Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Meðferðarstarf kristilegra félaga

Þórarinn Tyrfingsson gagnrýnir þessa dagana að samtök ofsatrúarfólks skuli vera tekið framfyrir fagfólk þegar kemur að meðferð vímuefnasjúklinga. Að sjálfsögðu hefur hann mikið til síns máls. Við þurfum ekki annað en að horfa á úttektina á Jóa og Guggu í þættinum Kompás á Stöð 2 til að sjá hvers konar meðferð fíklar fá á trúarlegum meðferðarstofnunum á borð við Byrgið. Þetta meðferðarstarf er einfaldlega eins ófaglegt og það getur með góðu móti orðið. Samtökin Samhjálp sem tekið hafa við sjúklingum Byrgisins bjóða ekki einu sinni upp á lækna, félagsráðgjafa og sálfræðinga, heldur einungis handayfirlagningar og bænaþus. Byrgið hafði þó einn eða tvo lækna á sínum snærum ofan í allt mömbódjömbóið.

En það sjá eki allri hlutina á sama raunsanna hátt og Þórarinn. Á blogginu Hjaltdal var nýlega póstað eftirfarandi um Guðmund og Byrgið:

Hins vegar hefur það vakið athygli mína í fyrirspurnum fjölmiðlamanna og ummælum fólks á götunni og á blogginu að þetta gefi okkur ástæðu til að alhæfa um svona "kristilega" starfsemi. Ég las meðal annars einhversstaðar í bloggheimum þá merkilegu staðhæfingu að "Guð sjái vel um sína" og því sé spurt hvort nokkuð sé treystandi á menn sem boða trú á Guð. [...] En í mínum huga er engin sérstök ástæða til að blanda Guði í málið. Hann er örugglega ekkert sáttur við það þegar menn ljúga eða svíkja..............alveg óháð því hvort menn hafi gefið út yfirlýsingar um að trúa á hann eða ekki.

Þetta snýst ekki um einhverja vonda kalla sem slá sér upp með alsaklausum guði. Þetta liggur allt saman í eðli trúfélaga sem heimsendakölta með karismatíska leiðtoga á toppnum. Trúarhugmyndir á borð við slíkar eru einfaldlega samfélaginu skaðlegar, véla fólk undir valdasjúka leiðtoga með hausinn fullan af bulli og kemur í veg fyrir sjálfstæða, gagnrýna hugsun.

Það er enginn munur á Þjóðkirkjunni og Byrginu í þessu tilliti, hvort tveggja eru heimsendasöfnuðir sem byggja á ranghugmyndinni um guðinn Jehóva sem gerðist maður. Dæmalaus vitleysa allt saman. Og Guðmundur í Byrginu er bara enn einn Jesúsinn sem arkar um á þessari jörðu og fyllir hugi manna af kjaftæði.

Meðferðarúrræði fíkla eiga að vera fagleg. Það verður að gilda það sama um þá og t.d. krabbameinssjúklinga. Það er í raun skandall að fíklum sé í stórum stíl boðið upp á það meðferðarúrræði að undirgangast lækningasamkomur hjá kraftaverkaköltleiðtogum. Hvað eru menn eiginlega að hugsa?

Birgir Baldursson 19.01.2007
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 19/01/07 10:01 #

Í Kastljósinu í gær reyndi hann að skauta fram hjá því að svara að SÁÁ og skrefin 12 eru líka byggð á trúarlegum forsendum. Hann sagði að í 12 skrefunum væri gert ráð fyrir að fólk tryði á æðri mátt og sá æðri máttur gæti verið hvað sem er.

Ég held að hann sé ekki mikið "niðrá gólfinu" lengur þar sem ég veit um að það viðgengst trúboð innan SÁÁ og að fólk hefur hröklast úr meðferð vegna þess trúaráróðurs sem stundaður er þarna.

Þess vegna finnst með skjóta skökku við að hann sé að gagnrýna meðferðir sem eru ekkert annað en einhverskonar heilaþvottastöðvar þegar hann er í forsvari fyrir eina slíka.

Ég tek það fram að ég er algerlega sammála honum þegar kemur að þessar gagnrýni hans á Byrgið og Samhjálp o.s.frv. en finnst að gagnrýnin mætti koma frá einhverjum öðrum sem lendir ekki í vandræðum við að réttlæta sína eigin meðferð á nákvæmlega sömu forsendum og hann gagnrýnir hina meðferðaaðilana.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 19/01/07 10:17 #

Ég starfaði í þrjá mánuði hjá SÁÁ árið 2000 og get vottað að Þórarinn er mikið "niðrá gólfinu". SÁÁ byggir ekki á kristilegum grunni heldur faglegum og þótt í AA sé talað um æðri mátt eru margir sem taka ekki trúarlegan eða guðlegan pól í þá hæð en líta á AA-samtökin sem sinn æðri mátt, kærleikann, bækur eða vísindin. Gagnrýni Þórarins er fullkomlega réttmæt að mínu viti. Athyglisvert þótti mér að hann lagði ríka áherslu á siðgæði í svona starfi og vísaði í siðareglur viðkomandi fagfélaga. Augljóst að hann hefur ekki mikla trú á "kristnu siðgæði" sem notað er til að réttlæta trúarlega starfsemi í skólum, á kostnað faglegrar starfsemi.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 19/01/07 10:33 #

Nú veit ég af því að SÁÁ er stundað trúboð, þ.e. bænastundir o.s.frv. fyrir fólk sem komið er í meðferð. Fólk er látið fara niðrá skeljarnar og biðja til síns æðri mátta. Ég tengi það óneitanlega við trú á hindurvitni.

Það hljómar ekki mjög faglega fyrir mig þótt að ég geri mér alveg grein fyrir að SÁÁ hefur sér til stuðnings fagaðila eins og lækna og sálfræðinga og er án efa miklu skárra en Byrgið og Samhjálp.

T.d. ef ég ætti það til að þurfa að fara í meðferð þá efast ég um að SÁÁ gæti verið einhver valmöguleiki fyrir mig. Ætti minn æðri máttur að vera vísindin? Æi - mér finnst það frekar asnalegt.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 19/01/07 10:55 #

Í AA (sem er kynnt hjá SÁÁ) er talað um "bæn og hugleiðslu" en engum er sagt að fara niður á skeljarnar hjá SÁÁ. Á Vogi og Vík eru svokallaðar kapellur, herbergi þar sem sjúklingar geta setið í hljóði, beðist fyrir eða hugleitt. Ég kannast ekki við að trú sé ýtt að fólki hjá SÁÁ, það er alveg á hreinu. Þar eru hins vegar haldnir AA-fundir og margir í AA taka kristilega pól í hæðina, þótt aðrir geri það ALLS EKKi.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 19/01/07 11:07 #

Jú, rétt. Dæmið sem ég þekki til er frá Vogi en þarf ekki að gera faglegum meðferðum eins og huglægri atferlismeðferð hærra undir höfði og fjölga faglegum valkostum þegar kemur að meðferð áfengis- og vímuefnasjúklinga?

Eins og ástandið er núna finnst manni að SÁÁ sé einhverskonar "ríkismeðferð".


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 19/01/07 11:56 #

Alveg rétt. Faglegt starf má bæta hjá SÁÁ og huglæg atferlismeðferð er sterkur leikur. Vegna fjárskorts sagði SÁÁ upp sálfræðingum sínum 2001 eða 2002. Ég veit ekki hvernig staðan er núna. En læknisfræðilega held ég að staðan sé nokkuð góð.


danskurinn - 19/01/07 12:44 #

Jón Magnús skrifar: ”Nú veit ég af því að SÁÁ er stundað trúboð, þ.e. bænastundir o.s.frv. fyrir fólk sem komið er í meðferð. Fólk er látið fara niðrá skeljarnar og biðja til síns æðri mátta.”

Þetta er rakalaust bull hjá þér og þú veist ekkert um trúboð eða bænastundir hjá SÁÁ.Þú hljómar bara eins og kjánalegur og fordómafullur vitleysingur.

Á vef SÁÁ stendur:

"Hjá SÁÁ starfa í allt yfir 100 starfsmenn í 98,4 stöðugildum. Starfsfólk í 67 stöðugildum vinnur að faglegri sjúkrastarmeðferð meðan starfsfólk í tæplega 24 stöðugildum vinna í eldhúsi, við ræstingu, við öryggisgæslu og þvotta. Starfsmenn í 7.4 stöðugildum vinna á skrifstofu samtakanna sem er að hluta kostuð af sjúkrastarfseminni.

Á Sjúkrahúsinu Vogi starfa 4 læknar með sérfræðimenntun og sérfróðir í vímuefnalækningum auk þess sem þar er staða deildarlæknis sem sjaldnast er mönnuð. Auk starfanna við Sjúkrahúsið Vog vinna læknarnir við göngudeildarþjónustu við Sjúkrahúsið og sinna þar bráðþjónustu, greiningu og viðhaldsmeðferð við ópíumfíkn. Þeir hafa einnig starfsskyldur á eftirmeðferðarheimilum og göngudeildum SÁÁ og sinna vaktþjónustu.

Hjúkrunarforstjóri er ráðinn að Vogi sem ber faglega ábyrgð á hjúkrun og stýrir henni. Þar vinna hjúkrunarfræðingar í 8 stöðugildum og sjúkraliðar einnig í 8 stöðugildum. Hjúkrunarfræðingarnir og sjúkraliðarnir eru sérfróðir og með mikla reynslu í vímuefnameðfereð og sumir þeirra hafa áratugareynslu.

Sameiginleg vaktþjónusta er á öllum sjúkrastofnunum SÁÁ. Á Sjúkrahúsinu Vogi er hjúkrunarfræðingur á vakt allan sólarhringinn. Læknir er einnig á vakt á sjúkrahúsinu alla virka daga og á bakvakt utan dagvinnutíma. Á endurhæfingarheimilunum á Staðarfelli og á Vík er áfengisráðgjafi á vakt allan sólarhringinn og hefur hann samband við vakthafandi lækni ef ástæða þykir til.

Við sjúkrastofnanir SÁÁ vinna áfengis- og vímuefnaráðgjafar í 40 stöðugildum þar af vinna 18 á Sjúkrahúsinu Vogi."

Þessi starfsemi er fullkomlega ósambærileg við starfsemi Byrgisins eða starfsemi annarra ofstrúarhópa. Starfsemi SÁÁ heyrir undir heilbrigðisráðuneytið og uppfyllir ströngustu kríteríur heilbrigðislaga og faglegar siðareglur.


danskurinn - 19/01/07 12:57 #

Reynir: "Vegna fjárskorts sagði SÁÁ upp sálfræðingum sínum 2001 eða 2002. Ég veit ekki hvernig staðan er núna."

Það er rétt hjá þér. Vegna skilningsleysis ráðamanna þurfti að segja upp tveimur sérfræðimenntuðum sálfræðingum á þessum tíma. Núna er aftur á móti starfandi einn sálfræðingur í fullu starfi hjá SÁÁ. Það er náttúrulega sárgrætilegt að á sama tíma og SÁÁ þurfti að segja upp þessum sérfræðingum var Byrgið að fá 200 milljónir í ókeypis húsnæði og að auki eftirlitslausar greiðslur úr félagsmálaráðuneytinu. Ég vek athygli á faglegri úttekt ÞT (sjá vef SÁÁ) frá þessum tíma þar sem hann varar við því sem nú hefur gerst. Í úttektinni kemur fram að vímuefnafíkn þeirra einstaklinga sem um ræðir er svo sannarlega ekki eini vandi þeirra.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 19/01/07 13:17 #

Danskurinn, þú ert greinilega ekki búinn að lesa afganginn af svörunum mínum þar sem viðurkenni það alveg að SÁÁ er ekki á sömu hillu og Byrgið.

Ég hef það bara frá fyrstu hendi sögur frá meðferðinni. Þótt að SÁÁ gerir sig út fyrir að vera faglega stofnun og hún er það vissulega þá er þarna hluti af meðferðinni sem er ekki faglegur og snýr að skrefunum 12.

Það á ekkert að taka þessa umræðu persónulega þótt SÁÁ fái, að ég tel, málefnalega gagnrýni frá mér. Því það sem þeir segja um "trú á æðri mátt" þá virðist í sumum tilfellum (þeim sem ég þekki til) sá máttur vera trú á hinn kristna gvuð og það tel ég ekki mjög faglegt.

Getur vel verið að það sé misjafnt eftir því fólki sem sér um þessar "samverustundir" en stend fast við mína frásögn að fólk hafi farið niður á skeljarnar og beðið til gvuðs og að fólk hafi hrökklast úr meðferð vegna mikillar áherslu á trúa á gvuð.


danskurinn - 19/01/07 13:49 #

Jón Magnús: ”Ég hef það bara frá fyrstu hendi sögur frá meðferðinni.”

Það ætti að vera fyrir neðan virðingu þín að láta eins og fávís kjaftakerling. Þú hefur í raun ekkert frá fyrstu hendi. Eða hvað af starfsfólki SÁÁ lætur sjúklinga fara á skeljarnar og biðja? Fylgdi það ekki sögunni? Eru það kannski kokkarnir í eldhúsinu?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 19/01/07 13:55 #

Þessi umræða er komin á lágt plan. danskurinn, vinur Jóns hefur farið í meðferð og hrökklaðist úr henni af þeim ástæðum sem Jón Magnús nefnir. Þannig hefur Jón Magnús þessa frásögn frá fyrstu hendi, sá er hrökklaðist úr meðferð sagði honum frá þessu.

En þetta er að mínu mati aukaatriði, hér er verið að ræða sértrúarsöfnuði sem reka meðferðarstarf án þess að hafa til þess faglegar forsendur. Enginn gagnrýnir SÁÁ á sömu forsendum, þó sú starfssemi sé ekki yfir gagnrýni hafin.


danskurinn - 19/01/07 14:10 #

Matti skrifar: ”Þessi umræða er komin á lágt plan. danskurinn, góður vinur Jóns hefur farið í meðferð og hrökklaðist úr henni af þeim ástæðum sem Jón Magnús nefnir. Þannig hefur Jón Magnús þessa frásögn frá fyrstu hendi, sá er hrökklaðist..”

Það er nákvæmlega það sem ég er að segja. Umræða byggð á óljósum frásögnum einhvers sem er ekki staddur með okkur, er sannarlega á lágu plani. Það er ekkert á henni að byggja. Og maður ætti ekki að koma svona kjaftakerlingum til bjargar. Með því ert þú farinn að segja sömu sögur og þykist hafa allt eftir fyrstu hendi líka. Þannig er það nú.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 19/01/07 14:18 #

jájá - nóg komið :-)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 19/01/07 21:39 #

SÁÁ byggir ekki á kristilegum grunni heldur faglegum og þótt í AA sé talað um æðri mátt eru margir sem taka ekki trúarlegan eða guðlegan pól í þá hæð en líta á AA-samtökin sem sinn æðri mátt, kærleikann, bækur eða vísindin.

Starf SÁÁ er að mínu viti faglegt, en brotalömin liggur í því að AA hefur aðgang að sjúklingum meðferðarstofnunarinnar (líkt og um Vinaleið væri að ræða) og SÁÁ beinir afturbötungum í 12 spora kerfið hjá AA.

Hugsanafeillinn hjá SÁÁ liggur í því að taka 12 sporin sem góða og gilda eftirmeðferð. Við vitum að þau ganga út á að viðurkenna uppgjöf og leggja allt vald í hendur æðri máttar, hvort sem hann er guðlegs eðlis eður ei. Þetta tel ég ekki farsæla leið að fara ef maður er haldinn fíkn, heldur ætti þvert á móti að stefna þessu fólki í öfuga átt, innræta því að það geti einmitt tekið völdin í sínar eigin hendur. Hegðun fíkilsins lýtur viljastýringunni, það er ekkert sem heitir ósjálfráð hegðun þegar kemur að ástundun fíknar. Í stað þess að telja fólki trú um að það ráði ekki við þessa hegðun sína ætti að þjálfa það í að haga atferli sínu á annan hátt.

Hugræn atferlismeðferð er spor í rétta átt. Uppgjafarvæl AA-költsins er mein sem þarf að útrýma.

Svo þarf að fara að notast við lyfjagjafir við eftirmeðferðina. Þessi andstyggð AA á allri lyfjagjöf er ábyrgðarlaust kjaftæði sem fellir margan góðan drenginn og fraukuna. Naltrexone hefur t.d. sannað gildi sitt sem hamlandi bæði á fíkn og vímuáhrif, en enginn áhugi virðist vera hjá meðferðarbatteríinu hér til að taka upp slíkar lyfjagjafir.

Er ekki litið á þetta sem sjúkdóm? Af hverju er boðið upp á syndaaflausn og halelújasamkomur sem meðferðarúrræði á meðan hörkugóð lyf sitja óhreyfð uppi í hillu?


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 19/01/07 21:50 #

Takk Birgir, ég sé að ég hef vaðið í villu ;) Þ.e. SÁÁ er þá "afeitrunin" og AA er "eftirmeðferðin"? Vinur minn var þá örugglega að tala um eftirmeðferðina sem trúboð og heilaþvottarstarfsemi. Ég biðst afsökunar á þessu ruglingi, ég hélt að þetta væri sama batterí.

Maður þarf kannski að skella sér í meðferð við tækifæri :)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 19/01/07 22:20 #

Aha, en stærsti gallinn er sá að SÁÁ hleypir AA inn á gafl hjá sér. Mjög veikt fólk inni á þessari stofnun er því nokkuð varnarlaust gagnvart boðberum uppgjafarinnar og aumingjagangsins þar sem lausnin er æðri máttur. Fyrir þetta þarf að skamma SÁÁ.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 19/01/07 22:26 #

Auk þess megum við ekki gleyma því að þetta með að hinn æðri máttur geti verið hvað sem er annað en guðdómur er bara fyrirsláttur þarna hjá AA. Þeir tala svona til að lokka til sín vantrúaða, en áður en varir er búið að skipta hinum óskilgreinda æðri mætti út fyrir algóðan og kristilegan guð. Það er engin tilviljun að langflestir sem fara í gegnum 12 sporin enda sem sem gargandi trúarnöttarar.

Það þarf ekki annað en lesa AA-bókina til að koma auga á þennan tvískinnung. Hafa menn lesið kaflann um trúlausa í þessari bók?


danskurinn - 20/01/07 00:33 #

Birgir skrifar: "Hugsanafeillinn hjá SÁÁ liggur í því að taka 12 sporin sem góða og gilda eftirmeðferð."

Þetta er reyndar ekki rétt. Greining og afeitrun fer fram á Vogi og tekur frá ca 10 dögum, allt eftir ástandi fólksins. Læknapilluæturnar eru lengst í afeitrun. Eftir Vog tekur við göngudeildarþjónusta eða eftirmeðferð á Staðarfelli og Vík. Göngudeildarjónusta tekur allt að eitt ár og eftirmeðferð á Staðarfelli og Vík tekur venjulega 28 daga.

Það er í öllum grundvallaratriðum hugsanafeill að kalla AA fundi eftirmeðferð. Hvað fólk gerir eftir meðferð er þeirra mál. Það er þó mælt með því að fólk haldi sér vakandi gagnvart ýmsum hættum sem alkóhólisti þarf að vara sig á. Sögulega er AA vissulega mjög stór hluti af meðferð fíknisjúkdóma. Það stafar af því að læknar stóðu ráðþrota gagnvart þessum vanda á sínum tíma svo sjúklingarnir sjálfir fóru að tala saman um hvað skipti máli og hvað bæri að varast. Það er aðeins nýlega sem flestar fagstéttir eru orðnar sammála um að alkóhólisti eigi ekki að drekka og verði ekki kennt að drekka. Og það er erfitt fyrir "venjulegan" mann að halda sig frá vímuefnum, hvað þá alkóhólista sem sumir þurfa að kljást við mikla fíkn. Í verstu tilfellum fíknar er farið að gefa lyf svo fólk geti lifað eðlilegu lífi, en því miður er lítill skilningur ráðamanna gagnvart kostnaði sem fylgir slíkri lyfjagjöf. SÁÁ hefur í 5 eða 6 ár gefið sprautufíklum slík lyf með mjög góðum árangri. Það er kostnaður sem SÁÁ greiðir af sjálfsaflafé sínu.

Mjög sterk AA hreyfing er á Íslandi. SÁÁ hefur lengi þolað harða gagnrýni frá AA fyrir að nota ekki "AA fræðin" í meðferðinni. Margir í AA eru í raun bókstafstúarfólk. Það er jafnvel fólk sem fer í meðferð til SÁÁ og fer svo að stunda AA þar sem það fær þá flugu í höfuðið að engin þörf sé á SÁÁ, því AA sé svo frábært. Fullyrðingar hér á þessum vef um að SÁÁ sé e.k. útibú frá AA eða öfugt eru kjánalegar.

Allar upplýsingar um starf SÁÁ, fjármál þess og meðferðartölur eru ínáanlegar á vef SÁÁ. Hafi menn raunverulega áhuga á því að tjá sig um starfsemi SÁÁ er því nærtækast að vitna beint í þau gögn.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 20/01/07 14:32 #

Eru ekki haldnir AA-fundir inn á Vogi?


danskurinn - 20/01/07 21:08 #

Ég er örugglega ekki rétti maðurinn til að standa fyrir svörum þegar AA liggur undir gagnrýni. Það er hins vegar staðreynd að alkóhólisti þarf nauðsynlega á ek stuðningi að halda. Það er einnig staðreynd að sá stuðningur kemur með eðlilegum hætti frá öðrum alkóhólistum sem glíma við samskonar vanda. Öflug stuðningssamtök tryggja að slíkur stuðningur sé til staðar til frambúðar. AA samtökin er hundgömul samtök og eru til staðar þegar á þarf að halda. Það eru til fleiri stuðningssamtök s.s., Cocaine Anonymous, Narcotics Anonymous, Marijuana Anonymous og LifeRing Secular Recovery sem eru veraldleg stuðningssamtök. Formið á þessum samtökum er það sama og AA formið vegna þess að formið virðist halda lífi í samtökunum. Hér er til ein Secular/veraldleg deild sem ég tók einmitt þátt í að stofna 1. janúar 2000. Hún er frekar fámenn.

Sjúklingum á Vogi er ráðlagt að leita eftir stuðningi þegar þeir eru komnir úr meðferð. AA samtökin senda fólk á Vog til að stjórna fundum og kynna starfsemi sína og form fundanna. Starfsfólk SÁÁ fylgist held ég með þessum fundum og reynt er að hafa áhrif á að þessir fundir fjalli um það sem máli skiptir fyrir fólkið sem er í meðferð.

Meðferðin hjá SÁÁ og dagskráin er í stöðugri endurskoðun. Ég vek athygli á að SÁÁ og Íslensk erfðagreining hafa gert samstarfssamning um rannsókn á erfðum fíknsjúkdóma sem er liður í viðamiklu Evrópsku samstarfsverkefni átta rannsóknarstofa um rannsóknir á líffræðilegum orsökum fíknar sem hlotið hefur 8,1 milljóna Evra styrk frá Evrópusambandinu. Grundvöllur þessarar rannsóknar er starfsemi SÁÁ og upplýsingar sem þar er safnað. Starfsemi þessi stenst allar kröfur sem styrkveitendur fara fram á um vísindalega nákvæmni og hlutleysi enda er þetta hæsti styrkur sem Evrópusambandið hefur greitt fyrir rannsókn af þessu tagi.

Ykkur ætti því að vera óhætt í meðferð á Vogi ;-)


Árni Þór (meðlimur í Vantrú) - 21/01/07 02:42 #

Það þarf ekki annað en lesa AA-bókina til að koma auga á þennan tvískinnung. Hafa menn lesið kaflann um trúlausa í þessari bók?

Jú, hann er yndislega vondur :) Eilífar vísanir í himnaföður og skapara gera það að verkum að það er ómögulegt að skilja umræðu um "æðri mátt" sem annað en vísanir í hinn kristna guð..


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 23/01/07 02:45 #

Ég er örugglega ekki rétti maðurinn til að standa fyrir svörum þegar AA liggur undir gagnrýni.

En hér liggur SÁÁ undir gagnrýni fyrir að leyfa AA að vaða uppi innan meðferðarstofnunar sinnar og ráðleggja fólki að ganga í AA.


danskurinn - 23/01/07 03:44 #

"En hér liggur SÁÁ undir gagnrýni fyrir að leyfa AA að vaða uppi innan meðferðarstofnunar sinnar og ráðleggja fólki að ganga í AA."

Gagnrýni þinni hefur verið svarað. Á vef og í meðferð SÁÁ er vísað á fleiri stuðningssamtök. Meira er varla hægt að gera í bili. Vonandi vex og dafnar hin veraldlega deild og fer að koma með fundi á Vog. Sá tími kemur. Reyndar eru skoðanir þínar á AA hálfgerð hystería. Reynir hefur reynt að útskýra fyrir þér hvernig AA deildir eru fjölbreytt flóra og fleiri hafa eflaust gert það líka. Kannski ertu fastur í valkvæmri hugsun?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 23/01/07 04:53 #

Kannski já, en kannski geri ég mér bara vel grein fyrir eðli þess meðferðarforms sem AA byggir á, alið á valdaleysi einstaklingsins í stað þess að styrkja sjálfstraust og atferli sem leiðir ekki af sér drykkju. Þetta byggir í raun á svipuðum ramma og meðferð trúarsamtaka á borð við Byrgið, fólki er innrætt synd og fyrirgefning, þótt vitað er að hið hugræna ástand hafi ekkert með slíkt að gera. Af hverju eiga menn að biðjast afsökunar á hegðun sem þeir ráða ekki við?

Eða eins og þeir bentu á, þeir félagar Penn & Teller í ágætu prógrammi um 12 sporin: Þegar menn fá exem, þá gildir að hætta að klóra sér í sárunum og bera þess í stað á þau rakakrem. Maður hringir ekki vælandi í gamlar kærustur og biðst afsökunar á því að hafa verið skíthæll. Ef alkóhólismi er sjúkdómur, hvernig í veröldinni getur það verið partur af meðferðinni að hringja í fólk og biðjast fyrirgefningar á hegðun sinni? Er ekki nóg að breyta henni bara?

Alkóhólismi er hegðunarvandamál.

En allt er er þetta auðvitað gert til að lauma inn á fólki guði almáttugum. AA er költ.


Heimir - 30/07/13 23:41 #

Fáa heyri ég tala meira um trú en meðlimi vantrúar.

Sumir trúa því að til sé æðri máttur en aðrir trúa því að þessi æðri máttur sé uppspuni. Hvorutveggja er trú og á öllu sýnist mér að vantrú sé trúfélag þeirra sem trúa því að æðri máttur sé ekki til.

Mörg trúfélög hafa skapað sér umburðarlyndi fyrir öðrum trúfélögum og má þar nefna til dæmis þjóðkirkjuna. Umburðarlyndi er þó sennilega hvað mest innan AA samtakanna og þeirra samtaka sem sprottið hafa upp frá hugmyndafræði þeirra.

Þó eru nokkur trúfélög sem hafa minna og jafnvel ekkert umburðarlyndi gagnvart trúfrelsi og/eða öðrum trúfélögum. Þessi trúfélög fordæma þá sem hafa aðra trú en þeir sjálfir.

Ég upplifi félagið vantrú sem slíkan öfgatrúarhóp sem ekki hefur umburðarlyndi gagnvart þeim sem trúa öðru.

Ég get lifað sáttur með það að sumir trúi því að ekkert sé til æðra en manneskjan og að ekkert sé til nema það sem við sjáum. Slík trúfélög eiga rétt á sér eins og önnur trúfélög.


Elsa (meðlimur í Vantrú) - 31/07/13 08:59 #

Með þessu trúarskilgreining eru einnig flestir aðdáendaklúbbar trúfélög þar sem þeir trúa því að þeirra uppáhaldslið sé betra en önnur lið...

Ég sem trúlaus skiptir mér ekki af trúarskoðanir annara svo lengi sem þeirra trú er ekki að skipta sér af mér og minni fjölskyldu. En þegar ríkiskirkjan reynir að ná til barnsins míns í skólanum hans, eða þegar reglur kirkjunnar segir hvað ÉG á að gera (eða gera ekki) á MÍNUM frídögum, þá segi ég mína skoðun á þeirra trú.

Áhugavert er líka að í umræðunni um moskunni virðist trúlausir sýna töluvert meira umburðarlyndi heldur en kristnir menn.

Ég er sterkt fylgjandi trúfrelsi. Þú mátt trúa hvað sem þú vilt, hvort sem það er guð, allah eða arsenal. En ég vil hafa frelsi frá trú á opinberum stöðum og í mínu heimili. Trúfélag sem ég tilheyri ekki á ekki að hafa það vald að stjórna hvernig ég lifi mínu lífi.

Til að koma íveg fyrir misskiling, þá vil ég ekki að sett verði upp skilti á opinberum stöðum sem segir að guð sé ekki til. Kennarar eiga ekki að banna nemendum að ræða sín á milli. Það væri trúleysisboð. Það er ekki hlutleysi.


Ragnar - 05/08/13 04:58 #

Einstaklingum á að vera í sjálfsvald sett hvar þeir fari í meðferðir. Séu þeir ófærir um slíkt verða ættingjarnir að velja vel hvar þeir séu best niðurkomnir. Ef viðkomandi er trúhneigður þá væri honum ef til vill betur borgið á trúarlegum stað, því "placebo" áhrifin myndu mögulega hjálpa honum að ná bata. Ef viðkomandi er trúlaus og kominn á vissan aldur, þá er ólíklegt hann "frelsist" og líkara þetta færi bara í taugarnar á honum og betra að setja hann á annan stað. Það er einstaklingurinn og hans hagsmunir sem eiga að ráða. Hagsmunir meðferðaraðila, eða "réttur" þeirra, á engu að skipta. Þeir eru þjónustuveitendur, ekkert meira. Aðalvandamálið í dag eru ekki meðferðarheimilin, fyrir utan skort á þeim það er að segja, og það er ekki skrýtið fáir vilji fara í slíkan geira með svo slæmt orð á sér almennt, svo það er ekki skrýtið þeim fjölgi ekkert. Menn eru almennt frekar miklir heiglar og þora ekki að eiga á hættu að missa mannorðið og velja sér því "öruggari" starfsvettvang. Fyrst lítil hætta er á að meðferðarheimilum fjölgi er betra að einbeita sér að því að breyta fíkniefnalöggjöfinni. Það á ekki að fara með veikt fólk eins og glæpamenn, og það verður að gera skírari greinamun á notkun vægra og harðari eiturlyfja. Það ætti að setja svipuð lög um eiturlyf og nú gilda um vændi. Neysla þeirra ætti að vera lögleg en hámarksviðurlög við sölu þeirra.


Ragnar - 05/08/13 05:04 #

Væri ekki betra að trúfélögin settu ÖLL upp meðferðarheimili og borguðu sérfræðingum til að starfa þar fyrir þennan pening sem þau fá frá ríkinu? Væri ekki betra að setja á stofn arabískumælandi meðferðarstofnun á Íslandi og ráða sérfræðinga sem kunna skil á menningu og tungumálum múslima hér á landi, en að hafa tvær trúarlegar byggingar múslima hér á landi fyrir ríkisfé? Sjálfur vill ég ekki að þessi trúfélög fái krónu frá ríkinu, og ekki Siðmennt heldur, og finnst það ekkert siðferðilega réttlætanlegra en tilvist Þjóðkirkju. Einstaklingar eiga sjálfir að sjá um að reka sín trúar- og lífsskoðunarmál, hafi þeir smekk fyrir slíkum leiðindastofnunum eins og kirkjum, moskum og "Siðmennt", sem þeim er velkomið. En meðan þessi trúfélög fá ennþá greitt frá ríkinu finnst mér lágmark að þau þjóni einhvers konar samfélagslegum tilgangi og séu ekki bara sóun á fé skattborgara. Mér er jafn illa við féið sem fer í að byggja moskuna og það sem fer í Þjóðkirkjuna, og ég kæri mig ekkert um að styrkja Siðmennt, Aðventkirkjuna né búddhista með mínu skattfé heldur. Ætli Omega sé ekki líka á spenanum?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.