Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Eyrnakerti: Varasöm fyrirbæri

eyrnakerti, kerti sett í eyraEitt nýjasta æðið í kuklbransanum hefur ratað til Íslands. Í vikunni hitti ég góðan vin sem sagði mér af tveimur bekkjarfélögum sínum sem höfðu farið hvor í sínu lagi og fengið svonefnda „eyrnakertameðferð“ sem þeir létu vel af. Mig rámaði í að hafa lesið um þessi kerti á heimasíðu fyrir fáeinum árum. Þá var fátt að finna um þetta á íslenska hluta internetsins en nú er öldin önnur ef marka má fjölda leitarniðurstaðna fyrir „eyrnakerti“ á google.is. Það er óskemmtilegt að sjá að heimasíða heilbrigðisráðherra, Sivjar Friðleifsdóttur, er í u.þ.b. 10. sæti í google-leitinni. Þar eru myndir af sýnikennslu í eyrnakertameðferð af kvenfélagsfundi á Seltjarnarnesi sem mér finnst bera vott um sinnuleysi gagnvart vafasömum heilsumeðferðum.

Fyrsta vefsíðan sem kemur upp á google.com þegar leitað er að „eyrnakerti“ á ensku („ear candle“) varar fólk við meðferðinni.1 Hugmyndin um að stinga logandi kerti upp í eyrað ætti reyndar að duga til þess að klingja viðvörunarbjöllum í höfði fólks en kannski er þetta nógu brjálæðislegt til þess að fólk láti skynsemina lönd og leið. Samkvæmt vefsíðu samtaka hómópata á Íslandi felst gagnsemin í því að „uppgufunin frá efnunum í eyrnakertinu berst inn um eyrun og inn í öll göng höfuðsins. Létt sog og hreyfing logans framkalla titring á uppgufuninni frá eyrnakertinu sem berst inn í eyrað og myndar nudd á hljóðhimnuna.“2 Á sömu síðu er því m.a. haldið fram fullum fetum að þetta sé „gott í meðferð við kvefi, ofvirkni, streitu“ og ýmsum fleiri kvillum. Þetta tal um hreyfingu logans sem nuddi hljóðhimnuna og meðferð við kvefi (sem er veirusýking) er augljóslega bull. Aðrar staðhæfingar um gagnsemi meðferðinnar fá heldur engan veginn staðist. Þó ber að hafa í huga að það geta komið fram lyfleysuáhrif, t.d. þegar um sálræna kvilla er að ræða. Þau jafngilda þó ekki því að meðferðin geri gagn. Að hætti kuklara er oft vísað til þess að eyrnakertin hafi verið notuð meðal frumbyggja Norður-Ameríku og fornra menningarþjóða, sem á væntanlega að styðja fullyrðingar um gagnsemi þeirra. Þessar sögur eru hæpnar og frekar lúaleg markaðssetning sem hefur ekkert með notagildi kertanna að gera.

Ástæðan fyrir því að varað hefur verið við kertunum er ekki einungis sú að þau eru gagnslaus heldur geta þau beinlínis verið hættuleg. Eyrnakerti eru til af ýmsum stærðum og gerðum en algengasta uppistaðan í þeim er bómull eða lín sem dýft hefur verið í vax eða paraffín (olíuvaxefni). Holrými er til staðar í miðju kertinu og upp um það eiga að streyma óhreinindi og eyrnamergur sem kertið á að losa til viðbótar við áhrif í þeim dúr sem hómópatar nefna á vefsíðu sinni. Neðst þar sem kertinu er stungið inn í eyrað er oft á tíðum hlíf sem á að safna saman þessum úrgangi. Til þess að forða því að fá á sig heitt vax er skynsamlegt að liggja á hliðinni þannig að kertið sé lárétt og vaxið drjúpi beint niður. Þetta misferst samt oft (samanber myndir á netinu frá íslenskum hómópötum sem beita þessari meðferð). Í könnun sem framkvæmd var meðal 144 háls-, nef- og eyrnalækna árið 1996 (sem vísað er til í [1]) höfðu 14 þeirra meðhöndlað sjúklinga sem höfðu hlotið skaða af eyrnakertum, flestir vegna húðbruna eða stíflu í eyrum eftir notkun kertanna. Tvö slæm tilfelli eru nefnd til viðbótar. Í öðru þeirra skaðaðist hljóðhimna konu tímabundið þegar reynt var að fjarlæga vax úr hlustinni. Í hinu tilfellinu olli eyrnakertið bruna sem leiddi til þess að kona fékk astmakast sem dró hana til dauða á sjúkrahúsi eftir að hún slapp úr eldsvoðanum.

Eðlisfræðin á bak við kertin er meingölluð. Ef kertið næði að mynda nægilegan undirþrýsting til þess að að draga merg og óhreinindi úr hlustinni myndi þrýstingurinn sprengja hljóðhimnuna og valda miklum sársauka. Tilraunir hafa leitt í ljós að kertin valda ekki neinum þrýstingsbreytingum og að þau skilja oftar en ekki vax eftir í eyrunum. Meðferðaraðilar tíðka það að sýna fólki „óhreinindi“ sem þeir segja að séu leifar eyrnamergs. Rannsóknir hafa leitt í ljós að það á ekki við nein rök að styðjast heldur eru þetta vax- og sótagnir sem hafa myndast við brunann á kertinu.

Hugmyndir um að kertið geti haft áhrif fyrir innan hljóðhimnuna, þ.e. á kokhlustina, ennisholurnar eða jafnvel á heilann, ganga heldur ekki upp þar sem hljóðhimnan skilur á milli hlustarinnar og miðeyrans. Hljóðbylgjur valda titringi sem berst yfir hljóðhimnuna en vökvar og lofttegundir berast ekki þar í gegn ef hljóðhimnan er heilbrigð.

Við eðlilegt ástand berst eyrnamergurinn út um eyrað og tekur til sín óhreinindi á leiðinni. Ef fólk lendir í vandræðum vegna stíflaðs eyra er rétt að leita til fagfólks (heimilis- eða sérfræðilækna).


Heimildir:

1.Quackwatch: Why Earcandling Is Not a Good Idea
2. ORGANON – Eyrnakerti

Sverrir Guðmundsson 03.05.2007
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Viddi - 03/05/07 11:00 #

Þetta er nú með því vitlausara sem ég hef séð, mér nánast liggur við hlátri.

Þar er greinilegt að svona greinar eins og þessar og aðrar á Kjaftæðisvaktinni eru bráðnauðsynlegar.


Árni Árnason - 03/05/07 11:44 #

Það er vísindalega sannað að mun betra er að troða þessum kertum upp í óæðri endan á sér og reka hraustlega við. Hafi menn borðað nógu mikið af hráu hvítkáli og rófum myndast gifurlegt Metan-gas útstreymi með tilheyrandi eldflaugar-effekt og menn svífa til himins.

Það er líka borðleggjandi að notkun eyrnakerta getur ekki haft nein áhrif á heilann. Þeir sem láta plata sig til að kaupa eyrnakerti og kveikja í því í eyranu á sér, eru ekki með neinn heila.

Alltaf þegar maður telur sig hafa heyrt það vitlausasta af öllu vitlausu kemur eitthvað sem er enn vitlausara. Hvar endar þessi þvæla?


Daníel Páll Jónasson - 03/05/07 12:45 #

Ég ætlaði að skrifa eitthvað fyndið um þetta fyrirbæri en ég get ekki toppað commentið hans Árna. Það var fyndið.

Það er vísindalega sannað að mun betra er að troða þessum kertum upp í óæðri endan á sér og reka hraustlega við. Hafi menn borðað nógu mikið af hráu hvítkáli og rófum myndast gifurlegt Metan-gas útstreymi með tilheyrandi eldflaugar-effekt og menn svífa til himins.

Hahahahahahahahahaha!!!

Asskotans vitleysa er þetta! Ég trúi því varla að fólk láti hafa sig út í þetta. Er þetta ekki bara eitthvað djók? Einhver úti í heimi hlær sig máttlausan akkúrat núna yfir heimsku fólks? Hlýtur bara að vera.

This one made my day...


khomeni (meðlimur í Vantrú) - 03/05/07 13:33 #

Mér finnst þetta ekkert fyndið.... Ég sver það. Mér finnst ömurlegt að heilbrigðismálaráðherra skuli láta þetta kukl ótalið og virðist meir að segja ýta undir þetta djöfulsins rugl.

Vegsemd kuklara hefur ekki aukist í mínum huga við lestur þessarar greinar. Ég sannfærist ennþá frekar að kuklarar lifa einhverskonar sníkjulífi á þeim sem eiga við sárt að binda og skirrast einskis í þerri viðleitni sinni að græða fé af veiku fólki

Ég á satt best að segja ekki til orð.

Fín grein annars hjá þér Sverrir. Þú náðir þessu akkúrat.


FellowRanger - 03/05/07 13:45 #

Ef svindlarar eru á annað borð að ná til fólks, hvernig væri að nota aðferðir sem lýta hættulausari út. T.d. að blása upp blöðru með nefinu til að hreynsa ókurteisar hugsanir eða standa á öðrum fætinum hálftíma í senn til að rétta jafnvægisskynið. Kerti eru ekki eitthvað sem ég mundi stinga fyrst uppá sem loddari.


Daníel Páll Jónasson - 03/05/07 14:46 #

Ég veit að þetta er það gríðarlega siðlaust að heilbrigðisráðherra ætti undir eins að banna þetta með lögum. Aftur á móti er hugmyndin um "Eyrnakerti" til lækninga það ótrúlega fáránleg að maður getur ekki annað en hlegið að henni, burt séð frá erfiðleikum þess fólks sem nýtir sér þessa "þjónustu".

Vona bara að sem flestir sé í gegnum þetta og sniðgangi þessa vitleysu.


Kristján - 03/05/07 16:41 #

Mér sýndist reyndar á síðu Sivjar að hún hefði bara sett inn þessar myndir á síðuna án þess að mæla með aðferðinni eitthvað sérstaklega. Hins vegar eru þessi eyrnakerti svoleiðis súrrandi bull að það er hreint ótrúlegt að þetta sé ekki grín.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 03/05/07 16:50 #

Já, ég er sammála Kristjáni, þetta eru bara myndir á heimasíðu Sivjar frá einhverjum kvenfélagsfundi.


Björn Friðgeir - 03/05/07 17:36 #

Talandi sem fastagestur hjá eyrnalækni vegna eyrnamerghreinsana (og sýkinga upp á síðkastið) get ég lofað að ég hef varla séð jafn mikið GARGANDI bull nokkru sinni. Merg, sem ekki hreinsast út af sjálfum sér, þarf annað hvort að sjúga út með ansi öflugri sugu (sem fær ekki að snerta hljóðhimnuna, eða skola út með vatnssprautu undir þrýstingi. Smá logi myndar sko ekki neinn þrýsting sem nægir til að hreinsa neitt úr hlustinni. Hitt er annað mál að ilmkerti eru yfirleitt ágæt til að slaka á og hvílast og næsta víst að það hefur örugglega bara góð áhrif á mann. Nema auðvitað maður fái vax á hljóðhimnuna eins og þarna var tekið dæmi um!


Svanur Sigurbjörnsson - 03/05/07 23:44 #

Í þessu grátbroslega grafalvarlega máli er sannarlega gott að geta hlegið og Árni hér að ofan slær allt út. Ljótt að hlæja á kostnað vel meinandi fólks en að því verður ekki gert.

Það er athyglisvert blogg í gangi hjá http://sigrunb.blog.is en eigandinn var yfir sig hrifinn af tillögu Margrétar Sverrisdóttur um aukið val í heilbrigðisþjónustunni. Ég svaraði tvisvar í frekar löngu máli (en nauðsynlegu).


Sverrir Guðmundsson (meðlimur í Vantrú) - 04/05/07 11:59 #

Ég fæ heldur ekki séð að ráðherrann sé að mæla með þessari aðferð (annars væri nú fokið í flest skjól!).

Ég talaði hins vegar um sinnuleysi og átti þá við hugsunarleysið á bak við það að birta þessa mynd. Heilbrigðisráðherrann sér væntanlega ekkert vafasamt við þetta kukl víst það eru myndir af því á síðunni (án varnaðarorða).


Gísli - 05/05/07 16:11 #

Fært á spjallið.


FellowRanger - 05/05/07 17:41 #

Eitt sem ég get staðfest að virki sem hljómar furðulega: I-Doser.


Einar - 13/04/11 11:09 #

Góðan daginn. Forvitnileg grein. Las enginn viðbrögð hjá neinum sem virtist hafa raunverulega reynslu af málinu þannig að mig langaði að deila minni. Ég prófaði eyrnakerti að mig minnir tvisvar sinnum fyrir um það bil 10 árum. Lá á hliðinni kertinu var haldið inní eyranu. Það þurfti s.s einn aðili að halda kertinu og passa að allt væri í lagi. Svo var settur álpappír utan um kertið við eyrað til þess að vax færi ekki á höfuðið eða eyrað. Upplifunin af þessu var mjög notaleg tilfinnig eins og hiti sem léki um eyrað. Að þessu loknu tókum við kertið og opnuðum það. Þar leyndist skítur og drulla sem var alveg eins og eyrnamergur og virtist ekki eiga neitt skylt við ösku. Leið einnig mjög vel eftir þetta. En er sammála að það hljómar vitlaust að setja brennandi kerti inní eyrað og bíður örugglega í einhverjum tilvikum uppá vandamál en þetta var allavega mín reynsla af kertunum.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.