Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Afbrotahrina í Reykjavík: Lögreglan aðhefst ekkert

Í dag ganga nokkur hundruð börn hinn andlega planka upp að altarinu og meðtaka svolitla forneskju frá ríkisstyrktum andalæknum. Flest þeirra munu ekki standa frammi fyrir skrýddum presti við altari aftur fyrr en þau gifta sig, og fæst aftur eftir það. Flest þeirra taka þátt í þessari athöfn vegna þess að þau vilja ekki draga að sér neikvæða athygli með því að vera öðruvísi, og vegna þess að þau eiga gjafir í vændum. Hollt veganesti út í lífið það, að láta undan hópþrýstingi og selja sál sína fyrir veraldleg gæði, hmm?

Flest þessara barna eru fermd ólöglega. Það er auðvitað ekki við þau að sakast -- enda ekki einu sinni sakhæf -- en háskólamenntaðir prestarnir sem ferma þau ættu hins vegar að vita betur. Eða -- réttara sagt -- þá virðast þeir reyndar gera það, sumir hverjir að minnsta kosti, þótt þeir beri reyndar fyrir sig afsakanir sem standast tæplega lagabókstaf.

Í gildandi lögum um fermingar segir meðal annars:

Það skal vera aðalregla, að prestar megi eigi taka börn til fermingar, þau er fermast eiga, fyrr en þau eru orðin fullra 14 eða 15 ára, með því að börn, sem yngri eru, kunna sjaldan að meta rétt, eða hafa hugsun á að færa sér í nyt það er kennarar þeirra leiða þeim fyrir sjónir og brýna fyrir þeim, og skynja eigi, hve þýðingarmikill sáttmáli sá er, er þau í fermingunni endurnýja og staðfesta. Þó er þess að gæta um tímaákvörðun þessa, að börn, sem eiga að fara í langferðir, svo sem til Indlands eða Vesturheimseyja, má taka til fermingar, þó að hálft ár eða nokkuð meira skorti til þess að þau hafi náð greindum aldri, og eins er það, ef það ber við, að barn, sem eigi er orðið fullra 14 ára, verður hættulega sjúkt, og beiðist þess á sóttarsæng sinni, að mega njóta hins heilaga sakramentis, og hefir innilega þrá eftir því, þá skal það prestinum leyft vera, ef hann telur barnið vera vel upplýst, að veita því hluttöku í þessu sáluhjálparmeðali. Tilskipun um ferminguna

Enn fremur stendur:

Eftirleiðis skal það vera á valdi biskupanna, að veita leyfi til þess, að börn séu tekin til fermingar, þó að nokkuð vanti á, að þau hafi náð hinum lögboðna 14 ára aldri. Slíka undanþágu má þó eigi veita, nema svo sérstaklega sé ástatt um hagi foreldranna eða ákvörðun barnsins, að hún verði að álítast áríðandi fyrir velferð þess, og auk þess skal þess nákvæmlega gætt, að barnið hafi að fullu öðlast þá þekkingu, sem gert er ráð fyrir í skólatilskipununum, og að siðferði þess sé svo, að ekkert geti að því leyti verið til fyrirstöðu slíkri ívilnun. Það má heldur ekki vanta nema lítið á aldur barnsins, ef undanþágan á að fást, og jafnvel þótt allt annað mæli með undanþágunni, eigi meira en 6 mánuðir. Tilskipun um vald biskupa til að veita undanþágur frá fermingartilskipunum

Í dag fara með öðrum orðum fram lögbrot í stórum stíl, í flestum kirkjum landsins. Á meðan sitja lögreglumenn á stöðinni og borða kleinuhringi, það er að segja, þeir sem eiga ekki sjálfir barn eða nákomið skyldmenni á fermingaraldri. Ef reiknað er með að þriðjungur barna fæðist á fyrsta þriðjungi ársins, þá er ekki nema þriðjungur þeirra orðinn fullra fjórtán ára þegar ferming er framin á þeim. Með öðrum orðum: Tveir þriðju fermingarbarna fermast ekki löglega.

Hans konunglega hátign Friðrik konungur V og hans konunglega hátign Friðrik konungur VI tilgreina rökin fyrir þessum aldurstakmörkum. Reynt hefur verið að hrekja þau, m.a. hér, svo ég vísi aftur í sama texta -- en þá er spurningin, hvor rökin eru betri? Ef rök tveggja konunga eru hrakin, þá væri eðlilegt að breyta lögunum. Dura lex, sed lex segja menn -- þungbær lög en samt lög. Skyldi Þjóðkirkjan vera á öðru máli? Skyldi það vera stefna Þjóðkirkjunnar að henni beri aðeins að hlýða lögum sem hún sjálf telur eðlileg? (Það vekur reyndar líka spurningar um lögmæti þess að veita börnum áfengi til að skola niður oblátunni.)

Með lögum skal land byggja. Ég skora á Þjóðkirkjuna að láta af þessum ítrekuðu lögbrotum!

Vésteinn Valgarðsson 23.04.2006
Flokkað undir: ( Fermingar )

Viðbrögð


Árni Árnason - 23/04/06 15:36 #

Ekki er nóg með að hér sé augljóslega um lögbrot að ræða, heldur er hitt að prestarnir og bikoppurinn vita það manna best að svo er. Hér er því um það að ræða sem dómstólar hafa gjarna kallað einbeittan brotavilja. Brotið flokkast í fyrsta lagi sem auðgunarbrot. Verið er að hafa fé af fólki með ólöglegu athæfi, bæði fermingargjaldið sjálft og svo sóknargjald fermingarbarnsins um leið og það verður gjaldbært. Brotið flokkast í öðru lagi undir svokallaða misneytingu, þegar menn notfæra sér þroskaleysi annarra sér til framdráttar og/eða fjáhagslegs ávinnings. Ef fermingin snerist um það í raun, sem haft er að yfirskini, að trúaðir gangi til samfélags við guð sinn, ætti engu að breyta þó að fermingin færi fram síðar á lífsleiðinni, og þá helst fyrir frumkvæði þess er ferma á. Þessi smölun smákrakka getur því ekki átt sér annan tilgang en þann að eyrnamerkja fjöldan sem gjaldstofn meðan auðgunarlíkurnar eru mestar. Þó að flestir prestar, og ekki síst biskoppurinn sjálfur setji sig í stellingar gæðablóðsins og tali með hommalega mærðarlegri röddu um þetta hryðjuverk sitt á smákrökkum, verður betri vitund þeirra til þess að þeir geta vart flokkast undir neitt annað en vonda menn.


Gilgames - 23/04/06 17:04 #

Skemmtileg og fróðleg lesning Vésteinn. Ég rak augun í textann;

"hve þýðingarmikill sáttmáli sá er, er þau í fermingunni endurnýja og staðfesta."

Þessi setning vekur hjá mér spurningu um það hvað börn í BF eru að endurnýja eða staðfesta?

En þessi lesning á lögum segir mér líka að það er ekkert farið eftir lögum og reglum þessa samfélags. Eigendur eða handhafa valdsins gera bara það sem þeim sýnist, hvar í kompaníi sem þeir stjórna.


SIndri Guð - 23/04/06 17:25 #

Ég man nú eftir ákveðnum kafla úr bók Sigurðar Líndal, "Almenn lögfræði" sem ég neyddist til að læra utan að árið 1999, til þess eins að fá að halda áfram í laganámi. Kaflinn hét eitthvað á þessa leið: "Lög falla úr gildi fyrir fyrnsku."

Þar var m.a. rakinn dómar þar sem dómari neitaði að beita lögum sem sett voru rétt eftir aldamót 1900 um hágmarks bætur vegna tjóns út á sjó. Voru þau lög talin fyrnd.

Svo voru lög sem bönnuðu mönnum að bera erlend eftirnöfn vikið til hliðar, sökum þess að það stangaðist á við venju t.d. (sá dómur var úr öðrum kafla)

Spurning hvernig saksóknara myndi ganga gegn biskupi t.d. með "gildandi" tilskipun um fermingu frá árinu 1759 að vopni (sett af háttvirtum steindauðum danakonungi) - bæði hund gömul, og stangast á við afar fasta, útbreidda og viðtekna venju.

Tilskipunin hefur vægt til orða tekið afar litla vikt sem réttarheimild.


jonfr - 23/04/06 17:59 #

Hæstiréttur hefur nú dæmt ríkinu í vil eftir meira en 100 ára gömlum lögum. Þannig að þessi túlkun er ekki alltaf gild.


Khomeni - 23/04/06 18:06 #

Þetta er hárrétt ábending hjá Vésteini og fróðlegt innlegg hjá Sindra Guð. Það er augljóst að það á að láta reyna á þessa reglugerð frá 1759. Hví er þetta glæpsamlega athæfi ekki kært til lögreglu. Hví gerir Vantrúin góða ekkert í málinu. Væri ekki massagaman að kæra þetta FJÁRPLÓGSFÓLK..! Þetta myndi ugglaust rata í fjölmiðla lanssins og skapa umstang.

Þá afhjúpast ógeðfellt eðli ríkiskirkjunnar og þessa vitlausa kerfist sem við því miður búum við.

  • Allah akbar! Khomeni.

Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 23/04/06 18:35 #

Svo einkennilega vill til að lögunum er ennþá fylgt en bara ekki alltaf. Um daginn var frétt um eitthvað fermingarbarn sem var árinu yngri en þau sem eru að fermast núna og þurfti að fá undanþágu frá Kalla biskup. Kirkjan virðist bara túlka þetta einsog henni sýnist.


Sindri Guð - 23/04/06 18:56 #

Sé það rétt hjá Óla Gneista að einhverjum hlutum tilskipunarinnar sé enn fylgt, þá skora ég á vantruarmenn að leggja fram formlega kvörtun til lögreglu. Ég efast samt stórlega um vilja ákæruvaldsins til að fara í hart, en þetta gæti þá vakið einhverja athygli.

Annars er "tilskipunin" væntanlega bara stjórnvaldsfyrirmæli, líkt og t.d reglugerð, sem verður að eiga stoð í lögum, og það er spurning í hvaða lögum tilskipun kóngsa heitins á stoð sína?

Vitið þið það?


Trúaður - 24/04/06 03:33 #

Ef að þið trúið ekki á sál, hvernig geta börnin þá selt sálu sína?

Skil þetta ekki!

Guð veri með ykkur, þið vissulega þurfið á því að halda


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 24/04/06 03:41 #

Orðið sál hefur fleiri en eina merkingu:

1sál -ar, -ir KVK
1
• andi, önd, lund, hugur, geð;
guðfræði/trúarbrögð
• sá hluti persónunnar sem margir hugsa sér að
lifi áfram eftir líkamsdauðann (að eilífu)
sál og líkami
sálarlíf andlegt líf manns, hugsun, viðbrögð og tilfinningar
skáldamál
í kenningum:
sálarborg líkami
sálargluggi auga
2
• maður, persóna
á fundinum voru aðeins örfáar sálir þ.e. örfáar
hræður
í ávarpi:
frændasál frændi sæll
3
tónlist
• trépinni sem spennir sundur hljómkassann í
strokhljóðfærum

Vésteinn á klárlega við þá merkingu sem lýtur að huga eða sálarlífi. Ef þú einsetur þér að skilja þetta sem svo að hann hljóti að eiga við eitthvað sem lifir af líkamsdauðann fremurðu sömu rökvillu og þeir sem gera okkur upp þá firru að við séum alltaf að tala um trú í merkingunni skoðun.


khomeni - 24/04/06 06:58 #

Flott svar Birgir. Gerist ekki betra. Málefnalegt og laust við skæting. Bravó.

Annars veit ég til þess að vantrúarsíðan er mónitoruð af fólki í guðfræðideildinni í þeirri von að koma höggi á þá síðarmeir. Mér skilst að þetta verði notað gegn vantrúnni þegar sótt er um stöðu trúfélags/lífsskoðunarfélags.

Pössum oss og gætum vorra orða. Það er eiginlega miklu betra að gæta hófs í blammeríngum því það er einfaldlega sterkara. Hitt minnir Khomeni alltaf á skæting unglinga. Það er nefnilega svo auðvelt að segja shitt og fokk. Það er meiri kúnst í því að beita rökum

Khomeni er því miður ekki alveg laus við orðsora en er að reyna að bæta sig.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 24/04/06 14:21 #

Ég held að það hafi aldrei komið til greina að reyna að fá Vantrú skráð sem trú- eða lífsskoðunarfélag. Það er þörf á að trúleysingjar fái að eiga félag/félög sem hafa sömu réttarstöðu og trúfélögin (fái sóknargjöldin og svoleiðis) til þess að sjá um ýmsar athafnir svo sem giftingar/jarðarfarir en við höfum aldrei ætlað Vantrú það hlutverk.


khomeni - 24/04/06 16:37 #

....Nú?

Ég heyrði einhverntíman að svona félag væri í burðarliðnum. Minnir að Bjarni Randver Sigurjónsson hafi skrifað grein þess efnis....

Annar er mér nokk sama hvort slíkt félag væri til. Sóknargjöldin eru mál sem þarf að útkljá einhverntíman. Þetta er afar ógeðfelldur skattur.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/04/06 16:45 #

Siðmennt er félagið sem þú hefur í huga.

Vantrú tengist Siðmennt ekki.


Khomeni - 24/04/06 17:31 #

....Nú..?

Vantrú er semsagt bara félagskapur sem hefur allt á hornum sér?

eruð þið barasta ekki í þjónustu Satans?

-o-o-o-o-o-o- að öðru:

Teljið þið vantrúarmenn góðu að það sé hægt að vanhelga sjálfan sig?

Er til ónátturúleg hegðun?


jogus (meðlimur í Vantrú) - 24/04/06 18:51 #

Teljið þið vantrúarmenn góðu að það sé hægt að vanhelga sjálfan sig?

Er hægt að "helga" sig? Er hægt að "helga" aðra? Eru allir kannski helgir (svona sem upphafsástand)?

Hvað þýðir þetta eiginlega?


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 24/04/06 19:36 #

Auk þess erum við með spjallborð þar sem svona spurningar eiga heima.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.