Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Glæpurinn

Eins og kemur fram í myndbandinu sem við vísuðum á í gær, þá var rannsókn gerð á því við háskólann í Minnesota hvaða hóp samborgara sinna menn töldu helst skorta heilbrigða sýn á amerískt þjóðlíf. Sá hópur sem skoraði þarna hæst, hærra en múslimar, innflytjendur og samkynhneigðir, voru hinir trúlausu. Bandaríkjamenn virðast síst af öllu treysta trúlausum eða sjá þá fyrir sér sem æskilega borgara.

Hvað er það sem veldur þessu áliti almennings á fólki sem kýs að trúa ekki á yfirnáttúrlegar verur? Af hverju í ósköpunum þykir slíkt fólk vera óæskilegra en aðrir? Svarið liggur auðvitað í skefjalausum áróðri kirkna og trúfélaga. Í Biblíunni er þessu fólki úthúðað, það kallað heimskingjar og illgjörðamenn og skiljanlega hafa þau félög sem halda þessu riti á lofti viðhaldið þeim fordómum og gert þá djúpstæða í þjóðarsálinni.

Hér heima er hið sama upp á teningnum. Það eru ekki bara öfgasöfnuðir sem reka áróður gegn trúleysingjum, heldur fer Þjóðkirkjan þar fremst í flokki. Biskupinn þreytist ekki á að líkja trúlausum við siðleysingja og halda því fram að trúleysi fylgi vonleysi, græðigi og tómlæti fyrir velferð samborgaranna og samfélagsins alls. Vantrúin og efahyggjan eru í augum Karls Sigurbjörnssonar bæði „sálardeyðandi og mannskemmandi“. Aldrei hefur hann sést færa fyrir þessu nokkur einustu rök.

Takið eftir því að við erum að tala um Þjóðkirkjuna, þessa ríkisstofnun sem gefur sig út fyrir umburðarlyndi í garð allra trúarbragða og kirkjudeilda. Af einhverjum ástæðum er lífsskoðunin trúleysi undanþegin þessu umburðarlyndi og öllum frjálst að hnýta í helvítis trúleysingjana, meðan ekki má blaka við neinum þeim lífsskoðunum sem sækja heimsmynd sína í hindurvitni með einhverjum hætti.

Þessi aumi áróður biskupsins og preláta hans, borinn á borð þjóðarinnar í ríkisreknum kirkjum og gegnum ríkisrekið útvarp, hefur það helst í för með sér að trúleysingjar eru litnir hornauga í þjóðfélaginu, jafnvel svo mjög að skert getur tækifæri þeirra til eðlilegra lífsgæða.

Af trúleysinu er dregin upp afkáraleg skrípamynd, enda er það ekki heppilegt fyrir hina trúuðu að leggja hlutlægt mat á það hvað þessi lífsskoðun gengur út á. Um leið og það er gert er nefnilega hætta á að hindurvitnin gufi upp og menn finni sig knúna til að láta guðina gossa. Það skref þora ekki margir trúmenn að taka. Nei, þá er þægilegra að gera opinskáum trúleysingjum það bara upp að vera öfgafullir og þröngsýnir, halda því blákalt fram að skoðun þeirra skorti einhvern æðri skilning og guðlega reynslu, þrátt fyrir að til séu ágætar skýringar á því í hverju sú reynsla felst.

Með þessum skefjalausa og órökstudda áróðri trúaðra á hendur vantrúuðum er verið að fremja viðurstyggilegan glæp. Það er verið að bannfæra og dæma í útlegð skoðnir sem hinir trúuðu treysta sér vart til að ræða af einhverju viti. Það er verið að viðhalda fordómum í garð hinna trúlausu með þeim afleiðingum að flestir þeirra láta sig hafa það að eiga bara þessar skoðanir sínar fyrir sjálfa sig og liggja jafnvel með þær í felum. Meðan allir mega úthúða trúleysi er krafa dagsins sú að trúleysingjarnir haldi kjafti um skoðanir sínar og síst af öllu mega þeir ráðast á hindurvitni trúarinnar. Það er álitið ljótt og ofstækisfullt athæfi.

Í raun eru trúlausir Íslendingar í dag í svipaðri stöðu og samkynhneigðir voru þegar Samtökin 78 voru stofnuð. Í þá daga var það feimnismál og jafnvel ávísun á útskúfun og einelti að bera kynferðislegar tilfinningar til mannveru af sama kyni. En með ötulli baráttu hugrakks fólks hefur dæmið snúist svo rækilega við að glæsilegustu og fjölsóttustu hátíðarhöldin í Reykjavík kallast Gay Pride. Allt venjulegt fólk er búið að taka samkynhneigðina í sátt sem bara einn af litunum í mannlífsregnboganum og um leið hefur samfélagið orðið fjölbreyttara og fallegra.

Það er reyndar ein ríkisstofnun sem illa sættir sig við þessar breytingar. Þið megið geta upp á hvað hún heitir.

Já, nú á dögum er barátta trúlausra fyrir viðurkenningu rétt að byrja. Þeir eru ekkert sérstaklega margir Íslendingarnir sem komnir eru út úr þessum skáp, þrátt fyrir að vera um fjórðungur þjóðarinnar, skv. niðurstöðum kannana. M.a.s. skrifa einhverjir opinskáir trúleysingjar undir dulnefni hér á þennan vef af þeirri einföldu ástæðu að ef þeir kæmu fram undir nafni myndi þjóðfélagsstaða þeirra breytast umtalsvert, því þeim yrði hugsanlega úthýst úr vinnu, vinahópnum, fjölskyldunni, félagasamtökum og þar fram eftir götum.

Við hin sem erum yfirlýstir trúleysingjar erum misjafnlega stolt af því og kljáumst við miserfiðar afleiðingar þessarar dirfsku. Ranghugmyndirnar um trúleysi eru svo gríðarlegar eftir allan kirkjuáróðurinn að margir halda í alvörunni að við séum djöfladýrkendur, eða hreinlega ill öfl sem vilja drepa niður allt hið góða og fallega í mannfélaginu. Fordómarnir eru gríðarlegir og viljaleysið til að kynna sér málstað okkar og rök er yfirgengilegt. Það eru t.d. ekki mörg misseri síðan við trúleysingjarnir vorum spurðir að því af útlærðum guðfræðingum hvernig við mætum réttar gjörðir og rangar, fyrst engin væri trúin til að halla sér að. Fáfræðin á þeim bænum var algjör, allt þar til við kynntum okkur til sögunnar.

Það er næstum því fyndið, en um leið sorglegt, að horfa á þetta ástand frá sjónarhóli trúleysingjans. Þeir sem halda skynsemi og heilbrigðri efahyggju á lofti ættu í samfélagi okkar að njóta virðingar og álits. Hins vegar væri eðlilegt að þeir væru teknir með fyrirvara, sem aðhyllast afkáralegar seremóníur þar sem þeir uppdubba sig í kjóla og prjál, til þess að ákalla drauga með grátstaf í kverkunum. Trúarhegðun er hvorki skynsamleg né nauðsynleg og grátlegast er að ríkið skuli styðja af fullum krafti við slíka forneskju, meðan málsvarar skynseminnar standa úti í kuldanum. Þetta er hinn stóri glæpur samfélags sem búið er að taka röggsamlega á málefnum samkynhneigðra, innflytjenda og fjölmargra annarra hópa.

Við sitjum eftir eins og hornakellíngar og megum sætta okkur við að höfuðpaur ríkisstofnununar, sem rekur áróður fyrir hindurvitnum og þiggur fyrir það fjóra milljarða á ári, úthúði okkur eins og nasistar úthúðuðu gyðingum í þriðja ríkinu.


Svipað efni:
Öfgafullir trúleysingjar?
Nafnleysingarnir

Birgir Baldursson 07.08.2006
Flokkað undir: ( Klassík , Siðferði og trú )

Viðbrögð


Arnold (meðlimur í Vantrú) - 07/08/06 09:48 #

Góð grein.

"hamla gegn áhrifum sálardeyðandi og mannskemmandi guðleysis og vantrúar"

Þetta er sennilega ekki nógu afdráttarlaust til að teljast ærumeiðandi, ég þekki það ekki. En væri lag verði Herra Karl Sigurbjörnsson eða einhver hans undirmann uppvís af afdráttarlausari ummælun í garð efahyggjumanna að fara með það fyrir dómstóla? Það væri athyglisvert að sjá hvernig dómstólar meðhöndluðu slíkt mál. Hann er að brjóta stjórnarskrána eða hvað?

Herra Karl hefði aldrei vogað sér að segja eftirfarandi um t.d Búddisma eða bahá'í trú.

Það er raunarlegt að sjá mann í hans stöðu sýna slíka fordóma. Eða kannski ekki, hann hefur málstað að verja þó veikur sé.


frelsarinn@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 07/08/06 10:43 #

Frábær grein Birgir!


Arnold (meðlimur í Vantrú) - 07/08/06 10:47 #

Viðbót

Herra Karl Sigurbjörnsson segir einnig eftirfarandi í ræðu sinni.

Undanfarna daga hefur verið rætt um kristnifræði í skólum og bænahald. Hávær þrýstihópur hefur haft sig mjög í frammi um að svipta meirihluta íslenskra barna möguleika þess að læra um grundvallar gildi siðmenningar okkar og iðka þá trú sem blessað hefur þessa þjóð og borið uppi í aldanna rás. Í þeirri umræðu hefur iðulega komið fram það sjónarmið að ekki eigi að kenna börnunum trú, heldur gefa þeim kost á að tileinka sér þá trú sem þeim sýnist þá og þegar þau hafi aldur til. En það er ekkert nema innræting - af verstu sort. Það að þegja um trú er innræting gegn trú.

Hann er sennilega að tala hér í þessari ræðu um Siðmennt - félag siðrænna húmanista á Íslandi.

Og notar svo eftirfarandi orð um þeirra starf.

"Ekkert foreldri getur varið barn sitt fyrir ágengni þess ofstækis sem helst sækir að þeim hjörtum og sálum sem ekki hafa fengið næringu trúar, ekki hafa fengið viðmið helgra sagna og helgrar iðkunar og ein megna að hamla gegn áhrifum sálardeyðandi og mannskemmandi guðleysis og vantrúar. "

Hér eru sannalega ærumeiðingar á ferð. Hér brýtur Herra Karl sannarlega á félaginu Siðment

Hvernig væri að fá lögfræðiálit á þessu? En eins og ég sagði í fyrri pósti mínum þá kann þetta að vera of loðið hjá honum til að hægt sé að sækja hann til saka.


óðinsmær - 07/08/06 12:29 #

ja, ég hef nýverið komist að því að ein heiðarlegasta stúlka sem ég þekki, manneskja sem ég veit að myndi aldrei gera eitthvað ósiðlegt og ólöglegt, hún er trúleysingi - það sýnir frammá að enginn þarf að vera trúaður til þess að gera góða hluti. auk þess á ég nokkra aðra vini sem eru trúleysingjar og þeir eru rosalega siðsamir og góðir. mér dettur í hug orðin "rólegir" og "skynsamir" við að lýsa þeim. það er góð blanda.

þetta sem biskupinn lætur útúr sér og þessir ógeðslegu fordómar sem komu fram í myndinni, þeir eru sannkallað bull!!! alls ekki við hæfi kristins fólks að hugsa svona eða tala.

en þarf fólk ekki bara ímyndaðan óvin? (sumir allavega) ef múslimar og samkynhneygðir eru sloppnir úr snörunni, þarf þá ekki að finna nýjan hóp? ég óttast að þeir myndu bara snúa sér að ásatrúarfólki næst, nema að við flokkumst sem heiðingjar og séum þar þegar?


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 07/08/06 13:49 #

Góð grein Biggi, takk fyrir. Ef biskoppurinn hefði nú sagt þetta um gyðinga? Sagt að þeir og trú þeirra væri sálardeyðandi og mannskemmandi....það hefðu verið fræg lokaorð hans.

Kauf nicht beim Atheisten! Die Atheisten sind unser Unglück!


frelsarinn@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 07/08/06 14:31 #

Ég hef oft sagt það og endurtek af fullri alvöru. Er ekki einhver þarna á Laugaveginum eða guðfræðingur sem getur komið vitinu fyrir biskup?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 07/08/06 18:18 #

Á kristnihátíð á Þingvöllum árið 2000 fóru Þjóðkirkjumenn í iðrunargöngu til að gera yfirbót eftir aldir af glæpum gagnvart saklausri alþýðunni. Nú er tækifæri fyrir sama fólk að fara í iðrunargöngu til að bæta fyrir allt eineltið sem samkynhneigðir og trúlausir hafa orðið fyrir allt til þessa dags. Ég sting upp á að Þjóðkirkjan bæti sér aftast í Gay Pride núna í ágúst, í fullum kjólskrúða. Það færi vel á því enda gengur Gay Pride-gangan mikið til út á karlmenn í kjólum. :)


Arnold (meðlimur í Vantrú) - 07/08/06 19:42 #

Þetta er reyndar alveg brilliant hugmynd hjá kirjufeðrunum, fara bara í göngutúr ! Þarna er komin alveg ný leið til að draga saman í rekstri Íslenska ríkisinns. Loka bara fangelsunum og senda liðið í göngutúr.

Þá gæti maður séð eftirfarandi frétt:

Karlmaður á tvítugsaldri var í Héraðsdómi Reykjaness í dag dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundinn göngutúr fyrir umferðarlagabrot og tilraun til nytjastuldar

Þá þarf bara að gefa þeim að éta, láta þá fá matarmiða sem þeir gætu framvísað í vegasjoppum við þjóveg 1. En hérna er ég kominn út fyrir efnið, biðst afsökunar á því.


Guðmundur I. Markússon - 08/08/06 00:39 #

Hmm, er þetta nú ekki dulítið í yfirgír og skrifað á full ríflegri innspýtingu?

Er t.d. ástæða til að tala um "skefjalausan og órökstuddan áróður" og í framhaldinu að verið sé að fremja "viðurstyggilegan glæp"?

Ég hef verið opinskrár um trúleysi mitt í árafjöld, margt löngu fyrir daga Vantrúar. Ég fullyrði að ALDREI hef ég orðið var við nein sérstaklega neikvæð viðbrögð. Kannski verður einhver hissa og oft skýrist það af menntun minni (trúarbragðafræði) en ekki því að ég sem einstaklingur sé trúlaus.

Ekki hef ég orðið var við neinn "skefjalausan áróður" í samfélaginu. Vissulega fékk maður pirraða bakþanka Þráins Bertels í andlitið (sem reyndar knúði mig til greinaskrifa fyrir hönd trúleysingja) og yfirlýsingar Hr. Karls biskups hafa stungið í eyru. Af þessu tvennu er það einungis Hr. Karl sem truflar mig enda mikils metinn maður og ekki áhrifalaus. Hann ætti að kunna þá aðgát sem höfð skal í nærveru sálar, einnig þeirrar trúlausu.

Mér finnst þú fara of geyst, Biggi, svo jaðri við paranóju. Að einhverjir taki því illa að rætt sé á gagnrýnan og opinskáan hátt um trú og trúleysi er ekki, eftir því sem ég fæ best séð, dæmi um einvherja ófræingarherferð gegn trúleysingjum heldur ber einfaldlega vott um að fólk sé ekki vant slíkri umræðu. Að slá nýjan klang í orðræðu tekur óhjákvæmilega einhvern tíma.

Amk. tel ég að trúleysingjar geri sjálfum sér og málstað sínum enga greiða með offari í yfirlýsingum eins og svo oft á sér stað á þessum vef. Og að bera stöðu trúlausra saman við þá ótrúlegu útskúfun sem samkynhneigðir þurftu að þola áður en erfið réttindabarátta þeirra tók að bera ávöxt ber vott um ótrúlega sjálfhverfu, að mínu mati.

Mýfluguúlfalda er best að drepa í fæðingu.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 08/08/06 00:41 #

Ég hef verið opinskrár um trúleysi mitt í árafjöld, margt löngu fyrir daga Vantrúar. Ég fullyrði að ALDREI hef ég orðið var við nein sérstaklega neikvæð viðbrögð.

Gæti það tengst því að þú ert tiltölulega jákvæður í garð trúarbragða ?

Fólk hefur yfirleitt ekkert á móti trúleysingjum svo lengi sem þeir halda kjafti.


Guðmundur I. Markússon - 08/08/06 00:51 #

Gæti það tengst því að þú ert tiltölulega jákvæður í garð trúarbragða ?

Fólk hefur yfirleitt ekkert á móti trúleysingjum svo lengi sem þeir halda kjafti

Að vera ekki tilbúinn til þess að tala um trúarbrögð á þeim nótum sem gert er á Vantrú þýðir ekki ipso facto að maður sé "tiltölulega jákvæður í garð trúarbragða". Og ekki hef ég alltaf haldið kjafti.

Vel getur verið að þetta sé öðruvísi fyrir þá sem tala hærra og að þeir fái verri viðbrögð. En að draga af því þá ályktun að verið sé að fremja "glæp" gegn trúleysingjum, að í samfélaginu sé "skefjalaus áróður í gangi" og bera það svo saman við fordóma gegn samkynhneigðum á síðustu öld er full djúpt í árina tekið.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 08/08/06 00:58 #

Að vera ekki tilbúinn til þess að tala um trúarbrögð á þeim nótum sem gert er á Vantrú þýðir ekki ipso facto að maður sé "tiltölulega jákvæður í garð trúarbragða".

Ég get ekki skilið þau skrif þín sem ég hef lesið öðruvísi en svo að þú sért tiltölulega jákvæður í garð trúarbragða.

Finnst þér samlíking við samkynhneigða út í hött?

Af hverju þurfti núverandi forseti að fara "inn í skápinn" með trúleysi sitt þegar hann bauð sig fram í það embætti? Telur þú einhverjar líkur á að hann hefði unnið þær kosningar ef hann hefði ekki gert það?

Getur verið að þessi vísun í greininni hafi farið framhjá þér Guðmundur?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 08/08/06 02:22 #

En að draga af því þá ályktun að verið sé að fremja "glæp" gegn trúleysingjum, að í samfélaginu sé "skefjalaus áróður í gangi" og bera það svo saman við fordóma

Í samfélaginu? Í fyrra tilvikinu sem skefjalaus áróður kemur fyrir er ég að tala um trúfélög í Bandaríkjunum. Í seinna tilvikinu er ég að tala um biskup og preláta hans, eins og sést af samhenginu.

Ég held því hvergi fram að áróður þessi sé að eiga sér stað úti í samfélaginu, en samfélagið verður óneitanlega fyrir áhrifum hans, sbr. blogg mitt sem ég vísa í í greininni. Þar liggur glæpur biskups og félaga.


Turkish - 08/08/06 02:40 #

Virkilega góð grein hjá þér. Þetta ríkisrekna apparat sem heldur því fram að þau hafi einhverja mælistiku á siðferði og sjálfgefið leyfi til að úthrópa fólk sem fellur neðarlega á þeirra siðferðiskvarða er hrein viðurstyggð. Það er löngu kominn tími á að r að menga huga grunnskólakrakka og við trúlausu stígum aðeins úr skugganum. Sú staðreynd að ráðamönnum er vantreyst vegna trúleysis ber brag af miðaldarhugsunarhætti.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 08/08/06 12:05 #

Í tímaritinu Ský (þriðja tölublað, 2006) er viðtal við biskup Íslands

En hvernig er sá á vegi staddur sem engu trúir og á sér enga trú? Er líf þess einstaklings tómlegt? Karl segist ekki viss um að svo sé og telur raunar að fáir eigi sér enga trú. Sú vantrú sem Richard Dawkins og hans nótar boða sé einsýn, stútfull og löðrandi af fordómum og hatri.
"Ég virði alla heiðarlega glímu við vanda tilverunnar og ráðgátur lífs og dauða. En hatursfullur áróður eins og gjarnan birtist af hálfu þeirra sem kenna sig við vantrú er annarrar ættar. Þar á ég við árásir á það sem heilagt er: virðingarleysi, yfirgang og gjarna ofbeldi í orðum. Framtíðin þarfnast trúar en ekki hvaða trúar sem er. Til er hættuleg trú sem fjötrar og nærist á fordómum, ótta og vanmetakennd. Sjálfur þekki ég marga efagjarna húmanista sem eru fólk með góðan vilja. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim og allri heilbrigðri gagnrýnni og skynsamlegri hugsun. Út frá mínum kristnu forsendum skilgreini ég trú sem tryggð, traust og virðingu fyrir því sem æðra er, fyrir lífinu og náunganum." (Feitletranir Matti Á.)


Guðmundur I. Markússon - 08/08/06 12:14 #

Af hverju þurfti núverandi forseti að fara "inn í skápinn" með trúleysi sitt þegar hann bauð sig fram í það embætti? Telur þú einhverjar líkur á að hann hefði unnið þær kosningar ef hann hefði ekki gert það?

Í ljosi þess að hér var á ferðinni einn þekktasti stjórnmálamaður landsins er það ekki útilokað. Hvað sem því líður er dæmi ÓRG vart sambærilegt við stöðu hins alemenna trúleysingja.

Getur verið að þessi vísun í greininni hafi farið framhjá þér Guðmundur?

Reyndar ekki. Ég fæ ekki séð af þeim samtalsdæmum sem Bigga nefnir að draga megi af þeim miklar ályktanir. Og ef það er tilfellið að BB hafi orðið af vinnu sökum vantrúar sinnar (sem auðvitað væri grafalvarlegt eitt og sér) er ekki þar með sagt að slíkt eigi almennt við.


Guðmundur I. Markússon - 08/08/06 12:22 #

BB svarar GIM:

Í samfélaginu? ... Ég held því hvergi fram að áróður þessi sé að eiga sér stað úti í samfélaginu, en samfélagið verður óneitanlega fyrir áhrifum hans ...

Þetta rennur nú meira saman í greininni hjá þér. Til dæmis:

Meðan allir mega úthúða trúleysi er krafa dagsins sú að trúleysingjarnir haldi kjafti um skoðanir sínar ...

"Krafa dagsins" getur vart átt við annað en kröfu sem veður uppi í samfélaginu.

Þetta er hinn stóri glæpur samfélags ...

"Samfélagsins" á væntanlega við samfélagið.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 08/08/06 13:03 #

Glæpur sem samfélagið verður að þola. Það hefði verið betra að orða þetta þannig: Þetta er hinn stóri glæpur í samfélagi sem tekið hefur röggsamlega... Það var einfaldlega það sem ég átti við. Glæpurinn viðgengst í samfélaginu meðan ríkisstofnun heldur áróðrinum á lofti og fær til þess aðgang að fjölmiðlunum, meðan trúleysingjar eiga í mesta basli með að fá að láta í sér heyra.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 08/08/06 13:08 #

Karl biskup segir:

Út frá mínum kristnu forsendum skilgreini ég trú sem tryggð, traust og virðingu fyrir því sem æðra er, fyrir lífinu og náunganum.

Á þessum forsendum leyfir hann sér síðan að fordæma þá sem trúa ekki og gagnrýna trú með röksemdum skaðsemi og afturhalds. Karl ber ekki mikla virðingu fyrir hinum trúlausa náunga meðan sá heldur ekki kjafti um skoðanir sína á trúnni. Honum væri nær að reyna að hrekja röksemdirnar í stað þess að berjast með þessum óvönduðu vopnum.

Hinn hatursfulli áróður er allur hans megin og hann sér það ekki, enda er trúmaðurinn í huga hans göfug skepna by default. Þetta er nú meiri fordómapúkinn.


drekinn - 20/08/06 07:17 #

Einhvern tíma hefði það líka þótt sérstakt að forseti lýðveldisins væri maður sem að þangað til nokkrum mánuðum fyrir kosningar hefði alltaf lýst því yfir að hann væri vantrúaður en loksins þegar hann var kominn í kosningabaráttu fór að tala um barnatrú sína og almenna trúrækni.

Það á að skera þjóðkirkjuna frá ríkinu til þess að Karl geti virkilega farið að láta gaminn geysa um alla trúleysingjanna og faríseana sem mæta ekki í ríkisstyrktar messur!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.