Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Erfðafræði Lysenko

Trofim Denisovich LysenkoLysenkoismi vísar til tímabils í rússneskum vísindum þar sem bóndinn og jarðyrkjumaðurinn Trofim Denisovich Lysenko (1898-1976) var í aðalhlutverki. Lysenko leiddi hreyfingu sem kennd var við Michurianisma á tímum Leníns og Stalíns. I. V. Michurin sjálfur var aftur á móti hallur undir Lamarckisma. Lamarck var franskur vísindamaður sem var uppi á átjándu öld og hann setti fram þróunarkenningu löngu fyrir daga Darwins. Kenningu Lamarcks hefur þó verið hafnað af þróunarlíffræðingum vegna þess að hún útskýrir ekki þróun á jafn sannfærandi hátt og kenningin um náttúruval gerir.

Samkvæmt Lamarck þá er drifkraftur þróunarinnar sá að lífverur geta erft eiginleika sem forfeður þeirra hafa áunnið sér. Sem hugsanlegt dæmi þá lenda gíraffar í því að umhverfi þeirra breytist og eina leiðin fyrir þá til þess að lifa af er að nærast á laufblöðum sem vaxa á trjám í mikilli hæð. Því teygja þeir á hálsunum til að ná til laufblaðanna og þessi teyging og löngunin til þess að teygja erfðist til komandi kynslóða. Að lokum hafði því dýrategund sem upphaflega var með stuttan háls þróast yfir í tegund með langan háls.

Kenningin um náttúruval útskýrir hina löngu hálsa gíraffana sem afrakstur verka náttúrunnar en hún hefur gert tegundinni það kleyft að nærast á laufblöðum sem vaxa í mikilli hæð á trjám í stað þess að bíta gras sem dýr með stutta fætur og stutta hálsa gera yfirleitt. Hér var ekki á ferðinni atferli með þann tilgang að bregðast við umhverfinu sem síðar erfðist til komandi kynslóða. Það var einfaldlega til umhverfi sem bauð upp á tré þar sem laufblöðin stóðu hátt og voru hentug til átu fyrir dýr með langa fætur og hálsa eins og gíraffa. Reyndar, samkvæmt kenningunni, ef þetta væri eina fæðan sem í boði er þá ættu aðeins dýr með langa hálsa, eða dýr sem gætu klifrað og flogið að lifa af. Allar aðrar tegundir ættu eftir að verða útdauðar. Það er ekkert fyrirfram ákveðið, af æðri máttarvöldum eða öðrum, samkvæmt náttúruvalinu. Það sem meira er þá er ekkert sérstakt við þá staðreynd að tegund hafi lifað af. Að þau hæfustu lifi af þýðir einungis að þau sem hafa lifað af eru hæf til þess. Það þýðir ekki að þau sem lifðu af séu á einhvern hátt æðri þeim sem gerðu það ekki. Þau hafa lifað af vegna þess að þau gátu aðlagast umhverfi sínu, til dæmis höfðu þau langa hálsa þegar mikið framboð var af laufblöðum hátt uppi í trjánum og hæð þeirra hafði ekki í för með sér alvarlega ókosti. Sem dæmi ef tegund yrði svo hávaxin að hún gæti ekki makast þá yrði hún útdauð. Eða ef fæðan sem staðsett er hátt í trjánum innihéldi einhvert efnasamband sem hefði það í för með sér að gíraffarnir yrðu ófrjóir, þá yrðu gíraffar ekki lengur til, sama hversu hart þeir hefðu lagt að sér til að efla kyn sitt.

Lamarckisma er hampað af þeim sem sjá viljann sem helsta drifkraft lífsins, líkt og franski tuttugustualdar heimspekingurinn Henri Bergson. Margir þeir sem trúa því að guð hafi skapað allt og að allt hafi tilgang hatast við þróun, bókstafstafstrúaðir tilgangshyggjumenn þessa heims. Maður gæti haldið að marxistar hefðu frekar kosið þróunarkenningu Darwins með sínum vélrænu, efnislegu, löggengnu ferlum náttúruvalsins án ákveðins tilgangs. Lamarckismi gæti aftur á móti verið eitthvað sem talsmenn frjáls markaðar hefðu getað aðhyllst, þeir sem leggja áherslu á vilja, reynslu, mikla vinnu og val. En hins vegar voru Rússland og Sovétríkin ekki í rauninni marxísk. Þau fóru fljótlega úr alræði öreiganna yfir í alræði einræðisherranna (Lenín, síðar Stalín). Jafnvel eftir dauða Stalíns tók við alræði leiðtoga kommúnistaflokksins en þeir stjórnuðu öllu, einnig efnahaginum.

Hvað sem því líður þá var litið með velþóknun á sjónarmið Michurins varðandi þróun meðal leiðtoga kommúnistaflokkins í Sovétríkjunum. Annarsstaðar var vísindasamfélagið að fylgja eftir hugmyndum Mendels og hin nýju vísindi erfðafræðinnar voru í framþróun. Rússland barðist hinsvegar fyrir því að koma í veg fyrir að þessi nýju vísindi næðu fótfestu í Sovétríkjunum. Sú staða kom því upp að meðan vísindamenn í öðrum löndum gátu ekki hugsað sér að þróunin væri skiljanleg án erfðafræðinnar, þá beittu Sovétríkin pólitísku áhrifavaldi til að tryggja það að enginn af vísindamönnum þeirra ættu eftir að boða hlutverk erfða í þróun.

Vegna gjörða Lysenkos þá voru margir vísindamenn, erfðafræðingar eða þeir sem höfnuðu Lamarckisma í stað kenningarinnar um náttúruvalið, sendir í gúlagið eða hurfu einfaldlega. Áhrifavald Lysenko náði hámarki á ráðstefnu 1948 í Rússlandi þar sem hann flutti ávarp af mikilli ástríðu og fordæmdi Mendelska hugsun sem “afturhaldsama og úrkynjaða” og lýsti því yfir að fylgismenn hennar væru “óvinir sovéskrar alþýðu” (Gardner, 1957). Hann lýsti því einnig yfir að ræða hans hefði verið samþykkt af miðstjórn Kommúnistaflokksins. Annaðhvort voru vísindamenn nauðbeygðir, skrifuðu opinber bréf þar sem þeir viðurkenndu að hafa farið villur síns vegar og réttmæti visku Flokksins, eða þeir voru látir fara. Sumir voru sendir í þrælkunarbúðir. Aðrir hurfu sporlaust.

Undir stjórn Lysenkos höfðu vísindin ekki líklegustu kenningarnar að leiðarljósi, studdar af tilraunum, heldur æskilega hugmyndafræði. Vísindin voru stunduð í þágu Ríkisins, eða réttara sagt í þágu hugmyndafræðinnar. Árangurinn var fyrirsjáanlegur, sovéskri líffræði hnignaði stöðugt. Hugmyndum Lysensko var ekki hafnað af vísindasamfélagi Sovétríkjanna fyrr en árið 1965, rúmum áratug eftir að Stalín lést.

Gæti eitthvað þessu líkt gerst á Vesturlöndum? Í raun gætu sumir sagt að það hafi þegar gerst. Fyrst er hægt að nefna hreyfingu sköpunarsinna sem hafa reynt, stundum með góðum árangri, að banna kennslu þróunarkenningarinnar í opinberum skólum í Bandaríkjunum. Með Duane Gish í broddi fylkingar, hver veit hvað gæti gerst ef Pat Robertson yrði forseti Bandaríkjanna og Jerry Falwell menntamálaráðherrra í stjórn hans. Síðan má auðvitað nefna að það eru margir þekktir og vel efnum búnir vísindamenn í Bandaríkjunum sem virðast einnig stunda vísindi í þágu hugmyndafræðinnar, ekki bókstafstrúaðrar kristni heldur kynþáttahyggju. Lysenko var á móti því að beita tölfræði, en hefði hann verið nógu snjall til að átta sig á því hversu nytsamleg tölfræðin getur verið í þágu hugmyndafræðinnar þá hefði hann ef til vill skipt um skoðun. Ef hann hefði séð hvað J. Philippe Rushton, Arthur Jensen, Richard Lynn, Richard Herrnstein eða Charles Murray hafa gert með tölfræðigögn til að styðja við kynþáttahyggjuna, þá hefði Lysenko kannski stofnað deild Æðri Sovéskrar Tölfræði og sannað með talnagaldri yfirburði Lamarckisma borið saman við náttúruvalið og erfðafræði.

Skeptic's Dictionary: Lysenkoism


Heimildir

Gardner, Martin. "Lysenkoism," kafli 12, Fads and Fallacies in the Name of Science (New York: Dover Books, 1957).

Levins, Richard and Richard Lewontin. "Lysenkoism," The Dialectical Biologist (Boston: Harvard University Press, 1985).

Medvedev, Zhores A. (1969). The Rise and Fall of T. D. Lysenko. Columbia University Press.

Lárus Viðar 02.04.2007
Flokkað undir: ( Efahyggjuorðabókin )

Viðbrögð


Sindri Guðjónsson - 02/04/07 10:42 #

Ef Pat Robertson væri forseti, þá myndi hann kannski styðja kennslu á "vitrænni hönnun" - en hann myndi ekki styðja "vísindalegan sköpunarhyggju" á borð við þá sem Duane Gish aðhyllist. (þar sem jörðin er álitin vera c.a. 10.000 ára)

Pat Robertsson:

Now creation science ... is really pretty bogus. ... I think there’s a lot of hocus pocus in that stuff... Some of that stuff just doesn’t meet the smell test.

Ken Ham hjá Answers in Genesis sagði í tilefni af ummælum Pat Robertson:

the majority of Christian leaders have rejected the literal history in Genesis in order to compromise with millions of years and evolutionary ideas.

http://www.don-lindsay-archive.org/creation/quote_robertson.html


Helgi Briem - 02/04/07 11:36 #

Æi, Sindri. Þessir kallar voru allir sköpunarsinnar þegar ég var að læra líffræði fyrir 20 árum. Svo töpuðu þeir aftur og aftur og aftur kærumálum í réttarsölum Bandaríkjanna og þá breyttu þeir nafninu á bullinu úr "Scientific Creationism" í "Intelligent Design", nánast á einni nóttu. Sama fólk var í forsvari fyrir báða hópa og röksemdafærslan er nánast nákvæmlega eins. ID er bara feluleikur.

Sjá: http://www.talkreason.org/articles/HistoryID.cfm http://www.intelligentdesign.net/whatisid.htm http://www.talkdesign.org/introfaq.html


Sindri Guðjónsson - 02/04/07 12:05 #

Ekki gera lítið úr þeim mun sem felst í því annarsvegar að samþykkja aldur jarðar og veraldar, og hins vegar að telja heiminn einungis 10.000 ára. Það er risastjór gjá þarna á milli.

Það er rétt hjá þér að margir sem aðhyllast "vitræna hönnun" eru líka "vísindalegir ungjarðar sköpunarsinnar". Það kemur málinu alls ekkert við. Ég er að benda á þá staðreynd að Pat Robertsson er ekki "vísindalegur ungjarðar sköpunarsinni" - og því er ekki hægt að spirla honum saman við Duane Gish.


Helgi Briem - 02/04/07 12:57 #

Hvað meinarðu að Pat Robertson sé ekki sköpunarsinni? Má vera að hann hafa eitthvað reynt að breiða yfir það í seinni tíð (í lögfræðilegum tilgangi) en hann var og er sköpunarsinni í gegn. Athugaðu að Robertson kom ekki fram á sjónarsviðið í fyrra. Hann var mjög virkur baráttumaður fyrir sköpunartrú á árum áður.


Sindri Guðjónsson - 02/04/07 16:36 #

Margir sköpunarsinnar telja að jörðin sé gömul. Sumir sköpunarsinnar samþykkja meira að segja þróun og skyldleika allra lífvera á jörðinni. Sjá t.d hér

En, já Robertson, er sköpunarsinni, og hefur þróunarkenninguna á hornum sér . Hann virðist hins vegar ekki vera ungjarðar sinni. (ég hef ekki séð neitt eftir hellings "gúgl" sem bendir til þess.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.