Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Er trú óháð rökum?

Menn sem fylgjast með umræðum um trúmál, hvort sem það er á netinu eða annars staðar, komast ekki hjá því að heyra að trú sé óháð rökum (og ekki nóg með það heldur í sumum tilfellum andstæð rökum). Trúin sé þannig í eðli sínu öðruvísi en aðrar skoðanir manna, t.d. stjórnmálaskoðanir. Hefur borið alveg sérstaklega mikið á þessu undanfarna daga og er því ekki úr vegi að kanna hvað sé til í þessu.

Hugmyndin að trú sé handan skynseminnar heitir á erlendum málum fideismi og þeir sem aðhyllast hana fideistar. Sú hugmynd er frekar útbreidd, sérstaklega hjá mótmælendum, en er alls ekki ráðandi meðal trúaðra manna. Til dæmis lítur kaþólska kirkjan á fideisma sem villutrú (en til hennar teljast meira en milljarður manna). Fideismi á heldur ekki uppi á pallborðið hjá múslimum eftir því sem ég kemst næst.

Sé svo litið til heimspekisögunnar á fideismi sér líka fáa talsmenn, heimspekingar eyddu nær öllum miðöldum í að renna röklegum stoðum undir trúna og hafa flestir heimspekingar síðan verið sammála afstöðu þeirra, til helztu undantekninga má nefna Pascal, Kierkegaard og samkvæmt túlkunum sumra, hin síðari Wittgenstein.

Þegar litið er til þess hversu fáir hafa í raun haft þessa umræddu skoðun er það frekar kaldhæðnislegt að menn geti haldið þessu fram sem einu réttu skilgreiningunni á trú eins og það sé augljóst mál sem ekkert þurfi að ræða frekar.

Jafnvel gæti ég haldið því fram að í fideisma felist ákveðin gengisfelling á trú vegna að í honum felst að trú sé í eðli sínu óskynsamleg. Ég veit að páfinn er mér í þessu sammála.

Enn frekar get ég ekki skilið að menn líti á það sem vörn fyrir trú að segja að hún sé óskynsamleg, frekar mætti flokka það sem gagnrýni á trú. En eftir stendur það álit mitt að þegar maður fullyrðir að trú sé handan skynseminnar og að eðli hennar sé að vera óháð rökum, þ.e. að trú væri ekki trú nema án raka, er maður ekki einungis að lítilsvirða trú heldur líka að móðga mjög marga trúaða menn.

Ásgeir Berg Matthíasson 12.10.2006
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.