Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hvað er nú trú aftur?

Trú er sannfæring ein og sér, engu studd, hvorki með gögnum, rökum eða raun. Þar sem trú, þegar hún er bara trú, og stendur ein og sér, gefur hún til kynna að hún sé bara það, sannfæring. Og það ber með sér að þetta sé þá sannfæring sem er engu studd, með þeirri augljósu fjarveru stuðnings sönnunargagna, raunar og raka sem þessi einvera ber með sér. En trú hættir að vera trú, í merkingunni trú eins og sér, þegar hún er rökstudd, og hefur raunveruleg sönnunargögn á bak við sig. Á þeirri stundu er trúin ekki bara trú (ein og sér), heldur rökstudd sannfæring, sannfæring sem er grundvölluð í raunveruleikanum.

Svo, að vera laus við trú, að vera trúlaus, þýðir þá að vera laus við slíka trú, trú sem stendur eins og sér, óstudd raun, rökum og sönnunum.

Þessi blæbrigðamunur hugtaksins trú er oft og ævinlega ruglaður saman og gerður að engu í þeim illa falda orðaleik trúmanna, um að trúleysi sé samt trú (í lausu lofti gripin, líkt og þeirra). Og með þessu gera þeir að engu þann regin mun sem er á sannfæringu einni og sér sem engu er studd, og síðan þeirri sannfæringu sem er studd, og það sönnunum, rökum og raun.

Ég tel að allir trúleysingjar sem koma auga á þennan útúrsnúning ættu óhikandi að úthrópa þennan blekkjandi orðaleik fyrir það sem hann er. Og útskýra síðan tryggilega að sannfæring ein og sér, engu studd, er ekki það sama og sannfæring studd rökum og raun. Þessu má ekki rugla saman. Því milli þessa tveggja gerða af sannfæringu er eðlismunur sem himin og haf eru á milli.

Kári Svan Rafnsson 14.01.2007
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Geiri - 14/01/07 12:38 #

Alveg ágæt skilgreining hjá þér Kári.

Tengt "trú". Ég horfði á tvær heimildamyndir um daginn, báðar um kristna trú. Innihald þeirra er óhuggulega sláandi. Mæli eindregið með því að áhugasamir, sem ekki hafa séð þær nú þegar, berji þær augum.

Þær heita: Doomsday Code og Jesus Camp.


Khomeni (meðlimur í Vantrú) - 14/01/07 14:58 #

Trú = sannfæring án rökstuðings.


Þorsteinn Þorvaldsson - 14/01/07 16:56 #

Er hægt að nota orðið "sannfæring" fyrir trú? Þýðir það orð ekki "að færa sönnur" á eitthvað?

Ætti kannski að vera: Trú = Ósannfæring. :)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 14/01/07 18:46 #

sann|fær|ing -ar KVK • fullvissa, það að vera sannfærður um e-ð óbifanleg sannfæring e-s

Hugsanlega hefur upprunaleg merking þessa orðs táknað að taka eitthvað gilt af því að færðar voru sönnur á það. En þá hefur sú merking tapað sér og nú táknar þetta orð einfaldlega fullvissu burtséð frá sönnunarfærslu.


mofi - 15/01/07 10:26 #

Vægast sagt ósammála þessari skilgreiningu. Webster skilgreinir "belief" svona:

http://www.m-w.com/dictionary/belief conviction of the truth of some statement or the reality of some being or phenomenon especially when based on examination of evidence

Encyclopaedia Britannica skilgreinir "belief" svona:

http://www.britannica.com/eb/article-9015210/belief a mental attitude of acceptance or assent toward a proposition without the full intellectual knowledge required to guarantee its truth. Believing is either an intellectual judgment or, as the 18th-century Scottish Skeptic David Hume maintained, a special sort of feeling with overtones that differ from those of disbelief

Ég veit ekki um nokkurn trúaðann sem myndi segja að hans trú er órökstudd, án reynslu og án gagna. Ég sannarlega tel mína trú vel rökstudda og ykkar vantrú illa rökstudda.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 15/01/07 10:38 #

Á ensku er gerður greinarmunur á belief og faith eins Kári skrifaði um fyrir ári.

Hérna liggur nefnilega munurinn á orðunum faith og belief í ensku. Faith er alltaf tiltrú án rökstuðnings, von um það sem ekki er auðið að sjá, meðan belief getur auðveldlega náð yfir álit sem byggt er á traustum grunni.

Orðið sem mofi ætti að nota er faith, #

Greek Pistis , Latin Fides inner attitude, conviction, or trust relating man to a supreme God or ultimate salvation. In religious traditions stressing divine grace, it is the inner certainty or attitude of love granted by God himself. In Christian theology, faith is the divinely inspired human response to God's historical revelation through Jesus Christ and, consequently, is of crucial…


mofi - 15/01/07 14:20 #

Íslenska orðið sem við höfum er "trú" og enginn trúaður einstaklingur telur að það sem hann trúir er órökstutt. Flestir vantrúaðir trúa að líf hafi kviknað frá dauðum efnum, það er kannski besta dæmið um trú án rökstuðnings.


Árni Árnason - 15/01/07 14:57 #

Mofi segir: "Flestir vantrúaðir trúa að líf hafi kviknað frá dauðum efnum, það er kannski besta dæmið um trú án rökstuðnings."

Ég held að þetta sé mjög hæpin fullyrðing, svo að ekki sé meira sagt. Flestir vantrúaðir trúa engu án rökstuðnings, þeir hinsvegar treysta því að vísindaheimurinn vinni á vísindalegum forsendum, og að þær kenningar sem alvöru vísindamenn setja fram séu a.m.k. byggðar á einhverjum líkindum. Þeir treysta því sömuleiðis að vísindamenn séu jafnan tilbúnir að endurskoða kenningar sínar eftir því sem þekkingu og rannsóknum fleygir fram. Vísindamenn viðurkenna fúslega að ekki séu allar kenningar endanlegur sannleikur, enda eru þær kallaðar kenningar.

Flestir vantrúaðir vilja heldur trúa því sem vísindaleg hugsun færir fram, en eru jafnframt tilbúnir til að endurskoða hug sinn í ljósi nýrra uppgötvana.

Við trúum því sem líklegast er talið, en höfum þó alltaf fyrirvara á, um það sem ekki er að fullu vitað. Með þessari aðferð er hægt að vita meira í dag en í gær.

Þetta er kallað framþróun.

Það eru bara þeir trúuðu sem þykjast vita allt. (upp úr myglaðri skruddu)

Það er kallað stöðnun.


mofi - 15/01/07 15:27 #

Í fyrsta lagi velur þú sjálfur hvaða vísindamenn þú flokkar sem alvöru og í öðru lagi þá er verið að láta aðra menn skilgreina sína eigin trú sem hlýtur að vera kjánalegt. Þeir sem síðan alhyllast það að lífið sé hannað eru ekkert að fela að það er þeirra trú, það eru þeir sem halda því fram að lífið sé búið til af náttúrulegum ferlum sem vanalega neita að viðurkenna að það er það sem þeir trúa og vilja láta þá trú vera einhvers konar vísindi sem er vægast sagt óheiðarlegt.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 15/01/07 16:31 #

mofi, þú ert biluð plata. Farðu með þessa umræðu á spjallið.

ps. Það varst þú sem kaust að nota ensku útgáfuna af belief, af hverju getur þú ekki bara játað að það var ekki gáfulegt?


mofi - 15/01/07 16:50 #

mofi, þú ert biluð plata. Farðu með þessa umræðu á spjallið. ps. Það varst þú sem kaust að nota ensku útgáfuna af belief, af hverju getur þú ekki bara játað að það var ekki gáfulegt?

Ég myndi þýða belief sem trú, hvaða íslenska orð myndir þú nota til að þýða "belief"? Voðalega eru þið síðan viðkvæmir að ræða ykkar trú sem segir að tungumál geti orðið til fyrir tilviljun.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 15/01/07 16:58 #

Um þetta er fjallað í greininni sem ég vísaði á í fyrstu athugasemd minni. Hugtakið trú hefur a.m.k. tvennskonar ólíka merkingu í íslensku. Í ensku er þetta aðgreint með hugtökunum faith og belief. Þú varst svo óheppinn að þú valdir belief til að rökstyðja mál þitt þegar faith er það hugtak sem á við um þína trú. Bæði faith og belief eru þýdd sem trú á íslensku, en það merkir ekki að faith og belief hafi sömu merkingu, einungis að íslenska orðið trú er óþarflega víðtækt.

Þetta er ekki viðkvæmni mofi, þetta er þreyta. Það er afskaplega þreytandi að karpa við þig um einföldustu atriði trekk í trekk. Þú sýnir stundum engan vilja til þess að skoða hlutina og öðlast þekkingu.

Innlegg þín í þessari umræðu eru afskaplega kjánaleg.


Árni Árnason - 15/01/07 17:01 #

Í fyrsta lagi vel ég ekki hvaða vísindamenn flokkast sem alvöru. Það eru aðferðir þeirra sem stýra því alfarið án minnar aðkomu. Gervivísindamenn, þ.e. þeir sem slá fram tilgátum, kalla þær sannleika, og predika sem slíkann þó að vísindasamfélagið hafi hrakið þær, verða ekki langlífir í vísindaheiminum.

Að ég láti aðra menn skilgreina trú mína er hjákátlegt úr munni trúmanns sem lepur upp fornar bábiljur. Auk þess er ekki um trú að ræða í mínu tilfelli, miklu frekar hlutlægt, og að einhverju leyti huglægt mat á trúverðugleika. Mat sem er í sífelldri endurskoðun með tilkomu nýrra upplýsinga sem annaðhvort styðja eða hrekja það sem ég hef áður trúað. ( ath. ekki trúað Á )

Ég tel það reyndar heiðarlegra, en að halda sig við sömu gömlu trúna, þar sem ekki stendur lengur steinn yfir steini.


mofi - 15/01/07 17:57 #

Þetta er ekki viðkvæmni mofi, þetta er þreyta. Það er afskaplega þreytandi að karpa við þig um einföldustu atriði trekk í trekk. Þú sýnir stundum engan vilja til þess að skoða hlutina og öðlast þekkingu.

Það er auðvitað þreytandi að hafa rangt fyrir sér. Ég vona fyrir þína hönd að þér fari að líða betur. Það sem aftur á móti stendur er að íslenska orðið er notað þá þýðir það engann veginn að trúa án rökstuðnings.

Að ég láti aðra menn skilgreina trú mína er hjákátlegt úr munni trúmanns sem lepur upp fornar bábiljur. Auk þess er ekki um trú að ræða í mínu tilfelli, miklu frekar hlutlægt, og að einhverju leyti huglægt mat á trúverðugleika. Mat sem er í sífelldri endurskoðun með tilkomu nýrra upplýsinga sem annaðhvort styðja eða hrekja það sem ég hef áður trúað. ( ath. ekki trúað Á )

Það breytir því ekki að þetta er það sem þú sagðir. Þú trúir því sem ákveðinn hluti vísindasamfélagsins segir vera satt, eða er það rangt?


Deddi - 15/01/07 19:49 #

Hahaha... Velja vísindamenn sem að maður flokkar sem alvöru. Þú verður að skilja hvað vísindi eru áður en að þú byrjar að bulla Mofi!

Alvöru vísindamenn koma með kenningu sem að þeir síðan reyna að sanna, og "alvöru" vísindamenn vita líka að enginn vísindi eru heilagur sannleikur heldur besta vitneskja á hlutunum við höfum í dag. Og það góða við vísindinn er að þau þróast og breytast með nýjum uppgvötunum. Já og stundum hafa vísindamenn rangt fyrir sér, en þannig lærum við líka.

Ég horfði á mynd um Intelligent Design í gær frá sjónarhóli amerískra trúboða, þar sem að þeir "sönnuðu" tilvisst guðs (divine creator) á því að allt yrði að hafa skapara og notuðu klassíska úrsmiðs dæmið máli sínu til sönnunar. Þetta er ekta dæmi um "gervi" vísindamenn vegna þess. Þeirra rök eru: okkur finnst að það hljóti að vera skapari og bada búmm það er skapari. Alvöru vísindamaður myndi allaveganna reyna að sanna það með og hlusta á gagnrýni.

En þannig er það ekki með trúaða, þeirra trú er hafin yfir gangrýni vegna þess að hún er "heilög".


Matti (meðlimur í Vantrú) - 15/01/07 20:11 #

Það sem aftur á móti stendur er að íslenska orðið er notað þá þýðir það engann veginn að trúa án rökstuðnings.

Íslenska orðið trú, í merkingunni að trúa á yfirnáttúru (vera trúaður) merkir einmitt það að trúa án sannana. Það getur vel verið að það sé til rökstuðningur, en það eru ekki sannanir fyrir trú, því þá væri það einmitt ekki trú, heldur vitneskja.

Enn stendur að enska hugtakið belief er einmitt hægt að þýða sem trú, en merkir þá ekki trú eins og að vera trúaður heldur trú eins og að telja eitthvað.

Mofi, hættu að láta eins og fáráðlingur.


mofi - 16/01/07 10:53 #

Hahaha... Velja vísindamenn sem að maður flokkar sem alvöru. Þú verður að skilja hvað vísindi eru áður en að þú byrjar að bulla Mofi!

Afhverju strokið þið ekki yfir svona móðganir? Eru það bara þið hjá vantrú sem má ekki móðga?

Alvöru vísindamenn koma með kenningu sem að þeir síðan reyna að sanna, og "alvöru" vísindamenn vita líka að enginn vísindi eru heilagur sannleikur heldur besta vitneskja á hlutunum við höfum í dag. Og það góða við vísindinn er að þau þróast og breytast með nýjum uppgvötunum. Já og stundum hafa vísindamenn rangt fyrir sér, en þannig lærum við líka.

Verst að þróunarsinnar falla nærri því aldrei í þennan hóp því að þeirra eigin sögn er "þróun staðreynd". Ekkert svona, besta útskýring miðað við það sem við höfum, ekkert að við gætum haft rangt fyrir okkur, heldur... þróun er staðreynd. Ég veit mæta vel hvar staðreyndirnar enda og hvar mín trú byrjar, þið sem aðhyllist þróun virðist ekki hafa grænan grun um hvar staðreyndirnar enda og ykkar trú byrjar.

Matti Íslenska orðið trú, í merkingunni að trúa á yfirnáttúru (vera trúaður) merkir einmitt það að trúa án sannana. Það getur vel verið að það sé til rökstuðningur, en það eru ekki sannanir fyrir trú, því þá væri það einmitt ekki trú, heldur vitneskja.

Og þetta er það sem ég var að gagnrýna! Þið voruð að halda því fram að trú væri ekki studd af "hvorki með gögnum, rökum eða raun". Gott að þú ert þá ósammála greinarhöfundi og sammála mér.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 16/01/07 11:07 #

Þó rökstuðningur sé til er ekki þar með sagt að hann haldi vatni. Það gildir t.d. um kristna trú, sem er rökstudd á ótal vegu, en engin þeirra raka eru góð eða standast rýni.


mofi - 16/01/07 11:36 #

Matti Þó rökstuðningur sé til er ekki þar með sagt að hann haldi vatni. Það gildir t.d. um kristna trú, sem er rökstudd á ótal vegu, en engin þeirra raka eru góð eða standast rýni.

Jú, snilldar rök sem halda vatni og öllu öðru sem er hent á þau. Til dæmis að sköpun þarf skapara. Þegar menn fundu rósetta steininn þá vissu menn að vitiborin vera bjó hann til en ekki regn og vindar. Afhverju? Afþví því að við vitum að náttúruleg ferli búa ekki til tungumál. Þegar við þá síðan finnum tungumál í náttúrunni þá veit ég fyrir víst að hún var hönnuð og getur ekki verið afleiðing náttúruaflanna. DNA inniheldur tungumál, fullkomnara en nokkuð tungumál sem við höfum búið til.

Síðan hefur Biblían sagt til um framtíðinni svo þú gætir ekki beðið um betri sönnun um að sá sem skrifaði hana er ekki háður tíma.

Síðan hefur Guð skrifað í hjarta hvers manns Hans lögmál til þess að sérhver maður viti að hann er sekur og mun glatast nema leita Guðs og fyrirgefningar Hans.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 16/01/07 11:53 #

Kannski væri svar mofa fyndið ef það væri ekki svona sorglegt.


mofi - 16/01/07 11:56 #

Matti Kannski væri svar mofa fyndið ef það væri ekki svona sorglegt.

Að þín heimsmynd er röng er ekkert til að syrgjast yfir því hún bíður ekki upp á neitt; enga von, engann tilgang og engin vísindi. Ef þú sérð eitthvað að mínu svari endilega útskýrðu hvað það er.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 16/01/07 12:03 #

Ágætu lesendur, vinsamlegast lesið yfir athugasemdir mofa og sjáið hugarheim sköpunarsinna á Íslandi í dag. Þetta er afleiðing menntakerfis sem elur á kristnum ranghugmyndum.

Málflutningur hans verður ekkert réttari þó hann endurtaki upphrópanir, eins og hann virðist halda.

mofi, ég mun færa frekari athugasemdir þínar í þessum þræði á spjallið. Þægilegra væri ef þú myndir ósköp einfaldlega tjá þig um þetta efni þar.


mofi - 16/01/07 12:45 #

fært á spjallið


deddi - 16/01/07 16:24 #

Afhverju strokið þið ekki yfir svona móðganir? Eru það bara þið hjá vantrú sem má ekki móðga?

Þetta átti ekki að vera nein móðgun mofi. Bara að benda þér á staðreyndir um vísindamenn og þá staðreynd að þú ert að bulla. Enda er það trúmönnum líkt að bulla þegar að þeim er vegið.


mofi - 16/01/07 16:32 #

[blúbb]


Jón Frímann - 16/01/07 18:01 #

Mofi tekur allt sem móðgun ef hann getur ekki svarað því. Trú, sem er byggð á óstaðfestum sögum er ekkert nema ein gerð af sjálfsblekkingu. Ef að sjálfsblekkingin er nógu sterk þá er hætta á því að viðkomandi manneskja sem er haldin sjálfsblekkingunni gangi einfaldlega fram af brú almennrar skynsemi og rökhugsunar. Í stuttu máli, viðkomandi verður geðveikur vegna sinna eigin rangthugmynda.

Og mofi er mjög gott dæmi um þannig mann, sem er að fara af brú skynseminar.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 16/01/07 18:04 #

Vinsamlegast svarið mofa á spjallinu.


FellowRanger - 15/05/07 22:36 #

Hver er þessi mofi eiginlega? Ekki það að ég voni að fá svar og ég skil alveg vitleysuna í spurningunni þar sem ég gef sjálfur aldrei upp nafn mitt en þvaðrið og blaðrið sem þessi persóna lætur frá sér er svo gífurlegt að ég á ekki orð!

En þetta er fínasta skilgreining. Má þá ekki kalla trú ákveðna mynd af vísindalegri kenningu?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 15/05/07 23:04 #

Trú mætti kalla vísindalega tilgátu sem engin löngun er til að gera að afsönnunaratlögur.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.