Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Einstein, Hawking og málfar trúleysingja

Á ráðstefnunni Jákvæðar raddir trúleysis kom fram umræða um hálfgerða málfarshreinsun trúleysingja. Hvatningin til þessa var ekki viðkvæmni trúleysingja sjálfra heldur sú að trúmenn eru gjarnir á að lesa trú út úr notkun okkar á vissum hugtökum. Þetta á við um mörg orð. Kraftaverk er augljóst dæmi. Margir nota það án þess að það beri með sér nokkra hugmynd um yfirnáttúru.

Mér finnst alltaf svo gaman þegar óbreyttir trúleysingjar eru svo vísindalega sinnaðir og skynsamir að þeir vita betur en Albert Einstein og Steven Hawking til samans hvernig heimurinn er samansettur - báðir miklir trúmenn, enda staðið frammi fyrir því í rannsóknum sínum og fræðum að heimurinn er svo flókinn að það verður einfaldlega að gera ráð fyrir tilvist æðri máttar, manninum óskiljanlegum, til að það gangi upp að hann sé yfirhöfuð til.

Þessi orð lét Davíð Þór Jónsson falla í rökræðum um trú fyrir nokkru síðan. Það sem Davíð áttar sig ekki á er að Einstein og Hawking falla í hóp trúlausra eins og langflestir færustu vísindamenn heims. Þeir hins vegar féllu báðir í þá gryfju að nota hugtakið í myndlíkingum. Einstein sagði að Guð kastaði ekki teningum sem er líking um tilviljanir en Hawking talaði um að þekkja hug Guðs í þeirri merkingu að komast að svörum við frumspekilegum spurningum.

Stephen Hawking hefur í skrifum sínum ítrekað talað um að tilurð heimsins þurfi engan skapara. Þetta kemur jafnvel fram í bók hans Saga tímans sem inniheldur líka ofangreinda tilvitnun um hug Guðs. Trúmenn hafa bara kosið að líta á þessa einu línu úr samhengi.

Einstein tók það ítekað fram að hann tryði ekki á guð. Hann minntist reyndar einu sinniá Guð Spinoza í þessu sambandi en slíkt er í raun ekkert annað en önnur myndlíking, sá guð er nefnilega aðeins náttúran sjálf. Frægasta tilvitnunin sem við eigum um trúarskoðanir hans er úr bréfi sem hann skrifaði 24. mars árið 1954.

Það var að sjálfssögðu lygi það sem þú last um trúarskoðanir mínar, lygi sem er kerfisbundið verið að endurtaka.

Ég bið trúmenn um að hætta að endurtaka þessa lygi kerfisbundið. Ef þið rekist á staðhæfingar um trú manna þá er best að fara í smá rannsóknarleiðangur til að komast að hinu sanna í málinu.

Það er leiðinlegt ef að trúleysingjar neyðast til þess að ritskoða sjálfa sig til að komast hjá mistúlkunum en hugsanlega er það eina leiðin sem við höfum.

Heimildir: Stephen Hawking - Celebrity Atheist List
Einstein and "God does not play dice"
Vísindamaður á villigötum? (athugasemdir)

Óli Gneisti Sóleyjarson 19.07.2006
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


frelsarinn@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 19/07/06 12:55 #

Þörf og góð grein. Ef trúleysingjar óvart segja "guð minn góður" eða kalla börn "litlu kraftaverkin" þá eru þeir í mikilli hættu að prestar komist yfir lík þeirra. Trúmenn og þá sérstaklega sumir prestar elska að geta troðið yfir trúleysingja trú. Virkilega furðulegur yfirgangur og frekja.


Khomeni - 19/07/06 13:22 #

Einhver ógeðfeldustu ummæli sem ég hef séð voru ummæli pokaprests eins sem hélt því fram að þótt fólk teldi sig trúleysingja...."þá trúa allir á dauðastundinni"..

Þarna er verið að vega að manneskjunni á dauðastundinni. Þegar við erum eins berskjölduð og hugsast getur. Því miður man ég ekki nafnið á þessum presti en umræðan spratt upp í kringum dauða Carl Sagan.

þetta er eins laust við mannvirðingu og hugsast getur. Ekki ætti að koma á óvart að þessi orð koma frá prestlærðri manneskju. Þessi prestlingur ætti að skammast sín.


Turkish - 19/07/06 14:27 #

Karl Sigurbjörnsson biskuð sagði einu sinni í útvarpsviðtali í spekglinun að enginn væri trúlaus í sjávarháska. Þetta er á svona svipuðum nótum, þetta er afskaplega heimskulegt þar sem okkar ríkisrekni biskup hefur ekki hugmynd um hvort menn taka almennt trú í sjávaháska.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 19/07/06 20:01 #

Dauði Carl Sagan er vel dokkúmentaður í bókinni Billions and Billions. Það kemur einmitt fram að ekki var um neina konversjón að ræða, heldur horfðust þau konan hans í augu með þá vitneskju að þarna væri um hinsta viðskilnað að ræða.

Ef þessi pokaprestur hefur lesið þessa frásögn, af hverju í ósköpunum heldur hann þá þessu fram? Þetta er gríðarlega óheiðarleg framkoma.

Það var líka rætt um það á ráðstefnunni að trúleysingjar sem temja sér orðanotkun eins og „guð minn góður“ gætu átt það fyrir höndum að nota eitthvað slíkt á dánarstundinni og gefa þannig trúmönnum tækifæri til að álykta sem svo að viðkomandi hefði tekið trú á banalegunni. Með því að hætta öllu svona væri komið í veg fyrir þetta.


Kalli - 19/07/06 23:30 #

Eitt af fáu sem ég man úr fermingarfræðslunni var að prófasturinn lagði áherslu á að við krakkarnir legðum ekki nafn Guðs við hégóma. Ég nota oft Jesús og Guð í upphrópanir. Það er málhefð fyrir því. Ég nota líka andskotans og djöfulins og ekki gerir það mig að djöfladýrkanda. Eða hvað? Er ég kannski bæði og væntanlega flestir Íslendingar líka? Í versta falli er ég orðljótur.

Fjandinn hafi það; þegar ég rek mig í enn eina innantóma setninguna á tru.is, sem gengisfellir tungumálið sem ég elska enn frekar, er ég vís til að hrópa „Djísús Kræst!“

Kannski er það einmitt markmið tru.is? Útsmogið...

Ég styð það hiklaust að vera skýrmæltur á prenti (og svo framvegis) en að menn ætli mér trúarbrögð vegna upphrópana... hve visnuð eru hálmstráin sem menn fálma orðið eftir?


Snæbjörn - 20/07/06 11:40 #

Ég var einmitt að velta þessu fyrir mér um daginn og mér finnst alvarlega skorta blótsyrði á Íslensku sem ekki hafa trúarlega tengingu.

Á ensku getur maður sagt: Fucking idiot.

Á Íslensku er maður fastur með: Helvítis fábjáni eða Helvítis hálfviti.

Veit ekki með Fukking fábjáni, það lætur vel í munni.

Eitt sem ég nota oft, sem gæti látið mig virðast trúaðan, er að ég segi guði sé lof, ef eitthvað hefur ekki farið úrskeiðis. Það er mjög hvimleitt og ef þið hafið einhverjar uppástungur.

Guði sé lof þá voru þeir með nóg af þessu inn á lager.

Ég gef þeim tíu stig sem getur losað mig við Guð í þessari setningu. (Alheiminum sé lof er fullóþjált)


Sjonni - 20/07/06 12:53 #

Í mannsins arfleið hvað ertu að pæla.. ;)

Ég held að trikkið við það skapa einhverjar svona upphrópanir eins og helvítis eða guð sé lof er að tengja það við eithvað sem maður trúir á t.d vísindin, þróunina og jafnvel arfleið mannsins.


Khomeni - 20/07/06 12:55 #

Þú gætir prufað: -Baal hjálpi þér! (þegar e-r hnerrar) svo er eitt guðlast sem er alltaf klassískt

"-Jesus H Christ on a popsicle stick!"


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 20/07/06 13:34 #

Það má nota „sem betur fer“ í staðinn fyrir þetta ömurlega „guði sé lof“.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 20/07/06 13:39 #

"Það var nú gott" er nú ansi vinsælt þessa dagana. Reyna að muna þetta þegar maður deyr.

Eitt í viðbót, sem vinnufélagi minn benti á, er að segja "sæll og blessaður", í þeirri merkingu að maður sé að heilsa og blessa viðkomandi...?


Svanur Sigurbjörnsson - 20/07/06 14:17 #

Skemmtileg umræða. Ég hef reynt að hreinsa mál mitt af þessum "blessuðu" guðsorðum. Í stað þess að segja: "sæll og blessaður" læt ég duga "sæll" "Guð hjálpi þér!" er úrelt og má þá segja "ertu nokkuð að veikjast" eða bara sleppa því (eða "Gesundheit!") "andlegur" verður "huglægur" "sáluhjálp" eða "sálsjúkur" verður "geðhjálp" eða "hugsjúkur".
Þ.e. losna þarf við orðin "sál-" og "andleg(ur)-" einnig. "Sálfræði" gæti því orðið "hugfræði" eða "hegðunarfræði". Hvað finnst ykkur?


Khomeni - 20/07/06 15:14 #

Nú held ég að umræðan sé komin á villigötur. Ég held að það skipti engu máli hvort "guð" eða "jezú" séu dauðhreinsaðar úr tungumálinu. Þegar e-r segir "guð minn almáttugur", er það oftast gersamlega merkilalaust og úr samhengi við meintan almáttugan guð. Þetta skiptir ekki máli í mínum huga. fjandinn hafið það! (úpps....!) Guð minn góður ég mismælti mig...(úpps....!)

Það er bara smekksatriði allra trúleysingja hvort hann við notum þessar upphrópanir. Trúleysi mitt minkar ekkert í hvert sinn sem ég segi "guð".


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 20/07/06 15:33 #

Það er rétt, en pointið er að þessi "gvuðminngóðurblessaðurfjandinnfrámér" orðanotkun, samanber Sagan, Einstein, Spinoza og Hawkins, er einmitt notað af sniðugum prestum og trúmönnum til að benda á að þessi og þessi trúleysingji var eftir allt saman í raun og veru, augljóslega trúaður því að hann/hún sagði ellegar skrifaði "gvuð" á einhverjum tímapunkti í lífi sínu og ekki skiptir máli í hvaða samhengi það er.

Smá sjálfsritskoðun er sosum altílæ en gæti orðið fullmikið, samanber Profanity þáttinn hjá Penn&Teller(í staðinn fyrir að segja kúkur segðu frekar rassúrgangur, í staðinn fyrir að segja gvuðminngóður segður frekar heilög belja o.s.frv.).


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 20/07/06 17:58 #

Guði sé lof þá voru þeir með nóg af þessu inn á lager.

Ég gef þeim tíu stig sem getur losað mig við Guð í þessari setningu. (Alheiminum sé lof er fullóþjált)

Þú gætir sagt "Orsök veri ástæðan", "Engu sé að þakka...bara borga" "Brund sé klof" "Stuð spé of" "Tuð sé hroð" "Fluð sé ploð" "Engu sé lof", Eða fá einfaldlega sleppa öllum upphrópunum of beina athyglinni frekar að aðstæðum en óhóflegri/ónauðsynlegri málnotkun.

Ég hef nefninglega tekið eftir því að það er við engar aðstæður gagnlegt að segja; Djöfussins, helvítis, andskotans, fucking, til þess að undirstrika orð mín. Því þetta eru hindurvitnaupphrópanir sem bera með sér vitskort, ýta undir tilfinningalegt ójafnvægi og eru ekki lýsandi.

Ég held að það geri mann gott að hreinsa hindurvitnarfleið úr tungumálinu sínu til að hreinsa þær af málvillum. Sama þótt margir hjakki í sömu villunni.

...ég vís til að hrópa „Djísús Kræst!“

Með slíkar og svipaðar upphróðanir sem eiga að lýsa samblöndu af undrun og hneykslun eins og "Guð minn góður". Þá mæli ég með að þetta komi í staðin;

Nú er ég hissa!

Þetta er nú meira!

Í alvöru talað!

Þetta er nú meira_ruglið!

Asnalegt. Bjánalegt. Kjánalegt.

Ert'ikk'a grínast!

eða kannski frekar;

Hmm?

Einkennilegt.

Pfuff

Eða þá einfaldlega ekki segja neitt í staðin. Og viðurkenna bara aðstæður eins og þær eru og sleppa öllum upphrópunum.


Snæbjörn - 20/07/06 19:37 #

Ég hef ákveðið að venja mig á að segja $"Sem betur fer" í stað "guði sé lof". Þakka þér fyrir það Birgir.

Annars tek ég undir að Guð hjálpi þér sé úrelt, þar sem það byggist á þeirri trú að fólk sem byrjar að hnerra gæti verið dauðvona. (Sem vissulega var raunin á miðöldum þegar smá hitapest gat orðið lífshættuleg).

Annars las ég í einni sagnfræðibók að hugsanlegur uppruni orðatiltækisins hafi verið hjá munkum sem trúðu því að ef maður hnerraði gæti sálin stokkið út um nefið og djöfullinn hoppað inn. Og þá vonuðu hinir munkarnir að guð myndi nú koma þeim sem hnerraði til hjálpar ef satan nýtti sér tækifærið.

Svo já, Guð hjálpi þér er fremur úrelt.


Kalli - 20/07/06 22:39 #

Svo eru Penn og Teller líka góðar fyrirmyndir í upphrópunum og blóti. Hvernig þýðir maður „great googly moogly“ yfir á íslensku? :)

Í Principia Discordia eru líka skemmtilegar upphrópanir á borð við „ewige blumenkraft“, „fliegende kinderscheize“ og „fnord“.


Carlos - 21/07/06 00:39 #

Enginn hefur samt toppað:

Supercalliefragilisticexpialliedotious, sem ég man ekki hvernig var þýtt á íslensku. Merkilegt annars hvað blótsyrði eru almennt trúartengd hér á landi, tengd kynlífi í Bandaríkjunum og klósettferðum í Þýskalandi.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 21/07/06 02:27 #

Var það ekki „Feiknar- býsnar- hrika- svaka- gríðar- yndislega“?

Jamm, ég hef löngum kunnað betur við að slíta út úr mér eitt og eitt fööökk í stað þess að æpa þessar bölbænir og ákall hindurvitni.


Kalli - 21/07/06 19:33 #

Gegn þessum trendum sem Carlos nefnir er uppáhaldið mitt „crap“. Ótrúlega expressíft orð sem gagnast við nánast allar aðstæður eftir raddblæ.


Sveinbjörn Halldórson - 22/07/06 01:45 #

Þetta er furðulegur söfnuður, nánast eins og að ramba eitt rigningarkvöld inn í samkvæmi sem maður botnar ekkert í.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 22/07/06 10:41 #

Þá er við hæfi að rölta aftur út í rigninguna. Vinsamlegast haldið ykkur við umræðuefnið.


Sveinbjörn Halldórsson - 23/07/06 02:57 #

Merkir þetta það sama og mér sé fleygt út?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 23/07/06 04:15 #

Nei, þetta eru tilmæli um að taka á málefnunum en sleppa öllum svona óþöarfa blammeringum sem koma málinu ekkert við.

Ef þig langar að ræða undarlegheit þeirra sem hér skrifa væri ágætt að stofna utan um það þráð á spjallinu.


Color limbo - 26/08/06 14:37 #

Ég hef lúmskt gaman að því að lesa vantrúarspjallið því maður finnur yfirleitt eitthvað sem maður getur lesið. Stundum er stöffið gott, stundum er það heimskulegt. Þessi umræða er dæmi um það bjánalega sem hægt er að finna á spjallinu ykkar.

Sama hversu mikið menn hata trú, trúarbrögð og öllu sem því tengjast þá er ekki hægt að neita því að þau eru til og hafa lengi verið til. Það er heldur ekki hægt að neita því að trúarbrögð hafa haft áhrif á samfélag okkar, menningu og það sem um er rætt hérna, tungumálið. Aftur. Sama hversu mikið þið hatið trúarbrögð þá er ekki hægt að þurrka þau út úr tungumálinu og þið verðið bara að bíta í það dragsúra epli að þurfa að nota tungutak sem í eru trúarlegar skírskotanir. Þið einfaldlega komist ekki hjá því, þeir sem ekki gera það virðast bilaðir.

Hvaða máli bíttar það þó þið segið blessaður, helvítis, díses eða eitthvað annað. Tungumálið þróast í takt við tíðarandann og þegar þið segið þetta eruð þið ekki að viðurkenna tilvist einhverrar yfirnáttúru heldur að gangast við afleiðingum þessarar þróunar. Flestir gera það reyndar hljóðalaust og það er nú ekki alveg rétt að aðrar þjóðir séu lausar við þetta. Þjóðverjar segja t.d. zum Teufel og á ensku má oft heyra damned eða damn you o.s.frv.

Væri ekki næsta skref að losa tungumálið við mannanöfn sem í eru trúarlegar skírskotanir. Vantrúarmenn hljóta að svitna þegar þeir tala við Guðmund og Kristrúnu og Óðin. Passið ykkur svo að segja ekki himnasending heldur hvalreki. Hættið þessu rugli! Umræður á borð við þessa fá menn til að hætta að taka mark á því sem þið skrifið.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 26/08/06 14:46 #

Það virðist sem að punkturinn fari framhjá þér. Ástæðan fyrir þessum pælingum er ekki viðkvæmni hjá trúleysingjum heldur útúrsnúningar trúmanna. Ef trúmenn myndu hætta að snúa út úr orðum trúleysingja þá þyrftum við ekki að hafa neinar áhyggjur.


Color limbo - 26/08/06 15:22 #

Svara þeim punkti sem kemur fram oft og mörgum sinnum í umræðunni hér að ofan.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 26/08/06 15:27 #

Ég sé ekki að þeim punkti hafi verið svarað. Ég áttaði mig á því hve alvarlegt þetta getur verið þegar trúaðir ættingjar látins trúleysingja héldu því fram að hann hefði tekið trú bara vegna þess að hann notaði orðið "miracle" skömmu fyrir andlátið. Þeir ætluðu síðan að láta útförina fara fram í kirkju á þessum forsendum. Sjúkt en satt.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.