Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Söngvar til jarðarinnar XI

Illskuna, hatrið ala menn sér við barm
úlfinn: getnað flagðsins og Loka.
hvenær að eilífu festist hann fjötri sem heldur
og fimi hans mun ekki þoka?

Afl hans sprengdi öll hin rammgeru net
af sér á þeirri stund sem hann var bundinn.
Þó voru ótal haldmiklar gildrur gerðar.
En Gleipnir er ekki fundinn.

Dýrið sleit sem ull hina orðlögðu smíð
úr ótta vorum við dóm í himnasölum
við uppskeru breytninnar: hefnd fyrri hrasanir lesti
hefnd greidda með kvölum.

Og gengur nú laust og berar tungu og tönn
og taumlaus frekjan kvikar í augnasteinum
gengur laust og storkandi, stálharðir vöðvar
strengjast á traustum beinum.

Hvort mundi þola umbrot úlfsins net
ofið úr þeirri trú að gjöful jörðin
sé einn og kjörinn áfangastaður manna
ofan í hrollkaldan svörðinn

hverfi enginn aðeins um litla hríð
með eilífð fyrir stafni, heldur sé dauður
um alla framtíð, horfinn hamingju, vonlaus
horfinn aleinn og snauður?

Fjötur að hinum þræði ofinn úr ást
til augnablikanna, tímans sem hverfull þýtur
of dýrmæt, of dýrmæt bráð heiftúð og hatri
hroka sem einskis nýtur

ofinn úr þessari trú: sé tíminn ei hér
tær uppspretta gleðinnar, hverfur, sóast
líf vort til einskis, því aðeins á þessari jörð
getur unaður, hamingja þróast?

Hannes Pétursson
(Ljóðið birtist árið 1959 í bókinni Í sumardölum en er hér skrifað upp eftir textanum á bls. 108—109 í 2. útgáfu Ljóðasafns Hannesar Péturssonar sem Mál og menning gaf út árið 2005.))

Ritstjórn 07.09.2006
Flokkað undir: ( Fleyg orð )

Viðbrögð


Jórunn (meðlimur í Vantrú) - 07/09/06 15:37 #

Já - það hafa ýmsir áttað sig á því að við sem fyrir tilviljun fæðumst og lifum á þessari jörð, eigum aðeins þetta líf. Sjá t.d. heilsíðuauglýsingu frá Betra bak á bls. 21 í Fréttablaðinu í dag. fimmtudaginn 7. september.

Og talandi um líf. Hvaða endemis frekja er það að heimta mörg líf! Er ekki eitt nóg? Njótum augnabliksins og dagsins í dag og gerum líf okkar innihaldsríkt og gott.

Lýk þessu með ljóði úr ljóðbókinni Janus2

lífið
æviskeið
frá vöggu til grafar?

nei
lífið er nautn
og það er
í dag
sem lífið er þitt


Snæbjörn - 10/09/06 19:50 #

Svolítið fyndið að myndmálið sé sótt í trú. Eða kannski bara viðeigandi...

Hannes Pétursson er drullugóður, því verður ekki neitað.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.