Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kristniboðsskipunin í skólum

Fréttablaðið greindi í síðasta mánuði frá mótmælum Siðmenntar vegna Vinaleiðar, "kristilegrar sálgæslu" í grunnskólum, á þeim forsendum að þar væri um óeðlileg tengsl skóla og kirkju að ræða. Í fréttinni hafnaði Karl Sigurbjörnsson biskup því að um trúboð væri að ræða.

Síðan hefur verið margbent á og vitnað til starfsemi djáknans í Mosfellsbæ, brautryðjanda Vinaleiðar til sjö ára, sem tekur af allan vafa um að Vinaleiðin er klárt trúboð í skólum. En Halldór Reynisson, verkefnisstjóri á fræðslusviði Biskupsstofu, hefur nú ítrekað afneitun biskupsins í þrígang. Í Morgunblaðinu 21. október sagði hann um Vinaleiðina: "Hún er þjónusta við náungann en ekki boðun." Hinn 5. nóvember sagði hann á sama stað: "Þjóðkirkjan gerir skýran greinarmun á boðun trúar annars vegar og þjónustu eða fræðslu hins vegar." Og 14. nóvember birtir hann nýjar "siðareglur" Vinaleiðar á vef kirkjunnar þar sem segir: "Vinaleiðin er ekki trúarleg boðun."

Af þessu tilefni er fróðlegt að skoða hvað kirkjunnar menn segja um trúboð. Ragnar Gunnarsson ætti að þekkja það því hann er framkvæmdastjóri Kristniboðssambandsins og hefur starfað sem kristniboði, kennari og "skólaprestur". Á vef kirkjunnar segir hann: "Þjóðkirkjan skilgreinir sig sem biðjandi, boðandi og þjónandi kirkju. Orð Guðs er boðað í guðsþjónustum, í barna og æskulýðsstarfi, helgistundum – og reyndar á boðunin að umvefja og merkja allt starf kirkjunnar. Hún hefur það hlutverk hér í heimi að boða Jesú Krist og að vitna um kærleika hans. Þannig stundar þjóðkirkjan boðunarstarf eða trúboð hér heima." "Kristniboð er oft notað um boðun kirkjunnar í öðru samfélagi … Trúboð er oft notað um það sama, en af mörgum einskorðað við þýðingu á orðinu "evangelism", sem er boðandi starf í nánasta umhverfi. Íslensku orðin skýra sig sjálf. Að boða trú, að boða kristni." "Við þurfum kænsku, djörfung, visku og kærleika til að flytja boðin áfram…"

Það virðist erfitt að samræma orð Halldórs og Ragnars og því er ekki úr vegi að skoða ályktun Kirkjuþings nú í októberlok því Kirkjuþing fer með æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar. Vinaleiðin fellur undir svokallaða "kærleiksþjónustu" kirkjunnar. Um hana segir kirkjuþingið: "Tilgangur kærleiksþjónustunnar er að miðla kristinni trú í verki með umhyggju og nærveru." "Kærleiksþjónusta kirkjunnar felst í því að mæta fólki í Krists stað, í nafni og umboði Jesú Krists." Kærleiksþjónustan "er guðsþjónusta hins daglega lífs". "Kærleikurinn er hinn rauði þráður í boðskap Krists. Kærleiksþjónustan skarast því við öll önnur hlutverk kirkjunnar. Um skyldur gagnvart náunganum sagði Jesús: "Það allt, sem þér gjörðuð einum mínum minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér" (Matt. 25.40). Við erum erindrekar Krists, sbr. Kristniboðsskipunina (Matt. 28.18-20)." Í þessari kristniboðsskipun segir: "Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður."

Kirkjunnar menn tala tungum … tveim. Kærleiksþjónustan miðlar kristinni trú og er rekin samkvæmt kristniboðsskipuninni en er ekki boðun. Boðun umvefur og merkir allt starf kirkjunnar en er ekki hluti af starfi presta og djákna í skólum. Gott er að hafa tungur tvær og tala sitt með hvorri, segir málsháttur frá 19. öld en í heiðni var orðheldni og drengskapur í hávegum hafður. Kænska er eitt en óheiðarleiki annað. Í Hávamálum má líka lesa mikið um gildi vináttunnar, en hennar er ekki getið í Nýja testamentinu. Ég er viss um að mat réttsýnna manna á málflutningi kirkjunnar í Vinaleiðamálinu verður samhljóma Hávamálum: "Tunga er höfuðs bani."

Í lögum Ásatrúarfélagsins kemur fram að trúboð er óþarft, það þykir óþurftarverk. Af ofansögðu fæ ég því ekki betur séð en að heiðið siðgæði taki hinu kristna töluvert fram að mörgu leyti en sem foreldri geri ég þá kröfu til opinberra skóla að þeir séu hlutlausir í trúmálum.


Greinin birtist í Fréttablaðinu 20. nóvember

Reynir Harðarson 23.11.2006
Flokkað undir: ( Vinaleið )

Viðbrögð


Árni Árnason - 23/11/06 10:07 #

Þessi ítrekaða afneitun trúboðs minnir óneitanlega á söguna um postulann sem ítrekað afneitaði samneyti og kunningskap við trésmiðinn frá Nasaret, og hlaut heldur neikvæða ímynd fyrir. Þeir vita sem er bæði biskupinn og fræðslustjórinn að það hentar þeirra málstað í dag að forðast þetta hræðilega orð "trúboð" , vegna þess að það vill svo til að það er sameiginlegur skilningur flestra að trúboð eigi alls ekki heima í skólum.

Vinaleiðin er Trójuhestur kirkjunnar til að smygla trúboðinu inn í skólana.

Trójuhestur sem er með innihaldslýsingu utan á sér virkar auðvitað ekki.


Árni Þór - 23/11/06 10:22 #

Mér finnst einkennilegt að þeir sem mótmæla vinaleið skuli þurfa að standa í karpi um það hvort hún sé trúboð eða ekki. Hvort vinaleið sé trúboð eður ei hefur í raun engin áhrif á það grundvallaratriði að trúfélög hafa ekkert að gera með að vera með starfsemi innan skólakerfisins.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 23/11/06 11:38 #

Hjartanlega sammála Árna Á. og Árna Þór.

Hér gefur að líta skilning skólanefndar grunnskóla í Garðabæ á málinu:

5. fundur 9.11. 2006

Vinaleið

Rætt var um bréf Reynis Harðarsonar sem bæjarráð hafði vísað til skólanefndar grunnskóla til umfjöllunar. Skólanefnd áréttar fyrri samþykkt frá 3. fundi þar sem kom fram að skólanefndin lýsti einróma ánægju sinni með samstarf kirkjunnar og þessara þriggja grunnskóla Garðabæjar. Jafnframt lýsir skólanefnd ánægju sinni með upplýsingar og siðareglur um Vinaleið sem lögð voru fram til kynningar þar sem þjónustan er betur skýrð og afmörkuð en áður.

Skólanefnd, skólastjóri eða bæjaryfirvöld hafa ekki séð ástæðu til að ræða málið við mig á nokkurn hátt.


Árni Árnason - 23/11/06 13:31 #

Rétt hjá þér nafni. Þetta er deila um keisarans skegg, hvort vinaleiðin sé kölluð trúboð eða eitthvað annað. Það á ekki að skifta nokkru máli.

Það eru hinsvegar formælendur vinaleiðarinnar sem leggja á það ofurkapp að gefa þessu eitthvert annað nafn. Þeir hafa jafnvel reynt að drepa málinu á dreif með orðskrípum eins og "kristilega gildishlaðin þjónusta"

Af hverju skyldi það vera ?

Fólk hefur andstyggð á trúboði og þjófnaði, en líður vinaleið og tæknileg mistök.

Tilraunir manna til að réttlæta gjörðir sínar, framkvæmdar gegn betri vitund, felast oft í að gefa þeim nöfn með sakleysislegra yfirbragði.

Margt fólk virðist svo ótrúlega grunnhyggið að láta þetta slá ryki í augu sín.


Árni Þór - 23/11/06 15:27 #

Þeir hafa jafnvel reynt að drepa málinu á dreif með orðskrípum eins og "kristilega gildishlaðin þjónusta"

Ég á stundum erfitt með að hemja skap mitt þegar þeir byrja. Síðast í morgun þegar ég sá þetta svar á trú.is. Hann svarar ekki einu sinni spurningunni sem er "hypothetical" samviskuspurning og ætti að svara sem slíkri.

Tilraunir manna til að réttlæta gjörðir sínar, framkvæmdar gegn betri vitund, felast oft í að gefa þeim nöfn með sakleysislegra yfirbragði.

Ertu að segja að þú haldir að kirkjunnar menn viti að þeir séu að gera rangt? Ég hef nefninlega lúmskan grun um að svo sé :)


Árni Árnason - 23/11/06 16:59 #

Ég held ekkert um það nafni, ég veit það.

Ég skal segja þér hvernig ég veit það.

Ef þeir teldu í raun að þeir væru að gera rétt, myndu þeir ekki standa í þessum feluleik, þeir myndu einfaldlega segja allir sem einn: "Já þetta er trúboð, og ekkert við það að athuga"

Að þeir skuli rembast svona við að finna trúboðinu felunafn, segir okkur að þeir eru að vinna gegn betri vitund.

Ef Árna Johnsen væri ekki vel ljóst að þjófnaður hans á fjármunum almennings var forkastanlegur, væri hann ekki að reyna að skýla gerðum sínum á bak við "tæknileg mistök".


Árni Þór - 23/11/06 19:06 #

Athugaðu að þegar ég tala um lúmskan grun þá meina ég lúmskan grun um að þeir viti upp á sig sökina.

Ég er alveg hjartanlega sammála þér.


Tómas Daði - 23/11/06 19:09 #

Ég hef ákveðið að hætta að senda spurningar á tru.is eins og spurningin fyrir ofan. Ég hef aldrei fengið svar við spurningum mínum heldur aðeins langan útúrsnúning og steypu.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.