Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Skylduaðild að knattspyrnufélögum

Við Íslendingar erum sannkölluð knattspyrnuþjóð. Knattspyrna er langvinsælasta íþróttagreinin á Íslandi og hana stunda miklu fleiri einstaklingar en nokkra aðra íþrótt. Því tel ég eðlilegt að það verði sett í landslög að öllum sé skylt að greiða félagsgjald til þess knattspyrnufélags sem þeir styðja. Ísland er lýðræðisríki og hér er auðvitað algjört frelsi í svona málum svo hver og einn getur valið hvaða knattspyrnufélag þeir styðja með sinni félagsgjaldsgreiðslu og fá þeir fyrir sinn pening þjónustu hámenntaðra knattspyrnuþjálfara fyrir sitt lið og geta mætt á völlinn um helgar. Jú,jú, stúkur knattspyrnuvallanna eru reyndar hálftómar á leikjum og mætti vera miklu betri ástundun en aðalatriðið er það að allir séu skyldir til að styðja þetta skemmtilega og holla starf.

En þá kynni einhver að spyrja hvað eigi að gera við það ólukkufólk sem segist bara alls ekki halda með neinu fótboltaliði og hafi engan áhuga á knattspyrnu? Það er einfalt því slíkt fólk telst varla til þjóðarinnar því eins og við vitum eru Íslendingar knattspyrnuþjóð og því legg ég til að slíkir dólgar séu skyldaðir til þess að greiða knattspyrnufélagsgjald til Frímerkjasafnarafélags Íslands en þó þannig að þeir fái enga þjónustu frá Frímerkjasafnarafélaginu umfram knattspyrnuáhugafólk þrátt fyrir þetta gjald. Þannig má líta á knattspyrnufélagsgjald þeirra frekar sem refsingu fyrir óþjóðlegheit heldur en að það hafi einhvern sérstakan tilgang enda áríðandi að engin þjónusta komi á móti þessu gjaldi þeirra. Í ljósi þess að þeir væru skyldaðir til að greiða knattspyrnufélagsgjald hvort sem þeim líkar betur eða verr gætu þessir kónar jafnvel óskað eftir því að fá þá að greiða knattspyrnufélagsgjaldið til annars félags að eigin vali, jafnvel til skákfélags, en auðvitað yrði það harðbannað enda vita allir að það er enginn bolti notaður í skák.

Mjög nauðsynlegt er líka að halda vel utanum alla knattspyrnufélagsskráningu þannig að foreldrar séu skyldaðir til þess að skrá nýfætt barn sitt strax í þeirra knattspyrnufélag en sé ekki sérstaklega sótt um það sé barn skráð í knattspyrnufélag móður.

Nú er það alþekkt að knattspyrnufélög hafa a.m.k. tvær meginhátíðir á ári hverju, þ.e. afmælishátíð og uppskeruhátíð að loknu leiktímabili. Ég legg því til að einnig verði sett í landslög að þessir dagar séu alveg friðhelgir og að verslanir og skemmtistaðir verði lokaðir auk þess sem öll háreysti og truflun sem ekki tengist hátíðisdagskrá knattspyrnufélaganna verði harðbannað og fylgt eftir með lögregluaðgerðum.

Aiwaz 14.09.2006
Flokkað undir: ( Grín )

Viðbrögð


khomeni - 14/09/06 08:19 #

Frábær líking. Þetta er akkúrat svona.

Ég ætla ekki að reyna að betrumbæta þetta frábæra innlegg en það væri hægt að fabúlera með að í gamla daga héldu allir með sama liðinu og létu gjarnan allar eigur sínar renna til félagsins, af þvi leiddi að félagið var ofurríkt og náið að sölsa undir sig landsamálapólitíina. Formaður Knattspyrnufélagsins var líka forseti og ríkisstjórn... Það mætti kannsi fabúlera með að þeir sem studdu ekki knattspyrnuliðið voru aflífaðir á hinn hryllilegasta hátt og þeir sem ekki fylgdu ströngustu siðareglum aðdáendaklúbbsins voru einnig aflífðaðir. 19 konum var m.a drekkt á höfðustöðvum knattspyrnuliðsins (Alþingi) vegna þess að þær eignuðust börn utan hjónabands.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 14/09/06 10:45 #

Svo má líka skella grein í stjórnarskránna: "Knattspyrna er þjóðaríþrótt á Íslandi og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda."


Halldór E. - 14/09/06 14:45 #

Ég legg til að vantrúarmenn taki saman styrki ríkis, borgar og sveitarfélaga til íþróttafélaga, t.d. KR undanfarin ár. Þetta er nefnilega svona, nema hvað ég sem skattgreiðandi hef ekkert um það að segja til hvaða íþróttafélag fær mest af peningum.


Þorsteinn Ásgrímsson - 14/09/06 15:58 #

Góð samlíking með fótboltann. Spurning samt hvort það hefði ekki mátt finna eitthvað betra en frímerkjasafnarafélag :) En já, ég er daglegur lesandi síðunnar, sem mér finnst mjög nauðsynleg í þessum umræðum sem eiga sér stað um trúarleg málefni. Það eina sem ég hef út á þetta að segja er að mig hefur lengi langað að gerast félagi í vantrú og styrkja ykkur aðeins, en á síðunni þar sem hægt er að sækja um aðgang, er mail sem hefur hingað til ekki virkað.

maður getur svo ekki annað en verið hreykinn af þessum dugnaði og þolinmæði í ykkur gegnum árin.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 14/09/06 16:02 #

hóst erum að vinna í þessu email dóti - þú ættir að geta sent á vantru@vantru.is. Prófaði það í gær og það virkaði.


Fiffi - 16/09/06 14:24 #

Ég hefði frekar kosið að þið hefðuð tekið leiklist sem samanburð heldur en knattspyrnu. Ríkisstyrkir til leiklistar í landinu eru sennilega miklu hærri en til knattspyrnu og eins og Elli bendir á fá menn um engu ráðið í hvaða leikhóp peningarnir fara.

Reyndar eru seldir margfalt fleiri leikhúsmiðar árlega heldur en aðgöngumiðar á fótboltaleiki svo að eigin tekjur leikhúsanna eru hærri - svo ekki sé nú talað um verð á leikhúsmiðum.

Og hvað með æskulýðsstarf? Ekki fæ ég neitt af þeim pening sem ríkið sóar í æskulýðsstarf. Samt er þetta minn peningur, ha? Og börnin mín? Þeim þykir ekkert gaman í skátunum - vilja bara vera í félagsmiðstöðvastarfi, sem reyndar er jú rekið af ríki og sveitarfélögum.

Það er greinilega þannig að ótal stofnanir og félög fá styrki í allskyns starfsemi sem ekki allir eru sammála um. Þvílík hneysa. Mætti sennilega telja þetta til þeirra þátta sem gera ríki að velferðarríkjum. Þvílík hneysa!


Sveinbjörn Halldórsson - 17/09/06 01:18 #

Hvað ætli heimsmeistarakeppni, eða úrslitaleikur í meistaradeild sé nokkuð annað en leifar gamalla trúarbragða sem búa samt yfir ótrúlegum endurnýjunarkrafti? Aztekarnir spörkuðu hauskúpum og reyndu að koma í mark, það minnti á sambland körfu- og fótbolta. En þá féll boltinn að frumspekilegri kröfum ljósmyndavélin sýnir í dag. Hjarta Beckhams, í einum töpuðum leik væri þá lyft upp mót eldrauðri kvöldsólinni..Guði til dýrðar! Jú, auðvitað er fótbolti helgileikur sem líður fyrir það að sá Guð sem spilað er um sýnir sig ekki frekar en sárabindi sem er varla tekið að roðna.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.