Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Af kraftaverkum og David Hume

David Hume heldur því fram í ritgerð sinni „Af kraftaverkum“ að kraftaverk séu brot á lögmálum náttúrunnar og ekki sé með réttu hægt að leggja trúnað á sögur af þess háttar atburðum. Hér á eftir verður röksemdafærsla Humes reifuð og athugað hvort nokkur af þeim mótrökum sem týnt hafa verið til gegn þeim standist, einkum og sér í lagi hvort rök Humes leiði til þess að þróun í vísindum sé ómöguleg og hvort þau séu ósamkvæm heimspeki Humes sjálfs. Ennfremur verður athugað hvaða afleiðingar röksemdafærsla hans hefur á grundvöll trúarbragða.

Hume skilgreinir kraftaverk sem: „brot á náttúrulögmáli vegna einstakrar viljaákvörðunar drottins eða vegna meðalgöngu einhverra ósýnilegra máttarvalda.“ Hume útilokar þannig frá umræðunni atburði sem á yfirborðinu gætu kallazt kraftaverk vegna ótrúlegra kringumstæðna en eru það í raun ekki vegna þess að þeir eru þegar nánar er að gáð hluti af venjulegum gangi náttúrunnar, það er að segja í samræmi við lögmál hennar. Náttúrulögmál telur Hume vera undantekningarlausa reynslu af gangi náttúrunnar. Öll kraftaverk stangast því samkvæmt skilgreiningu á við reynslu sem öll er á einn veg og er það samkvæmt Hume það sama og að segja að kraftaverk geti aldrei gerzt nema til komi „andstæð staðfesting sem vegur þyngra“ . Hume telur það staðfest sem undantekningalaust hefur áður gerzt en sennilegt það sem yfirleitt gerist og á í þeim tilfellum að vega og meta andstæð rök til að komast að réttri niðurstöðu. Hann segir: „Vitur maður leggur mismikinn trúnað á hlutina í hlutfalli við það hve veigamiklar sönnur eru fyrir þeim.“ Það sem alltaf hefur farið á einn veg segir hann að óhætt sé að gera ráð fyrir að svo verði áfram en í öðrum tilfellum verði að meta líkur.

Ástæðan fyrir því að við trúum yfirleitt vitnisburði manna er samkvæmt Hume sú að reynslan segir okkur að menn segi í flestum tilfellum satt. Þegar við heyrum af kraftaverki „tekst á tvenns lags reynsla“ , þ.e. annars vegar reynsla okkar af vitnisburði manna og hins vegar reynsla af gangi náttúrunnar. Við höfum lakari sönnur fyrir sannleiksgildi kraftaverka en fyrir vitnisburði eigin skilningavita. Þeir sem verða vitni að kraftaverki þurfa að reiða sig á sín skilningarvit og áreiðanleiki vitnisburðarins hlýtur að rýrna þegar hann berst á milli manna. Niðurstaða Humes er því að aldrei eigi að taka sögur af kraftaverkum trúanlegar, alltaf sé líklegra að eitthvað sé athugavert við vitnisburðinn sjálfan en að kraftaverk hafi í raun og veru átt sér stað. Allar frásagnir af kraftaverkum andstæð allri reynslu okkar frá upphafi og til þess að hægt sé að legga trúnað á slíkar sögur þurfa þær að vera líklegri, eða að minnsta kosti jafn líklegar og kraftaverkið er ólíklegt, og gefur það augaleið að það getur aldrei verið. Hann teflir þannig reynslu okkar af náttúrunni gegn reynslu okkar af vitnisburði manna og heldur því fram að bein reynsla okkar fari alltaf með sigur af hólmi í þeirri baráttu.

Hume hefur verið gagnrýndur fyrir það að ef taka ætti mark á þessum rökum hans væri framþróun í vísindum ekki möguleg, enginn ætti að taka mark á nýjum kenningum í vísindum vegna þess að þær stangast á við fyrri reynslu. Ég tel að þetta séu ótæk rök vegna vegna þess að eðli kraftaverka og vísindalegra uppgötvanna er ekki hið sama. Þegar vísindamaður segist hafa uppgötvað frávik frá þekktum náttúrulögmálum er það vissulega sambærilegt við frásagnir af kraftaverkum en það er ekki fyrr en aðrir vísindamenn hafa endurtekið tilraunina og staðfest hana að hún er samþykkt af vísindasamfélaginu. Kraftaverk er ekki hægt að endurtaka og því er ekki hægt að líkja frásögnum af þeim við starf vísindamanna.

Gagnrýnendur Humes hafa bent á þann möguleika að afstaða hans til kraftaverka sé ekki samkvæm heimspeki hans sjálfs. Hume heldur því nefnilega fram að engin nauðsynleg tengsl séu á milli orsakar og meintrar afleiðingar hennar. Við drögum einungis þá ályktun út frá endurtekinni reynslu af hlutunum. Að mínu mati er Hume ekki ósamkvæmur sjálfum sér, vegna þess að hann hafnar ekki möguleikanum á að kraftaverk geti gerzt, heldur einungis að frásagnir af þeim séu ósennilegar vegna þess að þær ganga á móti allri reynslu okkar. Frásögn af reynslu hlýtur alltaf að vera ósennilegri en reynslan sjálf. Hume tekur þannig ekki fyrir möguleikann á því að maður sjálfur upplifi kraftaverk (hvort nokkur trúi manni, það er svo önnur saga). Hume tekur sem dæmi um þetta Indverja sem trúir ekki á frásögn af frosnu vatni og heldur Hume því fram að hann sé í fullum rétti að efast um það, jafnvel þó að vatn geti vel frosið.

Þó að svo væri að gagnrýni Humes á kraftaverk væri ekki samkvæm heimspeki hans sjálfs myndi það ekki varpa neinni rýrð á gagnrýninna sjálfa. Hún stendur sjálfstæð, óháð hvaða skoðanir höfundurinn gæti hafa haft á öðrum málum.

Hume hefur líka verið gagnrýndur fyrir að skilgreina orðið kraftaverk of þröngt og að skilgreining hans sé ekki samræmi við hversdagslega notkun á orðinu kraftaverk. Að mínu viti er það heldur léleg gagnrýni vegna þess að Hume veit að sjálfsögðu fullvel um aðrar merkingar orðsins. Þær eru bara einfaldega ekki til umræðu.

Það sem vakir fyrir Hume er að ráðast á grundvöll trúarbragða og grunar mig að hann hafi þar haft sterkari skoðanir en hann lét í veðri vaka. Hume gefur á nokkrum stöðum í skyn í ritgerðinni að beita eigi rökum hans á undirstöður kristinnar trúar, nefnilega sjálfa upprisuna. Hume vill að maður spyrji sig: Hvort er líklegra að eingetinn sonur Guðs hafi risið upp frá dauðum í Palestínu fyrir 2.000 árum eða hvort það sé einfaldlega einhverju ábótavant í frásögninni? Ef maður samþykkir rök hans, og mér sýnast þau standast nokkuð vel, er ég hræddur um að erfitt sé að finna kristinni trú (eða öðrum trúarbrögðum sem byggjast á kraftaverkum ef því er að skipta) nokkurn grundvöll en ég ætla að leyfa guðfræðingum að ráða frekar fram úr þeim vanda.

Ásgeir Berg Matthíasson 04.12.2006
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Sindri Guðjónsson - 04/12/06 15:51 #

"Now of course we must agree with Hume that if there is absolutely 'uniform experience' against miracles, if in other words they have never happened, why then they never have. Unfortunately we know the experience against them to be uniform only if we know that all the reports of them are false. And we can know all the reports are false only if we know already that miracles have never occurred. In fact, we are arguing in a circle"

  • C.S. Lewis

Benjamín Ragnar - 04/12/06 15:55 #

Áhugaverð grein en ekki nógu sannfærandi fyrir mig. Ég get samþykkt það að í ljósi þess að Hume skellir fram skilgreiningunni á kraftaverk sem hann styðst við, að þá sé óþarfi að gagnrýna það að ráði... nema kannski að benda má á að skilgreiningin gerir ráð fyrir því að ef kraftaverk á sér stað, þá sé það "vegna einstakrar viljaákvörðunar drottins eða vegna meðalgöngu einhverra ósýnilegra máttarvalda" og þar af leiðandi er drottinn eða einhver ósýnileg máttarvöld til! Það eitt og sér gefur grundvöll fyrir mörgum vangaveltum um þetta efni.

Önnur pæling er sú hvort að það séu almennt til einhver algild lögmál sem stjórna öllu sem gerist í heiminum. En ef mig misminnir ekki þá vekur skammtarúmfræðin eða skammtafræðin ýmsar athyglisverðar spurningar um það.

En ég hef ekki meiri tíma í bili til að tjá mig meira um þetta mál í augnablikinu :)


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 04/12/06 16:04 #

Önnur pæling er sú hvort að það séu almennt til einhver algild lögmál sem stjórna öllu sem gerist í heiminum. En ef mig misminnir ekki þá vekur skammtarúmfræðin eða skammtafræðin ýmsar athyglisverðar spurningar um það.

Ha?!? Skammtarúmfræðin og skammtafræðin? Endilega reyndu að útskýra hvað skammtafræðin hefur eitthvað að gera með kraftaverk.


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 04/12/06 16:56 #

Sindri: Gagnrýni C.S. Lewis á ekki við af tveimur ástæðum: Í fyrsta lagi hafnar Hume ekki að kraftaverk geti gerzt, eins og stendur í greininni:

[H]ann hafnar ekki möguleikanum á að kraftaverk geti gerzt, heldur einungis að frásagnir af þeim séu ósennilegar vegna þess að þær ganga á móti allri reynslu okkar. Frásögn af reynslu hlýtur alltaf að vera ósennilegri en reynslan sjálf.

Hin ástæðan er sú að þegar Hume talar um reynslu á hann ekki við samanlagða reynslu mannkynsins heldur reynslu einstaklingsins. Ég t.d. hef aldrei séð kraftaverk og þess vegna ætti ég ekki að leggja trúnað á frásagnir af þeim vegna þess að þær ganga gegn allri reynslu minni.


Guðjón - 04/12/06 17:35 #

Hume heldur því fram að kraftaverk séu brot á lögmálum náttúrunar. Allt í lagi það eru ekki til nein raunveruleg kraftaverk- það sem við köllum kraftverk eru einungis lögmálsbundnir atburðir sem við getur ekki enn skýrt eða eru þess eðlis að takmarkanir mannegra hugsunar ná ekki að skýra þá en skynsemi sem er æðri mannlegri skynsem gæti skýrt. Ef Hume fengi nú fregnir af hversdaglegum atburðum úr mannheimum s.s. símtölum, ferðalegum með þotum o.s.frv. væri kallinn ekki lengi að afgreiða slíkar fregnir þetta væri samkvæmt honum að öllum líkindum della vegna þess að það stangaðist á við reynslu hans og þekkingu.


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 04/12/06 17:46 #

Guðjón: Já, og það sem meira er, það er það skynsamlegasta í stöðunni. Samanber frásögnina af Indverjanum (sem ég hefði mátt fara nánar í).


Sindri Guðjónsson - 04/12/06 19:00 #

Ásgeir: Gott og vel. Þá ber mér samkvæmt því sem þú segir í það minnsta að trúa á kraftaverk, þar sem ég hef séð slík með berum augum.


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 04/12/06 19:02 #

Já, það er í það minnsta kosti allt önnur umræða.


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 04/12/06 19:03 #

Það er að minnsta kosti, átti þetta að vera.


Snæbjörn - 05/12/06 10:49 #

Já, nú hlýt ég að spyrja Sindri, hvaða kraftaverk hefur þú séð?


Gunnar Friðrik Ingibergsson - 19/05/08 15:24 #

Já David Hume ætti að kenna í grunnskólum samfara kristinfræði eins Matti komst að orði á Bylgjunni. Ég á tvær bækur eftir Hume. Rannsókn á skilnigsgáfunni og Samræður um trúarbrögðin. Mæli með þeim.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.