Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Fjallkirkjan

Því miður er það svo að trú og trúarbrögð skipa virðingarsess í hugum flestra. Þetta gildir ekki eingöngu um þá er deila sömu trúarbrögðum, heldur bera hinir upplýstu og frjálslyndu trúmenn virðingu fyrir öðrum trúarbrögðum og iðkendum þeirra. Þannig þykir yfirleitt sjálfsagt að kristnir sýni trúarbrögðum annarra virðingu, þ.e. viðurkenna rétt annarra til að trúa á eitthvað annað en þeir sjálfir. Þetta er m.a. ástæðan fyrir því að ekki urðu eingöngu múslimar ærir yfir heimskulegum orðum páfa um íslam nú fyrir skemmstu, heldur þustu einnig hinir kristnu fram og vörðu trú Múhameðs. Þess hins sama spámanns er boðaði gerðir og viðhorf, sem eru andstæða við grundvallarkennisetningar kristninnar skv. túlkun guðfræðinganna.

Þetta sýnir vel hversu hinir trúuðu, hvort heldur þeir eru hófsamir eður ei í trú sinni, eru berskjaldaðir gagnvart öfgum trúar og trúarbragða. Eða er það ekki augljóst að ef þú ert trúaður, t.a.m. kristinn, þá getur þú vart annað en viðurkennt trú annarra hversu ógeðfelld, sem þér kann að finnast hún í kenningu eða framkvæmd? Um leið og trúmaðurinn dregur hindurvitni annarra í efa fórnar hann sínum eigin.

Ekki eru samt öll trúarbrögð lögð að jöfnu þegar kemur að virðingunni. Sumum trúarbrögðum þykir meira að segja sjálfsagt að sýna óvirðingu. Hér gefur að líta slíkt dæmi*. En hvernig getur sá sem gengur til altaris í kirkju og gæðir sér á holdi og blóði guðs síns gagnrýnt sakramenti kannabiskirkjunnar, eða trúarathafnir annarra safnaða yfirleitt, hverjar svo sem þær nú eru? Hið fyndna við þetta er að það er ekki skilgreining kannabiss sem eiturlyf, sem kemur í veg fyrir löggildingu kirkjunnar. Heimild er fyrir notkun ólöglegra efna í trúarathöfnum annarra safnaða, en þar er vísað til hefða. Það er sem sagt í lagi að eitra fyrir meðlimi safnaðarins ef fyrir því er hefð. Þetta er auðvitað glórulaust.

Til eru lög í landi voru um skráð trúfélög (1999 nr. 108), sem kæmu sennilega í veg fyrir stofnun kannabiskirkju og er það vel. Sömu lög koma þó jafnframt í veg fyrir að nokkur önnur ný trúarbrögð nái fótfestu. Í þriðju grein nefndra laga segir:

Skilyrði fyrir skráningu trúfélags er að um sé að ræða félag sem leggur stund á átrúnað eða trú sem tengja má við þau trúarbrögð mannkyns sem eiga sér sögulegar eða menningarlegar rætur.

Hvað ætli sögulegu og menningarlegu ræturnar þurfi að ná langt aftur? Ef einhver hefur reykt dóp sl. tíu ár til að komast í snertingu við guð er þá sögulega skilyrðið uppfyllt í ljósi þess að almennt kannabisbrúk á Íslandi er vart eldra en fjörutíu ára gamalt? Fíkn er jafnframt ákaflega menningarlegt fyrirbæri – er það t.d. ekki almannarómur að mörg fyrirmenni á öldum áður voru fyllibyttur eða dópistar, nema hvort tveggja væri? Sennilega yrði þó á brattann að sækja með svona röksemdir í farteskinu.

Gaman gæti hins vegar orðið að sækja um skráningu Fjallkirkjunnar til ráðamanna. Kirkjan sú stendur föstum fótum ekki eingöngu í kristinni hefð, heldur einnig íslenskri náttúru og leggur áherslu á að öll erum við fjallalömb drottins. Í altarisgöngunni yrði boðið upp á lambakjöt og nýmjólk, en ekki vínsull og þurrt kex. Á krossinum yfir altarinu héngi ekki frelsarinn skorinn í tré heldur vænn dilkur. Altarið yrði að sjálfsögðu úr hraungrýti og skírn væri framkvæmd með niðurdýfingu í heilnæmt jökulvatn. Með þessari kirkju mundi skapast markaður fyrir lambakjöt og kúamjólk innanlands og stórhuga Íslendingar í útrásarham gætu eflaust borið fagnaðarerindi Fjallkirkjunnar víða um heim og þar með stuðlað að bættum efnahag landsmanna. Þessi kirkja þyrfti ekki að betla eina einustu krónu frá nokkrum manni heldur mundi hún leggja ríflega með sér í þjóðarbúið. Meðtakið hið postullega jarm.

* Til að það sé alveg ljóst þá tek ég fram að hvorki Vantrú né ég persónulega mælum bót notkun ólöglegra vímuefna af nokkru tagi.

Guðmundur Guðmundsson 02.11.2006
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Guðjón - 02/11/06 08:59 #

Allir menn hafa rétt á því að mynda sér hvað skoðun sem er með hvaða aðferð sem er. Hver og einn hefur endanlegt úrskurðavald um gildi eigin skoðanna. En úrskurðavald hans er bundið við hann sjálfana. Þess vegan er það ekkert vandamál fyrir mig þó einhverjir aðhyllist skoðannir sem ég er ósammála.


Magnús - 02/11/06 10:41 #

Áhugaverð spurning fylgir fréttinni um hasskirkjuna:

A couple is claiming they use marijuana for spiritual enlightenment. Does the government have the right to stop them?
1) No, religious freedom is more sacred than illegal drug laws.
2) Marijuana is illegal. End of story.
3) Wait - what was the question?

Það er sem sagt pláss til að hafa lítinn og sniðugan hassbrandara sem eitt svar af þremur, en ekki pláss fyrir "Mér er sama hvort fólk reykir gras og trúarbrögð koma því ekkert við". Eitt lítið dæmi af mörgum um hvernig skortur á gagnrýni á trúarbrögð mótar orðræðuna.


Snæbjörn - 02/11/06 12:08 #

Það má nú reyndar benda á það, að líklegt er að drúídar hafi reykt vímugjafa í trúarathöfnum sínum. Svo ef einhver vill vekja upp einhvern ný-heiðinn drúída kult hérna á Íslandi og nota sem afsökun fyrir hass reykingum, þá hefur hann sögulega og menningarlega skírskotun.


óðinsmær - 02/11/06 22:20 #

Óðinsdýrkun var alræmd fyrir vímuefnanotkun í sumum hermannasamfélögum og heiðingjar almennt notuðust flestir við "eitthvað" til að koma sér í transa og svoleiðis við og við - það er allt saman mjög sögulegt og kannski getur einhver nýtt sér það, þótt ég sé ekki að mæla með vímuefnanotkun ;)


óðinsmær - 02/11/06 22:22 #

ji, hvað ef ásatrúarmenn hafa nú menningar- og sögulega skírskotun til þess að fara í brjálað hermannaástand með því að graðga í sig sveppum? kannski ef það væri innrásarher á leiðinni hingað, þá gæti það komið sér vel...


Jón Kjartan Ingólfsson - 04/11/06 16:33 #

Rastafari - það eru trúarbrögð ekki satt? Þessi í Jamaika? Þar trúa menn, muni ég rétt, að Haile Selassie (eða hvernig sem það á að skrifast), fyrrum þjóðhöfðingi í Eþíópíu, sé guð. Þeir brúka nú aldeilis kannabis við trúariðkun! Þar eru sögulegar og menningarlegar rætur fyrir allan peninginn.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 04/11/06 19:46 #

Rastafari.


FellowRanger - 05/03/07 20:49 #

Fólk er orðið svo rótgróið í trú sína að allar skoðanir þurfa að vera marg ritskoðaðar áður en hægt er að birta þær, það tel ég rangt og heimskulegt.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.