Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Költ gerir strandhögg

Ég var staddur niðri í Lækjargötu fyrir fáeinum vikum þar sem ég sá tvo menn í jakkafötum storma inn í MR. Ég hugsaði sem svo að þarna færu mormónar sem létu engan vinnustað framhjá sér fara þegar kæmi að því að boða fagnaðarerindið. Forvitni mín var vakin en þegar ég gekk inn í skólann kom í ljós að þarna voru Íslendingar á ferð í þeim erindagjörðum að hengja upp veggspjald um kynningarfund á kabbala.

„Hvað eru boðberar kabbala að gera hérna á Íslandi“ var fyrsta spurningin sem skaut upp í huga mér. Eftir örstutt spjall við þá kumpána um kabbalah og tengsl þess við Madonnu og fleiri stjörnur fannst mér nokkuð ljóst að þarna voru engir trúmenn á ferðinni. Þessir menn voru í bissness.

Þegar heim var komið var næsta skref að afla upplýsinga um kabbalah á netinu. Wikipedian og vefsíður kabbalah-miðstöðva í Bretlandi og Bandaríkjunum gáfu smá hugmynd um hvað þetta snýst. Þægilegast fannst mér þó að lesa svarið: „Hvað er kabbala?“ á Vísindavef Háskóla Íslands. Þar kemur fram að kabbala sé dulhyggjustefna í gyðingdómi. Uppruni hennar sé óljós þar sem hún hafi framan af farið leynt og varðveist í munnlegri geymd meðal rabbína. Kabbala-hefðin hefur fengið margt í arf frá gyðingdómnum en hún birtist fyrst í heilsteyptri mynd á 12. öld. Grundvallarrit stefnunnar kom fram skömmu síðar en það nefnist Zohar. Kabbala byggir m.a. á talnaspeki og notkun hennar við öflun upplýsinga úr Mósebókunum (Torah) (á svipaðan máta og bókin The Bible Code gerir út á).

Á fyrri hluta 20. aldar óx kabbala fiskur um hrygg meðal gyðinga í palestínu sem má m.a. rekja til hugmynda zíonista um sameiningu þeirra í ríki fyrir botni Miðjarðarhafs. Öran vöxt kabbala út fyrir samfélag gyðinga má hins vegar rekja til Bandaríkjamannsins Philip S. Berg sem kom á fót kabbala-miðstöð í Los Angeles árið 1984. Út frá henni spruttu útibú víða um heim og eru íslenskir kabbalistar í nánum tengslum við þessa aðila.

Kynningarfundurinn

Á veggspjaldinu voru áhugasamir beðnir um að skrá sig á kynningarfundinn á heimasíðu kabbalah á Íslandi. Það kom á daginn að þar var hinn silalegasti Flash-vefur á ferð en með harðfylgi tókst mér þó að skrá mig á fundinn. Nokkrum dögum síðar rann upp 24. apríl og ég mætti ég í Menningarmiðstöðina Gerðuberg fimm mínútur fyrir hálfátta. Þegar ég gekk inn í fundarsalinn ómaði þar hugleiðslutónlist og á borði innst í salnum var varningur til sölu. Mér varð strax ljóst að ég þyrfti ekki að hafa miklar áhyggjur af þessu brölti: Einn maður mættur á svæðið á tilgreindum fundartíma og sá hinn sami yfirlýstur skeptíker. Ég heilsaði aftur sömu jakkafataklæddu mönnunum og ég hafði hitt niðri í MR. Annar þeirra spjallaði aðeins við mig og spurði hvort ég hefði eitthvað kynnt mér kabbala. Ég var ekki í miklu stuði til þess að spjalla og gaukaði því snemma að honum að ég væri efasemdarmaður þegar kæmi að trúmálum. Hagur kabbala-trúboðanna vænkaðist þó heldur þegar par um þrítugt mætti 20 mínútum síðar en þau virtust mun móttækilegri fyrir boðskapnum en ég.

Hófst nú fundurinn. Annar mannanna flutti stuttan inngang áður en hann setti af stað bandarískt kynningarmyndband um kabbala. Meðal þess sem kom fram í inngangnum var að við ættum ekki að trúa neinu heldur leita sannleikans og að kabbala væri ekki trú heldur „elsta viska sem maðurinn hefur komist í kynni við“. Hann ljóstaði upp áformum þeirra um að flytja inn kabbalista sem gæti tekið fólk í læri um lengri eða skemmri tíma. Miðað við aðsókn þetta kvöldið gæti það tekið tímann sinn að afla nægilegra fylgjenda. Kynningarmyndbandið var á bandaríska vísu: Viltu læra að stjórna lífi þínu og ná fram reglu í allri óreiðunni? Viltu finna svör við spurningunni um tilgang lífsins? Viltu ná að byggja upp farsælt fyrirtæki? Ég læt lesendum eftir að geta upp á svarinu við þessum spurningum.

Eftir kynningarmyndbandið átti Breti að nafni Chagai Shouster að flytja fyrirlestur um kabbala og svara spurningum þátttakenda. Hann var þó ekki mættur á staðinn í eigin persónu heldur var visku hans miðlað í gegnum Skype-myndsíma. Vonbrigðin leyndu sér ekki þegar honum varð ljóst að það voru einungis fimm á svæðinu, þar af þrír gestir. Ég spurði Bretann um þá fullyrðingu sem fram kom í kynningarmyndbandinu að upplýsingar um miklahvell hefðu verið komnar fram í ritum kabbala hefðarinnar fyrir nokkur hundruð árum en fannst svörin rýr. Eftir á að hyggja hefði verið mun eðlilegra að spyrja hreint út: Af hverju komu þessar upplýsingar ekki fram fyrr? Hvers vegna er þetta allt svona torkennilegt að það þarf helst að lesa út úr fræðunum eftir á þegar atburðirnir hafa átt sér stað? Ætli það sé ekki bara galdurinn?

Viðskiptalíkanið

Ég fletti fyrirlesaranum upp á Google áður en ég fór á fundinn. Þar kom í ljós að Bretinn er að færa sig um set frá London yfir til kabbala-miðstöðvarinnar í Boston. Það getur vart verið tilviljun að hann talaði á kynningarfundinum en ekki einhver annar. Mér finnst ekki ólíklegt að Reykjavík hafi átt að vera annexía þessa manns en heldur virðist eftirtekjan rýr. Til gagns og gamans er rétt að benda lesendum á síðuna: „The great Kabbalah con exposed“ sem segir frá kynnum krabbameinssjúklings af Shouster þegar hann leitaði sér „lækninga“ í Kabbala-miðstöðinni í Lundúnum. Þarna er m.a. alveg makalaus lýsing á því þegar Madonna mætir til 100 þúsund króna málsverðar í miðstöðinni og allir æpa „Tsjernóbíl“ til þess að lina þjáningar fórnarlamba kjarnorkuslyssins.

En hvað þarf til svo að költið nái fótfestu á Íslandi? Tvennt kemur strax upp í hugann: Tími og áhugi. Fylgikonur áhugans í þessu tilfelli eru væntanlega gróðalöngun og viljinn til þess að komast til metorða.

Að koma á fót útibúi fyrir kabbala-miðstöð hér á landi er svo sem ekkert ósvipað því að koma upp erlendum skyndibitastað. Viðskiptasérleyfi (franchise) byggist á því að byggja upp rekstur undir þekktu vörumerki. Báðir aðilar hagnast: Sá sem kemur upp útibúinu tekur minni áhættu en ef hann hæfi rekstur undir eigin nafni. Eigandi vörumerkisins er með alls konar skilyrði um kaup á vörum frá keðjunni, selur námskeið og ráðgjöf og fær oft prósentur af veltunni.

Kostnaðurinn við að reyna að koma þessu á fót hér á landi er umtalsverður. Væntanlega leggja menn ekki í hann nema að viðskiptalíkanið geri ráð fyrir að þeir fái tekjur til baka síðar. Ég fékk örlitla innsýn inn í starfsemina á fundinum og hef til viðbótar skoðað blogg annars af boðberunum. Ég leyfi mér hér að skjóta á nokkra kostnaðarliði:

  • kabbala-námskeið í útlöndum: 200-300 þúsund
  • prentun á auglýsingu: 15 þúsund
  • heimasíða+lén: 13+50 = 63 þúsund
  • leiga á sölum: 30 þúsund

Hér geri ég ráð fyrir að varningurinn sé í umboðssölu. Væntanlega nær erlenda keðjan (kabbala-miðstöðin) inn tekjum út á námskeið og sölu á bókum, vígðu vatni, rauðum armböndum og fleiru. Ef stóru plönin eiga að ganga eftir þarf talsvert meira að koma til:

  • erlendur kennari á Íslandi: 4-5 milljónir á ári
  • greiðslur til forsprakka á Íslandi: ???

Með 30-40 fylgjendur sem hver um sig eyddi að meðaltali 200 þúsund krónum á ári í þessa vitleysu gæti dæmið samt gengið upp. Íslenski markaðurinn er þó agnarsmár í samanburði við höfuðborgir nágrannalandanna þar sem kabbalistar hafa komið sér fyrir.

Enginn er eyland og strandhögg kabbala (sem hér eftir verður þýtt sem „kablabla“) þarf kannski ekki að koma á óvart. Útibú Moon-safnaðarins (m.a. kunnur fyrir fjöldabrúðkaup) hefur til að mynda fengið skráningu sem trúfélag hér á landi (Heimsfriðarsamband fjölskyldna). Með þessu áframhaldi megum við búast við því að vísindakirkjan og fleiri söfnuðir reyni fyrir sér hér á landi á næstu árum.

Viðbót

Í gærkvöldi fékk ég símtal og sá að það var frá Bandaríkjunum. Það var karlmaður sem ávarpaði mig og sagðist vera frá kabbala. Hann vildi fá að vita hvort ég hefði áhuga á að fá frekari upplýsingar um kabbala en ég sagðist vera efasemdarmaður þegar kæmi að þessum málum og hefði fyrst og fremst viljað afla upplýsinga um hreyfinguna á kynningarfundinum. Bandaríkjamaðurinn þakkaði mér fyrir spjallið og kvaddi kurteislega.

Mér finnst þetta öfluga skipulag sem er á starfi kabbala í senn pínulítið aðdáunarvert en aðallega ógnvænlegt. Greinilegt að menn ætla að veiða sálir og það er engin fyrirstaða þótt þær séu staddar í öðru landi. Það að Bandaríkjamaður skyldi hringja en ekki annar Íslendinganna finnst mér segja sína sögu um stöðu þeirra í málinu. Þetta gæti bent til þess að þeir búi sjálfir ekki yfir sérlega mikilli sannfæringu (annars hefðu þeir væntanlega hringt eða haft samband með tölvupósti) heldur er eitt af hlutverkum þeirra að safna nöfnum fyrir batterí (költ) úti í löndum.

Sverrir Guðmundsson 10.05.2007
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Helgi Briem - 10/05/07 08:45 #

Það er á sinn hátt ömurlegt að fjárplokkararnir í kablabla skuli vera að færa út kvíarnar hingað en um leið ánægjulegt að fáir Íslendingar virðast (ennþá) ginnkeyptir fyrir bullinu.

Takk fyrir greinina. Eins gott að halda vöku sinni.


khomeni (meðlimur í Vantrú) - 10/05/07 09:21 #

Fussum-svei! Óhræsis kabbala-rugl!

Þetta er strangt til tekið sami skíturinn og allt hit trúarstöffið, bara í öðrum umbúðum. Mikið er ég glaður yfir þvi að þátttakendur voru aðeins 3 og þar af einn vantrúar. -Sneypiför til Íslands fyrir þessa fjárplokkandi svikahrappa. Þeir ættu að skammast sín.


óðinsmær - 10/05/07 15:26 #

vá takk fyrir að hafa fyrir þessu og að segja okkur frá. Ekki hefði mig grunað að þetta költ kæmi hingað.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 10/05/07 16:00 #

Flott framtak hjá þér Sverrir að mæta á kynningarfundinn og sjá hvað er í gangi. Ég vona að þeir kablabla-bræður láti ekki sjá sig hérna aftur. Nóg er af ruglinu á Íslandi þó að þessi ósköp bætast ekki í hópinn.


FellowRanger - 10/05/07 17:08 #

Um leið og ég var búinn að lesa datt mér í hug hversu skondið það væri ef allir skráðu sig úr þjófkirkjunni og í kabbalah költið. Hvaða áhrif myndi það hafa á samkynhneigða, aldraða, trúlausa o.s.frv.?


Árni Árnason - 10/05/07 17:57 #

Alltaf jafnskemmtileg pæling. Það er alveg sama hvað þetta heitir allt saman, það er sami rassinn undir þessu öllu.

Með orðum Tom Lehrer:

"All the Protestants hate the Catholics and the Cathiolics hate the Protestants. The Hindus hate the Muslims, and everybody hates the Jews."

Það getur enginn orðið raunverulega frjáls fyrr en hann hatar allt þetta pakk jafnt.


FellowRanger - 11/05/07 01:18 #

[Athugasemdir færðar á spjallborðið. Fyrir ofan athugasemdareitinn stendur feitletrað: "Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdum þeirra verði eytt af umsjónarmönnum vefsins." - Hjalti Rúnar Ómarsson]


Guðjón - 11/05/07 12:20 #

Það getur enginn orðið raunverulega frjáls fyrr en hann hatar allt þetta pakk jafnt.

Er það virkilega skoðun þín Árni að rétt sé að hata alla sem eru trúaðir og trúaðir séu allir sem einn, pakk?


Árni Árnason - 11/05/07 14:22 #

Guðjón. Ég hugsa að það væri erfitt að burðast með allt það hatur, svo að ég legg það ekki á mig og meinti þetta því alls ekki bókstaflega. Þetta var svona frekar stílisering í framhaldi af söngtexta snillingsins Tom Lehrer. Hann sagði líka svo snilldarlega: "I know there are people in the world who do not love their fellow human beings, and I hate people like that ! "

Kjarninn er miklu frekar þessi. Fylgismenn flestra trúarbragða, eru vantrúaðir þegar kemur að öðrum trúarbrögðum, og finnst jafnvel kenningar þeirra og siðir fáránlegir. Engin trúarbrögð eiga nokkurt tilkall til þess að vera álitin réttari, betri, eða minna heimskuleg en þau næstu. Þannig er sami rassinn undir þessu öllu. Öll trúarbrögð hefta frálsa gagnrýna hugsun, og því ertu ekki frjáls nema geta staðið utan við trúarvitleysuna. Hatur er kannski ofmælt, en ekki fer hjá því að trúarruglið pirri mann, því með því að vera utan trúarbragðanna verða þau öll jafnheimsk.

Það er auðvitað harðneskjulegt að kalla alla trúaða pakk, svo að ég skal mýkja það aðeins. Þeir sem trúa í einfeldni sinni og hafa ekkert út úr því ( eru jafnvel féþúfa ) eru bara vitleysingar. Hinir sem græða á trúarruglinu eru pakk. Vona að þessar skýringar nægi.


Guðjón - 11/05/07 15:16 #

Ég er trúaður og telst því samkvæmt Árna vitleysingur. Umræðum er því lokið í bili af minni hálfu.


Árni Árnason - 11/05/07 23:12 #

Guðjón.

Ég var að vona að ummæli eins og "Engin trúarbrögð eiga nokkurt tilkall til þess að vera álitin réttari, betri, eða minna heimskuleg en þau næstu." myndi kalla fram einhver viðbrögð, þar sem þau eru miklu meiri stóridómur yfir trúarbrögðunum þínum, en þú kýst að flýja undan stráksskap mínum kalla þig stikkfrí. Þú um það.


Guðjón - 12/05/07 10:28 #

Ég skil vel að þú lítur þannig á trúarbrögð. Ég lít líka svo á að hver og einn verði að taka trúarlega afstöðu algjörlega á eigin forsendum og það sé algjörlega hans mál að hvaða niðurstöðu hann kemst og á hvaða forsendum sú niðurstaða byggist.

Það eru því engin tíðindi fyrir mér að engin trúarbrögð geti gert tilkall til þess að vera betri en önnur vegna þess að fólk hefur fullan rétt á því að aðhyllist rangar og heimskulegar hugmyndir en í þess augum eru það réttar og skynsamlegar hugmyndir.

Forsendan fyrir því að raunverulega sé hægt að ræða saman um viðkvæm mál er traust og virðing og sanngirni.

Hér verð ég að hætta vegna þess að ég þarf að sinna öðru.


Árni Árnason - 12/05/07 11:24 #

Guðjón Alltaf gaman að ræða við Zen-Buddista. .... að hver og einn taki trúarlega afstöðu á eigin forsendum. Guðjón! Guðjón! Guðjón!

Það eru þá væntanlega ekki ný tíðindi fyrir þér heldur að engin trúarbrögð eiga nokkurt tilkall til þess að vera álitin minna bull en einhver önnur. Hugmyndirnar sem þér þykja réttar og skynsamlegar eru þar af leiðandi sama bullið og þessar röngu og heimskulegu sem þú minntist á.

Málefnið er bara viðkvæmt vegna þess að búið er að taka skynsemisþáttinn út. Þegar menn eru komnir í rökþrot, og farnir að segja aþþíbara, og af því að mér finnst það, er stutt í grátinn og uppgjöfina. Nei, forsendan fyrir því að ræða saman er að menn hafi eitthvað fram að færa annað en gersamlega rakalausa Trú sem menn taka í arf frá foreldrum sínum gagnrýnislaust.


Guðjón - 12/05/07 14:06 #

Blekkingin mikla sem hér ríður húsum er að skynsemis og vísindadýrkun hefji menn upp í annað veldi og geri þá betri, merkilegri og skynsamari en trúmenn.

Eftir að mér varð þetta ljós hætti ég að gera nokkra raunverulegar tilraunir til þess að skiptast á skoðunum við ykkur vegna þess að það eru jafn miklar líkur á að sú umræða skili raunverulegum árangri og að ísland komast áfram í júróvísón eins og málum er nú háttað.

Mér hefur hins vegar ekki tekist að venja mig af því að senda inn athugasemdir af og til.


Annar maðurinn - 31/05/07 21:21 #

Ég vil þakka höfundi greinar fyrir vel skrifaða grein og gott að sjá að höfundur þjáist ekki af skorti hugmyndaleysis eða ímyndunarafli sem er bara hið besta mál þannig séð en á þá kannski ekki við þema og tilgang síðunar ekki nema að vantrú sé hið nýja trúfélag?. Fyrir þá sem vilja skoða staðreyndir og kynna sér málið sjálft í stað þess að skjóta svona óstaðfestum staðhæfingum á framfæri þá er þeim velkomið að hafa samband við okkur á www.kabbalah.is


Matti (meðlimur í Vantrú) - 01/06/07 00:12 #

í stað þess að skjóta svona óstaðfestum staðhæfingum á framfæri

Gagnrýndu greinina endilega efnislega og með rökum. Hvaða staðhæfingar í henni eru ekki réttar að þínu mati?


khomeni (meðlimur í Vantrú) - 01/06/07 00:13 #

....en á þá kannski ekki við þema og tilgang síðunar ekki nema að vantrú sé hið nýja trúfélag?

Bla bla bla. Við erum búin að heyra þúsund sinnum að Vantrú sé trúfélag. Við segjumst ekki vera trúfélag og þá sérstaklega kannski vegna þess að það vantar inn í félagið okkar handanveruleikann. Frímerkjasöfnunarfélag vantar líka inn handanveruleikann. Mér er andskotans sama um hvort einhver segir mig vera í Vantrúafélagi. Mér er bara alveg sama! Skoðun mín hlýtur að vera ráðandi í þessu samhengi.

Hvað þig varðar ágæti Kabbala fjárplógsmaður þá vona ég að þetta óhræsis peningaplokk sem þú ert að reyna að setja niður hérlendis falli í grýttan jarðveg. Við hér á vantrú munum a.m.k hafa augu með þessu handanheimajuði ykkar í kabbalahfélaginu og skrifa greinar um peningaplokkið sem er hin raunverulega ástæða fyrir að Kabbalah er að reyna að stinga sér niður hérlendis.


USS SUSS - 19/11/10 18:33 #

[ athugasemd færð á spjallborð ]

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.