Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

10 vinsælar ríkiskirkjuklisjur


1.Minnihlutinn er að kúga meirihlutann

Þessi tiltekna setning hefur sérstaklega verið viðhöfð um Vinaleiðina, og vissulega önnur málefni líka. Þetta kallast rökþrot. Í staðinn fyrir að ræða málið á málefnalegum grundvelli er þessi klisja notuð óspart til að reyna rægja andstæðinginn, sama hver hann er; Fríkirkjan, Ásatrúarfélagið, Siðmennt og Vantrú svo fátt eitt sé nefnt. Þessi sömu rök voru notuð af nasistum gegn gyðingum. Ein af fjölmörgum ríkiskirkjuklisjum sem eru keimlík sárindarökunum. Þó gleymist eitt í þessari klisju: Kristnir, sannkristnir, eru í töluverðum minnihluta, þannig að hver er að kúga hvern?

2.Taumlaus efnishyggja tröllríður samfélaginu

Allt þjóðfélagið er svo upptekið af efnislegum hlutum, s.s. peningum, DVD, tölvum, bílum og fötum að hið andlega hefur tapað gegn hinu veraldlega og siðleysi er á næstu grösum, jafnvel heimsendir. Eða það vilja hinir hálaunuðu prestlingar meina. En þeir virðast vera að misskilja efnishyggjuhugtakið. Efnishyggja er ekki græðgi. En ef það er merkinginn sem þeir leggja í efnishyggju þá er þessi málflutningur afar furðulegur í ljósi þess hvað starfsmenn ríkiskirkjunnar eru með svakaleg súperlaun (t.a.m. er ónefndur biskup með hátt í milljón á mánuði), ríkiskirkjan hefur sankað að sér jörðum, heimtar skaðabætur fyrir jarðarmiss og í sífellu meiri pening til að stækka starfsemina. Að ekki sé minnst á allt þetta gull, glingur og dót sem fyllir kirkjurnar í landinu.

3.Kristin trú er heildræn

Kristni er einsog Súperman, getur allt og má allt og er óstöðvandi. Kristni er ekki bara trúarbrögð heldur svo margt, margt fleira. Þegar talað er um heildrænt (e. holistic) dettur manni strax í hug miðlar, spámenn, heilarar og annað kukl. Og þá erum við komin á rétta leið: Prestar heyra raddir að handan (gvuð), geta banað yfirnáttúru (draugum), segja til um framtíðina (heimsendir) og það með hjálp frá einni galdrabók (biblía) og galdraþulum (bænir). Þannig er lítill munurinn á seiðskröttum og prestum.

4.Trúarlega gildishlaðin þjónusta

Sumir nota trúboð, aðrir nota trúarlega gildishlaðna þjónustu. Trúarlega gildishlaðin þjónusta er eina aumasta tilraun í manna minnum til að hvítþvo orð sem eðlilegt fólk kallar trúboð. Prestar frábiðja sér slíkt, og þegar talað er um Jesúm og Gvuð við ung og óhörðnuð börn, þá er það ekki trúboð heldur trúarleg gildishlaðin þjónusta. En þetta er einn og sami hluturinn. Einnig hafa prestar tekið uppá því að notað eingöngu orðið þjónusta í staðinn fyrir trúboð. Það er óskiljanlegt hvað fulltrúar ríkiskirkjunnar hafa á móti trúboði þar sem einkunnarorð trúarstofnunarinnar er meðal annars "boðandi."

5.Trú er í mannlegu eðli

Þetta kallar á rannsókn í mannfræði og sálfræði. Klassísk sjálfsréttlætingarklisja til þess að stöðva alla umræðu. Þeir sem trúa ekki eru bara að ljúga að sjálfum sér, því þetta er mannlegt eðli einsog að ríða og skíta. En það er meira sem gæti talist í mannlegu eðli, s.s. nauðgun, ofbeldi, manndráp og fleiri ósiðir. Krabbamein, æxli, heilablóðfall, geðklofi og aðrir líkamlegir og andlegir sjúkdómar teljast nú einnig hluti af hinu mannlega eðli, í þeirri merkingu að það er óhjákvæmilegt að einhver manneskja gæti fengið þessa sjúkdóma. Þó að eitthvað gæti talist vera í mannlegu eðli er ekki þar með sagt að það sé æskilegt, eðlilegt og jákvætt.

6.Hinir ungu og reiðu vitleysingar

Þessi upphrópun er höfð um alla þá er teljast trúlausir og sér í lagi Vantrú. Þetta eru upp til hópa bjálfar með aðgang að internetinu. Þetta er næstum orðinn klassík í trúarlegri umræðu. Prestar vilja meina að þeir séu gamlir og vitrir og spekin vellur uppúr þeim einsog gall. Þeir sem dirfast að mótmæla eru krakkabjánar og hafa ekki hugmynd um hvað þeir eru að tala. Skrítið, sérstaklega miðað við umræður undanfarna daga um Vinaleið, hefur eitthvað barn verið að mótmæla gjörðum hinna fullorðnu "vitringa"?

7.Samræður

Friðsamlegt samtal sem skilar engu nema ópíumbrosi viðmælenda. Auk þess að kannast ekki við trúboð þá eru töluverður fjöldi presta skíthræddir við rökræður, þar sem viðmælendur skiptast á rökum og reyna komast að niðurstöðu. Þeir vilja frekar tala saman um ekki neitt og kinka kolli til skiptis. Einnig hafa þeir gaman af eintali og strámönnum. Samræðurnar eru oftar enn ekki á þá leið að "bera skal virðingu og umburðarlyndi fyrir öllum og öllu, einsog Jésús gerði í forðum daga, enda fínn kjeppz". En við ponturnar eru viðhöfð málefni á borð við tröllríðandi efnishyggju, hinn kúgandi minnihluta og hina ungu og reiðu vitleysinga, amen.

8.Trú er persónuleg hverjum og einum

Og ef þú þar af leiðandi gagnrýnir trú og trúarbrögð þá ertu gagnrýna einstaklinginn í leiðinni og einstaklingurinn er fljótur að grípa til sárindanna og ásakana um að viðkomandi hafi verið kallaður fábjáni, afturúrkreistingur, skíthæll og ógeð, jafnvel þó að þau tilteknu orð, eða jafnvel önnur sambærileg, komu aldrei fram í gagnrýninni. Þetta er notað til að reyna láta trúleysingja skammast sín fyrir málflutning sinn og hætta þessu. Fólki sárnar svona "aðför að persónu sinni ". Sumu fólki sárnar af hinum furðulegustu hlutum. En þetta er einnig hægt að nota yfir annað, t.d. ýmsa miðla. Bækur eða jafnvel kvikmyndir eru persónulegar hverjum og einum og þar af leiðandi má ekki segja að Lord of the Rings sé fjarstæðukennt fantasíuþrugl því þá getur sumu fólki sárnað.

9.Ólæsi á heilaga ritningu

Lýst er yfir að stór hluti af biblíunni er kjaftæði. Stór hluti trúleysingja hefur í raun lesið og stúderað biblíuna, en það er samt í raun og veru ólæsi og við skiljum ekki bók bókana í kristnum skilningi (sjá lið 10). Ef til vill er verið að meina að það sé ótrúlegt að trúleysingjar hafi lesið biblíuna og ekki orðið uppnumdir af gleði og kærleika og tekið Gvuð og Jésúm í sitt hjarta.

10.Kristilegur skilningur

Óskiljanlegt þvaður, því aldrei hefur fengist svar við því hvað er kristinn skilningur. Þeir gæti allt eins baunað að manni að þetta verði að skoða í íslömskum skilningi, Sjálfstæðiflokkskilningi eða Jóakim Aðalandarskilningi. Hvað er að skilja eitthvað í kristnum skilningi? Ein kenninginn er á þá leið að það ber að trúa bullinu í bókinni og ekkert múður!

Þórður Ingvarsson 24.01.2007
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Deddi - 24/01/07 08:20 #

God samantekt!


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 24/01/07 11:41 #

Við þetta mætti bæta, eða skjóta inn, vinsælum ríkiskirkjuklisjum á borð við að lesa ritningarvers "í Ljósi Krists" og að óþægileg ritningarvers séu aðeins "ljóðræn myndlíking". Einnig að kristni sé siðfræði.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 24/01/07 11:48 #

Það gæti verið efni í nýjan lista: 10 vinsælar biblíuklisjur


Hafþór Örn Sigurðsson (meðlimur í Vantrú) - 24/01/07 17:26 #

Frábær samantekt.


Valdimar - 26/01/07 02:32 #

Góð samantekt.

Það mætti bæta við lið 5 að þó sú hegðun að iðka trú gæti verið mannlegt eðli, þá segir það ekkert til um tilveru yfirnáttúrlegra afla. Það gefur því trúarbrögðum eins og kristni ekkert sérstakt gildi að það sé mannlegt eðli að vera trúaður, þannig að þó það væri mannlegt eðli, þá er það í raun í sömu stöðu og hið mannlega eðli að vera sjálfselskur, og fyrir marga karlmenn að girnast fleiri en eina konu. Kristnin sjálf fordæmir til dæmis hið mannlega eðli að ,,girnast konu eða asna náungans", hví ekki að fordæma hið mannlega eðli að iðka trúarbrögð?

Númer 6 er mjög leiðigjörn skoðun sem ég vona að sé á undanhaldi. Mig hryllti við þegar ég las ummæli biskups, þegar hann kallaði trúleysingja í raun siðlausa öngþveytissinna.

Hvað varðar 8, þá er þessi nýlunda síðustu áratuga að það megi ekki rökræða trúarbrögð ansi ósanngjörn. Stjórnmálaskoðanir eru alveg jafn persónubundnar og trúarbrögð, en almennt talið að það megi ekki rökræða skoðanir þingmanna við þá? Væri það dónaskapur?

Og hvað varðar 9 og 10, þá er ég þeirrar skoðunar að fólk sem hugsar rökrétt og styður samt boðskap biblíunnar hafi að öllum líkindum ekki lesið hana. ,,Kristinlegur boðskapur", eins og fólk ímyndar sér hann í dag, kemur að hluta til fyrir í biblíunni, en líka alls konar boðskapur til ofbeldis og ódæðisverka. Hvernig vitum við hvaða boðskapur er hinn rétti til að aðhyllast? Jú, með þeirri siðferðiskennd (,,siðferðisboðskap samfélagsins") sem er ríkjandi í samfélagi okkar tíma, og hún hefur ekkert með ,,kristinlegan boðskap" eða ,,kristinlegt siðferði" að gera. Ef það er kristinlegt siðferði að rétta hinn vangann, þá er það líka kristinlegt siðferði að grýta til dauða hverja konu sem er nauðgað, ef hún öskrar ekki nógu hátt á meðan nauðgunni stendur til að einhver grípi inn í (og grýta nauðgarann náttúrulega líka), eins og lesa má um í Dómarabók Biblíunnar, kafla 22, versi 24.


Einar Steinn - 26/01/07 03:40 #

Nú spyr sá sem ekki veit (sumsé ég): Mun Dómarabókin ekki eiga að vera eldra rit en rit Nýja Testamentisins? Á Jesús ekki að hafa sagt "sá yðar sem syndlaus er, kasti fyrsta steininum"?

Og já, ég þekki vel hvað Páll postuli á að hafa sagt, en nú er ég bara að spá í hvað Jesús á að hafa sagt skv. Biblíunni, m.ö.o. hvort hann hafi einhvern tíman sagt eittvað í þessa veru beinum orðum eða hvort slík ummæli séu komin frá lærisveinum hans (mögulega "innblásnum heilögum anda", vissulega).


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 26/01/07 06:10 #

Ef þú kíkir í Nýja testamentið þitt (ef þú átt það) þá sérðu að sagan af hórseku konunni (en Jesús er látinn segja þetta í henni) er innan hornklofa. Sagan er síðari tíma viðbót.


Valdimar - 30/01/07 22:18 #

Einar Steinn:

Jú, dómarabók ku vera fimmta bók Móse, og er í gamla testamentinu. Hér má sjá versið sem ég vitnaði í, 22:24.

Þessi lína Jesú gefur biblíunni engan vegin ástæðu til að vera notuð sem grundvöllur siðferðiskenninga (ég vil halda því fram að ekkert rit sé grundvöllur siðferðiskenninga), heldur bara að Jesú sé skrifaður sem afar spakur maður.

Ég fann línuna sem þú nefndir eftir Jesú, og hér er samhengið (sjá einnig hér).

8. bók Jóhannesar nýja testamentsins segir frá fræðimönnum og faríseum sem koma að Jesú á Olíufjalli með konu í haldi sem þeir hafa gómað við hórdóm. Þeir segja við hann að í lögum móse (úr gamla testamentinu) standi að það eigi að grýta hvaða konu sem er sek um hórdóm, og spyrja hann hvort hann sé því sammála. Þetta vildu þeir gera til að geta ákært Jesú, væntanlega fyrir það að véfengja gamla testamentið. Jesú segir við þá: ,,Sá yðar sem syndlaus er, kasti fyrsta steininum.". Þeir sem heyra þetta týnast fljótt úr hópnum, þar til allir eru farnir.

Hefði Jesú þarna notað Gamla testamentið sem siðferðislegan grundvöll, þá hefði hann vitaskuld verið sammála því að það ætti að grýta konuna. Það er jú það sem stendur að eigi að gera í bókinni. Hins vegar segir hann ekki hreint út að hann sé á annarri skoðun, heldur bendir öllum sem eru þarna samankomnir að þeir séu það í rauninni líka. Maður sannfærður um siðferði út frá gamla testamentinu hefði líklega sagt: ,,Það stendur ekkert í lögum Móse um syndastöðu þeirra sem eiga að grýta hórsekar konur; auðvitað get ég grýtt hana.". En í sögunni hætta þeir allir við, og konan fær að lokum frelsi eftir að allir hafa yfirgefið hana hjá Jesú.

Jesú er þarna ekki bara að grafa undan því sem stendur í gamla testamentinu, heldur mætti einnig túlka það þannig að maður eigi að finna sína eigin sannfæringu á siðferði þess sem maður gerir. Það er boðskapur sem ég er sammála - og ef fleiri myndu lesa það úr biblíunni en gera, þá myndu kannski fleiri vera sammála samkynhneigðum brúðkaupum og stofnfrumurannsóknum.

Hjalti Rúnar:

Athyglisvert, þetta er rétt; allavega í minni útgáfu af íslensku biblíunni frá 1914, þá er öll klausan innan hornklofa. Það er ekki svo á BibleGateway hins vegar, síðunni sem ég set tengla við í þessum skrifum.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 30/01/07 23:11 #

Það er ekki svo á BibleGateway hins vegar, síðunni sem ég set tengla við í þessum skrifum.

Reyndar skiptir það ekki máli hvaða útgáfur hafa þetta í hornklofa og hverjar gera það ekki (þrátt fyrir að útgáfan sem þú vísaðir á NIV, er útgáfa bókstafstrúarmann, þeirra sem telja hvorki mótsögn né villu vera að finna í biblíunni, þannig að það er ekki beint áreiðanleg þýðing). Aðalatriðið er það að allt bendir til þess að þessi saga sé síðari tíma viðbót.

Jesú er þarna ekki bara að grafa undan því sem stendur í gamla testamentinu, heldur mætti einnig túlka það þannig að maður eigi að finna sína eigin sannfæringu á siðferði þess sem maður gerir. Það er boðskapur sem ég er sammála - og ef fleiri myndu lesa það úr biblíunni en gera, þá myndu kannski fleiri vera sammála samkynhneigðum brúðkaupum og stofnfrumurannsóknum.

Ég skil þetta ekki alveg. Ég sé ekki alveg hvar þú sérð Jesú boða að "maður eigi að finna sína eigin sannfæringu á siðferði þess sem maður gerir". Held að þú sért að lesa inn í söguna. Það er síðan ljóst að Jesús hefði verið á móti samkynja brúðkaupum (a.m.k. ef við tökum mark á guðspjöllunum). Bæði herti hann kynlífssiðferði Gt og auk þess virtist hann hafa litið á hjónaband sem samband karls og konu.

Jú, dómarabók ku vera fimmta bók Móse,

Dómarabókin er reyndar ekki fimmta bók Móse ;)

Þessi lína Jesú gefur biblíunni engan vegin ástæðu til að vera notuð sem grundvöllur siðferðiskenninga (ég vil halda því fram að ekkert rit sé grundvöllur siðferðiskenninga), heldur bara að Jesú sé skrifaður sem afar spakur maður.

Ég myndi nú halda að bullið sem hann segir annars staðar bendi til þess að hann hafi ekki verið "afar spakur maður". Síðan sé ég ekki þá djúpu speki sem á að vera í þessum orðum hans. Þarf að vera afskaplega vitur til þess að vera á móti því að grýta hórur?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.