Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Helvítis boðskapur kirkjunnar

Út frá skrifum um hina svonefndu Vinaleið hafa spunnist umræður um samband kristni og siðferðis. Þjóðkirkjupresturinn Gunnar Jóhannesson kom með áhugaverða grein vegna skrifa Arnolds Björnssonar.

Gunnar byrjar á því að gagnrýna ummæli Arnolds varðandi afstöðu ýmissa kirkjunnar manna til sambands trúar og siðferðis. Þó svo að það komi ekki skýrt fram í skrifum Gunnars, þá sýnist mér hann ekki vera á þeirri skoðun að siðferði trúlausra sé lakara en trúaðra. Því miður eru ekki allir stéttarbræður hans á sama máli. Til dæmis sagði æðsti biskup Þjóðkirkjunnar í viðtali við í Magasín, vikuriti DV (desember 2002), að kærleikur, siðferði og trú þurfi að haldast í hendur, að án eins geti hitt ekki staðist. Í predikun þann 6. mars 2005 sagði sami biskup að guðleysi væri “sálardeyðandi og mannskemmandi.” Til marks um hve oft kirkjunnar menn tengja trúleysi við siðleysi, þá er ekki lengra en mánuður síðan þjóðkirkjuprestur, í þessu tilviki Sigurður Árni Þórðarson, gaf þetta í skyn. Í predikun 22. október sagði hann: “Ef Guð hverfur úr lífi fólks og þjóða er hætta á að á nokkrum kynslóðum hverfi gildin, hverfi munur góðs og ills, hverfi siðgreind fólks og þar með verði allt flatt.” Gunnar mætti gjarnan reyna að sannfæra þessa stéttarbræður sína um rangindi skoðana sinna.

Í umfjöllun sinni um kærleikann bendir Arnold á þá furðulegu sýn sem kristnin virðist hafa á kærleikanum, en í henni á kærleiksríkur guð að láta guðlausa menn kveljast að eilífu eftir dauðann. Þrátt fyrir að það sé skýrt kveðið á um þetta í aðaljátningu lútherskra manna, Ásborgarjátningunni, þá kallar Gunnar þetta “úr sér genginn boðskap um helvítisvist”. Gunnar virðist ekki hafa mikið álit á játningum sinnar eigin kirkju og vill þess í stað leggja áherslu á orð og dæmisögur Jesú. Þetta er ansi undarlegt viðhorf í ljósi þess að meirihluti dæmisagna Jesú snýst um endi veraldar. Jesús kryddar lýsingar sínar á heimsendi meistaralega með líkingum úr daglega lífinu. Guð við endi veraldar er líkt við þrælaeiganda sem hýðir óhlýðinn þræl. Okkur mönnunum er líkt við sauði og hafra, en Jesús segir að hinum síðarnefndu muni hann senda í eilífan eld, eilífa refsingu.

Gunnar vill bara afskrifa þessi orð Jesú með því að kalla það bókstafshyggju að vísa til þeirra, en því miður virðist orðið “bókstafshyggja” bara vera innantómt uppnefni. Engin rök eru færð fyrir því hvers vegna það flokkast sem bókstafshyggja að benda á þá hluta boðskapar Jesú sem Gunnari líkar ekki við. Jesús boðar einfaldlega “helvíti” nöturlega sýn á örlög okkar hafranna. Það er enginn að hvetja Gunnar til þess að trúa því að það sé satt, en ef Gunnar ætlar að halda því fram að Jesús sé góð fyrirmynd og að hann sé eitthvað kennivald, þá getur Gunnar ekki bara lokað augunum fyrir því illa í boðskap hans og kallað þá sem benda á þessa hlið Jesú bókstafstrúarmenn.

Ef Gunnar ætlar að nota sitt eigið siðvit og sína eigin skynsemi til þess að velja og hafna úr boðskapi Jesú, hví ætti maður þá yfir höfuð að flækja málin með þessum skáldlega heimsendaspámanni?

Hjalti Rúnar Ómarsson 29.11.2006
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


AFO - 29/11/06 16:27 #

[athugasemd færð á spjallið, vinsamlegast haldið ykkur við efni greinanna eða umræðuna sem er í gangi í athugasemdum. Notið spjallborðið ef þið hafið mikla þörf fyrir að tjá ykkur um annað. Þetta er ekki flókið.]


Svanur Sigurbjörnsson - 29/11/06 18:49 #

Ég setti eftirfarandi neðan við grein Gunnars á tru.is

Það væri nú tilhlýðlegt og gaman að sjá Karl Sigurbjörnsson biskup taka þátt í umræðum hér á trú.is

Er Karl of hátt uppi til að blanda sér í umræðu við hinn almenna Íslending? Hefur hann ekki tíma? Er hann hræddur við að opinbera skoðanir sínar annars staðar en úr predikunarstólnum og völdum fjölmiðlum? Er Karl hræddur við að rökræða við guðlausa? Telur Karl það tímasóun að rökræða trúmál við trúlausa? Hann hefur vissulega viðhaft sterk orð um trúlausa en er hann ekki maður til að ganga út á völlinn og takast á við leikmenn? Myndi slíkt setja hann niður og vanhelga hann? Má ég spyrja þessara spurninga? Skyldi biskup svara? Hefur nokkur séð hann taka þátt í bloggi um trúmál? Þorir hann að segja það við okkur beint að við séum siðlaus?


Svanur Sigurbjörnsson - 29/11/06 18:53 #

Góð grein Hjalti Rúnar.


Daníel Páll Jónasson - 29/11/06 19:53 #

Svanur: Svo virðist sem kirkjunnar menn, og þá sér í lagi Karl Biskup, hafi þann háttinn á að gagnrýna trúleysingja og efahyggjumenn úr fjarlægð og beita svo þeirri hrokafullu aðferð að leiða hjá sér allar óskir um beinar rökræður. Það væri þó sannarlega athyglisvert að sjá einhverjar skoðanir frá Karli hér á þessari síðu eða tru.is. Ég held bara að fyrr frjósi í... uuuhh... helvíti áður en það gerist.

Annars er þetta mjög góð grein hjá þér Hjalti. Ég verð þó að segja að ég er ágætlega sáttur við Gunnar prest, þar sem hann afneitar tilvist helvítis. Hann er greinilega ekki einn af þeim prestum sem beita sér fyrir því að innræta einhverja hræðslu í sóknarbörn sín með helvítis-áróðri.

Furðulegt þó hversu ósammála prestar, hér á Íslandi og um allan heim, eru um mikilvægustu atriði biblíunnar. Þessi óvissa þeirra, vantúlkun og vanþekking á þeirri bók sem starf þeirra og lífsskoðun snýst í um veldur því að margir gerast trúleysingjar eða efasemdarmenn.

Ég er allavega einn af þeim.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 30/11/06 19:53 #

Þessi óvissa þeirra, vantúlkun og vanþekking á þeirri bók sem starf þeirra og lífsskoðun snýst í um veldur því að margir gerast trúleysingjar eða efasemdarmenn.

Ég er allavega einn af þeim.

Ekki það að einhver ein samrýmd túlkunarútgáfa á ritum kristindómsins, sem allir myndu aðhyllast, gerði þessi trúarbrögð neitt gáfulegri fyrir vikið.


Daníel Páll Jónasson - 30/11/06 20:34 #

Sammála því, Birgir. Þetta ósamræmi í túlkun prestanna, fullvissa þeirra flestra um að "þeirra skoðun sé sú eina rétta" auk margra annarra atriða fæla/frelsa margan trúmanninn frá Kristninni.

Annars meikar biblían auðvitað ekki neitt sense. Burt séð frá öllu rifrildi prestanna.

Ekki ósvipað og að rífast um hvernig nýju fötin keisarans hafi verið á litinn.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.