Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trú og trúleysi í vefbókasafnið

Árið 1936 flutti alþýðufræðarinn Pjetur G. Guðmundsson útvarpserindi í Ríkisútvarpinu, sem nefndist Trú og trúleysi. Pétur G. Guðmundsson hafði þýtt ýmsar smásögur, bókina Andlegt frelsi eftir Robert Ingersoll og samið kennslubækur í sænsku. Hann starfaði einnig að verkalýðsmálum fyrir bættum hag íslenskrar alþýðu. Pétur bað um að fá að halda erindi í Ríkisútvarpinu því það var á þeim tíma, líkt og enn er dag, með of mikla trúarslagsíðu. Hann bauðst til að koma með mótvægi. Honum varð að ósk sinni og fékk að ávarpa alþjóð. Erindið varð einnig gefið út af „nokkrum mönnum í Reykjavík“ í litlu kveri sama ár.

Þó svo það verði að líta á textann með tilliti til þess tíma sem hann var ritaður á, sést að margt ef ekki flest, á ennþá fullt erindi.

Ég fann bæklinginn sem hér er stuðst við, innan um aðra gamla bæklinga og lausablöð í kassa innan um hauga af þurrgulli í fornbókabúð, á ekki nema 200 kall. Ég vann við að koma erindinu í stafrænt form. Fengið hafði verið leyfi til birtingar hjá einum afkomanda Péturs og fær Birgir Baldursson heiðurinn fyrir þá eftirgrennslan.

Erindið er hægt að finna í vantrúarbókasafninu hér.

Kári Svan Rafnsson 06.10.2006
Flokkað undir: ( Vísun )

Viðbrögð


Árni Árnason - 06/10/06 12:25 #

1936-2006 Hverju höfum við vantrúaðir fengið áorkað ?

Þeim sem raunverulega trúa fækkar stöðugt, en hræsnin fitnar eins og púkinn á fjósbitanum. Trúin horast en kirkjan fitnar. Nefnd um endurskoðun sjtórnarskrár lætur sér í alvöru til hugar koma að hrófla ekki við þjóðkirkjuákvæðunum að svo komnu.

Það vita allir að þetta stenst ekki. Ráðherrarnir vita það, alþingismennirnir vita það, þjóðin veit það, prestarnir vita það, en hvað svo ? Ekkert. Skólaprestar- skóladjáknar.

Nú er ekki lengur til setunnar boðið. Við verðum að stöðva þessa vitleysu með öllum tiltækum ráðum. Hver vill taka að sér að leiða þá baráttu opinberlega ? Þurfum við ekki að fara að bretta upp ermarnar og láta finna fyrir okkur ? Með þessu áframhaldi á enginn okkar eftir að lifa það að sjá þessari þvælu linna.


Arnold Björnsson - 06/10/06 12:36 #

Þeim sem raunverulega trúa fækkar stöðugt, en hræsnin fitnar eins og púkinn á fjósbitanum. Trúin horast en kirkjan fitnar. Nefnd um endurskoðun sjtórnarskrár lætur sér í alvöru til hugar koma að hrófla ekki við þjóðkirkjuákvæðunum að svo komnu. Það vita allir að þetta stenst ekki. Ráðherrarnir vita það, alþingismennirnir vita það, þjóðin veit það, prestarnir vita það, en hvað svo ? Ekkert. Skólaprestar- skóladjáknar.

Þetta er einhver besta súmmering á málinu sem ég hef séð.


Trúleysingi - 06/10/06 12:38 #

Ef þú skráir þig úr þjóðkirkjunni borgaru bara í staðinn til Guðfræðideildarinnar í Háskólanum. Það er bara kjánalegt


Björn Darri (meðlimur í Vantrú) - 06/10/06 12:54 #

Það er ekki rétt!

Sjá FAQ: Hvað eru sóknargjöld?


Guðmundur D. Haraldsson - 06/10/06 14:51 #

Þessi saga um að peningarnir sem renna til HÍ fari í guðfræðideildina ætlar að vera ódrepandi...


S - 06/10/06 14:54 #

Ég biðst afsökunar á því hvað þessi athugasemd er löng.

Ég tel rétt að leiðrétta grunndvallarmisskilning sem er að finna í greininni FAQ: Hvað eru sóknargjöld. Ekki er hægt að gera athugasemd beint við þá færslu, og því geri ég athugasemdina hér, í þeirri von að hin færslan verði endurskoðuð í þessu ljósi.

Í gildi eru lög sem heita "lög um sóknargjöld o.fl." nr.91 1987. Þetta "o.fl." er mikilvægt í þessu sambandi. Áhugasömum er bent á www.althingi.is þar sem finna má lögin í lagasafninu.

Samkvæmt 2. gr. þessara laga fá Þjóðkirkjan, önnur trúfélög og Háskólasjóður "ákveðna hlutdeild í tekjuskatti" samkvæmt ákveðnum reglum. Á öðrum stöðum í lögunum er þetta gjald kallað "gjaldið" eða "gjald skv. 2. gr." en hvergi í lögunum er "sóknargjald" notað sem samheiti yfir gjöld sem fara til þessara 3. aðskildu aðila. Mér vitandi er hvergi til það íslenska lagaákvæði sem kallar það gjald sem þeir greiða til Háskólans sem standa utan trúfélaga "sóknargjald".

Þeir sem standa utan trúfélaga eru ekki aðilar að "sókn" og greiða ekki "sóknargjald" heldur "ákveðna hlutdeild af tekjuskatti" til Háskólans.

Einhver getur spurt hvort þetta tækniatriði skipti nokkru máli. Að mínu mati skiptir það vissulega máli. Orðanotkunin eins og hú er í FAQ: Hvað eru sóknarhjöld styður (líklegast óviljandi) við þá algengu ranghugmynd að á Íslandi greiði allir sóknargjöld, en trúfélagsskráning ráði því hvert sóknargjaldið fer.

Staðreyndin er sú að það greiða ekki allir sóknargjöld á Íslandi. Þeir einir greiða sóknargjöld sem tilheyra "sókn". Þar er um að ræða félagsgjald til þess trúfélags sem viðkomandi hefur kosið að tilheyra.

Þeir sem borga ekki sóknargjöld greiða samkvæmt lögunum sem ég vitnaði í hér að ofan hins vegar sérstakan skatt sem nemur sömu upphæð og sóknargjaldið.

Ekki verður séð hvernig þessi sérstaka skattheimta, sem byggist á trúarskoðunum, stenst sjórnarskrá lýðveldisins en enginn hefur enn látið reyna á málið fyrir dómstólum.

Rétt er að benda á að mismununin felst ekki eingöngu í sérstökum skatt á trúleysi, heldur eru ýmsar aðrar af algengustu lífsskoðunum heimsins skattlagðar sérstaklega samkvæmt þessum lögum, þar sem ekki eru til skráð trúfélög fyrir öll trúarbrögð hérlendis. Þannig borga t.d. gyðingar og hindúar sérstakan skatt fyrir trú sína ef þeir eru á annað borð skattlagðir á Íslandi.

Ég hvet alla til að hætta þeirri meðvirkni sem felst í því að samþykkja að kalla gjaldið sem þeir greiða til Háskólans sem standa utan trúfélaga "sóknargjald". Meðlimir trúfélaga greiða sitt félagsgjald í formi "sóknarfjalda" en aðrir greiða "gjald skv. 2.gr. laga nr. 91 1987".

Þar sem þetta er vissulega frekar óþjált nafn legg ég til að orðið "samviskuskattur" verði notað þar til önnur og betri hugmynd kemur fram.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 06/10/06 15:04 #

Já, það er spurning hvort að óréttlætið sé augljósara ef þetta er kallað einhverju öðru nafni en sóknargjald. Ef við notum orðið 'sóknargjöld' sést það kannski á því að maður sem er ekki í sókn þarf að borga sóknargjald

En ég veit ekki hvort samviskuskattur sé gott orð, gæti bara þvælt málið. Það þarf að skoða þetta betur.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 06/10/06 15:15 #

Ekki verður séð hvernig þessi sérstaka skattheimta, sem byggist á trúarskoðunum, stenst sjórnarskrá lýðveldisins en enginn hefur enn látið reyna á málið fyrir dómstólum.

Í 64 grein stjórnarskrárinnar stendur:

Nú er maður utan trúfélaga og greiðir hann þá til Háskóla Íslands gjöld þau sem honum hefði ella borið að greiða til trúfélags síns. Breyta má þessu með lögum

Mér sýnist þessi gjaldheimta standast fyllilega stjórnaskránna en án nokkurs efa algjört kjaftæði.

Þetta er sóknargjaldið sem um ræðir þótt hugsanlega megi athuga hvort rétt sé að kalla það "sóknargjald" þegar það rennur til H.Í.? Þetta er náttúrulega bara utan trúfélagaskattur. Afar ósanngjart svo ekki sé meira sagt.


Árni Árnason - 06/10/06 15:35 #

Þetta hefði einhvern tíma verið kallað deila um keisarans skegg. Það skiftir ekki nokkru máli hvað gjaldið er kallað. Gjaldið er hið sama. Þeir sem tilheyra sókn greiða sóknargjald, en hinir sem tilheyra "óviðurkenndu" eða engu trúfélagi greiða samsvarandi gjald til Háskólans. Það er bara feluleikur að kalla gjöldin sitthvoru nafninu eftir því hvert þau renna. Niðurstaðan er alltaf sú sama, Gjaldið ( með stóru D-i ) sem við trúlausir greiðum er haft þarna til þess að ekki fáist af því hinn minnsti fjárhagslegi ávinningur að standa utan safnaða, og þannig letja menn til að segja sig úr þjóðkirkjunni. Eitt er alveg dagljóst, að gjald okkar trúlausu er ekki þannig tilkomið að menn hafi verið að leita að tekjustofni fyrir Háskólann og dottið niður á á snilldarhugmynd að skattleggja trúlausa sérstaklega í þeim tilgangi.


Árni Árnason - 06/10/06 15:36 #

Með stóru G-i að sjálfsögðu. :-)


S - 06/10/06 16:03 #

Ég samþykki að það var ónákvæmt orðalag hjá mér að segja þetta ekki standast stjórnarskrána. Réttara hefði verið að segja að þetta standist ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, sem er svohljóðandi (65.gr.): "Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti."

Að setja sérstakann skatt á fólk vegna trúarskoðana sinna er í augljósri mótsögn við þetta. Ef íslenskur dómstóll myndi sýkna ríkið í dómsmáli um þetta gjald (sem hann vissulega gæti gert vegna 64. gr.) ætti þetta mál samt að vinnst í kjölfarið hjá mannréttindadómstól Evrópu.


S - 06/10/06 16:15 #

Þegar fjallað er um sóknargjaldið og sérskattinn á þá sem standa utan trúfélaga dettur mér eitt í hug. Hver lýsir sig mótfallinn því að afnema sérskatt á að standa utan trúfélaga?

Hingað á Vantrú koma ýmsir trúmenn. Hefur einhver þeirra einhvern tíman lýst sig mótfallinn slíkri breytingu, og þá með hvaða rökum?

Ég skil að kirkjan sé hrædd við breytingu sem gefur fólki fjárhagslegan ávinning af því að segja sig úr henni, en ekki myndu þeir setja slíkan málflutning fram sem sína opinberu afstöðu, eða hvað? Mér leikur forvitni á að vita hver hefur tjáð sig opinberlega um að það sé rétt að láta þá sem standa utan trúfélaga greiða sérstakt gjald fyrir það.

Þeir sem ég hef rætt þetta mál við í gegnum árin hafa annað hvort verið sammála mér (og ykkur) um að þetta kerfi sé fráleitt, eða hafa aldrei hugsað út í þetta og orðið sammála mér við að velta því fyrir sér. Ég minnist þess ekki að hafa hitt mann sem að athuguðu máli gat komið með gild rök fyrir þessu gjaldi. Einu "rökin" sem ég man eftir eru 1) ofangreindur punktur um fjárhagslegan ávinning af því að segja sig úr kirkjunni 2) að núverandi fyrirkomulag sé einfaldara í framkvæmd fyrir skattinn (sem annarð þyrfti að endurgreiða oftekinn skatt eftirá) og 3) að svona hafi þetta alltaf verið. Ekkert af þessu eru alvöru rök fyrir svona mismunun að mínu mati.

Vonandi getur einhver Vantrúarmaður eða gestur úpplýst mig um þetta. Ef enginn man eftir að hafa séð nein alvöru rök hvet ég einhvern Vantrúarpennan til að skrifa grein þar sem auglýst er eftir andstöðu við að leggja gjaldið af.

Þessi athugasemd á reyndar líklega frekar heima á spjallinu en sem athugasemd við greinina hér að ofan.


Árni Árnason - 06/10/06 17:02 #

Opinberu skýringuna á þessu gufuruglaða ákvæði í stjórnarskránni ætti að vera að finna í greinargerð með frumvarpi til stjórnarskrár. ( þ.e. þeirrar fyrstu frá 1944 )

Sú greinargerð er væntanlega opinbert plagg, sem ætti að vera hægt að fá aðgang að, þó að eflaust sé hún ekki til á tölvutæku formi.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 06/10/06 22:15 #

Mér leikur forvitni á að vita hver hefur tjáð sig opinberlega um að það sé rétt að láta þá sem standa utan trúfélaga greiða sérstakt gjald fyrir það.

Var ekki Mörður að viðra það á Alþingi fyrir fáeinum misserum að rétt væri að leggja þennan skatt af? Ýmsir hafa þar eflaust tjáð sig opinberlega um réttmæti slíkrar álögu.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 07/10/06 00:14 #

Það kæmi mér ekki á óvart ef að þeir sem vilja halda í Þjóðkirkjuna berðust á móti því að þessi skattur væri aflagður. Þannig gæti fólk séð sér loksins hag í því að skrá sig úr ríkiskirkjunni og það ætti eftir að koma illa við pyngjuna hjá þeirri ágætu stofnun.


danskurinn - 07/10/06 09:35 #

Mér sýnist að menn snúi réttlætinu eða jafnræðisreglunni á hvolf. Í gildi er skattheimta sem rennur til trúfélaga eða Háskóla Íslands. Ef upphæð skattheimtunnar er sú sama í öllum tilfellum er jafnt á með greiðendum komið. Óréttlætið væri ekki fyrir hendi fyrr en greiðendum væri mismunað. Ef um er að ræða óréttlæti gagnvart móttakendum greiðslunnar þá er Háskólinn í Reykjavík að bera skaðan hlut gagnvart Háskóla Íslands. Þessu verður örugglega breytt.

”Gjaldið ( með stóru D-i ) sem við trúlausir greiðum er haft þarna til þess að ekki fáist af því hinn minnsti fjárhagslegi ávinningur að standa utan safnaða, og þannig letja menn til að segja sig úr þjóðkirkjunni.”

Segjum að hjón séu barnlaus. Geta þau þá krafist þess að greiða lægri skatta sem nemur hlutfalli skattheimtunnar sem rennur til barnaspítala? Eða hafa þau sparað nóg? Eða getur fólk sem á ekki bíl mótmæt veggjaldi sem er hluti af allri skattheimtu? Málið verður að skoðast í heild sinni. Skattheimta eins og hún framkvæmd í dag er óréttlát. Jeppaliðið borgar lægri skatta en þeir sem fara um gangandi eða á hjóli. Það þarf að afnema tekjuskatt og taka upp neysluskatta og umhverfisskatta. Það væri kerfi þar sem greiddur væri skattur af neyslunni jafn óðum. Í því fælist réttlæti sem tryggir að sá sem er þurftarfrekur borgar fyrir neyslu sína og afnot af umhverfi í réttu hlutfalli við neysluna. Þetta myndi þýða hærri tekjur fyrir hið opinbera. Í því kerfi væri opinber skattheimta vegna trúfélaga augljós tímaskekkja og hún felld niður.


S - 07/10/06 10:05 #

Danskur: ég bið þig að skoða þetta mál aðeins betur.

Þegar í hlut á einstaklingur sem er félagi í trúfélagi er ekki um skattheimtu að ræða heldur sóknargjald, sem er félagsjald trúfélagsins. Ég geri enga athugasemd við að félagsmenn í trúfélögum greiði félagsgjald. Slíkt tíðkast í ýmsum félögum. Reyndar er eðlilegt að setja spurningamerki við að ríkið sé að sjá um innheimtuna, en það er aðskilið mál.

Þeir einstaklingar sem ekki eru í trúfélögum greiða eðlilega ekki félagsgjald í neitt slíkt félag. Á þá er hins vegar lagður skattur sem aðrir þurfa ekki að greiða. Hér er ekki um neitt félagsgjald að ræða þar sem þetta fólk er ekki aðilar að Háskólanum.

Það er grunndavallarmunur á þessum gjöldum, þótt þau séu jafn há og lögð á fólk á grunndvelli sömu laga. Annars vegar er um að ræða félagsgjald og hins vegar skatt.

Væri hægt að ná almennri sátt um kerfi þar sem ríkið innheimtir félagsgjöld trúfélaga þeim að kostnaðarlausu, en þeir sem standa utan trúfélaga komi ekki að málinu að öðru leyti en með því að taka þátt í niðurgreiðslu á innheimtukostnaði trúfélaga í gegnum almennu skattana sína? Við hættum m.ö.o. að greiða sérstakt gjald til Háskólans. Ég myndi sætta mig við þetta þótt ég myndi vilja ganga lengra. Hver myndi ekki sætta sig við þessa niðurstöðu og af hverju?

Ég hvet trúmenn sem hingað koma til að tjá sig um málið. Ég trúi ekki öðru en að þeir myndu sætta sig við svona kerfi.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.