrú) - 06/06/07 16:30 #

Ég hef séð þessa "What the Fuck Do We Know"-mynd. Hún er uppfull af dellu. Veður samhengislaust frá pælingum um skammtafræði (studdum af faglegri tölvugrafík). Svo kemur einhverskonar lausn í lokin. Vatns-heilun frá japönskum listamanni...

Kom on! Er ekki hægt að gera betur?

Hvað varðar þetta "Secret" þá er myndin (ég hef ekki séð þetta "secret-tv) algjört krapp. Allskonar dellu er klínt á mestu heimsspekinga sögunnar. Þetta er í raun skammarlegt og það þarf sannarlegan hálfvita að sjá ekki í gegnum þessa óskammfeilmnu fjárplógsstarfsemi sem á sér stað þarna. Ekkert "secret" í því dæmi heldur stálköld fégræðgi.


Kristinn - 04/08/07 02:00 #

Vegna orða "Hugsuður".

Hvernig stendur á því að trúað fólk heldur að fólk sem trúir ekki á Guð geti ekki upplifað von, gleði og hamingju?

Hef oft heyrt þetta. "Hvernig er hægt að lifa án vonarinnar?"

Ég trúi ekki á Guð en er fullur af von, gleði og hamingju. Treysti á sjálfan mig til að veita mér von, gleði og hamingju, ekki einhvern annan.

Þegar mér gengur vel veit ég að það er mér að þakka, en ekki einhverjum upp í skýjunum. Enn fremur veit ég að þegar mér gengur illa er það mér einum að kenna.


Klaran - 18/11/07 08:06 #

Það hefur nú samt verið sannað að þungarokk eykur vöxt plantna til muna eða þ.e.a.s. meiri hröðun í upptaki vatnsins í plöntuna. Eða, vatnið er aðgengilegra í þungarokki heldur en há mozart eða þegar það er talað fallega við þær eða illa. Þungarokkstónlistin hefur áhrif á vatnið og eiginleika þess og þar af leiðandi stækkuðu plönturnar hraðar. Hvort sem að þið vanhugsuðu einstaklingar pæli eitthvað meira í því eða ekki þá er þetta vísindalega sannað. ekki trúlega haldið fram. úff.. truth hurts.. doesent it?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 18/11/07 12:54 #

Það hefur nú samt verið sannað að þungarokk eykur vöxt plantna til muna eða þ.e.a.s. meiri hröðun í upptaki vatnsins í plöntuna.

Bíddu rólegur, hvar hefur það verið sannað? Vísaðu á heimildir til að rökstyðja þessa fullyrðingu þína.


Sigurður Karl Lúðvíksson - 20/11/07 21:06 #

HAHAHA, hér er klaran að benda á hinu "vísindalegu" aðferð þeirra kumpána í Mythbusters á Discovery Channel, sem btw eru alveg meiriháttar skemmtilegir þættir, en vísindalegir? ekki beinlínis. Klaran, talaðu út úr hinum endanum, og reyndu nú að kynna þér vísindalegar aðferðir áður en þú ferð að nota gildishlaðin orð eins og "sönnun" og "vísindi", sem þú augljóslega ræður ekki við.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.