Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Endurbætt frídagakerfi?

Ég man að þegar ég var í fermingarfræðslu á Akureyri fyrir um einum og hálfum áratug sagði presturinn okkur nokkuð sem mér þótti áhugavert. Hann sagði að margir af þessum trúarlegu frídögum, sérstaklega "annar í" dagarnir væru ekki frídagar af því að kirkjan teldi þá svo merkilega. Ónei. Hann sagði að í raun bæri verkalýðshreyfingin mesta ábyrgð á því að á þessum dögum væri lögbundið frí.

Nú tókst bingóhald Vantrúar einstaklega vel á föstudaginn langa en þó komu einhverjar gagnrýnisraddir. Sumar voru frá fólki sem hélt að aðaltakmark okkar væri að afnema frídaginn sem slíkan. Það er oftúlkun á aðgerðinni. Aðallega vorum við að gagnrýna það hvernig ýmis form afþreyingar og menningar væru enn bönnuð á þessum degi. Mín vegna þá er allt í lagi að flestir fái frí á þessum degi og að þeir sem vinni fái stórhátíðarkaup. Mig grunar nú samt að það væru til betri leiðir til að gefa fólki frí.

Áður en lengra er haldið þá er best að taka fram hið augljósa. Páskarnir eru lítilvæg trúarhátíð. Ég hafði til dæmis gaman að því að lesa í blöðunum svona stuttar klausur um "Hvað ætlarðu að gera um páskana?". Séra Þórhallur Heimisson minntist á helgihaldið en hann vinnur líka við það. Ég sá bara eina aðra manneskju minnast á kirkjuferð og sú var að fara að syngja. Þó að páskarnir eigi að heita aðalhátíð kristinna manna þá eru Íslendingar voðalega lítið að hugsa um Jesú á þessum tíma árs. Þeir fara á skíði, til útlanda, í sumarbústað og sumir spila bingó.

Einn helsti vandinn við páskana og alla þá frídaga sem eru þar í kring er að þeir eru miðaðir við tunglmánuð en ekki okkar almenna tímatal. Það gerir þá að færanlegri hátíð. Árlega veldur þetta miklu veseni hér og þar en þó kannski aðallega í skólum. Páskarnir hitta oft mjög illa á skólahaldið og rífa önnina í sundur á óhentugan hátt. Þar að auki er leiðigjarnt að hafa frídaga svona ítrekað á fimmtudögum. Þetta þekkjum við flest. Af hverju ekki að dreifa þessum frídögum á hentugri hátt?

Hvernig væri að setja upp vorfrídaga sem miðast við sólarárið en ekki tunglárið? Fasta daga þar sem allir hefðu frí (eða frelsi til að vinna fyrir hærra kaupi). Hægt væri að miða þá við skólaárið til dæmis. Það væri líka auðvelt að hafa kerfið þannig að þetta yrðu þá alltaf langar helgar þannig að meira yrði úr fríinu. Mætti hafa frí frá föstudegi til sunnudags eða jafnvel laugardegi til miðvikudags. Allir möguleikar eru opnir. Ég held líka að við gætum vel gefið það eftir að hafa föstudaginn langa ennþá sem flakkandi frídag (svo lengi sem fólk megi spila bingó á þeim degi ef það langar til þess).

Það væri nefnilega svo auðvelt að búa til frídagakerfi sem væri mikið betra en það sem við búum við í dag. Hvenær verðum við tilbúin til að endurbæta kerfið?

Óli Gneisti Sóleyjarson 09.04.2007
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


khomeni (meðlimur í Vantrú) - 09/04/07 08:11 #

Góður punktur. Sumir halda virkilega að Vantrúarfólk sé á móti frídögum! Egill Helga japlaði á þessu og svo Gummi Steingríms! Furðuleg skammsýni. Hreint út sagt stórfurðuleg túlkun á viðbrögðum Vantrúarfólks.

Skilur Gummi Steingríms ekki að sumum finnst asnalegt að neyðast til þess að bukta sig og beygja eftir trúarhátíðum einhverrs hóps sem vill svo til að er stærstur? Hví geta þeir kristnu ekki barasta haldið upp á sína helgidaga í friði? Hví þurfa þeir að banna mér að SPILA BINGÓ!!!

Bíngó gott fólk. -Það er bannað að spila bíngó! á einum degi í almanakinu! Afhverju skrifar Gummi ekki grein um það? Mér finnst það full egósentrísk sín á veruleikan að vilja að allir reyni að samsama sig pínu Krists vegna þess að Gumma Steingríms finnist gott að vera á nærbuxunum um páskana.

Vantrúarfólk er ekkert á móti frídögum! Við erum á móti trúarátroðslu! -Djöfull er þetta lið fattlaust!.


frelsarinn@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 09/04/07 10:59 #

Ég sannfærður um að ef fólk fengi að ráðstafa sínum frídögum efir eigin hentisemi þá kæmi í ljós hversu kristin þjóðin er. Frelsið er einfaldlega mesti óvinur kristninnar.


Daði Sveinsson - 09/04/07 11:48 #

Eruði svona rosalegir Bingó sjúklingar að þið bara verðið að spila á föstudaginn langa?


Snæbjörn - 09/04/07 13:04 #

Nei,Daði við erum ekki svo miklir bingósjúklingar að við verðum að spila bingó á Föstudaginn langa.

En við eigum rétt á því.


LegoPanda (meðlimur í Vantrú) - 09/04/07 13:23 #

Kæri Daði,

lestu greinina hérna að ofan, og athugasemd Kristínar Kristjánsdóttir frá því um daginn.

Þetta er ekki spurning um bingó, heldur að það skuli vera bannað að stunda bingó á einum af aðalhelgidögum þjóðkirkjunnar.

Ef það væri bannað að spila fótbolta á Þorláksmessu af trúarlegum ástæðum múslima á Íslandi myndum við standa fyrir fótboltamóti á þeim degi.

Ef það væri bannað að vera í stuttermabol á einhverjum helgidegi Votta Jehóva, vegna þess að trú þeirra bannaði þeim að bera á sér upphandleggina á þeim degi, þá myndum við fá fólk klætt í stuttermaboli í hópgöngu niður Laugarveginn.

Þetta er gert til að mótmæla fáránlegum lögum sem ættu að vera löngu felld úr gildi (eða aldrei að hafa verið sett) í samfélagi sem metur einstaklingsfrelsi svona mikið.


Eva Hauksdóttir - 09/04/07 21:22 #

Í Bretlandi er af til "verslunarmannahelgi" sem ég held áreiðanlega að eigi sér ekkert trúarlegt samhengi. Ég væri alveg til í að taka þann sið upp. Ég væri líka til í að halda þriðja í páskum hátíðlegan svo framarlega sem athafnafrelsi fólks yrðu ekki settar skorður.


palli - 09/04/07 22:29 #

þið voruð nú heppnir að lenda ekki í lögreglumanninum jesús

http://youtube.com/watch?v=GUIUgGv8Ia4


Illhýsir - 10/04/07 00:57 #

Aðalmálið er það að fólk á að vera frjálst að gera það sem það vill svo lengi sem það skaðar engan, hvort sem það er bingó, skák eða lúdó á þessum frídögum. Ég persónulega er alveg sáttur þar sem ég var að vinna á föstudaginn langa og í dag. Þetta bjargar alveg fjárhagnum þessi hindurtrú:)


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 10/04/07 19:12 #

Kerfi sem að mér hugnast væri þannig byggt upp að hver einstaklingur fengi úthlutað einhvers konar helgifrídögum sem hann ráðstafaði eftir eigin trú og geðþótta. Kristnir gætu tekið út sitt páskafrí, múslimar Eid ul-Adha o.s.frv.

Líklega tæku margir trúleysingjar fríið út þegar að góður leikur er í sjónvarpinu. :þ

Með slíku kerfi væri hægt að tryggja jafnræði með tilliti til trúarskoðana. Líklega héldi sú hefð áfram lengi vel að fólk tæki sér frí um páskanna en þá væri sú hefð valfrjáls, ekki helgislepju-skylda.

Svo vil ég sjá 1. des. sem almennan frídag á ný!


khomeni (meðlimur í Vantrú) - 10/04/07 20:27 #

Ég vildi sjá dagana milli jóla og nýárs sem frídaga!. -það væri alveg beisikk. Þessi trúarhátíðafrí eru út í hött.

-Niður með páskana, föstudaginn langa og hvítasunnu ruglið!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.