Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Er ég á móti kristni sem slíkri?

Á þessum vettvangi hef ég skrifað margt og mikið um trú og trúarbrögð og meira og minna gagnrýnt hvort tveggja. Það er því von að einhverjum detti í hug að spyrja hvort ég sé á móti kristinni trú sem slíkri. Stutta svarið er: Já, ég er á móti henni sem slíkri. Langa svarið er þetta:

Kristnir menn eru á móti synd sem slíkri, en þeir skárri í hópi þeirra eftirláta guði að dæma, enda telja þeir að enginn sé syndlaus hvort sem er. Mín afstaða er í sjálfu sér ekki alveg ólík. Ég er á móti hindurvitnatrú sem slíkri, en trúna sem slíka er kannski ekki mitt að dæma þegar öllu er á botninn hvolft, því hver er ég að lýsa því yfir að ég aðhyllist enga hjátrú? Ég lít á trú sem eina tegund fordóma. Hvort tveggja stafar frá sömu rót, að fólk er gjarnt á að stytta sér leið til ályktana án þess að hafa grandskoðað alla þætti málsins. Alla jafna er það mikill kostur að fólk skuli geta gert þetta, því flest mál hafa margar hliðar og það sparar óneitanlega óhemjumikinn tíma að sjá aðalatriði og niðurstöður fljótt. Auk þess er niðurstaðan oftast nokkuð rétt. En hún er það því miður ekki alltaf.

Eins og ég er á móti fordómum sem slíkum, þá er ég á móti trú sem slíkri. Hins vegar tel ég mig ekki vera þess umkominn að fordæma fólk fyrir eitthvað sem ég gæti vel verið sekur um sjálfur. Ég er ekki í neinni stöðu til að kasta fyrsta steininum.

Það er hins vegar munur á, og ég býð gagnrýnendum að kalla mig hrokafullan fyrir að segja það, en ég reyni markvisst að finna villurnar í mínum eigin hugmyndum til þess að leiðrétta þær.

Trúmönnum vil ég segja að ég mæli með því. Ekki aðeins verða hugmyndir manns einu korni réttari með hverri endurskoðun, heldur er tilfinningin unaðsleg. Mér er til dæmis minnisstætt þegar ég las grein hins mæta Sigurðar Hólm Gunnarssonar, Ó nei, tunglið er fullt! hér um árið. Fram að því hafði, satt að segja, ekki hvarflað að mér að tal um „tunglsýki“ væri bara vitleysa. Ég hristi hausinn yfir því núna, hvað þetta var kjánalegt af mér, en niðurstaðan er að ég áttaði mig á villu míns vegar. Ég hafði álitið mig trúlausan í mörg ár þegar ég áttaði mig á að þarna var hjátrú sem ég aðhylltist sjálfur. Það var óskaplegur léttir að losna við hana.

Þar sem ég verð sjálfur uppvís að því annað slagið að aðhyllast hugmynd sem á sér ekki stoð í raunveruleikanum, þá er ég auðvitað ekki í aðstöðu til að fordæma þá sem aðhyllast slíkar hugmyndir. Ég meina, það er engin dauðasök að hafa rangt fyrir sér. Hins vegar mæli ég með stöðugri endurskoðun, hún er ekki ekki bara gagnlegur verknaður, heldur dásamleg tilfinning sem enginn ætti að missa af. Því stærri hjátrú sem maður losnar við, þess ánægjulegri er tilfinningin.

Vésteinn Valgarðsson 26.10.2006
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Fiðlarinn á þakinu - 26/10/06 11:25 #

Hefur kristnin engu góðu komið til leiðar á Íslandi? Bara böl allt saman? Ef þið á Vantrú viljið teljast trúverðugir eða málefnalegir er grundvallaratriði að þið skoðið sérhvert mál frá að minnsta kosti tveimur sjónarhornum. Með eða móti. Hingað til hefur þetta bara verið einstefnugata.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 26/10/06 11:37 #

Hvers vegna ætti að halda úti einhverju sjónarhorni hér sem er andstætt skoðunum okkar? Mönnum er velkomið að skrifa lesendabréf ef þeir vilja kynna sitt sjónarmið.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 26/10/06 11:40 #

Bendi á kirkjan.is eða trú.is ef fólk vill kynna sér málstað Þjóðkirkjunnar. Fólk getur svo dundað sér við að finna heimasíður minni kristinna söfnuða með aðstoð google.


Fiðlarinn á þakinu - 26/10/06 12:08 #

Það er sem sagt skoðun ykkar beggja að við værum betur stödd ef íslendingar hefðu ekki játast kristni fyrir ca. þúsund árum? Þetta hefur bara verið bein braut niður á við allan tímann og við erum enn að súpa seyðið af þessu?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 26/10/06 12:44 #

Hvernig í ósköpunum dregur Fiðlarinn þessa ályktun?


Fiðlarinn á þakinu - 26/10/06 12:55 #

Spurði tveggja einfaldra spurning í upphafi. Þið kusuð að svara þeim ekki. Geng því útfrá að þið getið ekki týnt til neitt jákvætt um kristnina hér á landi. Ekki satt?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 26/10/06 12:58 #

Svör okkar voru þau að ef þú villt lesa eitthvað jákvætt um kristni er nóg af stöðum fyrir þig auk þess sem hægt er að senda inn athugasemdir á þessa síðu.

Jákvæður áróður fyrir kristni hefur verið rekinn hér á landi í mörg hundruð ár.

Ég gæti spurt á móti, sér Fiðlarinn nafnlausi eitthvað neikvætt í starfi kirkjunnar hér á landi síðustu árhundruð?


Arnold Björnsson - 26/10/06 13:10 #

Líka væri hægt að spyrja fiðlarann hvort kirkjan haldi uppi jákvæðri umfjöllun um trúlausa og efahyggjufólk. Með sömu rökum og fiðlarinn notar væri rétta að kirkjan léti af fordæmingum í garð þeirra sem ekki skrifa undir kenningar biblíunnar.

Kirkjan hefur mikil forréttindi þegar kemur því að koma sínum skoðunum á framfæri. Forgang að fjölmiðlum og miljörðum úr ríkissjóði. Fjölda starfsmanna til að herja á landsmenn með sinn boðskap. Er ekki í lagi kæri Fiðlari að við fáum að halda úti vefsíðu fyrir okkar skoðanir.

Eða ertu sömu skoðunar og heyrst hefur frá kirkjunni að trúlausir séu fínir bara ef þeir hafa hljótt um sig?


Svanur Sigurbjörnsson - 26/10/06 13:34 #

Góð hugleiðing hjá þér Vésteinn. Trú á ofurnáttúru er bara hluti af öllum þeim hindurvitnum sem í gangi eru og við höfum öll einhverjar órökstuddar skoðanir eins og þú nefnir. Okkur er því hollt að vera ekki of góð með okkur og álasa trúuðum ekki um of. Síst skyldi maður vera með persónulegt háð gagnvart þeim þó mér finnist í lagi að hæðast góðlátlega að einstaka bábiljum og hindurvitnunum sjálfum. Öll höfum við farið með staðleysur í lífunu og allir eiga að fá tækifæri að fara út bakdyramegin (nú eða um fordyrið) með reisn.

Við Fiðlarann vil ég segja að ég sem trúlaus maður sé ekki allt slæmt við kristnina því hún var siðferðileg framför miðað við heiðið samfélag (a.m.k. miðað við þá söguskoðun sem manni var kennd) og áhersla á miskunsemi og fyrirgefningu / sættir var mikilvæg. Hins vegar var (og er) Biblían ákaflega siðferðislega "tætt" rit sem boðar einnig refsingu í helvíti, þrælkun kvenna og margt sem hinar síðari aldir þótti í æ ríkari mæli ómerkilegt og ósiðsamlegt. Kirkjan sem samfélag hefur sjálfsagt veitt mörgum hjálparhönd og verið félagslega dýrmætt en nú er löngu kominn tími til að taka upp metnaðarfyllri úrræði.

Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá að það þarf ekki ofurnáttúru og helgihald til að uppfylla þær félagslegu þarfir sem kirkjan þjónar í dag. Þetta er allt hægt að gera á fallegan jarðbundinn (secular) hátt og hugvekjur má halda í samræmi við nútíma siðferði og lýðræðislegan málflutning.

Barátta trúleysingja fellst ekki í því að finna kirkjunni allt til foráttu heldur að benda á aðrar leiðir og byggja upp betri valkosti. Þetta er því miður skammt á veg komið en ég er ekki í vafa um að þetta mun dafna og valda straumhvörfum í þjóðfélaginu.

kv. Svanur


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 26/10/06 14:57 #

Fiðlari, það hafa orðið miklar framfarir á Íslandi undanfarin 1000 ár og sumar þeirra tengjast kristinni kirkju. Aðallega kirkjunni, frekar en trúnni sem slíkri. Þessi grein fjallar um trúna sem slíka, ég er líka á móti kirkjunni sem stofnun, en sú andstaða er pólitískari og ekki til umræðu hér. Ég sé ekki að það sé nauðsynlegt orsakarsamhengi milli kristinnar trúar og framfara á Íslandi undanfarin 1000 ár, eða að tengslin þar á milli séu ekki háð því að það vildi svo til að kristni spilaði hér rullu sem ýmis önnur hjátrú hefði alveg eins getað spilað. Pólitískt séð er stærsti þáttur kirkjunnar sá að koma á kerfisbundinni stéttaskiptingu í landinu. Ég legg ekki siðferðislegan dóm á það í sjálfu sér, þar sem það er einfaldlega eðlileg, lógísk þróun. Kristni á auk þess ekki neina heimtingu á viðurkenningu í dag fyrir eitthvað sem hún kann að hafa látið gott af sér leiða fyrir einhverjum öldum síðan. Hún er í besta falli tímaskekkja.


gestur - 26/10/06 22:54 #

"Eins og ég er á móti fordómum sem slíkum, þá er ég á móti trú sem slíkri."

Gætir ekki mótsagnar þarna? Eru þetta ekki fordómar í garð trúar?


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 26/10/06 23:12 #

Ef trú byggir á fordómum trúmanns um heiminn (þeim fordómum að það sé til almáttug yfirnáttúruvitund sem hafi búið þetta allt til og stjórni öllu), þá eru þetta einmitt ekki fordómar gegn trú heldur ein orð til að orða ástæðuna fyrir því að maður er á móti henni.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.