Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Að koma fram við trúað fólk af virðingu

Sumir þurfa bara þessa hækju til að komast í gegnum lífið, af hverju að taka hana af þeim? Þetta heyrir maður merkilega oft frá trúlausu fólki sem vill ekki rökræða um trúmál. Sjálfur þá á ég voðalega bágt með að trúa því að þetta sé satt. En það er kannski ekki það sem angrar mig mest við þetta viðhorf.

Það sem angra mig mest við þetta viðhorf er að það gerir svo lítið úr trúuðu fólki. Af hverju ætti maður að koma fram við alla trúaða eins og þeir séu brotthættir? Er í raun hægt að svívirða lífsskoðun einhvers á verri hátt heldur en að úrskurða að aðalástæðan fyrir henni sé viðkvæmni þeirra sem hana aðhyllast? Þetta er að sjálfssögðu einfaldlega niðurlægjandi fyrir trúað fólk að halda þessu fram. Sumir halda jafnvel að trúfólk sé svo viðkvæmt að það þoli ekki að aðrir tali um að þeir séu trúlausir.

Það er líka spurningin hvað þetta segir um þá sem halda þessu fram. Eru þeir ekki einfaldlega að segja að trúleysingjar séu í raun sterkari, greindari og harðari heldur en greyið trúaða fólkið? Ég get ekki samþykkt þetta. Ég get hins vegar samþykkt það, af reynslu, að það eru margir trúaðir sem telja að þeir þurfi á trúnni að halda. Mig grunar hins vegar að það sé rangt hjá þeim.

Ég neita allavega að koma fram við trúað fólk eins og það sé annars flokks og geti ekki þolað sömu gagnrýni á trúarskoðanir sínar og það þarf að þola á til að mynda stjórnmálaskoðanir sínar. Það er samt ekki þannig að ég hafi áhuga á að neyða nokkurn mann í rökræður um trúarskoðanir hans nema augljóslega þá sem eru að boða trú sína. Ef fólk vill hafa trúna sem sitt einkamál þá er það í góðu lagi. Ég tel hins vegar að það eigi að koma fram með gagnrýni á presta og aðra sem eru að predika um trú sína. Opinber umræða á einfaldlega að fara þannig fram að allar skoðanir megi gagnrýna, sérstaklega rangar skoðanir.

Vinsamlegast ekki biðja mig um að koma fram við trúað fólk eins og viðkvæmar postulínsdúkkur sem þarf að geyma í glerskáp. Það er niðurlægjandi fyrir trúfólk og það kemur upp um hroka þeirra sem líta á það þessum augum.

Óli Gneisti Sóleyjarson 27.11.2006
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Viddi - 27/11/06 09:36 #

Þetta er alveg satt hjá þér. Maður hefur lennt í þessu sjálfur, haft kannski kjörið tækifæri til að rökræða við trúaðan einstakling, haft tækifæri til að slengja framan í hann hvað manni virkilega finnst um trúmál og allt fram eftir götum en einhvern vegin að þá sleppir maður því, maður svona forðast það einhvern veginn. Kannski er hluti af því að ég er bara ekki góður í rökræðum en ég held að það sé líka hluti af því að maður vill kannski ekki móðga trúmanninn, maður vill ekki gera lítið úr honum, sem er náttúrulega fáranleg hugsun, maður er sýst að gera lítið úr trú manna með því að rökræða um hana, en samt hikar maður alltaf ósjálfrátt þegar kemur að rökræðum um trúmál.

P.S. ég held barasta að seinasta setning í ofanverðum orðflaumi sé sú lengsta sem ég hef nokkrun tíman skrifað, enda nánast óskiljanleg.


Davíð - 28/11/06 19:16 #

Það á að koma fram við alla af virðingu, en það er enginn virðing falin í því að koma fram við fólk sem annarsflokks.


Asta - 29/11/06 07:55 #

Eg held að þessi feimni stafi að sumu leyti af því að oftast er maður að eiga við fólk sem er með normal greind og hefur heilbrigða skynsemi að öðru leyti en það að trúa á yfirnáttúrulega hluti sem enginn hefur nokkra sönnun á að geti átt´ sér stað. Fyrir okkur ótrúaða, verkar þetta mjög óskynsamlegt og jafnvel heimskulegt. Það sama gerist þegar einhver verður sér til skammar, við lítum undan og reynum að láta á engu bera.Við förum alla vega ekki að rökræða við viðkomandi.


Árni Árnason - 01/12/06 13:59 #

Ég er sjálfsagt á mörgum árum búinn að fara allan hringinn hvað varðar rökræður við trúaða. Ég hef hin seinni ár fundið leið sem mér hefur reynst farsæl. Hún er sú að minnast þess ætíð að

vantrúin, guðsafneitunin og efahyggjan eru alltaf viðbrögð ( reaction )

Á meðan fólk sem ég á í persónulegum samskiftum við áreitir mig ekki með trúarkjaftæði, þá læt ég það eiga sig að diskutera trúmál. En vei þeim sem reynir að predika yfir mér.

Á opinberum vetvangi er áreitið endalaust, og engin ástæða að halda neitt aftur af sér þar, enda enginn skuldbundinn að hlusta á eða lesa annað en það sem þeim sýnist.


Þórgnýr Thoroddsen - 02/12/06 20:27 #

Ég hef það fyrir reglu að bara vera ekki að diskútera trúmál eða lífsskoðanir í tilgangsleysi. Held að það ætti að virka sem ágætis regla fyrir flesta. Kristlingarnir eru ágætis þegnar þó þeir séu á villigötum lífsskoðanalega séð. Virkar ágætlega, svo bara læt ég gamminn geysa þegar þegar það er borið á góma. ;)


Sverrir Guðmundsson (meðlimur í Vantrú) - 02/12/06 23:51 #

„...enda enginn skuldbundinn að hlusta á eða lesa annað en það sem þeim sýnist.“

fyrir utan leik- og grunnskólabörn :-(


Árni Árnason - 05/12/06 13:06 #

Já Sverrir, þetta með leik og grunnskólabörnin er einmitt þetta endalausa áreiti sem ég er að tala um að ástæða sé til að svara fullum hálsi.

Ég ætla rétt að vona að við trúlausir dettum aldrei í þá gryfju að beita okkur þar sem einhver er skyldugur með einum eða öðrum hætti til að meðtaka málflutning okkar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.