Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Juche-hugmyndin: Veraldleg trúarbrögð

Í árslok 1955 kynnti Kim Il-sung, forseti Norður-Kóreu, til sögunnar hugmynd þá sem „Juche“ nefnist, öðru nafni „kimilsungismi“, og er eins konar sambland af stalínisma, maóisma og ný-konfúsíanisma, og var hluti af hugmyndafræðilegri endurskoðun hjá stjórnlyndum sósíalistum, sem fór svo víða fram eftir dauða Stalíns. Nafnið sjálft mundi útleggjast á íslensku sem „sjálfstæði“ eða „sjálfsþurft“. Hugmyndafræðilega undirstaðan er húmanísk, að maðurinn sé meistari og mælikvarði alls. Verkamannaflokkur Kóreu útleggur það svo eftir sínum hentugleika og býr í lýðskrumslegt orðskrúð.

Upphaflega voru hugmynda-pólitískar stoðir Juche þrjár: Að Kórea skyldi vera pólitískt sjálfstæð (chajusong), að hún skyldi vera efnahagslega sjálfbær (charip), og að landvarnir hennar skyldu byggjast á sjálfsvörn (chawi). Auk þess bætti erfðaprinsinn Kim Jong-il fjórðu stoðinni við, að herinn skyldi vera í fyrsta sæti (songun). Kim Jong-il, sem núverandi forseti, er úrslitakennivald í túlkun og útfærslu Juche.

Hér verður ekki farið út í smáatriði Juche-hugmyndarinnar, en praktísk útfærsla hennar er á gamalkunnum nótum: Norður-Kórea þarf að halda fullveldi sínu óskertu. Stefna ríkisins þarf að endurspegla þarfir fólksins. Bylting og uppbygging þurfa að henta stöðunni sem landið er í hverju sinni. Hlutverk flokksins er að móta fólk hugmyndafræðilega og hvetja það til að leggja sig fram í uppbyggingu landsins. Auk þess krefst Juche algerrar tryggðar við flokkinn og leiðtogann. Ef maður trúir því að ríkisstjórn Norður-Kóreu sé eins lýðræðisleg, stéttvís og réttlát og opinber áróður gefur til kynna, þá kann þetta að hljóma ágætlega. Ef maður hins vegar hefur efasemdir, þá lítur myndin öðruvísi út.

Juche-hugmyndin er í sjálfu sér laus við yfirnáttúrutrú. Það er samt kunnara en frá þurfi að segja, að hún hefur ýmis einkenni trúarbragða, t.d. gegndarlausa persónudýrkun og óskeikulleika-kennivaldshyggju. Praktíska hliðin er líka sneisafull af mótsögnum; til að mynda hefur áherslan á „efnahagslegt sjálfstæði“ hamlað framförum og gert ríkið háð erlendri neyðaraðstoð, og „þarfir fólksins“ eru ekki skilgreindar af fólkinu sjálfu heldur af ríkinu.

Það þarf kannski ekki að koma á óvart, en norður-kóreska ríkisstjórnin hefur haldið sinni opinberu hugmyndafræði sem „pólitískum valkosti við hefðbundin trúarbrögð“. Það má því vera ljóst, að þótt það sé hæpið að kalla Juche-hugmyndina eiginleg trúarbrögð, þá ber hún nógu mörg einkenni þeirra til að samlíkingin sé meira en réttlætanleg. Ríkisstjórnin kallar hana enda sjálf fjölmennustu „pólitísku trúarbrögð“ landsins.

Þótt Juche sæki talsvert mikið í smiðju sovésks marxisma, og noti hugtök á boð við „sósíalisma“ og „kommúnisma“, þá hefur „marxisma“ verið afneitað af norður-kóreskum hugmyndafræðingum, og segja þeir að Juche sé algerlega sjálfstæð hugmynd sköpuð af Kim Il-sung og skuldi Karli Marx ekki neitt. Formleg skuldaskil voru árið 1972, þegar marx-lenínisma var skipt út fyrir Juche í stjórnarskrá lýðveldisins. Það er stundum vísað til Marx, Engels, Leníns og Stalíns í opinberum norður-kóresku ritum, sem leiðtoga sinna tíma, en reyndar eru klassísk marxísk rit almennt ekki gerð aðgengileg fyrir leikmenn.

Mannréttindasamtök og stjórnmálafræðingar hafa lengi bent á að norður-kóreskur raunveruleiki sé talsvert á skjön við fögur fyrirheit Juche-hugmyndarinnar, til dæmis að landið sé í reyndinni mjög háð öðrum löndum um aðstoð, og að skoðanir almennings séu lágt skrifaðar. Juche hefur verið hinum rúmenska Ceauşescu, Sukarno hinum indónesíska og fleiri slíkum herramönnum innblástur. Í mörgum löndum heims starfa námshringir sem stunda Juche-hugmyndina. Eitt inntökuskilyrði þeirra er að umsækjandinn skuli ekki gagnrýna Juche.

Vésteinn Valgarðsson 07.02.2007
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.