Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sál (andi)

Sál eða andi er óefnislegt fyrirbæri sem getur skynjað og hefur sjálfsvitund. Sálir eru oft taldar ódauðlegar.

Ef eitthvað hefur verið fundið upp til að uppfylla óskir manna er það sálin. Eins og Thomas Hobbes benti á, þá er hugmyndin um óefnislegt fyrirbæri þversögn. Það er ekki mögulegt að ímynda sér óefnislegt fyrirbæri sem lifir og skynjar. Meira að segja þeir sem trúa á sálir ímynda sér alltaf að þær séu eins og ský eða þoka. Það er blekking að halda því fram að hugmyndin um sál sé hugsanleg. Þrátt fyrir það hafa milljarðar fólks trúað á skynjanda sem ekkert pláss tekur og getur ferðast um rúm og skynjað og túlkað bylgjur í umhverfinu án skynfæra.

Starf þeirra heimspekinga og sálfræðinga sem byggja á tilvist óefnislegra fyrirbæra sem á einhvern máta búa í og hafa samskipti við líkamann hefur ekki bætt skilning okkar á virkni mannshugans. Þvert á móti hefur það aukið hindurvitni og fáfræði og staðið í vegi fyrir raunverulegri og gagnlegri þekkingu á mannshuganum. Starf þeirra sem skoða meðvitund út frá heilavirkni og reyna að líta á 'andlega' sjúkdóma fyrst og fremst sem líkamleg vandamál, er mun vænlegra. Tveir stórir bransar eru mögulegir og arðvænlegir vegna þessarar trúar á ekki-fyrirbæri sem þarfnast meðferðar frá sérfræðingum í ekki-fyrirbærum: trúarbrögð og sálfræði. Þriðji bransinn, heimspeki, þrífst einnig að stórum hluta vegna þessa sálarfyrirbæris: fjölmargir heimspekingar skrifa bækur og greinar sem gera ráð fyrir tilvist anda, meðan fjölmargir aðrir hafa viðurværi af því að skrifa gagnrýni á þær bækur og greinar. Svo virðist sem efahyggjufólkið og trúfólkið þarfnist hvors annars.


Skeptic's dictionary: Soul
Vert er að taka fram að höfundur greinarinnar er heimspekingur

Matthías Ásgeirsson 19.11.2006
Flokkað undir: ( Efahyggjuorðabókin )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 19/11/06 14:36 #

Störf sálfræðinga byggja á "efnislegum fyrirbærum" og hafa stóraukið þekkingu okkar á mannshuganum (bæði raunverulegri og gagnlegri). Sem sálfræðingur hafna ég tilvist sálar eins og hér er lýst. Sálfræðingar fást fyrst og fremst við hegðun, hugsun og líðan og þurfa ekki að vísa í neitt "óefnislegt" við störf sín. Orðið "sál" í fagheitinu er að margra mati óheppilegt því það býður heim þeirri rangtúlkun sem hér er lýst. Hins vegar má vel vera að einhverjir sálfræðingar trúi á tilvist óefnislegrar sálar eins og margir aðrir, en þeir geta ekki gert það í krafti menntunar sinnar.


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 19/11/06 14:54 #

Já, tvíhyggjan er heldur ekki beint ráðandi innan heimspekinnar í dag.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 19/11/06 18:56 #

Já, það væri kannski betra að tala um "hugvísindi" (ef það væri ekki frátekið), "hugfræði" kannski?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 19/11/06 20:19 #

Ég vil leggja á það áherslu að þessi grein er þýdd af orðabók efahyggjunar og liður í því að snara þeim fína vef yfir á íslensku.

Ég held að Robert T. Carrol sé meðvitaður um að flestir sálfræðingar starfa á þann máta sem Reynir lýsir. Held ég beri sök á því ef sú skoðun hans hefur ekki komist í gegn, fólk getur lesið upprunalegu færsluna og staðfest það. Eins er gott að lesa athugasemdir hans um Heimspeki með það í huga að hann er heimspekingur.


Guðmundur I. Markússon - 19/11/06 22:12 #

"Hugfræði" er, eftir því sem ég kemst næst, notað um "cognitive science" sem eru þær fræði- og vísindagreinar sem lýsa starfi hugans--sálfræði, heimspeki, málvísindi, gervigreind, o.s.frv. Að mínu mati væri "hugvísindi" mun betra, en það er frátekið fyrir það sem kallað er "humanities" upp á ensku (sem ætti auðvitað að kalla "hugfræði").

Þar sem atferlishyggjan stytti sér leið fram hjá huga mannsins gengur "hugfræði" varla sem heiti yfir sálfræði.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 19/11/06 22:47 #

Hvað þá? Hugspeki? :D


Svanur Sigurbjörnsson - 20/11/06 13:26 #

Sál er líkt og draugur - bara hugarburður. Einhvern veginn virðist hugtakið hafa færst yfir í að lýsa því í hvernig hugarástandi fólk er, sbr. "hann er með þetta á sálinni" eða "hún er að sálast úr leiðindum". Að sama skapi fór notkunin á hugtakinu andi að vera notað yfir huglæga hluti sbr. "honum líður illa andlega" (eða "á sálinni"). Kannski var þetta tilraun til að halda deyjandi hugmyndum um sál eða anda enn lifandi í málinu og það tókst fjandi vel.

Þessi orðnotkun fer þó í taugarnar á mér því að mér sýnist að margir geri sér ekki alveg grein fyrir því að "andleg líðan" er líðan hugans þ.e. "hugarfarsleg líðan" en ekki einhver óáþreyfanleg líðan sálarinnar. Orðin sál og andi þvælast bara fyrir og auka líkur á ruglingi við kuklfræði spiritismans. Ég vil miklu frekar sjá "geðfræði" eða "hugarfræði" eða "atferlisfræði" í stað hins sérkennilega "sálfræði".

Við höfum orðið "geðlæknisfræði" og því er "geðfræði" vel við hæfi fyrir sálfræði því greinarnar eru nánast þær sömu utan þess að læknirinn hefur geðlyfjafræðina og fræði um líkamlegar orsakir geðrænna vandamála að auki.

Nú segjast prestar og djáknar stunda svokallaða "sálgæslu" sem hefur hafið innreið sína í skólakerfið gegnum Vinaleiðina. Hver er munurinn á "sálgæslu" og "sálfræði"? Himinn og haf! Sálgæsla er trúarleg en sálfræði jarðbundin fræði um geðslag, persónumótun og atferli mannsins og beitir faglegum meðferðum eins og atferlismeðferð til að hjálpa fóli á kerfisbundinn máta. Er þetta svo augljóst ófaglærðu fólki? Nei það sýnist mér ekki. Sumir skólastjórar, kennarar og foreldrar hafa litið á "sálgæslu" sem faglega aðstoð og vitnað í að prestar séu "sprenglærðir"! Hvað er hér væru orðin geðfræði og sálgæsla? Hljómaði þá ekki sálgæslan eins og einhver spiritismi við hliðina á geðfræði (eða hugarfræði)? Jú, í mínum huga a.m.k.

Ég vil að við notum nútímaleg orð og hugtök. Verum óhrædd að henda út úreltum orðum. Segjum "hugur og líkami", "geðræn" vandmál, "huglægt" sinnaður o.s.frv.


danskurinn - 20/11/06 21:17 #

Vegurinn til heilbrigði líkama og sálar er eingöngu þessi, að berjast gegn reiði, beiskju og píslarvættistilfinningu hið innra með sér. Eingöngu er hægt að sigrast á fjandskap milli sjálfra okkar og annarra með vináttu. Með því að sigrast á tilhneigingum okkar til fjandskapar og hefndarþorsta gegn náunganum, getum við numið burt hina raunsönnu orsök sjúkdóma en sjúkdómur er aðeins ákveðið andsvar efnislíkamans við undanfarandi sálarlegum árekstrum og ósamræmi milli mannsins og náunga hans eða umhvefis.


jogus (meðlimur í Vantrú) - 20/11/06 22:52 #

Þannig að barn sem fæðist með harlequin ichtyosis þjáist í raun af andsvari efnislíkamans við undanfarandi sálarlegum árekstrum og ósamræmi milli barnsins og móður þess eða umhverfis?

Nú detta mér allar dauðar lýs úr höfði.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 20/11/06 23:45 #

Fólk er því í betra samræmi við umhverfi sitt nú á dögum en nokkurn tímann áður fyrst að alls kyns pestir og plágur eru mun fátíðari nú á 21. öldinni en áður í sögunni.


Svanur Sigurbjörnsson - 21/11/06 14:59 #

Danskur Ertu að grínast?


Friðrik - 21/11/06 18:59 #

Sálfræði er sú fræðigrein sem leitast við að skilja og skýra hegðun, hugsun og tilfinningar fólks og dýra. Ætli sál sé ekki sameiginlegt heiti yfir hegðun, hugsun og tilfinningar. Þessi þýðing/grein er afar lélegt framtak, að reyna að grafa undan sálfræðinni með svona lélegum skýringum. Sálfræðin er vísindagrein og byggir á afar áreiðanlegum staðreyndum. Vissulega eru settar fram kenningar um hitt og þetta en þær eins og hverjar aðrar kenningar eru prófaðar og gagnrýndar o.s.f.v. Til er afbrigði af sálfræði er kallast dulsálfræði, sem hefur með að gera allt hið yfirnáttúrulega. Vinsamlegast ekki vera að líka þessum tveimur fræðum saman. Sálfræðin, hvort sem þér líkar það betur eða verr, snertir á öllu sem ég og þú gerum daglega. Ekkert yfirnáttúrlegt eða óefnislegt við það minn kæri. Léleg grein


Matti (meðlimur í Vantrú) - 21/11/06 19:02 #

Já þakka þér fyrir, ég geri mér grein fyrir að þýðingin er ekkert sérstök. Mér þykir þú samt lesa hana undarlega. Þessi grein fjallar um hugtakið sál, þetta óefnislega fyrirbæri sem ótrúlega margir trúa á.

Greinina þýddi ég ekki af því að mér þykir hún svo frábær heldur vegna þess að markmiðið er að þýða allar greinarnar af orðabók efahyggjunnar.

Eflaust er vandinn að þessi setning er ekki nægilega vel þýdd hjá mér:

Starf heimspekinga og sálfræðinga sem byggir á tilvist óefnislegra fyrirbæra sem á einhvern máta búa í og hafa samskipti við líkamann...

Þegar höfundur talar um sálfræðinga og heimspekinga í greininni er hann sérstaklega að tala um þá sem gefa sér að til séu óefnisleg fyrirbæri sem búa í og/eða hafa samskipti við líkamann.


Friðrik - 21/11/06 19:05 #

Til að bæta við... Sálfræði er léleg þýðing á heitinu psychology. Psyche kemur úr grísku og merkir oftar "hugi" eða "sjálf" og ber það einmitt þá þýðingu í þessu samhengi. Sál er þó líka ein þýðing orðsins. Íslenskan lét gott heita að fræðigreinin skuli bera heitið sálfræði frekar en hugarfræði eða sjálffræði. Ekki skal dæma fræðigrein vegna heitisins... sammála?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 21/11/06 20:26 #

Ekki skal dæma fræðigrein vegna heitisins... sammála?

Hér er ekki verið að "dæma fræðigrein", heldur ákveðinn hluta þeirra sem fræðigreinina iðka.


danskurinn - 21/11/06 22:03 #

"2jogus - 20/11/06 22:52 # Þannig að barn sem fæðist með harlequin ichtyosis þjáist í raun af andsvari efnislíkamans við undanfarandi sálarlegum árekstrum og ósamræmi milli barnsins og móður þess eða umhverfis?"2

Já, nokkun veginn þannig. Þessari lifandi veru mistekst að skapa sér heilbrigðan líkama. Fyrir þig minni ég á þann hluta textans sem segir “Vegurinn til heilbrigði líkama og sálar er ...að berjast gegn ...píslarvættistilfinningu hið innra með sér.”

"Lárus Viðar - 20/11/06 23:45 # Fólk er því í betra samræmi við umhverfi sitt nú á dögum en nokkurn tímann áður fyrst að alls kyns pestir og plágur eru mun fátíðari nú á 21. öldinni en áður í sögunni."

"Alls kyns pestir og plágur" hafa önnur nöfn og einkenni í dag, en eru ekki fátíðari en áður, síður en svo. Við erum þó augljóslega að læra af reynslunni þótt hægt gangi hjá sumum.

"Svanur Sigurbjörnsson - 21/11/06 14:59 # Danskur Ertu að grínast?"

Nei. Í mínum huga er jafn fráleitt að afneita tilvist hins andlega og að afneita tilvist hins efnislega. Það er eins og að segja að engin þögn sé til, aðeins hljóð.


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 21/11/06 23:24 #

Danskurinn á kafi í sinni frumspekilegu fúamýri, eins og venjulega.


Guðmundur D. Haraldsson - 22/11/06 04:06 #

Ég verð að taka undir með Friðriki. Sálfræði snýst um margt meira en geðlækningar, mannleg hegðun og hugsun í ýmsum aðstæðum og formum er þar í lykilhlutverki. Geðlækningar (þ.e., klínísk sálfræði) er aðeins partur af því öllu saman. Ég held reyndar að hlutfall starfandi klínískra sálfræðinga af sálfræðimenntuðu fólki hafi minnkað undanfarin ár...

Ég átta mig samt ekki alveg á greininni.

Starf heimspekinga og sálfræðinga sem byggir á tilvist óefnislegra fyrirbæra sem á einhvern máta búa í og hafa samskipti við líkamann hefur ekki bætt skilning okkar á virkni mannshugans.

Á þetta að vera "Starf [þeirra] heimspekinga og sálfræðinga..."?

Tveir stórir bransar eru mögulegir og arðvænlegir vegna þessarar trúar á ekki-fyrirbæri sem þarfnast meðferðar frá sérfræðingum í ekki-fyrirbærum: trúarbrögð og sálfræði.

Ef ég skil þetta rétt, þá er verið að benda á að sálfræðingar og trúmenn geti hagnast vegna þess að fólk trúir á einhvers konar óefnislega sál. Er það ekki dálítið langsótt? Gera flestir sér ekki grein fyrir því að sálfræðingar vinna á örlítið jarðbundari forsendum en svo að einhver óefnisleg sál sé með í spilinu?

Þriðji bransinn, heimspeki, þrífst einnig að stórum hluta vegna þessa sálarfyrirbæris: fjölmargir heimspekingar skrifa bækur og greinar sem gera ráð fyrir tilvist anda, meðan fjölmargir aðrir hafa viðurværi af því að skrifa gagnrýni á þær bækur og greinar. Svo virðist sem efahyggjufólkið og trúfólkið þarfnist hvors annars.

Fræðingar hafa flestir hafnað tvíhyggjunni og það núna í um 100 ár. Hljómar eins og ýkjur fyrir mér. Kannski var það ætlunin (?).


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 22/11/06 04:12 #

Starf heimspekinga og sálfræðinga sem byggir á tilvist óefnislegra fyrirbæra sem á einhvern máta búa í og hafa samskipti við líkamann hefur ekki bætt skilning okkar á virkni mannshugans.

Já, þarna er er verið að tala um þá heimspekinga og sálfræðinga sem byggja starf sitt á tilvist sálar, ekki það að allir heimspekingar og sálfræðingar geri það.

Fræðingar hafa flestir hafnað tvíhyggjunni og það núna í um 100 ár. Hljómar eins og ýkjur fyrir mér. Kannski var það ætlunin (?).

Kannski er hann að tala um svokallaða "trúarheimspekinga"? Og á þá kannski við guðfræðinga?


Guðmundur D. Haraldsson - 22/11/06 04:21 #

Starf heimspekinga og sálfræðinga sem byggir á tilvist óefnislegra fyrirbæra sem á einhvern máta búa í og hafa samskipti við líkamann hefur ekki bætt skilning okkar á virkni mannshugans

Já, þarna er er verið að tala um þá heimspekinga og sálfræðinga sem byggja starf sitt á tilvist sálar, ekki það að allir heimspekingar og sálfræðingar geri það.

Þá er setningin misvísandi, hana þarf þá að laga. Því að setningin eins og hún er núna segir að starf sálfræðinga og heimspekinga byggist á óefnislegum fyrirbærum... T.d. er setningin "Starf þeirra heimspekinga og sálfræðinga [...]" allt önnur.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 22/11/06 04:28 #

Sammála því. Ég breytti þessu í: "Starf þeirra heimspekinga og sálfræðinga sem byggja starf...."

Vonandi tekur þýðandinn því ekki illa. :)


Matti (meðlimur í Vantrú) - 22/11/06 11:03 #

Alls ekki :-) Ég er afar þakklátur ef fólk leiðréttir stafsetningar, málfars eða þýðingarvillur. Svo lengi sem fólk er ekki með stæla um leið.


Svanur Sigurbjörnsson - 23/11/06 17:08 #

Danskurinn sagði "Nei. Í mínum huga er jafn fráleitt að afneita tilvist hins andlega og að afneita tilvist hins efnislega. Það er eins og að segja að engin þögn sé til, aðeins hljóð." Þessi setning Dansksins kristallar þann vanda sem orðið "andlegur" kemur umræðunni í. Hér er hann væntanlega að eiga við hluti eins og sál og einhvern dulrænan óefnislegan þátt sem hann og fleiri telja að búi í huga okkar. Það styðst af því að hann setur það sem andstæðu við hið "efnislega". Í almennri umræðu er hins vegar jafn oft átt við venjubundna hugsun og líðan á geði þegar talað er um "andlega líðan". Vísindalega hugsandi fólk notar því orðið til að benda á hugarfarslega líðan eða þætti til aðgreiningar frá "sómatískum" þáttum. "Soma" þýðir líkami og er notað í læknisfræðilegum texta um allan líkamann utan heilans og háþróaðrar starfsemi hans. Ég tel að við ættum einmitt að taka upp þetta orð, annað hvort sem ómetnaðarfull eftirlíking - sómatísk/ur, eða finna nýtt orð með sömu merkingu. Gallinn við að segja "hugur og líkami" er að hugurinn er líka líkami. Þetta er svipað og segja að maður sé með "handlegg og fingur". Kannski má nota orðið skrokkur en það er gamalt orð sem er hvort eð er að mestu fallið úr notkun og hefur þann hljóm að varla er verið að tala um heilann. Þannig mætti tala um hugarfarslega og svo "skrokklega" sjúkdóma. Hljómar hræðilega en gæti vanist he he he. Hvað segja heilarnir hér á Vantrú um þetta?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.