Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Lélegur málflutningur Hilmars Ingólfssonar

Í fyrradag mættust Hilmar Ingólfsson, skólastjóri Hofsstaðarskóla, og Jóhann Björnsson, stjórnarmaður í Siðmennt, í Kastljósi til að ræða um hina svokölluðu Vinaleið. Miðað við framkomu Hilmars má ætla að hann hafi annað hvort ekki kynnt sér málið almennilega eða þá að hann hafi ekki mætt til þess að ræða málið.

Til að byrja með virtist Hilmar alls ekki skilja út á hvað gagnrýni Jóhanns gekk, þrátt fyrir að Jóhann hafi í upphafi umræðunnar sagt að hann væri á móti því að starfsemi skólans færi fram á trúarlegum forsendum. Svona skildi Hilmar þennan augljósa punkt:

Og að vera að beita sér á móti þjónustu í skólanum fyrir börn og unglinga undir því kjörorði að þetta sé kristileg sálgæsla og að það sé eitthvað hættulegt og erfitt. Ég vil bara spyrja Jóhann, telur þú að það sé hættulegt að tala við presta í skólanum? Er það virkilega þín skoðun?

Og ég get ekki rétt ímyndað mér hvernig mönnum eins og Jóhanni, sem er nú kennari sjálfur, að halda því fram hérna að það sé hættulegt og að það sé eitthvað að því að grunnskólabörn tali við presta. Þetta er nú bara alveg út í Hróa hött hjá honum.

Telur Hilmar að það sé eitthvað hættulegt við það að láta Gunnar í Krossinum, mig eða Hilmar Örn allsherjargoða boða trúarskoðanir okkar í skólanum hans? Örugglega ekki, enda er enginn að segja að það sé beint hættulegt fyrir börnin að verða fyrir áróðri þjóðkirkjuprests. Það er einfaldlega verið að andmæla því að trúarinnræting sé stunduð í opinberum skólum. Ég á bágt með að trúa því að Hilmar geti misskilið þetta á þann hátt sem hann virtist gera í þessu viðtali.

Á sama hátt spurði Hilmar Jóhann að því hvort boðorðin tíu væru hættuleg börnum þegar Jóhann benti á að það væri dæmi um trúboðið að þarna væru auglýsingar um barnastarf kirkjunnar, boðorðin á vegg og fleira í þeim dúr á vegg skóladjáknans. Hilmar man kannski ekki eftir því að fyrsta boðorðið fjallar um það að þú skulir bara hafa einn guð. Það er ekki beint hættulegt að boða börnum það, en það er ekki í hlutverki skólans.

Þegar Sigmar spurði Hilmar síðan að því hvort þetta væri einhvers konar trúarleg innræting sagði Hilmar:

Það er náttúrulega auðvitað innræting í skólum og við byggjum samfélag okkar á kristilegum grunni. Það er auðvitað trúarleg innræting í íslensku samfélagi. Við viljum kristið samfélag...

Þannig að samkvæmt Hilmari er trúarinnræting í skólanum, samt neitar hann því að trúboð sé stundað í skólanum hans. Síðan þegar Sigmar spurði að því hvort boðið væri upp á sams konar vettvang fyrir aðra trúarhópa, til dæmis múslíma, sagði Hilmar:

Ég reikna með því að [ef] við værum í samfélagi þar sem múhameðstrú væri ríkistrú að þá myndi það vera sú trú sem væri í viðkomandi skólum.

Hilmari finnst greinilega ekkert að því að Þjóðkirkjan sé að stunda trúboð í skólunum, enda er það ríkistrúin. Hann virtist líka ætla að réttlæta þessa trúarstarfsemi innan skólans með þeim rökum að “yfir 90% sem tilheyra Þjóðkirkjunni” og að Íslendingar væru flestir kristnir. Reyndar eru um 84% Íslendinga skráðir í Þjóðkirkjunni og það er alls ekki víst að flestir Íslendingar séu kristnir, minnihlutinn tekur undir grundvallarkenningar kristinar trúar.

Þetta voru ekki einu misheppnuðu talnagaldrar Hilmars. Hann reyndi einnig að gera lítið úr þeim sjálfsögðu kröfum að opinberir skólar séu ekki trúboðsstofnanir með því að segja: “En mér finnst það svolítið sérstakt að það sé ekki eining um þetta í samfélaginu, ég vil bara vekja athygli á því að Siðmennt er 200 manna klúbbur.” Nú veit ég ekki hversu margir meðlimir Siðmenntar eru, en það er augljóst að ekki allir þeir sem eru á móti trúboðum í opinberum skólum eru meðlimir í Siðmennt. Jóhann svaraði þessu með því að benda á að Ásatrúarfélagið hafi líka ályktað gegn þessu. Svar Hilmar við þeim punkti var: “Ég ætla nú ekki að fara þúsund ár aftur í tímann og fara að boða ásatrú aftur.” Var ekki hægt að fá aðstoðarskólastjórann í Kastljósið?

Sigmar reyndi síðan ítrekað að fá Hilmar til þess að svara því hvort aðrir trúarhópar gætu fengið sama aðgang. Til að byrja með sagði Hilmar að þetta “[snúist] ekkert um það að hleypa einhverjum öðrum trúarhópum inn” og að hann svaraði ekki þessari spurningu “af því að hún er bara röng. Þú ert að spyrja um trúboð. Það fer ekkert trúboð fram í skólanum.” Hvers vegna er það spurning um trúboð að spyrja hvort aðrir trúarhópar geti fengið sama aðgang? En loks í lok viðtalsins svaraði hann á þá leið að mormónar og Siðmennt væru velkomnir í skólann. Ég vona að Hilmar standi við orð sín og opni skólann fyrir trúfélög Íslands, því það mun örugglega ekki endast lengi.

Hjalti Rúnar Ómarsson 16.11.2006
Flokkað undir: ( Vinaleið )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 16/11/06 09:02 #

Hilmari finnst krafa Siðmenntar frekja og skortur á víðsýni. Hann hefur sagt að Gunnar í Krossinum fái aldrei að koma inn í Hofsstaðaskóla - þar sem Gunnar fari fram úr "meðalhófi".

Með þessari útilokun á Gunnari (blessuðum) og nú Ásatrúarmönnum viðurkennir Hilmar að svona starfsemi er trúboð (því ella væri Gunnar og heiðnir menn líklega meinlausir) og gerir sig sekan um þröngsýni.


danskurinn - 16/11/06 12:18 #

Kjarni málsins er sá að starfsfólk í skóla á ekki kenna skoðanir sínar. Persónulegar skoðanir kennara, eru án undantekninga, fullkomlega óviðkomandi þeirri vinnu sem fólkið er ráðið til að vinna. Þess vegna er það ekki feilspor að segja “Ég vil vera öruggur um það að börnin séu ekki í höndunum á fólki sem er annarrar lífskoðunar heldur en ég." eins og Jóhann sagði í Kastljósi RÚV, enda sé merking orðanna sú, að fólk sem kennir skoðanir sínar í skóla, sé óhæft til að vera kennari. Skólastjóri sem ekki skilur þennan einfalda hlut, kúgar starfsfólk sitt jafnt sem nemendur. Ráðherra sem heldur hlífiskildi yfir slíkum skólastjóra tekur þátt í skoðanakúgun.


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 16/11/06 15:56 #

Ég held að það hafi bara aldrei gerzt að ég sé sammála danskinum, en í þetta skiptið get ég tekið heilshugar undir orð hans.


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 16/11/06 18:35 #

Ég talaði við Jóhann í gær. Og hann sagði að hann meinti ekki þetta þegar sagði þettta - "Ég vil vera öruggur um það að börnin séu ekki í höndunum á fólki sem er annarrar lífskoðunar heldur en ég." - nema í samhengi við það sem hann var að segja um djáknanna. Hann talar um það hér á blogginu sínu.


óskar holm - 16/11/06 21:43 #

ég sá þetta í kastljósinu og ég verð að segja að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með talsmann siðmenntar. hann lét því miður kjafta sig í kaf, missti af frábærum tækifærum (t.d. þegar minnst var á boðorðin: það fyrsta á alls ekki heima í skólum landsins ), lét enginn þung högg falla á veikbyggðri röksæmdafærslu, og í þokkabót missti út úr sér tragíska línu (og misskilda) sem þarf bloggfærslu til að útskýra...

síðan virtist hann vera að skipta um umræðuefni þarna í lokin þegar hann fór í kunnuglegu röksemdarfærsluna um "ekki gera góðverk bara af því að guð segir það..." það kom ekki nógu skýrt frá honum. mig þurfti hann ekki að sannfæra en ég held (ég óttast) að flestir hlutlausir sem sáu þetta hafi hugsað eftirá að þetta sé nú lítið mál, og eintómt nöldur í guðahöturum. guð er góður og skólinn er í besta lagi.

ekki svo að skilja að jóhann sé einhver auli! svo það sé klárt: þá meina ég þetta ekki sem persónulega aðfinnslu á jóhann. ég er ekki að halda því fram að ég sjálfur hefði endilega staðið mig betur. ég græt bara þetta glataða en annars góða tækifæri til að halda uppi vörnum trúfrelsis á klakanum, og vekja fleiri til umhugsunar. þarna vantaðir rökfastan, yfirvegaðann fulltrúa allra þeirra sem eru utan þjóðkirkjunnar.

en ekkert bitastætt kom. sem augljósan punkt sem ég hefði viljað sjá gæti ég nefnt samanburðinn við stjórnmál (a la dawkins). ef við segðum að sjálfstæðisflokkurinn ætli hér og með að senda sína fulltrúa í ríkisrekna skóla til að leiðbeina börnum og kenna þeim góðar og gildar stjórnmálaskoðanir. þetta mætti og verja með markleysu eins og: "sjálfstæðisflokkurinn er vinsælasti flokkurinn", "íslendingar eru sjálfstæðisflokks-þjóð" og "hvað eru þessir fýlupokar að finna að því að veita unglingum þarfa, ókeypis þjónustu, að kenna þeim trú á frjálsa markaðinn?" og hvað með það þótt við hengjum lögmálið 'þú skalt ei aðra flokka kjósa' upp á vegg?"

allir -þar með talið kjósendur sjálfstæðisflokksins- yrðu sammála að það væri ótækt. slík 'þjónusta' á að fara fram á faglegum, hlutlausum tónum.

...ég ræði ekki fermingarfræðslukúgunina núna því ég vil ekki sprengja æðarnar í enninu...

-- óskar


danskurinn - 16/11/06 22:21 #

Kastljósið kom mjög vel út fyrir Siðmennt og fulltrúa þess. Hann var einmitt siðmenntaður og eðlilegur á meðan skólastjórinn var ruddalegur og truflaður af æsingi. Sá sem er ruddalegur og afskræmdur af æsingi getur ekki verið góður uppalandi. Það er skoðun þeirra sem á horfðu. Maðurinn hlýtur að þurfa að segja af sér eða fara í einhver sérverkefni! Hann kúgar starfsfólk sitt, nemendur sína og viðmælendur og sér ekkert athugavert við það. Hann er lifandi sönnun fyrir réttmæti skoðanna Siðmenntar.


óskar holm - 17/11/06 04:03 #

í fyrsta lagi, þá sá ég þessa umræðu allt öðrum augum en þú, og fátt annað um það að segja.

en jafnvel þótt þín lýsing á skólastjóranum sé réttari, þá getum við kannski verið sammála um að málsvari siðmenntar (sem jú var yfirvegaður) kom fáum góðum rökum að og gerði lítið í því að brjóta niður veikbyggða röksemdarfærslu skólastjórans. "við erum kristin þjóð" fékk að liggja óáreitt.

við erum sennilega ósammála um það hvort skólastjórinn hafi einsamall kaffært eigin málsstað. við erum vissulega ósammála um hvort maðurinn tók feilspor með línunni fleygu. það má kannski endursegja hana og tegyja með túlkunum á einhvern jákvæðari hátt. en eins og hún féll í þættinum (og eins og skólastjórinn nýtti sér hana), þá fannst mér hún koma afar illa út fyrir málstað siðmenntar. í besta falli var hún klaufaleg. ég efa ekki að hvað maðurinn meinti var vitrænna. en það er bara ekki það sem hann sagði (í þættinum).

kannski hefur þú meira traust á landanum en ég. ég get ómögulega séð að áhorfandi sem taldi ekkert athugavert við að klerkar veiði týndar sálir í skólum fyrir þáttinn hafi fengið í hendurnar ástæðu til að skipta um skoðun. þess vegna lít ég svo á að tækifæri hafi glatast.

-- óskar


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 17/11/06 23:08 #

Svona stutt viðtöl ganga heldur ekki út á að taka eitthvað mál í alvöru fyrir. Það sjá allir að 10 mín eru ekki nóg fyrir svona stórt mál. Þetta snýst einmitt um, í svona stuttum viðtölum, að koma með skot. Því fleirri því betri.

Ég held að ef Jóhann hafi notað þá taktík að riðja sig betur inn þá hefði málstaðurinn komið í ljós sem jákvæður út af því hann er með jákvæðan málstað. En ér finnst vera munur á því að vera rólegur og síðan að láta æstan mann einoka umræðu. Maður getur vel verið rólegur og gripið inn í með ákvðni.

Ég held að þetta sé ekki fyrst og fremst spurning um tón heldur málstað, og hve mikinn tíma hver málstaður fær.


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 17/11/06 23:12 #

Svo er líka alltaf hægt að vera vís eftir á. Þó það sé náttúrulega mikilvægt líka.

En að er eitt að gera, og annað að hugsa um það sem maður myndi gera eða gæti hafa gert. Hann má fá hrós fyrir það að koma ágætlega út úr viðtalinu þó það mætti hafa verið betra og ákveðnara að mínu mati.


Davíð - 18/11/06 21:04 #

Ég skildi skólastjóran þannig að hann vildi bara fá trúarhópa úr Garðabæ í skólan til sín og mormónar væru þar, þess vegna væri Gunnar ekki til umræðu. Getur verið miskilningur. Yfir 90% Íslendinga tilheyrir kristnum söfnuðum. þó svo að ,,aðeins" 86% séu í þjóðkirkjunni.


Guðmundur - 21/11/06 15:38 #

Óskar Holm! Menn eru yfirleitt kjaftaðir í kaf þegar þeir hafa lélegan málstað að verja og eða fram að færa!


Matti (meðlimur í Vantrú) - 21/11/06 15:41 #

En það á ekki við í þessu tilviki.


Guðmundur - 21/11/06 22:16 #

Þetta segja menn þegar að rökin duga ekki lengur.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 21/11/06 22:21 #

Hvar vantar rök? Koma ekki rök fram í greininni? Er ekki fjallað um "málflutning" Hilmars þar?


Guðmundur - 21/11/06 23:08 #

Jú vissulega er þar fjallað um "málflutning" en það eitt að setja það fram í skáletrun og í gæsalöppum hjá þér nú að síðustu, gerir ekkert rétt, ekkert betra en var, ekkert satt. Fyrir mér hljómar málflutningur þinn afar einfeldningslegur; þú (ef sá sem mælir í skrifum þínum endurspeglar þínar skoðanir - sem ekki þarf að vera)hljómar eins og stúdent sem nýverið hefur sótt fyrirlestra í heimspeki (grunnnámskeið) og lært þar um forna þrætubókarlist (en veist í raun ekkert út á hvað hún gengur) og hefur ennfremur lært pínulítið í rökfræði en (eftir sem áður veist ekki um hvað hún fjallar). Þú hljómar eins og háskólastúdent sem ekki er klár á því hvað hann á að standa fyrir; en er þó hvorki nýr né fullur í Kaupmannahöfn árið 1860.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 21/11/06 23:18 #

Jú vissulega er þar fjallað um "málflutning" en það eitt að setja það fram í skáletrun og í gæsalöppum hjá þér nú að síðustu, gerir ekkert rétt, ekkert betra en var, ekkert satt.

Hvað í ósköpunum ertu að reyna að segja hér Guðmundur? Þú veður hér fram og gefur í skyn að Jóhann hafi haft lélegan málstað að verja í Kastljósþætti, hvernig væri að þú reyndir að rökstyðja mál þitt í stað þess að vera hér með barnalegan skæting.

Allir sem sáu Kastljósþáttinn vita að Hilmar skólastjóri gerði þar lítið annað en að vera með skæting og upphrópanir.


Guðmundur - 21/11/06 23:31 #

Það sem ég er að segja virðist allt rétt og satt - altént endurspeglast viska mín í svörum þínum.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 21/11/06 23:46 #

Guðmundur, ég skil ekki alveg hverju þú ert að halda fram. Ertu að halda því fram að þar sem Hilmar gjammaði mest allan tímann sé málstaðurinn hans réttari?


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 21/11/06 23:55 #

[A]ltént endurspeglast viska mín í svörum þínum.

Já, þú ert greinilega mjög vitur og sannur vinur vizkunnar.


Guðmundur - 22/11/06 00:06 #

Ég er allavega ekki minna vitur en þú og ekki lengra frá viskunni (ef fjarlægð frá henni er mælanleg - mér er ekki kunnugt um það). Hvort vinátta við viskuna er einhver föst stærð (ég efast um það)er staðreynd? Stórt spurt - en sé svo; þá skulum við fagna!!!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.