Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

17. september, messa heilags Róberts Bellarmine

Í dag minnast kaþólskir Róberts Bellarmine (1542-1621), eins af „fræðurum“ kaþólsku kirkjunnar. Hann var kardínáli og jesúíti og af sumum talinn heilagur maður. Bellarmine þótti strax í bernsku afbragðsvel gefinn. Hann var af fremur fátækri aðalsætt, og bundu foreldrar hans vonir við að hinn efnilegi sonur mundi veita ættinni nýja reisn. Hann gekk þann veg sem varð mörgum til frama til forna, sem var að ganga kaþólsku kirkjunni á hönd.

Frægasta rit hans var Disputationes de controversiis christianae fidei, sem kom út á árunum 1581-1593. Með því tókst hann á hendur það mikla verk að taka deilur kristinna manna fyrir með kerfisbundnum hætti, og þótti mönnum rit hans greiða mótmælendum þungt högg.

Ein af mikilvægustu niðurstöðum Bellarmines var að einveldi væri betra stjórnarform en önnur, ekki síst fyrir kaþólsku kirkjuna. Það þarf í sjálfu sér ekki að koma neinum á óvart, og er enda í samræmi við það með hverjum hún hefur jafnan haldið í gegn um tíðina, þegar fólk hefur stunið undan oki ráðríkra kónga.

Bellarmine svaraði ásökunum mótmælenda um að páfinn væri andkristur með því að andkristur mundi koma skömmu fyrir heimsendi, gyðingar mundu taka við honum sem meistara og krýna hann í musterinu í Jerúsalem. Það er í góðu samræmi við þann gamla sið kaþólsku kirkjunnar (eins og svo margra kirkjudeilda) að taka afstöðu gegn gyðingum og klína á þá rógi.

Starfsframi Bellarmines var glæsilegur á kaþólska vísu: Hann ritaði formála að nýrri útgáfu Vúlgötu, latnesku Biblíunnar og hann var skipaður rektor, sérlegur eftirlitsmaður með biskupum og loks, árið 1599, kardínáli.

Það sem er komið fram er meira en nóg til að gera einn mann ógeðfelldan í augum flestra, en dýrling í augum annarra. Þar sannast kannski hið fornkveðna, að sá sem er hryðjuverkamaður fyrir einum er hetja fyrir öðrum. Eitt skal þó nefnt til viðbótar.

Róbert Bellarmine var rannsóknardómari við rannsóknarréttinn, sem þekktur er af öðru en góðu. Sem rannsóknardómari hafði hann meðal annars umsjón með máli Giordanos nokkurs Bruno. Bruno þarf kannski ekki að kynna, en hann var guðfræðingur, heimspekingur og stjörnufræðingur sem áttaði sig á því að heimsmynd Biblíunnar væri kolröng, að sólin væri í miðju sólkerfisins, stjörnur himinsins væru áþekkar sólinni okkar, að til væru aðrir hnettir en jörðin og heimurinn væri takmarkalaus. Hann taldi að vitsmunalíf þrifist á flestum öðrum hnöttum. Þar sem hann hélt þessari óhæfu ekki fyrir sjálfan sig, þá var hann að sjálfsögðu bannfærður, fyrst af kaþólikkum og svo líka af lútherstrúarmönnum. 1592 gómuðu menn kaþólsku kirkjunnar hann og við tóku margra ára réttarhöld. Fyrir sanngirnis sakir skal þess getið að kaþólska kirkjan ákærði hann fyrir fleira en að skilja heiminn betur en var leyfilegt. Hann átti líka að vera guðlastari, siðleysingi, dóketisti og fleira slíkt.

Rannsóknardómarinn Róbert Bellarmine sá um réttarhöldin. Hann krafðist þess að Bruno tæki til baka allt sem hann hafði sagt og stangaðist á við helgislepjukreddur kirkjunnar. Bruno vildi það ekki. Hann var því á endanum úrskurðaður guðníðingur og dæmdur til dauða. Við dómsuppkvaðninguna sagði hann við dómarana: „Það getur verið, dómarar mínir, að þið kveðið upp þennan dóm hræddari en ég er, sem tek við honum.

Bruno var hengdur á steglu á hvolfi, með ginkefli uppi í sér, og brenndur á báli þann 17. febrúar árið 1600. „Kóperníkanismi“ var ein dauðasök af nokkrum. Bruno dó sem píslarvottur fyrir gagnrýna hugsun og andóf gegn kennivaldi. Hendur Bellarmines voru blóði - eða réttara sagt ösku - drifnar.

Í réttarhöldum yfir Galileo Galilei árið 1616 lét Bellarmine þau fleygu, og mjög svo sönnu, orð falla, að „Að halda því fram að jörðin snúist í kring um sólina er jafn fráleitt og að halda því fram að Jesús hafi ekki verið fæddur af hreinni mey.“ Fleyg orð að sönnu. Galilei fékk „viðvörun“ frá Bellarmine (við vitum öll hvað það þýðir á Ítalíu...), um að rannsóknarrétturinn teldi kóperníkanskar hugmyndir rangar og varasamar. Galilei kvartaði undan því að alls kyns sögur gengu um hann, sem ættu við mismikil rök að styðjast. Bellarmine greindi honum þá frá því skriflega, hvað það væri sem menn segðu um hann, og það bréf nýttist Galilei í málsvörn sinni árið 1633.

Róbert Bellarmine lést í Róm þann 17. september árið 1621 og var sumum harmdauði. Hann var tekinn í heilagra manna tölu af Píusi páfa XI árið 1930 og árið eftir tekinn í útvalinn hóp „fræðara“ kirkjunnar.

Vésteinn Valgarðsson 17.09.2006
Flokkað undir: ( Kaþólskan , Vísindi og trú )

Viðbrögð


Arnold (meðlimur í Vantrú) - 17/09/06 12:18 #

Hugsið ykkur Giordano Bruno, að vilja frekar deyja en að hafna sannfæringu sinni. Ef þessu væri snúið við, hversu margir af þeim sem sátu í rannsóknarréttinum hefðu verið tilbúnir að deyja fyrir sína sannfæringu?

Það væri réttara að heiðra Bruno frekar en Bellarmine. Það er frumkvöðlum í vísindum eins og Bruno að þakka að við lifum við þau lífsgæði sem við höfum í dag.Menn eins og hann , Galileo, Koperníkus og fleirri eru hinar sönnu hetjur mannkynsögunar.

Eftir að hafa lesið þessa grein er við hæfi að rifja upp orð Herra Karls Sigurbjörnssonar:

" Og andi hans og áhrif hafa reyndar gert mikilvægasta andlegt afrek okkar tíma kleyft, nefnilega raunvísindin, já, og sagnfræðina! Einmitt vegna þess að frumforsenda tilverunnar er ekki heimur goðsagnanna og hringrás náttúrunnar, heldur hugur, vit, vilji og skynsemi sem að baki býr allri tilveru. Orðið, viskan, sannleikurinn. Guð, sem er að verki í sögu manns á jörðu. "


Einar Björn - 17/09/06 15:19 #

Hann Róberts Bellarmine (1542-1621) var uppi á versta tíma trúarofstækis sem skekið hefur Evrópu. Þegar mótmælendur risu upp og gerðu uppreisn gegn V-evrópsku miðaldakirkjunni, þá skók það hana allt inn í innsta kjarna.

Á þeim tíma komust margir mjög öfgasinnaðir menn til mikillra metorða innan Kaþólsku kirkjunnar. Kaþólska kirkjan, sem fram að þessu hafði verið fremur mild, gerðist mjög herská og grimm. Kaþólska kirkjan þrengdi þá mjög að allri frjálsri hugsun og óháðri listsköpun. Fyrir bragðið koðnaði endurreisnin á Ítalíu niður sem fram að þessu hafði þrifist vel í skjóli kirkjunnar, en í staðinn reis upp nýtt blómskeið í skjóli mótmælenda í Hollandi. Frjáls hugsun hefur æ síðan átt góðan samanstað í löndum mótmælenda.

Grimmd Kaþólsku kirkjunnar náði hámarki í 30. ára stríðinu, en þegar í upphafi þess réðust herir Habsborgara inn í það sem í dag kallast Tékkland og myrtu með blessun þávarandi Páfa alla þá Hússíta sem þeir náðu í. Eitthvað á milli 2 - 3 hundruð þúsund Hússítar voru víst myrtir. Kaþólskir náðu með því að útríma Hússítum yfirráðum í Tékklandi á nýjan leik.

Það þarf varla að taka fram að mótmælendur annars staðar í þýska keisaradæminu risu allir sem einn upp til varnar og við tók langur og mjög bitur ófriður. 30 ára stríðið er ekki kallað 30 ára stríðið út af engu.

Herir mótmælenda börðust mjög hatrammlega gegn árásum herja hins kaþólska keisara. Þeir áttu ímsa bandamenn, eins og t.d. Svía og Breta, en einnig - svo skringilega sem það hljómar - Frakka. En Frakkakonungi stóð stuggur af veldi Keisarans og lét hann þar hagsmuni Frakklands sem ríkis ráða meiru.

Einar Björn


Snæbjörn - 17/09/06 17:11 #

Hmmm... þú segir það, þrjátíu ára stríðið heitir ekki þrjátíu ára stríðið út af engu... Hugsanlega af því það varði yfir 30 ára tímabil?

Annars má deila um hversu mild kaþólska kirkjan hafði verið fram að þessu. Svo mikið er víst að fyrir tíma Lúthers voru þegar kominn út verk á borð við nornahamarinn, sem hötuðust við hér um bil allar konur. Margir smávægilegir trúarsöfnuðir höfðu verið útrýmdir fyrir tíma Lúthers. Þannig að mild var hún ekki að mínu mati.


Einar Björn - 17/09/06 21:55 #

"Svo mikið er víst að fyrir tíma Lúthers voru þegar kominn út verk á borð við nornahamarinn, sem hötuðust við hér um bil allar konur."

Trúarofsóknir urðu 'mainstream' í stað þess að vera jaðarfyrirbæri.

"Margir smávægilegir trúarsöfnuðir höfðu verið útrýmdir fyrir tíma Lúthers."

Þú ert ef til vill t.d. að hafa í huga söfnuð sem spratt upp í tengslum við kenningar prestsins Arius.

Kaþólska kirkjan var mild 'in the relative' fyrir þennan tíma. Það var yfirleitt látið duga að bannfæra fólk í refsingarskyni, sem dæmi. En síðar var það tekið af lífi fyrir sambærilegar sakir.

Einnig varð hún miklu fljótari til til að grípa til aðgerða gegn aðilum.

Á eldri tímum var fólki yfirleitt leyft að ræða í hljóði hluti sem gátu verið 'controversial.' Þannig gátu menn rannsakað hugmyndir og velt þeim fyrir sér. Stöku sinnum meira að segja skipti kirkjan um skoðun. Ekki um meiginatriði um trúarlega kenningu, en ný vísindaleg þekking gat þannig t.d. fengið samþykki eftir auðvitað langt japl og jaml.

Frægast er þegar hún aflagði kenninguna um að jörðin væri flöt nokkru áður en að siglingar hófust úr landsýn.

Einar

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.