Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Að klífa fjall sannleikans eða að gefast upp á miðri leið

Sannleikurinn er til. Það er hins vegar mjög erfitt að höndla hann. Þetta eru augljós sannindi. Það sem skiptir öllu í þessu sambandi er hvernig þú tekur á þessarri áskorun.

Davíð Þór Jónsson skrifar enn einn pistil í Fréttablaðið þann 12. nóvember þar sem hann talar gegn rökhyggju. Í pistlinum þá talar hann um að hann hafi einu sinni verið aktívur í að leita sannleikans en sé núna meira og minna búinn að gefast upp á því streði. Hann virðist vera kominn niður á afstæðishyggju í viðhorfi sínu til sannleikans, að skoðanir fólks séu jafn réttháar án tillits til þess hvað fólk hefur til stuðnings þeim. Þetta er augljóslega fjarstæða.

Davíð líkir sannleikanum við fjall sem er erfitt að klífa. Það er í sjálfu sér ágæt líking. Sumir gera sitt besta til að klífa alltaf ofar og ofar á fjallið. Með þessu vonast þeir til að ná betri sýn á heiminn, að opna sjóndeildarhringinn og sjá hvað er raunverulega þarna úti. Þetta er að vísu fjall sem virðist alltaf stækka þegar maður heldur að toppurinn sé á næsta leyti. Þeir sem klífa fjallið líta að sjálfssögðu á þetta sem síendurtekna ögrun. Takmarkið er ekki að sigrast á fjallinu heldur að takast á við þær ögranir sem menn mæta á leiðinni. Vissulega er hægt að komast í sjálfheldu á leiðinni upp en þessir hugrökku menn eru í góðum félagsskap sem bjargar þeim ef eitthvað fer úrskeiðis. Sannleiksleitin leiðréttir sig nefnilega sjálfkrafa þegar fram í sækir.

Aðrir finna sér notalegan stað neðarlega í fjallinu og horfa bara á bergið. Þessir menn sjá andlit í berginu og búa til sögur um steinrunnin tröll. Síðan fara þessir menn að trúa eigin sögum og kenna síðan þessar tröllasögur öllum þeim sem ætla sér að klífa fjallið. Því miður trúa margir sem hefðu getað orðið miklir fjallgöngugarpar þessum sögum. Þeir setjast að neðarlega í hlíðinni og hæðast að þeim sem vilja klífa sannleiksfjallið. "Útsýnið er alveg jafn gott hérna niðri" segja þeir og glotta í sjálfumgleði sinni.

Á mörgum skeiðum hugmyndasögunnar voru menn eins og Davíð Þór sem predikuðu að það væri óþarfi að klífa sannleiksfjallið því að útsýnið úr neðri hlíðunum væri alveg nóg. Þessir menn trúðu bara sínum tröllasögum og voru glaðir með það. Sem betur fer hafa menn lært að hunsa þessa úrtölumenn og þess vegna höfum við tekið stór skref fram á við í sannleiksleitinni. Við fáum alltaf nýjar og nýjar fréttir af því sem fjallgöngugarparnir sjá úr efri hlíðum fjallsins.

Orðið heimskur var áður fyrr notað um þá sem fóru ekki að heiman. Þessir heimsku menn voru bara sáttir við það sem þeir vissu um heiminn út frá sínu takmarkaða sjónarhorni. Þetta eru mennirnir sem sitja neðst í hlíðinni og eru bara ánægðir með að hafa fundið sér notalegt sæti þar sem þeir geta látið tímann líða. Það er lítið að græða á þessum mönnum. Ég stefni á að klífa fjallið. Þarna uppi má finna menn sem hafa farið aðrir leiðir upp og séð heiminn frá öðru sjónarhorni en ég. Það eru mennirnir sem hafa víkkað út sjóndeildarhring sinn og geta sagt manni eitthvað annað en endalausar tröllasögur.

Rétt er að taka fram að höfundur er mastersnemi í þjóðfræði og hefur lúmskt gaman af tröllasögum þó hann trúi þeim ekki.

Óli Gneisti Sóleyjarson 15.11.2006
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Árni Árnason - 15/11/06 18:15 #

" að vita meira og meira, meir´ í dag enn í gær"

sungum við öll sem börn, glöð í bragði.

Þeir sem síðan hafa þroskast eðlilega, gera sér fulla grein fyrir því að seint kemur sá tími að við vitum allt. Við erum sátt við að vita meira í dag en í gær, og vitum að þeir sem fyrir löngu sættu sig við skýringuna "guð gerði það" og þykjast þar af leiðandi vita allt, vita ekki rassgat og munu aldrei vita.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.