Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þörf til að þrefa

Því meir sem ég les og fræðist um eina tiltekna alhliða stefnu því meir þoli ég hana ekki. Af einhverjum dularfullum ástæðum hafa vissir hópar tekið þessari stefnu fagnandi og nýtt sér orðhengilsháttinn til að teygja og tvista ýmis orð og hugtök væntanlega í þeirri örvæntingafullri tilraun til að gera þau með öllu merkingarlaus. Ef fram heldur sem á horfir þá er hugsanlegt að vissir hópar munu ekki lengur tala mannamál, það besta sem þeir gætu gert væri að gnauða "Kriþtur!"

Ég skal hætta að tala undir rós og einfaldlega segja að prestastéttinn og póstmódernismi virðast eiga afar góða samleið, og sömuleiðis hafa nokkrir trúmenn tekið þetta í sína arma. Þetta sést til að mynda á umræðum sem myndast hér á Vantrú.is auk Trú.is, Kirkjan.net og annarstaðar á internetinu, þetta heyrist í prestapontum og ljósvakamiðlum og hægt að lesa í greinum í dagblöðum.

Þetta er í senn sorglegt og athyglisvert. Biskup, prestar og trúmenn vilja leggja að jöfnu trúleysi og siðleysi, og sumir ganga svo langt að segja að trúleysingjar eru líklegri en aðrir til að níðast á börnum. Svona aðdróttanir koma frá fólki sem kenna sig við kærleika og umburðarlyndi. En kæra sig ekki um hvaða skoðanir sem er, né umbera ekki hvern sem er. Sigurður Ægisson gerist sekur um þetta. Karl Sigurbjörnsson gerist sekur um þetta. Jónína Benediktsdóttir gerist sek um þetta. Jón Gnarr gerist sekur um þetta.

Dæmi um orðræðu er á þessa leið: Trúleysi er það sem ógnar mannlegu samfélagi en enginn getur sannarlega verið trú- né guðlaus. Þess má einnig geta að trúmenn fremja ekki illvirki, í raun eru það trúleysingjar. En þeir sem fremja illvirki í nafni trúar sinnar eru í raun ekki trúaðir, jafnvel þó þau segjast vera það. Það að vera trúlaus er í raun að vera trúaður, því maður trúir því að maður trúi engu. Og svo framvegis. Þetta er ansi snúið en, afsakið rímið, þó er þetta ekki búið.

Þeir deila síðan um kynhneigðir manna, sumir trúa því að hægt sé að afhommast, telja að hommalega hegðun beri að fordæmi, þrefa á kirkjuþingi hvort beri að veita þeim almenn mannréttindi og prestar á borð við sr. Geir Waage segja að þessir hommar hafa engin sérstök rök uppá bjóða afhverju það ætti að veita þeim kirkjulega giftingarathöfn heldur eru þetta aðeins tilfinningarök hjá þessum bölvuðu kynvillingum. Tilfinngarök?! Þetta kemur úr allra hörðustu átt, frá presti í þokkabót. Því hvað er trú á æðri máttarvöld annað en eintóm tilfinning?

Síðan hamra þeir á hvað kristin trú er heilög og undanskilin allri gagnrýni en víla ekki fyrir sér að fordæma önnur hindurvitni. Þeir ljúga að leikskólabörnum að Gvuð og Jesú Kristur Jósepsson heyri í þeim þegar litlu krílinn fara með bænirnar sínar en að jólasveininn er ekki til frekar en einhyrningar og þeir gefi þeim ekkert í skóinn sama hversu mikið krakkinn skælir. Ekki sé minnst á raunverulega helvítisvist með öllum þeim skreytingum sem því fylgir, grátur og gnístan tanna, að vera brenndur á lífi að eilífu og svoleiðis hótanir, ef þau haga sér illa. En það eru foreldrarnir sem skella kartöflunni í skóinn fyrir hönd einhvers uppdiktaðs skrípi í rauðum búning. En meðan þeir neita tilvist jólasveina, þá eru draugar og vofur samt til. Þessi starfstétt tekur að sér hlutverk draugabana ef þess þarf og þetta á að kallast háskólamenntað fólk?

Biskup segir að páskarnir eru bara brandari Gvuðs, en þessi skrítla hefur engann brodd. Jú það er vissulega skondið að það sé haldið fram að fyrir 2000 árum hafi maður verið hýddur 40 sinnum, barinn til óbóta, skellt á hann þyrnikrans, látið hann blæða, síðan negldur uppá kross, stunginn með spjóti í kviðinn og síðan deyr hann, væntanlega útaf blóðleysi. Það er ekkert ólíklegt að þetta hafi hent töluverðan fjölda af fólki á þessum tímum. En brandarinn er ekki búinn. Síðan rís þessi maður upp frá dauðum, kveður sína nánustu og stígur svo upp til himnaríkis. Hvernig á að flokka svona brandara? Þetta er ekki meinfyndni, þetta er ekkert í líkingu við Charlie Chaplin eða Buster Keaton og þetta á væntanlega ekki að vera paródía. Þetta er hugsanlega kolsvartur gálgahúmor, en ef svo er hvað er svona fyndið við þetta? Mér finnst það ekki fyndið að þessum brandara er haldið fram sem heilögum sannleika sem olli síðan þjáningum í næstum 1500-1600 ár eftir þennan tiltekna atburð. Og gerir enn. Ég er alveg með húmor, en ég hlæ ekki af fimmaurabröndurum, sem er lélegur og auk þess illkvittin fimmaurabrandari í þokkabót. Að vísu er það fyndið að Ayatollah Karl haldi því fram að páskaguðspjallið sé brandari, það er ágætis brandari, bendir til þess að hann taki þessu ekkert svo alvarlega.

Það er hægt að tiltaka ýmislegan furðulegan málflutning. T.a.m. að sumir þykjast ekki sjá munin á Þjóðkirkjunni, sem ausir milljörðum á hverju ári í presta, djákna, biskup, kirkjur og annað föndur, hafa greiðan aðgang að útvarpi, sjónvarpi og dagblöðum, nær óheft og gagnrýnislausan aðgang að leik-, barna- og gagnfræðiskólum og vilja svo endilega troða sér inní framhaldskóla, troða sér inná sjúklinga í spítölum og hjúkrunarheimilum, halda ógurlega dýra veislu árið 2000 á kostnað þjóðarinnar og svo er það Vantrú, með eina vefsíðu, nokkra þúsundkalla og stöku sinnum komið fram í fjölmiðlum. Sumir eru svo barnalegir að halda því fram að öfgarnir liggja hjá þessum litla félagsskap og að þetta sé hættulegasta þjóðarmein í sögu Íslands. Kommonn, afsakið, vatt ðe fokk?

Póstmódernismi hefur neytt sumt fólk til að endurmeta viðtekin gildi, siði og venjur. Auk þess að rýna í og skilja hvað ýmis orð, hugtök og algeng heiti þýða í raun, sem er ekki í sjálfu sér slæmt. En það slæma er þegar þýðinginn á almennum og frekar gegnsæjum orðum er snúið á hvolf og þetta ferli tekur á sig furðulega skrípamynd sem er í afar Orwellískum anda. En reynt er að sjá lengra en sjón nær og býður upp á, með vopni ímyndunaraflsins einu saman. Þetta ferli er síðan í sífelldri endurtekningu sem leiðir til þess að fólk þarf alltaf að endurtaka sig í sífellu. Það skiptir ekki máli hversu oft skynsamt fólk reyna að útskýra á einfaldan og skýran hátt að sumir vaða í villu í sambandi við merkingu orða, þetta virðist ekki skiljast eða sumir neita að skilja. Þetta er samt ekki flókið:

Yfirnáttúra er eitthvað sem er hafið yfir náttúru og virðist vera óháð lögmálum náttúrunar og er ekki hægt að rannsaka með vísindalegum vinnubrögðum. Trúleysi er að vera laus við trú á allri yfirnáttúru. Guðleysi er að vera laus við trú á guðum (en trúa hugsanlega á vissa yfirnáttúru). Trúmaður er sá sem leggur trú við yfirnáttúru (t.a.m. jólasveina, guði, álfa og einhyrninga), og til eru ýmis heiti yfir trúmönnum; kaþólikkar, prótestantar, gyðingar, kalvinistar, miðlar, spámenn og svo framvegis.

En þó framsetning sé einföld, þá efast ég ekki um að sumir munu finna fyrir þörf til að þrefa um hina “raunverulegu” merkingu, t.a.m. hið klassíska "trúleysi er í raun trú, sko, skilurruh!" sem leiðir síðan til einkennilegra endurtekninga á einföldum hlut.

Þórður Ingvarsson 03.05.2006
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Svanur Sigurbjörnsson - 03/05/06 14:09 #

Skemmtilegar pælingar og yfirlit á afstöðu presta og trúfólks til "óæðri hindurvitna" og trúleysis. Heilaþvottur er væntanlega skilgreindur sem viðtekin vitneskja án gagnrýni eða skynsamlegrar skoðunar. Það er ljóst að íslendingar eru heilaþvegnir frá leikskólaaldri og fæstir hafa því miður kjark eða áhuga á því að endurskoða þær lífsskoðanir sem lúta að trúmálum eða annarri "hjánáttúru" (guð og goð eru ekki yfir nátturunni hafnir nema í augum trúfólks). Heilaþvotturinn um að allir séu trúaðir, meira að segja trúlausir er þversögn sem trúaðir halda að hjálpi málstað þeirra. Sorglegt dæmi um þá skemmd á rökhugsun sem á sér stað í trúarferlinu. Virkt trúleysi leiðir til sífellt betri rökfestu en virk trú til sífellt meiri kreddna og ranghugmynda um lífið. Takk fyrir sjónarhornið!


Khomeni - 03/05/06 17:05 #

Flott grein hjá Þórði. Mikið til í þessu. fyrsta vandamálið sem blasir við þeim sem vill gagnrýna trúarbrögð (eða ástunda þau) er orðið "trú". Við hvað er átt? Merkingin er nefnilega tvíbennt.

Orðið getur átt við að maður trúi að strætó komi klukkan 14:12 eða maður trúi því.þvi að maður nái e-u prófi. merkingin inniheldur einhvern efa.

Hinsvegar merkir ´"trú" líka einherskonar átrúnað á yfirnáttútulegar verur. Sagt er að hinn og þessi séu trúmenn.

ég hef aldrei náð að graspa hvað trúaða fólkið á við. "trúir" (sterk merking) það á guð eða "trúir" (veik merking) það á guð sé til?

Ég held að trúðaðasta fólkið trúi í veikri merkingu. það vonar að guð sé til.

vitlausa fólkið hreinlega trúir að guð sé til.

-o-o-o-o-o-

Á tímabili þá vonaði ég að guð væri til. Núna er mér alveg sama....skítsama. Ef hann er til (sem ég efa stórlega) þá er honum allavega skítsama um okkur.

-o-o-o-o-o-


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 03/05/06 22:57 #

Orðið "trú" er ekkert til vandræða nema fólk vilji það, ég gæti best trúað því. Þó ég trúi því felst enginn átrúnaður á æðri máttarvöld þrátt fyrir þá trú. En það er vissulega hægt að nota önnur orð í staðinn og merkinginn breytist lítið sem ekkert.

"Mig grunar að strætóinn komi klukkan 14:12" "Það eru líkur á að strætóinn komi klukkan 14:12" "Ég er nokkuð viss að strætóinn komi klukkan 14:12" "Ég held að strætóinn komi klukkan 14:12"


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 04/05/06 00:25 #

Svo er líka aðalmunurinn fólgin í muninum á rökstuddri trú og órökstuddri trú. Trú stendur venjulega fyrir órökstuddri trú, því hún er bara trú og ekkert annað en sannfæringin ein. En það þýðir ekki að öll sannfæring sé órökstudd. Þvert á móti er orðið trú stundum notað í því samhengi að það vísi til trúar sem er rökstudd, þó það hugtak eitt og sér vísar, og það oftast, á hreina trú sem engin sérstök rök renna stoð undir.


kiddi - 04/05/06 00:26 #

Jón Gnarr lagði trúleysi og siðleysi aldrei að jöfnu. Hann sagði að þeir sem væru siðlausir gætu ekki verið trúaðir, en hann sagði aldrei að allir þeir sem væru trúlausir væru siðlausir.


Snæbjörn - 04/05/06 00:28 #

Ég skil ekki hvað þú hefur á móti póstmódernisma...


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 04/05/06 09:42 #

Kiddi, hvað kallast þeir sem ekki trúa?

Póstmódernismi er eitthvað sem ég skil eiginlega ekki þ.e. hugmyndarfræði sem gegnur út á að allar skoðanir eigi rétt á sér og það sé ekki til einn sannleikur.

Það er fullt af skoðunum sem mér finnst ekkert eiga rétt á sér og síðan haugur af skoðunum sem eiga ekki að vaða uppi ógagnrýnislaust. Einnig er bara staðreynd að sumar skoðanir eru réttari en aðrar og sumar eru einfaldlega rangar.

Svo mér finnst póstmódernismi asnaleg hugmyndarfræði.


Khomeni - 04/05/06 15:46 #

Orðið "trú" er vandræðahugtak. það er bæði notað um átrúnað (þá sem n.k. von) eða sem einhverskonar vissu um orðna eða óorðna atburði....

Ágætis hugleiðing um rökstudda og órökstudda trú hjá Kára.

En innifelur orðið "trú" ekki einverskonar von? ég trúi þvi að hann sé svona.... ég trúi þvi að strætó komi kl....

Ef fólk færi að tala um trú sem von, þá liti máliið miklu skýar út.

Þá væri talað um fólk sem vonaði að guð væri til.
Ekki; "Ég trúi að guð sé til" Heldur: "Ég vona að guð sé til".


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 04/05/06 15:58 #

Að trúa þýðir ekki það sama og að vona. Ef ég trúi því að sólin rísi á morgun er ég þá bara að vona það? Nei, þarna er trú bara samheiti yfir "að halda".

Ég myndi frekar segja trú (í td trú á tilvist guðs) vera blöndu af vissu og von.


Khomeni - 04/05/06 16:05 #

"....blanda af vissu og von". Er það ekki eitruð blanda? er það ekki þversögn?

-o-o-o-o-

Ný tillaga: orðið "átrúnaður"... Þeir sem leggja átrúnað við guð..

"Hann var lagði mikinn átrúnað á guð þrátt fyrir að misnota dóttur sína reglulega"...

"þeir sem leggja átrúnað á guð eru að flýja sjálfan sig og feta frá þeirri braut að taka ábyrgð á sjálfum sér, heiminum og öllu sem í honum er"..


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 04/05/06 16:14 #

Neinei, engin þversögn. þú bara veist að það sem þú vonar er satt. Alveg ótrúlega vitlaust, en þannig er trúin ;)


Khomeni - 04/05/06 16:33 #

Þetta er sennilega rétt hjá þér Hjalti. Þú hittir naglann á skallann.

Ha ha ha.....

"Trú er að vita að það sem maður vonar er satt..."

Hafðið þið gert ykkur grein fyrir því að fjörugustu guðfræðilegu umræðurnar á Íslandi eru á Vantrúnni okkar...

Þetta er beinlínis kostulegt.


Árni Árnason - 04/05/06 17:56 #

Að trúa getur þýtt svo margt, en ég held að átrúnaður ( eins og Khomeni bendir á ) komist nær því að túlka enska orðið religion / religious sem stendur fyrir trúarbrögðin, en ekki hvenær strætó komi.

Religious: He is a wery religious man, although he sexually molests his daughter on a regular basis.

Getur verið að hugrenningatengslin séu að verða okkur fjötur um fót Khomeni ? :-)


khomeni - 04/05/06 19:33 #

Hugrenningatenxlin kæri Árni, hafa alltaf vafist fyrir mér. Tenxlarenningur huga míns er ósléttur og illa farinn efitr áratuga kynferðislega ofnotkun.

-o-o-o-o-o-

Hugsið ykkur kæra vantrúarfólk: Kristinndómurinn er svo götóttur að meir að segja orðið trú er erfitt að skilgreina.

Erfitt að byggja hugmyndakerfi á stoðum sem eru fúnar inn að kjarna...


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 05/05/06 00:43 #

Árni segir:

Að trúa getur þýtt svo margt...

En ekki jafn margt og maður heldur. Orð hafa bara ákveðna skyrgreiningu og merkingarmið. Ef fólk er að oftroða mismunandi merkingar í eitt orð skal vinsamlegast benda því að búa til eða nota önnur svo ekki að eyðileggja notagildi hugtaksins sem það oftreður. Samt er það í hag presta og trúaðs fólk að hafa trú eins margrætt og jafnvel órætt hugtak og kostur er, einmitt til þess að rugla ályktanir og afvegleiða.

Ég skrifaði einu sinni grein um hugtakið trú. Hún heitir Bábiljuslagsíða: Hvað er trú?. Þar kom ég með útskýringuna á orðinu trú. Þó er minna smeikur en þá að nota orðið trú því þar sem þetta snýst í raun um stigskipta smættarhyggju; þar sem maður getur ekki alltaf skýrt allt ýtarlega því það er ekki alltaf tími til að velkjast um í smáatriðum. En maður á að geta gert það ef maður er spurður um nákvæmari orðalag, sem aftur tekur tíma. Því einnig er ónausýnlegt að fara allt of ítarlega í hluti í hvert sinn, nema að ástæður séu til.

Trú er beisikallí sannfæring sem ekkert segir til um hvernig eða hvort hún var fengin af einhverju, en hefur semífasta merkingu við sig að hún sé "sannfæring í lausu lofti gripið", þó er endanlega hægt og vel mögulegt að skera úr um leiðina til sannfæringarinnar meða því að aðgreina orðið í rökstudda eða órökstudda sannfæringu. Þar sem rökstudd sannfæring, er sannfræing studd rökum. En órökstudd sanfæring, þá ekki studd rökum, heldur einhverjum öðrum mekanisma til sannfæringarahalds eins og til dæmis, óskhyggja; það sem maður óskar/vonar að sé satt verður satt. Og því eins og það var orðað fyrir ofan:"Trú er að vita að það sem maður vonar er satt..."


Snæbjörn - 05/05/06 19:50 #

Póstmódernismi rokkar...


Matti (meðlimur í Vantrú) - 05/05/06 20:01 #

Póstmódernismi rokkar...

...eða ekki - fer eftir því hvernig þú lítur á málið :-)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.