Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ófagnaðarerindi Karls Sigurbjörnssonar

Í tilefni frumsýningar Da Vinci lykilsins hafa birst greinar á trú.is, vef Þjóðkirkjunnar, þar sem fjarstæðukenndar hugmyndir sem koma fram í myndinni eru hraktar. Þegar sjálf bókin var upp á sitt besta brást kirkjan svipað við, þá skrifaði æðsti biskup hennar, Karl Sigurbjörnsson, greinina Fagnaðarerindi Da Vinci lykilsins.

Það er ekkert að því að benda á að nánast allt í Da Vinci lyklinum er skáldskapur, enda er þetta jú skáldsaga, en það vekur furðu að Þjóðkirkjan skuli eyða svona miklu púðri í skáldsögu þegar hún virðist varla þora að ræða grundvallarkenningar sínar. Hvers vegna skrifar Karl Sigurbjörnsson ekki greinar þar sem rök eru færð fyrir tilvist guðs, upprisu Jesú eða þrenningarkenningunni? Ég er nokkuð viss um að fjöldi þeirra sem taka þessa skáldsögu alvarlega bliknar í samanburði við fjölda þeirra sem trúa ekki þessum grundvallarkenningum kristindómsins. Ástæðan er örugglega sú að Da Vinci lykillinn er auðvelt skotmark, en að rökstyðja kristna trú er ómögulegt.

Mest af gagnrýninni í Fagnaðarerindi Da Vinci lykilsins er rétt, en þegar kemur að myndunarsögu Nýja testamentisins bætir Karl bara gráu ofan á svart. Hann byrjar þó á því að benda réttilega á að myndunarsaga Nýja testamentisins sé “býsna flókin og margþætt, og full mannleg að margra smekk”. Það er skiljanlegt að sumum finnist mannlegi þátturinn vera galli á Nýja testamentinu, enda er afskaplega leiðinlegt að uppgötva að bækurnar sem maður lætur hugsa fyrir sig í trúmálum voru bara valdar af einhverjum óupplýstum kirkjuhöfðingjum.

Í sambandi við myndunarsögu Nýja testamentisins bendir Karl réttilega á að það hafi verið að mótast löngu fyrir Níkeuþingið, sem var haldið 325, en það er ekki rétt hjá honum að það hafi verið “fullmótað í þá mynd sem við þekkjum það í dag þó nokkru fyrir daga Konstantínusar og afturhvarf hans til kristni árið 313”. Seinna segir hann meira að segja að þegar Níkeuþingið hafi verið haldið hafi einungis verið deilt um tvö rit, Opinberun Jóhannesar og Hebreabréfið.

Það er afskaplega mótsagnakennt að halda því fram að Nýja testamentið hafi verið fullmótað árið 313 þegar enn hafi verið deilt um tvö rit þeirra tólf árum seinna. Raunin er sú að stuttu eftir Níkeuþingið, þá segir Evsebíus, faðir kirkjusögunnar, í bókinni sinni Sögu kirkjunnar, að Jakobs-, Júdasar-, 2. Péturs-, 2. og 3. Jóhannesarbréf séu umdeild en samþykkt af flestum.

Ástæðuna fyrir deilunum segir Karl vera þá að ekki hafi verið hægt að sýna fram á “með óyggjandi hætti hverjir væru höfundar þeirra bóka.”, raunin er auðvitað sú að þeir gátu engan veginn sýnt fram á hver væri höfundur hvers og vegna þess höfum við fullt af bókum í Nýja testamentinu sem eru ranglega nefnd eftir einhverjum lærisveininum eða postulanum.

Þetta eru að vísu smávægilegar athugasemdir miðað við þær leiðréttingar sem koma við þessa efnisgrein Karls:

Annar samkeppnisaðili á sviði guðfræði og trúarhugmynda knúði kirkjuna í sömu átt. Það var Montanus. Hann hrósaði sér af því að hafa fengið opinberun frá Guði um yfirvofandi heimsendi. Guðspjöllin fjögur og bréf Páls postula voru alþekkt í kristnum söfnuðum og í miklum metum, en þau höfðu ekki verið sett saman í eina bók, eitt helgirit. Montanus notaði það rými sem þetta gaf honum til að breiða út opinberanir sínar. Sem svar við því gáfu leiðtogar kristninnar út lista yfir þau rit postulanna sem talin voru sönn túlkun boðskapar þeirra. Þessi listi kallast Ritasafn Muratoris. Það líkist verulega núverandi Nýja testamenti, að öðru leyti en því að þar eru tvö rit sem síðar voru tekin út úr ritasafninu, Opinberun Péturs og Speki Salómons. Mælikvarðinn sem stuðst var við var að hægt væri að sýna fram á að höfundar ritanna væru postular Jesú eða nánir lærisveinar þeirra.

Ritasafn Muratoris er brot úr handriti frá sjöundu öld úr umfjöllun frá annarri öld um hvaða rit eru leyfileg. Staðreyndir málsins eru þær að enginn veit hver höfundur Ritasafns Muratoris er og hvert tilefnið var. Þannig að þegar Karl segir að “leiðtogar kristninnar” hafi gefið út þennan lista til þess að svara boðun Montanusar þá er hann að feta í fótspor Dan Browns og nota frjóa ímyndunaraflið sitt. Það er líka frekar ólíklegt að “leiðtogar kristninnar” hafi gefið út þennan lista þar sem enginn þeirra sem voru að velta fyrir sér regluritasafninu, til dæmis Evsebíus, vitnuðu nokkurn tímann í þennan lista eða gáfu til kynna að þeir vissu af honum.

Það er rétt hjá Karli að Opinberun Péturs og Speki Salómons séu inn í listanum en hann minnist ekki á að það vantar nokkur bréf í listann: Hebrea-, Jakobs-, 1. og 2. Péturs- og 3. Jóhannesarbréf.

Það sem er samt áhugaverðast við þessa efnisgrein er að æðsti biskup Þjóðkirkjunnar heldur því fram að “leiðtogar kristninnar” hafi haft Opinberun Péturs með í lista yfir “þau rit postulanna talin voru sönn túlkun boðskapar þeirra”. Í Opinberun Péturs er nefnilega lýst því sem Karl kallar “aðskilnaður frá guði”. Þarna er sagt frá hinum ýmsu pyndingaaðferðum í helvíti. “Leiðtogar kristninnar” höfðu til dæmis þetta að segja um einn hóp sem kirkjan virðist eiga í vandræðum með í dag:

Og öðrum mönnum og konum var varpað niður af miklum kletti allt niður að botninum og þaðan voru þau aftur rekin upp á klettinn af yfirsátum þeirra, og þaðan var þeim varpað niður. Þau fengu enga hvíld frá þessum pyndingum. Þetta voru þeir sem saurguðu líkama sína með því að hegða sér eins og konur og konurnar sem voru með þeim voru þær sem lögðust með hverri annarri eins og maður með konu.

Meira úr þessari lýsingu á kærleika Jesú er hægt að lesa hérna. Ætli Þjóðkirkjan muni kannski bæta þessari bók við í nýju útgáfu Biblíunnar?


Heimild: Metzger, Bruce, The Canon of the New Testament : Its Origin, Development, and Significance. Oxford: Carendon, 1987.

Hjalti Rúnar Ómarsson 23.05.2006
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 23/05/06 11:54 #

Það er líka sérstakt hjá biskupnum að skrifa svona mikla grein um bók sem hann hefur líklega ekki einu sinni lesið. Í grein sinni segir hann:

Bókin gerist aðallega í Suður Frakklandi. Söguhetjurnar hafa komist á snoðir um hinn ótrúlega leyndardóm og ganga gegnum miklar mannraunir til að komast undan lögreglunni og morðóðum munki.

Nú vita allir sem hafa lesið bókina að hún gerist að mestu leiti í París og Lundúnum. Atburðirnir í S-Frakklandi eru einungis lítill partur af bókinni.


jonfr - 23/05/06 12:09 #

Það virðist sem að fjölmiðlar hérna á landi, þá fyrst og fremst mbl.is taki gagnrýnislaust undir skrif biskups. Sjá nánar á mbl.is. Ég tel alveg víst að aðrir fjölmiðlar hérna á landi muni fjalla um þessi skrif biskups gagnrýnislaust.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 23/05/06 12:21 #

Já, það gæti vel verið að hann hafi bara alls ekki lesið bókina á kirkjan.is stendur þetta undir greininni(tru.is var ekki til þegar hún birtist fyrst):

Karl Sigurbjörnsson tók saman og byggði að mestu á Christianity Today og Kristeligt dagblad.

Svo virðist sem æðsti biskup Þjóðkirkjunnar notist við erlend dag- og vikublöð þegar hann skrifar greinar um Nýja testamentið...skrýtið.

Þá hefur pistill Karls Sigurbjörnssonar, biskups Íslands, Fagnaðarerindi Da Vinci lykilsins, verið prentaður í litlum bæklingi sem er dreift í kvikmyndahúsum á höfuðborgarsvæðinu en þessi pistill hefur verið mikið lesinn á trúmálavefnum.

Þetta minnir mig nú bara á þegar trúarnöttararnir biðu eftir fólki fyrir utan kvikmyndahúsin þegar "The passion of the christ" var sýnd. :D


Guðmundur D. Haraldsson - 23/05/06 19:07 #

Það virðist sem að fjölmiðlar hérna á landi, þá fyrst og fremst mbl.is taki gagnrýnislaust undir skrif biskups. Sjá nánar á mbl.is [Tengill á http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1203090]. Ég tel alveg víst að aðrir fjölmiðlar hérna á landi muni fjalla um þessi skrif biskups gagnrýnislaust.

Hvort áttu við almennt eða í þetta sinn? Það má vel vera að Morgunblaðið geri það almennt að taka gagnrýnislaust undir biskup, en í þetta skiptið var fréttin einungis um umfjöllun á trúmálavefnum og að bæklingi væri dreift í kvikmyndahúsum. Þetta er bara frétt um það, enginn að taka undir eitt né neitt.


Carlos - 24/05/06 09:33 #

Ágætis viðleitni, Hjalti í að tileinka þér þekkingu á tilurðarsögu N.t. Eitt vil ég benda þér á að skoða og íhuga, og það er hve mikið af heimildum (órituðum og rituðum) glatast frá því að atburður á sér stað og þangað til að hann er orðinn að "lykilatburði".

Það má e.t.v. tala um "náttúrulögmál" í því samhengi, þannig að það er í eðli hlutarins að sum skjöl glatast óvart, önnur af því að þau þykja ekki bæta neinu marktæku við það sem komið er og sum af því að þau falla utan við þá stefnu sem verður ofan á. Varðveisla skjala og upplýsinga er einnig tilviljanakennd á köflum, en mér sýnist að þau skjöl lifa, sem flestir telja að endurspegla sín viðhorf og sína trú.

Þessu "náttúrulögmáli" lýtur bókasafn Nýja testamenntisins þar sem það er játningagrunnur þeirrar hreyfingar sem kristin kirkja er, eins og stjórnarská er grunnur lagasetningar en ekki lagasetningin öll. Auðvitað völdu menn úr öllum þeim ritum sem skutu upp kollinum á fyrstu öldum kirkjunnar, heil undirgrein nýtestamenntisfræðinnar fjallar um það.

Dæmið sem þú tekur af textabút úr opinberun Péturs í lok greinarinnar er ágætis vitnisburðum um það hvernig kenning kirkjunnar er stöðugt í mótun og þróun.

Að lokum langar mig að benda þér á eina umdeilda fræðibók, sett saman af samfélagi nýtestamenntisfræðinga sem kalla sig "Jesus Seminar" og hafa leitast við að finna söguleg orð Jesú í samanburði bestu heimilda. Ég hygg að þar sé skemmtilegri lesning fyrir trúaða jafnt sem trúlausa en DaVinci.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.