Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Er Skúli Lór ofmetnasti miðill Íslands?

Trú á miðla mætti flokka gróflega í þrennt; að vita ekki að þeir séu til, kæruleysisstigið og að hafa tekið afstöðu. Fyrsti flokkurinn skýrir sig sjálfur, og á eiginlega bara við börn. Annar flokkurinn felur í sér flestalla sem halda etv að eitthvað sé til í þessu en hafa kannski aldrei spáð í þessu eða aldrei tekið afstöðu. Sumir vilja vita meira, öðrum stendur slétt á sama. Þriðji flokkurinn er síðan það þegar fólk hefur tekið afstöðu, hvort sem það er með miðlum eða á móti.

Sumir hafa áhuga á því að komast á þriðja stigið, það er að kynna sér málið til að geta tekið afstöðu. Einfalda leiðin, en að mínu viti alls ekki sú besta, er að hlusta á Þórhall á Bylgjunni, lesa vefsíðu Sylvia Browne og smella sér á miðilsfund. Erfiðari leið, en jafnframt mun fróðlegri er að kynna sér báðar hliðar málsins. Hvers vegna eru svona margir sem halda því fram að miðlar séu svikarar? Af hverju eru til milljón dollara verðlaun sem enginn miðill getur hirt?

Mig langar að segja sögu.

Fyrir nokkrum vikum hittist fjórtán manna hópur á Akureyri. Leynigestur kvöldsins var Skúli Lórenzson, sem hefur verið nefndur af sumum besti miðill á Íslandi. Aðeins einn maður úr hópnum vissi að Skúli væri að koma og Skúli vissi ekki hverja hann var að fara að hitta. Tekið skal fram strax í byrjun að allir í hópnum komu frá Akureyri, og Skúli líka.

Hann var hjá okkur í um það bil eina klukkustund. Fundurinn hófst með smá fyrirlestri, síðan las hann fyrir fjóra einstaklinga úr hópnum og svo svaraði hann nokkrum spurningum í lokin. Hann las (miðlaði) í einhverjar 20 mínútur fyrir fjóra aðila sem við skulum kalla Sigtrygg, Baldur, Hermund og Geirmund. Nöfnum hefur verið breytt.

Áður en lesturinn hófst lýsti Skúli aðeins starfi miðils. Meðal annars lýsti hann verndarenglunum okkar. Allir innan þessa litla hóps ungra nútíma Íslendinga höfðu "sérstaka" verndara - t.d. voru nokkrir með indíána-verndara og nokkrir með munka. Enginn var með vinnukonu úr litlum dal á Austfjörðum. Það gæti svo sem verið tilviljun.

Hófst svo lesturinn. Fyrir þann sem kynnt hefur sér háttlestur var hérna um sýnikennslu í þeirri list að ræða. Reyndar fór Skúli ekkert sérstaklega vel með háttlesturinn og því tæpt að kalla þetta list. Þetta var of mikið af "þekkirðu einhvern G-eitthvað, karl eða konu?" frekar en "það er rautt teppi með vínbletti í fyrir neðan tröppurnar þar sem þú vinnur".

Reyndar átti Skúli góða spretti inn á milli, sérstaklega hjá Baldri og Hermundi. Þar kom hann sér stundum beint að efninu. Við Baldur: "Þú ert slæmur í fæti ekki satt? Þú stendur mikið og þarft því að hugsa vel um að liðka fótinn!" og við Hermund: "Þú ert nýbúinn að skipta um atvinnuhúsnæði ekki satt? Það þarf að byggja við það, því það er varla nógu stórt er það nokkuð?"

Hjá Sigtryggi og Geirmundi var árangurinn heldur slakari.

Hjá Sigtryggi, sem á einbýlishús og hefur átt í fimm ár, skaut Skúli á húsnæðismál: "Ertu nýbúinn að kaupa þér íbúð? (S:nei) Ertu að fara að kaupa þér íbúð, ég þarf eitthvað að tala um íbúð. (S:nei) Ertu að skipta um atvinnuhúsnæði? (S: nei) Ekki kominn tími til að stækka við þig? (S: nei) Ég sé einhverjar breytingar á íbúð, eða atvinnuhúsnæði, innan árs. Mundu þetta. (S: ok)".

Hjá Geirmundi var svipað fálm. Skúli byrjaði strax að skjóta: "Tengist pabbi þinn vestur? (G: já) Já, ég sé nefnilega að þú ættir að fara með kallinn vestur. (G: ok)" (athugið hér að vestur getur verið Akranes til Skagafjarðar, Ameríka, Kanada o.s.frv. - með öðrum orðum tiltölulega safe bet). Nokkrum mínútum síðar tók Skúli upp þráðinn með pabba hans, en þá sagði Geirmundur að pabbi sinn væri reyndar látinn. Skúla blikkaði ekki einu sinni þegar hann tók 180° beygju: "Já, ég sé það. Hann stígur hérna inn í ljósið.".

Mikið var um almenn ráð hjá Skúla á þessum tuttugu mínútum. Þarna áttu afar, ömmur og frænkur að hafa komið, rofið skilin milli lifandi og dauðra, stigið andartak inn í ljósið til að tengjast afkomendum sínum og miðla af visku sinni, og hver voru ráðin?

  • Það er kominn tími til að þú uppfærir tölvuna þína.
  • Þú hefur átt í vandræðum með augun, farðu nú varlega með þau (sagt við Geirmund - sem hefur stórgóða sjón)
  • Mundu nú að taka afrit af ljósmyndunum þínum (var það merkilegasta sem pabba hans Geirmundar datt í hug að segja við hann eftir 20 ára aðskilnað).
  • Þú ættir að drekka minna.
  • Þú verður að teygja vel á fætinum svo þú stirðnir ekki.
  • Talaðu meira við son þinn.
  • Talaðu meira við dóttur þína.
  • Drekktu vatn og borðaðu mat (ok, Skúli sagði þetta ekki, en það liggur við).

Eftir miðlunina spjallaði Skúli í smá stund við okkur. Í miðju spjalli missti hann út úr sér við okkur að hann þekkti að minnsta kosti tvo af þessum fjórum sem hann las fyrir. Hann þekkti helminginn af mönnunum sem hann valdi að lesa fyrir! Og hverra þá? Jú, þið giskuðuð rétt. Hann þekkti til Baldurs og Hermundar - einmitt þeirra sem hann hafði skotið svona þröngt á (fótinn og vinnuhúsnæðið)! Ekki nema furða að hann þyrfti ekkert að spyrja hvort þeir tengdust vestur eða hvort þeir þekktu einhvern G-eitthvað.

Svo fór Skúli, og eftir sátum við og ræddum frammistöðu hans. Ég var all-viss um að þarna fengi Skúli háðulega útreið, því hann var jú í miklum ágiskunum sem all-oft gengu hreinlega ekkert upp (frasanum "mundu þetta" var óspart beitt) og svo var hann að sjálfsögðu gripinn við að þekkja helming þeirra sem hann las fyrir.

En mikill er máttur viljans til að trúa.

Allnokkrir úr hópnum dásömuðu þennan lestur. Meira að segja Sigtryggur, sem fékk í raun afburðaslakan lestur, sagði að Skúli hefði haft 100% rétt fyrir sér. Það var ekki fyrr en við fórum gróflega yfir lesturinn sem hann sá það og samþykkti, með semingi þó, að Skúli hefði verið gjörsamlega úti að aka. Þegar við vorum að fara yfir þetta og ég sagði við hann "Hann talaði um nýja íbúð, það var rangt" þá kölluðu aðrir fram fyrir mig og voru hálf reiðir, "ÞÚ VEIST EKKERT UM ÞAÐ, HANN SAGÐI AÐ ÞAÐ ÆTTI EFTIR AÐ GERAST INNAN ÁRS!". Þegar ég benti á að hann hefði fyrst skotið á að hann væri nýbúinn að kaupa íbúð, svo að hann væri á leiðinni að gera það, svo var það sama með atvinnuhúsnæði, svo loks endaði það á að þetta væri á leiðinni að gerast innan árs - þá var ég sakaður um að vera að snúa út úr. Þeir sáu ekki átta eða þar um bil giskanir sem voru allar rangar - nei, þeir sáu spádóm, og þeir voru hrifnir. Sama gilti um önnur atriði hjá Sigtryggi - menn leituðu víða fanga til að réttlæta það sem Skúli hafði sagt. "Þú ert reyndar ekki slæmur í öxlinni núna, en varstu ekki þarna, manstu, með strengi í fyrra eftir að þú varst að, þú veist...". Allt á þessum línunum.

Ástæða þess að ég segi þessa sögu er einföld. Í hópnum þetta kvöld voru nokkrir sem voru komnir á þriðja stigið sem ég nefndi hér að framan - þeir voru búnir að taka afstöðu. Tveir okkar höfðu byrjað á þeim enda sem ég tel mikilvægt að byrja á, en það er að byrja ekki að lesa endalausar miðla-hetjusögur. Þvert á móti skal að mínu mati byrja á því að lesa um hvaða aðferðir er hægt að nota til að virðast hafa miðilshæfileika? Hvers vegna virðast miðlar stundum hafa svona svakalega rétt fyrir sér, vita hluti sem þeir eiga ekki að vita, og hvers vegna trúir fólk þessu þótt miðillinn sé "ekki vel fyrir kallaður" stundum (þ.e.a.s. giskar óvenju vitlaust)? Hvers vegna heldur fólk að það hafi sérgáfur? Hvers vegna eru til margar sögur af fólki sem hefur séð drauga, séð hluti svífa um herbergin, séð árur, álfa og tröll?

Flestir úr hópnum voru hins vegar enn á stigi tvö - héldu nú að þetta væri ábyggilega ekki satt en þótti nú samt skrýtið að systir konunnar fór einu sinni til miðils og sá vissi að hún væri ólétt þótt hún væri engum búin að segja það og það væri svo margt sem við gætum ekki útskýrt og svo framvegis og svo framvegis. Þessir menn sögðu nánast undantekningalaust það sama: "Mig langar að fræðast meira um þetta. Kannski fer ég bara til miðils einhvern tímann til að geta ákveðið það sjálfur hvort þetta sé alvöru eða feikað". Við þá alla sagði ég líka það sama. Farðu endilega til miðils. En ef þú vilt raunverulega fara í heimsókn til að ákveða hvort þetta standist eður ei, vertu búinn að lesa þér til um aðferðirnar fyrirfram. Það er nefnilega staðreynd að með því að þekkja til hugtaka eins og forlestur og háttlestur og aðferða eins og "þekkirðu einhvern G-eitthvað" og "mundu þetta" er maður kominn skrefi lengra en miðillinn sjálfur, sem virðist oft ekki einu sinni gera sér grein fyrir því að hann sé að nota þessar aðferðir. Aðeins með því að þekkja brögðin getur maður komið auga á þau.

Annars er maður bara að fara til atvinnusvikara til að láta blekkja sig.

jogus 05.03.2007
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


khomeni (meðlimur í Vantrú) - 05/03/07 09:03 #

Glæsileg grein og fær vonandi fólk til þess að hugsa sig 2x um þegar þessir peningaplokkarar tjá sig við þá dauðu.

þetta verndarengla-stuff er alveg sér á báti. Þú bendir réttilega að enginn eigi "venjulegan" verndarenglil. Allir eiga "spes" engla, Indíjána eða munka. Hvar er verndarengillin sem var pípari? eða fiskverkunarkona? Silli í Silla og Valda? -Nei. það er of sillý.

Ég minnist þess að vinkona mín sagði mér grafalarleg að hún ætti verndarengil sem væri indíjáni. Cherookee indíjáni. -Auðvitað. Akkúrat á þessum tima var vinsæl kvikmynd í bíó. "Dansað við úlfa" með Kevin Costner. Sem gerist akkúrat meðal Cherokee indíjána.

Af hverju eru engir verdarenglar af minna þekktum indíjána ættbálkum? Svartfótungar, Cheyenne, Hopi, Navajo svo nokkrir séu nefndir. Alls eru yfir 500 indíjánaættbálkar í Norður Ameríku. Alltaf skal það vera Cherokee indíjáni sem er "verndarinn".

Önnur spurning: Ef indíjánar eru svona heppilegir verndarar, afhverju eru ekki indíjánar S-Ameríku notaðir. Þeir eru fleiri og menning þeirra stöðugri en menning N-Ameríkuindíjána?

Skúli Lór er bara góður í einu: Hann er góður í að svindla á fólki.

-Kalltuskan.


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 05/03/07 12:57 #

Ég skil bara ekki af hverju maður lendir í einhverju djobbi sem verndarengill eftir að maður er dauður.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/03/07 14:21 #

Þú sleppur við það ef þú ert ekki indíáni eða munkur. :)


óðinsmær - 05/03/07 18:25 #

ég segi einsog khomeini, þetta er glæsileg grein og mikið lagt á sig við að afla gagna, James Randi yrði ábyggilega stoltur, þið ættuð að láta hann vita

ég hef farið á miðilsfundi, ég var reyndar krakki þá og hélt að það væri verið að halda einhverju rosalega spennandi og mögnuðu leyndu fyrir mér, en ég rannsakaði það og varð bara fyrir vonbrigðum, samt lenti ég ekki í neinu augljósu falsi nema einu sinni, þá borgaði ég mig inn á stóran miðilsfund í þorpi útá landi og miðilinum leið eitthvað illa og hætti eftir 10-15 mínútur en við fengum ekki endurgreitt. Það var reyndar mjög frægur miðill, veit samt ekki hvort hún er með vinsælt orðspor ennþá. Það er bara eitthvað svo óendanlega rangt við að vinna fyrir sér á þennan hátt - en ég trúi samt að dulrænir hæfileikar séu til. þeir voru örugglega algengari í gamla daga þegar fólk þurfti meira á þeim að halda. núna snýst allt um eitthvað nýaldardót sem heillar mig ekki, það væri miklu skemmtilegra og raunsærra ef þessir svokölluðu miðlar sæju austfirska vinnukonu verndara en ekki endalausa munka.

lélegasti miðillinn sem ég fór til var spámiðill, það var reyndar í menntaskóla sem hluti af hóp, sagði mér að í fyrra lífi hefði ég verið fötluð nunna í austurlöndum og ekki getað labbað, þessvegna voru einhverjir tíbeskir kallar að svífa í kringum mig í þessu lífi. Þetta er í eina skiptið sem einhver minntist á verndara, en þetta var líka seinasta skipti sem ég tók þátt í svona starfsemi.


Kristinn Birgisson - 05/03/07 23:33 #

Það er alveg furðulegt hvað þið hérna á þessari slorsíðu getið látið ykkur líða illa útaf miðlum og öðru fólki sem er ekki jafn steikt og ykkar höfðuð.Eigið þið ekkert líf?? Enn að kasta vanlíðan ykkar yfir þetta fólk????


Pétur - 05/03/07 23:44 #

En hvað með þig að drulla yfir okkur? Líður þér illa yfir því að það sé til fólk í þessum heimi sem reynir að koma uppum svik og pretti?

Þetta er kannski rétt hjá þér, við eigum kannski bara að þegja og hætta að tjá okkar skoðanir, leyfa fólki að ljúga og svíkja peninga út úr fólki án þess að tjá okkur nokkuð um það.

Ég held nú ekki. "Guð blessi" málfrelsið.

Góð grein btw.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 05/03/07 23:45 #

Ert þetta þú Skúli? :)

Mér finnst það kostur að finna til með fólki sem er afvegaleitt, hvort sem það er spíritismi eða kristni. Ef þú vilt koma með fleiri athugasemdir sem tengjast ekki efni greinarinnr bendi ég þér á spjallborðið okkar. Ef þú ert viðræðuhæfur ertu velkominn þangað.


Bjarni Friðriks - 05/03/07 23:54 #

Djöfuls ignorant hálfviti ertu ... og reyndar þið flest hér á vantrú. Hvað ertu að gera á svona fund nema til að dissa það sem er að gerast á netinu fyrir vantrúarfólk og barnaland ... Held að eina ástæðan fyrir því að þú fékst ekki neitt frá honum er af því að þú ert hálfviti og að það hefur enginn núliðinn né framliðinn neitt við asna eins og þig að segja nema GET A F*ing LIFE. Góðar stundir. :)


Kristinn Birgisson - 06/03/07 00:05 #

Auðvitað var ekki við öðru að búast að þið hérna kunnið ekki að lesa sjáið ekki munin á Skúli og Kristinn.En eitt er víst að ég þekki ekkert til þessa fólks sem þið teljið þurfa nauðsynlega að sverta.En ég er viss um að hvorki þessi María né Skúli hafa nuðað í ykkur að koma á fund til sín,þá spyr maður hvers vegna eruð þið að fara á miðilsfund ef þið hafið enga trú á því.Aldrei hefur mér dottið í hug að fara á svona fundi enda ekki með trú á þeim,en mér dettur ekki í hug að sverta fólk sem ég þekki ekki.En það er víst það eina sem þið kunnið að drulla yfir fólk sem hefu ekkert gert ykkur.!!!!!!!!!!!


Bjarni Friðriks - 06/03/07 00:06 #

Og hvernig væri svo að skrifa undir nafni ... Jogus


Bjarni Friðriks - 06/03/07 00:10 #

Nákvæmlega Kristinn ... Mér finnst þetta bara aulaskapur hér á vantrú að vera að slátra fólki sem hefur gert hundruðum ef ekki þúsundum manna meina bót ... og fyrir hvað?? 15 min af fræg....SKÍT ... og engu öðru.


Daníel Páll Jónasson - 06/03/07 00:11 #

Bjarni Friðriks: "GET A F*ing LIFE. Góðar stundir. :)"

Þegar menn eru það óákveðnir um hvernig þeir eiga að rökræða við annað fólk að þeir byrja á því að vera með rosalegt skítkast, segja svo "Góðar stundir" og klikkja út með broskalli, eru þeir varla gjaldgengir í svona umræður.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 06/03/07 00:12 #

Bjarni: Það kemur fram í greininni að Skúli var leynigestur, og því hafði greinarhöfundurinn ekki hugmynd um að hann væri að fá Skúla í heimsókn, sbr:

Leynigestur kvöldsins var Skúli Lórenzson,...

Lesa greinina betur ;)

Ástæðan fyrir því að Skúli gat ekki sagt honum neitt er sú að Skúli getur ekki talað við dáið fólk. Það er í besta falli ranghugmynd sem hann er haldinn.

Kristinn: Við erum einfaldlega að benda á að miðlar eru að selja svikna vöru. Þeir geta augljóslega ekki talað við dáið fólk. Það er ekki það sama og að "sverta" þau.


Bjarni Friðriks - 06/03/07 00:22 #

Daníel. Vona að þú gerir þér grein fyrir því að það er fleira fólk að lesa hér en hann ... og þú. Jú ég óska öllum góðra stunda ... og með bros á vör :) Annað en margir hér.

Hjalti .. ok hann var leinigestur. Skal lesa betur næst ... Fannt þetta bara of lélegt til að lesa út í gegn. En jú hann Skúli tala við dáið fólk. Hvorki Þú né Jogus segið mér annað. Ég veit betur.


Kristinn Birgisson - 06/03/07 00:22 #

Þá má vel vera að miðlar hafi hjálpað fólki,en skyldi María hafa verið líka leynigestur sem nafnlausi khomeni fór til og beið í 8 mánuði að komast til hennar???!!Ég legg til að fólk sem hefur ekki trú á hlutum lífsins hætti að kasta skít í fólk sem hefur ekkert gert því,það er allara góðra vert að hafa sína skoðun á trúmálum sem og andansfólki,en ekkert réttlætir það að vega að mannorði þess.Takk fyrir.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 06/03/07 00:31 #

Bjarni:

Hjalti .. ok hann var leinigestur. Skal lesa betur næst ... Fannt þetta bara of lélegt til að lesa út í gegn.

Þetta kom fram í fjórðu efnisgreininni. Ef þú gast ekki komið svo langt ertu varla hæfur til þess að dæma greinina. Að dæma hluti sem maður hefur ekki skoðað kallast fordómar.

En jú hann Skúli tala við dáið fólk. Hvorki Þú né Jogus segið mér annað. Ég veit betur.

Nei, þú hefur augljóslega rangt fyrir þér. Skúli virðist bara beita sömu lélegu brögðum og aðrir miðlar, hvort sem hann áttar sig á því eða ekki. Síðan er það alveg ljóst að meðvitund okkar er háð heilanum og heilar dáins fólk er hætt að virka. Nema það útskýri hvers vegna það getur aldrei munað nafnið sitt eða kennitöluna.

Kristinn:

Þá má vel vera að miðlar hafi hjálpað fólki,en skyldi María hafa verið líka leynigestur sem nafnlausi khomeni fór til og beið í 8 mánuði að komast til hennar???!!

Nei, hún var auðvitað ekki leynigestur, og hvað með það? Er honum bannað að kíkja til miðils til þess að sjá hvort það sé eitthvað vit í þessu?

Ég legg til að fólk sem hefur ekki trú á hlutum lífsins hætti að kasta skít í fólk sem hefur ekkert gert því,það er allara góðra vert að hafa sína skoðun á trúmálum sem og andansfólki,en ekkert réttlætir það að vega að mannorði þess.

Af hverju segirðu að við séum að vega að mannorði þessara miðla og kasta skít í þau? Við erum einfaldlega að benda á að þau eru að selja þjónustu sem þau geta ekki veitt. Ég held að enginn hafi haldið því fram að þau séu viljandi að svíkja fólk, það eru eflaust einhverjir þannig, en mörg þeirra eru örugglega líka haldin þessari ranghugmynd að það sé hægt að tala við dáið fólk.


Kristín Kristjánsdóttir - 06/03/07 00:40 #

Ef ég lendi einhvern tímann í óséðri framtíð í það miklum fjárkröggum að ég komi til með að íhuga það að selja sjálfa mig, þá er ég búin að sjá það að ég mun auglýsa mig sem miðil frekar en eitthvað annað því það virðist vera hlægilega auðfenginn gróði. Það eru augljóslega engar kröfur gerðar til þessarar starfsemi. Hún er þar fyrir utan hafin yfir gagnrýni og/eða allri gagnrýni svarað með því að viðkomandi hafi verið of lokaður eða neikvæður. Ekki miðlinum að kenna.

Það gera 5000 krónur takk.


Bjarni Friðriks - 06/03/07 00:43 #

Hjalti. Sorry er ekki með kassana þína á hreinu en ...

OK ég missti af þessu leynivinadæmi ... ekki þar með sagt að ég hafi ekki lesið þessa grein. Átta mig ekki á hvar mínir fordómar koma fram ... nema að mér finnst þetta asnalegt að vera að skíta yfir fólk... og ekki einu sinni undir nafni.
Vert þú ekkert að segja hvað ég er hæfur um og hvað ekki .... ert þú hæfur til að dæma mig ? :)

Ég hef ekkert rangt fyrir mér ... hvernig ætlar þú að sýna mér eða öðrum að ég hafi það? Þó að þú upplifir svona sterkt það sem Jogus upplifði ... kemur mér ekki við. Eins og ég sagði og segi en ... ég veit betur. Þarf ekki að sanna það fyrir þér ... eða öðrum.


Kristinn Birgisson - 06/03/07 00:55 #

Jú jú örugglega mátti þessi khomeni fara á fund miðils en þú virðist ekki hafa lesið hanns frásögn eins og þú ásakar Bjarna áðna að hann hafi misfarist að sjá að Skúli hafi verið leynigestur.Ég hef aldrei vitað til þess að miðlar eða andansfólk hafi verið að kasta skít í fólk sem ekki trúir ekki á það sem það er að viðhafast.Þið hafið kanski aldrei lært það sem heitir virðing og tilitsemi við annað fólk,kanski er komin tími til þess þið ágæta fólk hér á Vantrú.is farið að læra það, til þess að það sé hægt að sjá málefnilega umræðu.Eitt veit ég að ég trúi á sjálfan mig og ekkert annað,og annað fólk er ekki að trufla mig þó það trúi á eitthvað annað.Það hefur örugglega engin falið ykkur að sverta eða fólk sem aðhyllist ekki það sama og þið.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 06/03/07 01:03 #

OK ég missti af þessu leynivinadæmi ... ekki þar með sagt að ég hafi ekki lesið þessa grein. Átta mig ekki á hvar mínir fordómar koma fram ... nema að mér finnst þetta asnalegt að vera að skíta yfir fólk... og ekki einu sinni undir nafni.

Heil efnisgrein í þessari grein fjallaði um lítið annað en að hann væri leynigestur. Ókurteist fólk mynd eflaust kalla þig "[d]jöfuls ignorant hálfvit[a]" fyrir að hafa yfirsést þetta.

Fordómar þínir voru þeir að halda því fram að jogus væri að fara á svona fund til þess eins að skrifa um það ("dissa") á netinu. Ef þú hefðir lesið greinina almennilega hefðirðu vitað að sú var ekki raunin.

Hins vegar sé ég ekkert að því að fara til miðla með það markmið að birta viðtalið og gagnrýnina á netinu. Ég gæti vel hugsað mér að gera það og sé ekkert að því.

Vert þú ekkert að segja hvað ég er hæfur um og hvað ekki .... ert þú hæfur til að dæma mig ? :)

Já, ef þú telur þig geta talað við dáið fólk þá ertu augljóslega búinn að blekkja sjálfan þig. Þú getur ekki talað við dáið fólk.

Ég hef ekkert rangt fyrir mér ... hvernig ætlar þú að sýna mér eða öðrum að ég hafi það? Þó að þú upplifir svona sterkt það sem Jogus upplifði ... kemur mér ekki við. Eins og ég sagði og segi en ... ég veit betur. Þarf ekki að sanna það fyrir þér ... eða öðrum.

Eins og ég hef þegar útskýrt þá er ein ástæðan fyrir því að ég veit þetta sú að meðvitund, minningar og mál okkar er algjörlega háð heilanum. Fólk sem hefur ekki starfandi heila hefur ekki meðvitund, man ekkert og er mállaust. Ef þú telur þig geta talað við þannig fólk þá er ekki furða að þú teljir þig ekki geta sannað það fyrir öðru fólki. Þú getur það nefnilega ekki.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 06/03/07 01:14 #

Jú jú örugglega mátti þessi khomeni fara á fund miðils en þú virðist ekki hafa lesið hanns frásögn eins og þú ásakar Bjarna áðna að hann hafi misfarist að sjá að Skúli hafi verið leynigestur.

Ég hef lesið frásögn khomenis.

Ég hef aldrei vitað til þess að miðlar eða andansfólk hafi verið að kasta skít í fólk sem ekki trúir ekki á það sem það er að viðhafast.Þið hafið kanski aldrei lært það sem heitir virðing og tilitsemi við annað fólk,kanski er komin tími til þess þið ágæta fólk hér á Vantrú.is farið að læra það, til þess að það sé hægt að sjá málefnilega umræðu.

Hvað áttu við með að sýna virðingu og tillitsemi? Miðlar eru selja fólki svikna vöru. Þeir segjast (og trúa því eflaust sumir) geta komið með skilaboð að handan. Þeir geta það auðvitað ekki. Sumum finnst miðlar meira að segja vera að níðast á syrgjandi fólki. Ég sé enga ástæðu fyrir því að sleppa því að gagnrýna þetta fólk. Síðan held ég að þú ættir ekki að vera tjá þig mikið um málefnalega umræðu.

Eitt veit ég að ég trúi á sjálfan mig og ekkert annað,og annað fólk er ekki að trufla mig þó það trúi á eitthvað annað.Það hefur örugglega engin falið ykkur að sverta eða fólk sem aðhyllist ekki það sama og þið.

Mér persónulega er alveg sama þó þér sé alveg sama þó fólk sé að borga miðlum pening fyrir svikna vöru. Mér finnst það slæmt. Ef þú vilt fá okkur til þess að hætta að gagnrýna miðla þarftu einungis að sýna fram á þetta sé ekki svikin þjónusta. Að væla um að okkur líði illa og að við séum að sverta fólk hefur ekkert upp á sig.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 06/03/07 03:01 #

Þið hafið kanski aldrei lært það sem heitir virðing og tilitsemi við annað fólk,kanski er komin tími til þess þið ágæta fólk hér á Vantrú.is farið að læra það...

Hmm, ertu að meina að sýna skuli öllum virðingu, líka þeim sem augljóslega selja svikna vöru?

Hefur þú einhverjar sannanir fyrir því að þessir miðlar sem við gagnrýnum séu ekta? Ertu ekki bara að byggja á tiltrú þinni á miðla almennt? Hvað með DNA-heilarana, trúirðu á þá líka? Hefurðu einhverjar sannanir fyrir því að það sem þeir selja sé alvöru? Hvað með árunuddara, reikimeistara, kraftaverkalækna, töfralækna náttúruþjóða, draugabana og fólk sem rekur illa anda út af fólki? Trúirðu á heilindi og verðleika alls þessa líka? Og hvar eru sannanirnar?

Við vitum hvaða aðferðir miðlar nota. Og þegar við sjáum þá augljóslega nota þessar aðferðir tökum við til máls, til varnaðar trúgjörnum sakleysingjum eins og þér. Þú ættir fremur að þakka okkur fyrir að vilja hlífa þér við því að eyða peningum þínum í svik og fals.

Hvorugur þessara miðla sem Vantrú hefur tekið fyrir að undanförnu er ekta. Það er Þórhallur ekki heldur, ekki frekar en svikarinn Lára miðill og Hafsteinn miðill. Allt þetta fólk notar eða notaði þekktar aðferðir sjónhverfinga- og töframanna til að blekkja fólk, meðvitað eða ómeðvitað.

Þú hefur einfaldlega ekki siðferðilegan rétt til að ráðast svona að okkur fyrir að afhjúpa þetta kjaftæði nema koma með haldbærar sönnur fyrir því að þessir miðlar séu ekta.


Kristinn Birgisson - 06/03/07 03:29 #

Sé það að hér getur ekki farið fram heilstæð umræða á vitrænum grunvelli.Gott og vel stundum verður maður að vorkenna fólki sem hefur ekki heilbrygða skynsemi eins og þið og það ber að virða,því engin er fullkomin þó að þið þykist vera það.Ætla ekki að eyða tíma mínum meira hér því að það þjónar engum tilgangi að reyna að spjalla við fólk sem ekki kann né vill sjá hluti í viðum skilningi þannig verður það og mun verða á meðan ólikar skoðanir eru á meðal fólks.Fer ekki ofan af því að það er ekki heilbrú í ykkur.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 06/03/07 03:32 #

Ég veit ekki hvað er verra hjá Kristni B., stafsetningin eða viðhorfið.


Maze - 06/03/07 10:05 #

Eftir þennan lestur tel ég að það sé Kristinn sem þurfi að læra að bera virðingu fyrir fólki osfrv. "Ekki getur farið fram heilstæð umræða hér", ég er þessu algjörlega ósammála. Nú tengist ég Vantrú ekki gramm og þekki engann þeirra né hef hitt nokkurn tímann eftir því er best ég veit. En, mér finnst þeir benda á augljóst fals og blekkingar sem miðlar stunda. Ég sé ekkert rangt af Vantrúarmönnum að benda á slíkt. Ég mundi gagnrýna þá ef þeir gerðu það ekki, því þá væri þetta félag sem ekki stæði undir nafni.

Til gamans má geta þess að sama íþróttafélag og um getur í greininni var eitt sinn þjálfað af miðli!!! Jú, það er víst rétt!


khomeni (meðlimur í Vantrú) - 06/03/07 10:51 #

Nú er ég svo aldeilis hlessa. Þessi Kristinn Birgisson fer hér mikinn og beitir furðulegum rökum til þess að sýna fram á að miðlar séu ekta. svarið er: "Af því bara -ég veit það".

Hann gagnrýnir mig fyrir að hafa beðið í 8 mánuði til þess að fara á fund "besta miðils á Íslandi" -Maríu Sigurðardóttir. Satt best að segja þá var ég "opin" fyrir þessum fundi. það var ekki fyrr en þegar ég kom heim að ég fattaði hve illa ég hafði verið plataður. En hvort sem ég hef farið með "opnum" hug eða "lokuðum" þá skiptir það engu máli. Hún (og aðrir miðlar) eru svikarar. -Af ómerkilegustu sort. Því ólíkt hefðbundum svikurum sem herja á almenning, herja þessir miðlasvikarara á þá sem eiga við sárt að binda. Þá sem misst hafa ástvin, lent í áfalli eða þvíumlíku.

Mikið var ég ánægður að sjá kommentið frá Kristínu þegar hún líkti með réttu miðlastarfinu sem möguleika gegn blankheitum. Kristín þessi hefur akkúrat sama skilning og ég á miðlastarfinu. Þetta er frekar ómerkileg leið, og sannarlega siðlaus leið til að sjá sér farborða. Þá er allvega skárra að vera bara hefðbundin þjófur og brjótast inn hjá fólki.

Kristinn þessi vill greinilega búa í samfélagi þar sem samborgar/ættigjar hans eru plataðir af óprúttnu svika-hyski. Ég er ósammála honum og allir í Vantrúnni góðu. -Við viljum ekki búa í svona samfélagi og getum alveg beiðið í 8 mánðuði til þess að gera samfélagið okkar að örlítið betri stað.

Skúli Lorenzon starfar í anda Krists og veifar manngæsku sinni og mannelsku þegar færi gefst og veitir konum andlega fullnægju í gegnum heilun. Ef honum væri alvara í þessu manngæskustarfi sínu ætti hann að hætta þessu handanheimabulli sínu.

-Þá verður heimurinn sannarlega betri.


óðinsmær - 07/03/07 11:00 #

það er ekkert að því að skipuleggja aðstæður til þess að koma upp um svikamiðla og kuklara!!! Það sem er ömurlegt er fólkið sem lifir á þessu og tekur peninga fyrir "þjónustu" en lætur ekkert í staðinn nema eitthvað óuppbyggilegt rugl um framandi verndara

ég skil ekki þá sem eru hér að rausa um að það eigi að láta allt svona fólk í friði - einsog það eigi eitthvað bágt! Málið er að þetta fólk er upptilhópa svikarar - ekki allt en margt - og það er bara mjög þarft og gott ef einhver tekur sig til og bendir á svikin og svindlið.

Þótt þessi fundur milli Jogus og skúla hafi verið tilviljun, þá er bara ekkert að því að koma upp um svona starfsemi án tilviljana, t.d með því að skipuleggja fund þarsem fólkið er óafvitandi rannsakað á heiðarlegan hátt, þarsem því er gefinn séns - það er bara þjóðÞRIFAverk.

megi Guð blessa þá sem hafa miðilsgáfur en nota þær ekki til þess að græða, heldur bara til að hjálpa.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 07/03/07 13:06 #

megi Guð blessa þá sem hafa miðilsgáfur en nota þær ekki til þess að græða, heldur bara til að hjálpa.

Hvað fær þig til að halda að nokkur lifandi maður hafi slíka gáfu?


khomeni (meðlimur í Vantrú) - 07/03/07 17:00 #

...Það væri líka gaman að hitta slíka manneskju. Ég er búin að bjóða hverjum þeim sem getur sýnt fram á miðilshæfileika afsal af húsinu mínu. Viðkomandi mun einnig fá 67 miljónir króna verðlaunafé frá James Randi. Þetta eru uþb 70 - 75 milljónir í það heila.

Ef miðillinn vill ekki nota þetta fé í sína eigin þágu þá er alveg upplagt að gefa peningana til góðgerðarmála.

Það væri líka bara svo gaman að svissa um heimsmynd. En svoleiðis gerir maður bara ekki nema að viss líkindi bendi til þess að ný heimsmynd sé til staðar.

70 milljónir :)


óðinsmær - 07/03/07 17:31 #

mér finnst þetta gott hjá ykkur, ég hef hinsvegar alveg trú á að einhver á plánetunni hafi dulræna hæfileika - ég hef það svona "á tilfinningunni" ;)

svo er alltaf spurning hvað er dulrænt og hvað ekki, það er betra að ræða um þetta allt opinskátt svo að svikahrappar komist ekki upp með blekkingastarfsemi sem auðvelt er að afsanna - sé það bara reynt.


óðinsmær - 07/03/07 17:32 #

James Randi er alger gúrú - hann er líka sætur. Getiði ekki doblað hann til Íslands?


Maze - 07/03/07 18:13 #

Khomeni! Ekki gleyma að þú ætlar líka að gefa bílinn þinn!!


khomeni (meðlimur í Vantrú) - 07/03/07 20:31 #

-Rétt Maze. Hann er satt best að segja hálf verðlaus greyjið. Bílar af tegundinni FIAT eru heldur ekkert sérstaklega góð verðlaun... :) En what the hell. Alvöru miðill ætti að geta séð fyrir næstu ferð á verkstæðið og selt hann áður en til þess kemur.

Óðinsmær! Ég kann afar vel við athugasemdir þínar. Mér finnst samt að þú þurfir að athuga þinn gang varðandi miðlana. Carl Sagan var eitt sinn spurður um líf á öðrum hnöttum. Hann var tregur til svars. Í kjölfarið var hann spurður hver hans "gut feeling" væri varðandi líf á öðrum hnöttum. Svar hans var eftirminnlegt. "I don't think with my gut".

Þú ættir að gjöra hið sama... -annars er mér alveg sama. Skoðanir þínar eru afar hressandi og upplífgandi á þessum vef. Keep up the good work..


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 07/03/07 21:05 #

Sammála, Óðinsmær lífgar upp á vefinn með ágætum athugasemdum sínum.


óðinsmær - 07/03/07 22:56 #

takk fyrir þetta strákar mínir, ég er djúpt snortin. Ég hélt að þið vilduð ekki aðdáun mína af því að ég er trúuð, en ég er sammála ykkur um svo margt þrátt fyrir það ;)

varðandi miðlana þá er hluti af mér sem trúir því og mun alltaf trúa því að í gamla daga hafi átt sér stað "yfirnáttúrulegir" hlutir, en í dag finnst mér tal um slíkt mestmegnis tóm steypa - það virkar allavega ekki trúverðugt þegar fólk er að taka pening fyrir að vera betra en aðrir í einhverju sem ekki er hægt að sanna. Auk þess þá er það kristnu fólki stranglega bannað að sækja í miðilsfundi, og mig tekur sárt til þeirra sem vita það ekki einu sinni.


zoldan - 26/03/07 05:43 #

Ég trúði einu sinni á miðla og hef farið nokkuð oft til miðla þ.á.m. Þórhalls miðils. Þegar ég fór svo að skoða hvernig þeir læra þetta að miðla þá er þetta nokkurskonar líkindareikningur, þeir fara flestir til Englands og læra að læra á fólk og lesa hvernig það er klætt og klippt. Ef ég vill fá skilaboð hjá ömmu þar best að grafa hana upp og "make her talk like a dummy" :)


geir - 29/03/07 17:11 #

ég sé sýnir og það er sko ekki vantrú að sjá sýnir þið eigið að vorkenna fólki sem sér sýnir eins og mér maður vaknar um miðja nótt útaf því að maður heirir grátur eða raddir ég hef haft þennan hæfileika frá 4 ára aldri langaamma mín dó og eftir það ség ég stundum sýnir. það er ekki þæginlegt og ég veit betur um þetta en þið. fólk fær þetta stundum við mikil viðbrögð og gætið túngu ykkar


Matti (meðlimur í Vantrú) - 29/03/07 17:16 #

geir, hefurðu íhugað að leita til sálfræðings?

Það að þú vaknir upp við grátur bendir ekki til annars en fjörugra draumfara.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 29/03/07 20:53 #

geir, veltu fyrir þér hverjir það eru sem heyra raddir.


geir - 30/03/07 14:46 #

ég veit alveg hvað ég er að segja kaðolikarnir ykkar


geir - 30/03/07 14:47 #

fólk sér það sem það vill sjá


Matti (meðlimur í Vantrú) - 30/03/07 14:50 #

kaðolikar?

Svo lengi sem raddirnar segja þér ekki að gera neitt sem getur skaðað aðra er mér nokk sama um ranghugmyndir þínar.


geir - 30/03/07 16:04 #

þú myndir segja annað ef þú myndir sjá sýnir.


geir - 30/03/07 16:05 #

og síðan segja raddirnar mér ekki til


geir - 30/03/07 16:16 #

ég fatta ekki eitt til hvers að hafa þessa heimasíðu þið græði ekkert á henni nema að baktala miðla og fólk sem sér sýnir. Og það að auki eruð þið að baktala anda. Til hvers sumir sjá sýnir og geta ekkert af því gert. Og þið eruð bara að baktala á fullu. ef þið mynduð sjá sýnir mynduð þið ábyggilega segja annað þannig að það borgar sig ekkert að vera að tala ílla um fólk sem er öðruvísi en þið. Síðan þarf ég ekkert á sálfræðingi á að halda.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 30/03/07 17:04 #

geir, síðasta athugasemd þín tengist ekki þessari umræðu. Tjáðu þig vinsamlegast á spjallinu ef þú villt ræða eitthvað annað en efni greinanna.

Síðan þarf ég ekkert á sálfræðingi á að halda.

Ef þú heyrir raddir, þá þarftu að ræða það við sérfræðing. Þú segir sjálfur að við ættum að vorkenna fólki sem sér sýnir því þú vaknar um miðjar nætur útaf röddum. Í alvöru talað geir, leitaðu aðstoðar. Það er sennilega eitthvað að gerast í höfðinu á þér og vafalaust er til lausn á því.


Kristinn - 30/03/07 19:28 #

Mér sýnist að hér sé verið úthúða miðli sem heitir Skúli.Það er lámark hjá ykkur að virða þá sem hafa þann hæfinleika og virða annað fólk sem hefur áhuga á þeim málum.Það virðist eins og þið viljið troða ykkar sjónamiðum upp á fólk.Sýnið þið nú þann þroska,ef þið hafið þá þroska á annað borð,og stoppið þá ærumeiðingar sem þið hafið verið með hér ganvart miðlum og öðru fólki sem er ekki á ykkar línu.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 30/03/07 19:37 #

Það er lámark [sic] hjá ykkur að virða þá sem hafa þann hæfinleika [sic]

Nei. Þessir "hæfileikar" eru ekki til. Skúli Lór og kollegar hans eru loddarar. Sumir miðlar halda að þeir hafi hæfileika en aðrir vita vel að þeir eru að svindla á fólki.

það virðist eins og þið viljið troða ykkar sjónamiðum upp á fólk

Neyddi einhver þig til að lesa þessa síðu? Hvernig getum við troðið okkar sjónarmiðum upp á fólk? Ekki förum við í leikskóla og grunnskóla eins og Þjóðkirkjan.

stoppið þá ærumeiðingar sem þið hafið verið með hér ganvart [sic] miðlum og öðru fólki sem er ekki á ykkar línu.

Það eru að mínu ekki ærumeiðar fólgnar í því að benda á að miðlar, líkt og Skúli Lór, tala ekki við látið fólk heldur beita þekktum aðferðum til að blekkja fólk, hvort sem þeir gera það meðvitað eða ekki.


Sævar Már - 30/03/07 20:00 #

" Og það að auki eruð þið að baktala anda. "

LOL!!


Kristinn - 30/03/07 20:00 #

Neyddi einhver þig til að lesa þessa síðu? Hvernig getum við troðið okkar sjónarmiðum upp á fólk? Ekki förum við í leikskóla og grunnskóla eins og Þjóðkirkjan.

HEYRÐU GÓÐI HVER NEYDDI NAFNLAUSA NÁUNGAN SEM BLAÐRAR HÉR INNI AÐ FARA TIL MIÐILS???? En þú virðist vera dulegur að reyna að koma þínum sjónarmiðum á síðu Barnalands þvílik heimska!!!!!!!!!!!!


Viddi - 30/03/07 22:02 #

Þú ert afar reiður maður Kristinn, þvílík heift getur ekki haft góð áhrif á sálarlífið, ef þráður er svona stuttur almennt ættirðu að skrá þig í þar til gerð námskeið.

Það var engin að neyða Jogus að fara til miðils, í fyrsta lagi var Skúli Lór leynigestur þar og í öðru lagi er það í alveg eðlilegt að menn leiti sér miðla til fræðslu, öllum langar að prófa er það ekki, og enn eðlilegra er að miðla reynslunni, Jogus fékk greinilega þá reynslu að honum (eða henni) að þessi maður væri að plata fólk og pretta, hann hefur fullan rétt að tjá þessa upplifun sína burtséð frá því hvort hún gæti komið við kaunin á einum né neinum.


geir - 30/03/07 23:28 #

Til hvers að hafa þessa heiðigja heimasíðu.


viddi - 31/03/07 00:52 #

Til hvers að hafa sus.is eða vinstri.is?

afhverju bönnum við bara ekki allar síður sem falla ekki að mati Geirs?


geir - 31/03/07 09:39 #

rólegur það er óðarfi að vera með stæla


Geir - 31/03/07 09:41 #

Miðlar eru ekki eins og þið ég er ekki eins og þið sumir sjá sínir og sumir ekki.


Sigurður - 14/08/08 22:15 #

Hér eru margir sannfærðir um að það að miðla upplýsingum að handan sé fals og peningaplokk. Einnig eru hér margir á öndverðum meiði.

Vantrúarmenn segja að miðlar hljóti að vera falsarar af því að sumt af því sem þeir segja er rangt. Vantrúarmenn segja: Ekki nota þér þjónustu miðla því sumt af því sem þeir segja er rangt. Með sömu rökum ættum við ekki að biðja vini og kunningja um ráð. Allir hafa lent í því að ræða við góðan vin sem gefur manni ráð. Stundum reynast þessi ráð vel, stundum alls ekki. Alveg eins má segja um það sem miðlar segja: Miðlar segja sumt sem vit er í og annað ekki. Sumt af því sem þeir miðla eru sterk og mikilvæg skilaboð, annað er veikara léttmeti.

Af hverju skyldi það vera að sumt af því sem miðlar segja sé með viti og annað ekki?

Það er einnig undarlegt af Vantrúarliðum að hafna einhverju sem er stundum rétt og stundum rangt. Öll veröldin okkar er þannig, meira að segja stjórnmálamenn og flestir heimsins skörungar eru einnig þannig. Maður segir stundum eitthvað af viti og stundum alls ekki. Þannig er ég, þannig eru miðlar, þannig er restin af heiminum.

Ástæðan fyrir því að miðlar segja stundum ýmislegt sem er lítill sannleikur í er sú að þau skilaboð sem þeir fá eru "biased" þ.e. þau eru bjöguð. Stundum skýr, stundum óskýr. Þegar þau eru skýr þá segja þeir eitthvað af viti, þegar þau eru óskýr þá geta þeir lent í því að segja eitthvað sem er lítill fótur fyrir.

Það er alveg eins hægt að beita rökum Vantrúarmanna á þá sjálfa: Vantrúarmenn segja: Ekki trúa nema að það sé hægt að sanna það, ekki trúa nema að þín skynsemi í samhengi við rökstudda hugsun sé sammála. Þannig á skv. Vantrúarmönnum aldrei að leyfa sér að vera ástfanginn af því að það er aldrei hægt að sanna að maður sé það! Aldrei elska nokkurn mann af því að það er ekki hægt að sanna að maður elski manneskju. Að elska er bara tilfinning sem ekki er í neinu samhengi við það sem hægt er að sanna og engin rök geta útskýrt.

Góðar stundir.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 14/08/08 22:34 #

Nei, við segjum að fólk ætti ekki að fara til miðla af því að það bendir ekkert til þess að hæfileikar þeirra séu raunverulegir. Þeir nota mjög jarðneskar aðferðir til að koma fram með upplýsingar sem þeir láta eins og séu yfirnáttúrulegar. Þeir eru að misnota sér sorg fólks í ágóðaskyni. Þeir eru fyrirlitlegir.


Bragi - 19/11/08 22:24 #

Sigurður segir: "Vantrúarmenn segja að miðlar hljóti að vera falsarar af því að sumt af því sem þeir segja er rangt. Vantrúarmenn segja: Ekki nota þér þjónustu miðla því sumt af því sem þeir segja er rangt. Með sömu rökum ættum við ekki að biðja vini og kunningja um ráð. Allir hafa lent í því að ræða við góðan vin sem gefur manni ráð. Stundum reynast þessi ráð vel, stundum alls ekki. Alveg eins má segja um það sem miðlar segja: Miðlar segja sumt sem vit er í og annað ekki. Sumt af því sem þeir miðla eru sterk og mikilvæg skilaboð, annað er veikara léttmeti."

Þú verður að átta þig á muninum á því sem þú ert að tala um. Miðlar taka pening fyrir sína þjónustu. Þeir rukka fólk fyrir ráð sem þeir segjast fá frá öndum of framliðnu fólki. Vinir manns á hinn bóginn gefa manni ráð byggð á persónulegri reynslu og þeirra bestu vitund, og gera það frítt. Vinir manns koma ekki fram undir fölsku flaggi með skilaboð að handan.


steinar - 20/02/10 00:33 #

fór til skúla fyrir mörgum árum fannst lítið passsa sem hann sagði en allt átti eftir að koma fram sem satt var :)sem er ótrúlegt :)


ArnarÞ - 05/03/10 11:35 #

Þannig á skv. Vantrúarmönnum aldrei að leyfa sér að vera ástfanginn af því að það er aldrei hægt að sanna að maður sé það! Aldrei elska nokkurn mann af því að það er ekki hægt að sanna að maður elski manneskju. Að elska er bara tilfinning sem ekki er í neinu samhengi við það sem hægt er að sanna og engin rök geta útskýrt.

Nei, þar er oft búið að sanna ást. Hvar í andskotanum fékstu þá hugmynd að ekki væri búið að sanna tilfinningar?

Wikepeedia segir

Biological models of love tend to see it as a mammalian drive, similar to hunger or thirst.[9] Psychology sees love as more of a social and cultural phenomenon. There are probably elements of truth in both views. Certainly love is influenced by hormones (such as oxytocin), neurotrophins (such as NGF), and pheromones, and how people think and behave in love is influenced by their conceptions of love. The conventional view in biology is that there are two major drives in love: sexual attraction and attachment. Attachment between adults is presumed to work on the same principles that lead an infant to become attached to its mother. The traditional psychological view sees love as being a combination of companionate love and passionate love. Passionate love is intense longing, and is often accompanied by physiological arousal (shortness of breath, rapid heart rate); companionate love is affection and a feeling of intimacy not accompanied by physiological arousal. Studies have shown that brain scans of those infatuated by love display a resemblance to those with a mental illness. Love creates activity in the same area of the brain where hunger, thirst, and drug cravings create activity. New love, therefore, could possibly be more physical than emotional. Over time, this reaction to love mellows, and different areas of the brain are activated, primarily ones involving long-term commitments.


Gaur - 21/03/12 11:37 #

Ógeðslega eruð þið leiðinlegir gaurar. Hafið ekkert skárra að gera en blaðra við gamla kalla um drauga og Biblíur og skipta ykkur að því hvað annað fólk kýs að gera til að halda geðheilsunni í þessum sturlaða heimi þar sem allir verða að reiða sig á eina sjálfsblekkinguna eða aðra til að komast hjá því að svipta sig lífi. Sumir hafa trúarbrögð. Ég held í dauða von um að komast aftur í frí áður en ég dey, þó ég þurfi að borga milljónir af húsinu mínu. Get ekki gagnrýnt aðra fyrir þeirra tálsýnir, þó þær séu ekki mínar eigin.


Tinna Gígja (meðlimur í Vantrú) - 21/03/12 15:38 #

"Gaur": Er það sumsé, að þínu mati, ómerkilegra athæfi að vara við svikahröppum en að skamma fólk fyrir að vara við svikahröppum?

Hvað koma óski þínar um frí fjársvikurum eins og Skúla við? Aukast líkurnar á því að húsnæðislánið þitt lækki ef Skúli fær áfram að hafa fé af sakleysingjum?

Hefurð ekkert skárra að gera en röfla á netinu undir dulnefni?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.