Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Fermingaraldurinn

Allir eru sammála því að þegar ungabörn eru skírð hafa þau ekki þroska til þess að taka upplýsta og sjálfstæða ákvörðun varðandi skírnina. Það stöðvar samt Þjóðkirkjuna ekki í því að skíra þau. Kirkjan bíður síðan þangað til barnið er orðið þrettán ára svo að það geti tekið upplýsta og sjálfstæða ákvörðun. En trúir því virkilega einhver að þrettán ára unglingar taki sjálfstæðar og upplýstar ákvarðanir í trúmálum?

Fyrst skulum við kíkja á hvað lögin segja um. Í lögum um tilskipun um ferminguna frá árinu 1759 stendur:

Það skal vera aðalregla, að prestar megi eigi taka börn til fermingar, þau er fermast eiga, fyrr en þau eru orðin fullra 14 eða 15 ára, með því að börn, sem yngri eru, kunna sjaldan að meta rétt, eða hafa hugsun á að færa sér í nyt það er kennarar þeirra leiða þeim fyrir sjónir og brýna fyrir þeim, og skynja eigi, hve þýðingarmikill sáttmáli sá er, er þau í fermingunni endurnýja og staðfesta.

Þannig að samkvæmt gömlu lögunum voru þrettán ára krakkar ekki nægilega þroskaðir til þess að fermast. En hvað segja ný lög? Í lögum um skráð trúfélög kemur fram að til þess að geta skipt um trúfélag þarf maður að hafa náð sextán ára aldri. Skrýtið að þessir einstaklingar geta tekið upplýsta og sjálfstæða ákvörðun um að gera Jesú Krist að leiðtoga lífs síns en geta ekki skráð sig í eða úr Þjóðkirkjunni.

Eins og bent hefur verið á áður þá viðurkennir Þjóðkirkjan að einmitt á þessum aldri eru áhrif félagshópsins hvað sterkust. Hljómar það eins og einkenni aldurshóps sem tekur sjálfstæðar ákvarðanir?

Oft er því haldið fram að allt tal um hækkun á fermingaraldrinum byggist á fordómum í garð unglinga. Ef svo er þá eru unglingar líka haldnir þessum fordómum. Í frétt í Fréttablaðinu þann 3. apríl kom fram að landsþing ungs fólks á vegum Samfés, samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi, ályktaði að hækka skyldi fermingaraldurinn. Í fréttinni er rætt við Stefán Þórsson, talsmann þingsins, og hann segir: “Ungt fólk er að velja sér trú þrátt fyrir að vera ekki orðið sjálfráða og veit þar að auki lítið um önnur trúarbrögð.”.

Raunin að sú að fermingarbörnin vita örugglega líka afar lítið um kristni, það er að segja gagnrýni á kristni. Ekki læra þau um gagnrýni í biblíusögunum í kristinfræðinni í grunnskólanum. Ekki læra þau um gagnrýni í trúboðsstarfsemi Þjóðkirkjunnar, hvort sem það eru heimsóknir í leikskóla eða fermingarfræðsla.

Fermingarbörn eru almennt ekki tilbúin til þess að taka sjálfstæða og upplýsta ákvörðun varðandi fermingarnar og ef Þjóðkirkjan vill að fermingin snúist virkilega um sjálfstæða ákvörðun þá ætti hún annað hvort að hækka fermingaraldurinn eða segja krökkunum frá gagnrýni á kristindóminn.

En auðvitað mun Þjóðkirkjan ekki gera þetta, því að fermingin snýst ekki um að taka upplýsta ákvörðun. Fermingin er bara fínt tækifæri fyrir kirkjuna til þess að nota félagsþrýsting til þess að boða trúnna sína áður en krakkarnir verða nógu þroskaðir til þess að sjá hverju fjarstæðukennd og heimskuleg kristin trú er.

Sumir munu ef til vill hrista hausinn og segja að í augum fermingarbarnanna og aðstandenda þeirra sé fermingin auðvitað bara hefð og það sé engin alvara á bak við þetta.

Ég er sammála því, en hvers vegna ekki að sleppa yfirnáttúrumilliliðunum? Hvers vegna að leyfa kirkjunni að notafæra sér félagsþrýsting til þess að troða áróðri sínum á börnin? Hvers vegna ekki að sleppa “veisluþjónustu ríkisins” og fagna því að barnið sé að ganga í tölu fullorðinna án þess að láta það ljúga upp á sig hollustu við dauðan heimsendaspámann?

Hjalti Rúnar Ómarsson 12.04.2006
Flokkað undir: ( Fermingar )

Viðbrögð


Árni Árnason - 12/04/06 12:59 #

Það er með ólíkindum hvað þetta hindurvitna- apparat fær að leika lausum hala. Það gengur þvert á öll lög og reglur í samfélaginu, og siðferðið er í algeru núlli. Hvað sem öllum lögum og reglum um lögræði og sjálfræði líður kemst kirkjan upp með að herja á smákrakka til að ná þeim í sínar raðir. Einstaklingar öðlast ekki rétt til sjálfsákvörðunar um skráningu í trúfélög fyrr en við 16 ára aldur, en kirkjan má grípa þessi grey 13 ára og notfæra sér ósjálfstæði þeirra og félagsþrýsting jafnaldranna, og setja á þau mjaltavélar sínar til frambúðar. Kirkjunnar menn vita ósköp vel að ef fermingaraldurinn yrði hækkaður í 18 ár myndi stórlega draga úr fjölda fermdra. Það þjónar hinsvegar þeirra hagsmunum að ná sem flestum í hús, og því láta þeir sér siðleysið í þessu sér í léttu rúmi liggja. Við 13-14 ára aldurinn eru börnin á viðkvæmasta aldri, hræðslan við að skera sig úr, vera ekki eins og allir hinir, er í hámarki. Slyngur markaðsfræðingur hefði ekki getað valið betri aldur til að herja á. Það er vægast sagt viðbjóðslegt hvernig Helgi Slepjan og hinir prestarnir meiga ekkert aumt sjá án þess að traðka á því. Ég bókstaflega skil ekki hvernig þetta lið sefur á nóttunni, eins og það hegðar sér gegn betri vitund. Þjóðfélagið er orðið svo gegnsýrt að þessum viðbjóði að flestir fljóta sofandi með straumnum. Það eru til lög um hvernig meigi auglýsa tannkrem og klósetthreinsilög. Þar er auglýsanda óheimilt að setja fram fullyrðingar um ágæti vöru sinnar, nema hann geti sýnt fram á þau. En það má ljúga smákrakka fulla af einhverju helv... kjaftæði til að ná af þeim aurunum fyrir lífstíð. Afsakiði en ég þarf gubba.


Maze - 12/04/06 15:22 #

Mjög góð grein. Ég skoða þessa síðu ykkar oft og hef mjög gaman af. Ég er einnig nánast alltaf sammála ykkur. En til þess að vera smá leiðinlegur verð ég að benda ykkur á að maður talar um ungbörn en ekki ungabörn (eins og skrifað er í fyrstu málgreininni hér að ofan). Því þetta eru ung börn en ekki börn sem ungar eiga!

Kær kveðja....


Gunnar - 12/04/06 21:27 #

En til þess að vera smá leiðinlegur verð ég að benda ykkur á að maður talar um ungbörn en ekki ungabörn.

Mig langar líka til þess að vera smá leiðinlegur. Ég kíkti í orðabókina, eins og ég tel skynsamlegt að gera áður en ég leiðrétti aðra, og fann orðið ungabarn með skýringunni "ungt barn, vöggubarn, korn(a)barn". Ég fann líka orðið ungbarn, með skýringunni "ungabarn, kornbarn". :-)


Ásgeir - 12/04/06 21:46 #

Hér er um að ræða bandstaf, oft skotið inn í orð til að auðvelda framburð.


khomeni - 13/04/06 02:48 #

Það væri gaman að vita hve gamall þessi siður er. Það er ekki langt síðan kirkan tók yfir hjónavígslur. Áður fyrr þá tilkynnti fólk um hjónabandí áheryn annara og þar við sat. Það var ekki fyrr en löngu seinna að kirkjan sló eign sinni á fyrirbærið hjónaband og gerði það að sínu.

Fermingar í einhverju formi tíðkast eiginlega í öllum samfélögum manna. Ungdómsvígslur þar sem barn breytist í fullorðin einstakling.

Þessi athöfn er reyndar orðin að mikilli tekjulind fyrir presta og orðin baggi á samfélaginu ef tekið er tillit til kostnaðar við venjulega fermingarveislu. Vinkona mín gerði hlé á námi til að ferma drenginn sinn. Þetta er geðveiki

Persónulega þá myndi ég reyna að komast hjá þvi að ferma barnið mitt. Þetta er í rauninni frumstætt ritúal.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/04/06 02:56 #

Hér er um að ræða bandstaf, oft skotið inn í orð til að auðvelda framburð.

Já, samanber „leikfimishús“, leikifimi er kvenkynsorð og þarna virðist sem búið sé að gera það að hvorugkynsorði.

Annað gott dæmi er „athyglisverður“, sem sumir besservisserar breyta í athygliverður, af því að þeir þekkja ekki til notkunar bandstafs og halda að hitt sé rangt.

En þetta er auðvitað út fyrir efnið.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/04/06 03:03 #

Þessi athöfn er reyndar orðin að mikilli tekjulind fyrir presta og orðin baggi á samfélaginu ef tekið er tillit til kostnaðar við venjulega fermingarveislu.

Einmitt. Heimilin í landinu blæða fyrir þetta, enda grimm samkeppni á meðal fermingarbarnanna um það hver fékk flottustu gjafirnar og mesta aurinn.

þetta er samfélagsmein.


Gunnar - 13/04/06 03:05 #

Annað gott dæmi er „athyglisverður“, sem sumir besservisserar breyta í athygliverður, af því að þeir þekkja ekki til notkunar bandstafs og halda að hitt sé rangt. En þetta er auðvitað út fyrir efnið.

En athyglivert engu að síður...


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/04/06 03:33 #

:)


Rökkvi - 13/04/06 16:32 #

Ég er sammála ykkur. Það er reyndar ágætt að borgaralegar fermingar eru að aukast aðeins miðað við þessar kristilegu.


Orri - 14/04/06 04:13 #

Frábær grein og þörf. Og þú ert ekki væntanlega ekki fastapenni á Vantrú, vænti ég.

Það er enda erfitt að öppdeita vef daglega með gáfulegum greinum. Þess vegna hafa vinir mínir á Vantrú á stundum skrifað greinar sem með réttu ættu að falla undir sérstakan greinarflokk smámunasemi og leiðinda.

En þeir hafa líka skrifað margt gott, eins og þú nú gerir.

Takk, takk.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 14/04/06 04:47 #

Höfundurinn er ritstjóri vefritsins og hefur skrifað flestar greinarnar hér undanfarnar vikur og mánuði. Þú ert greinilega ekki að fylgjast með.


Maze - 14/04/06 12:45 #

Það má vel vera að menn telji mig besserwisser, smámunasaman, það er aukaatriði finnst mér. Miðað við að hafa verið skammaður af íslenskufræðingi fyrir að segja ungAbörn þá tel ég það rangt. Enda segir orðið "ungabörn" fátt meira en að þetta séu börn sem ungar eiga. Hvers vegna segja menn þá ekki ungabarnaeftirlit í stað ungbarnaeftirlits, eða ungabarnaföt. En jæja, skiptir ekki öllu, þetta innlegg skiptir innihald þessarar góðu greinar ekki miklu. Kær kv


Fannar - 14/04/06 14:57 #

Ég var sá fyrsti í mínu sveitarfélagi sem fermdi sig ekki kristilega. ég fermdist borgaralega. og það var erfitt. sá félagslegi þrýstingur á að fermast með hinum í kirkjunni á staðnum var gríðarlegur. Setningar eins og: Ertu klikkaður?, er í lagi með þig?, er þetta ekki bara bull að fermast borgaralega? voru algengar. Síðan kom: þú ert ekki að fermast, þú átt ekki að fá gjafir. ekkert nema hræðslu áróður sem krakkar apa upp eftir þeim sem troða þessu í þá.

gæti einhvern tíman samningur milli barns og fullorðinn einstaklings þar sem stendur að barnið samþykki eitthvað til lífstíðar og samningurinn sé óuppsegjanlegur. geta staðist fyrir dómi? Nei.

Fermingar eiga að vera þegar einstaklingurinn er orðinn lögráða og getur farið með eiginn mál sjálfur. 18 ára gamall. allt annað er missnotkun á ólögráða börnum sem ekki hafa alla þá þekkingu eða reynslu til þess að taka upplýsta ákvörðun um eigin hag, þar sem hlutað eigandi (kirkjan) vill ekki gefa þeim möguleikan á vali.


Kinko - 14/04/06 16:03 #

Er það kirkjan sem gerir kröfur um að fólk spanderi peningunum í veislur og gjafir eða eru það kannski kaupmenn? Fá börn sem fermast borgaralega veislur og gjafir? Ef svo er, er þá rétt að segja að Siðmennt setji þá pressu á fólk?


Sverrir Guðmundsson (meðlimur í Vantrú) - 15/04/06 11:15 #

Ein tillaga sem hefur komið fram til þess að vinna gegn þessu sukki sem er í kringum fermingarnar felst í því að dreifa þeim yfir árið (t.d. þannig að krakkarnir myndu fermast á lögmætan hátt skömmu eftir að þeir verða 14 ára).

Með þessu ynnist það að miklu erfiðara yrði fyrir auglýsendur að halda úti fermingargjafahandbókum og tilboðum yfir allt árið. Samanburðurinn yrði líka minni á milli barnanna en þegar fermingavertíðinni er hespað af á nokkrum vikum.

Skipulagsbreytingin yrði ekki flóknari en svo að það yrðu kannski þrjú holl fermingarbarna yfir veturinn en ekki eitt eins og nú er. Fyrir nokkrum áratugum tók fermingarundirbúningurinn aðeins örfáar vikur svo að núverandi kerfi er tiltölulega nýtilkomið.

Án þess þó að hafa borið þetta undir kirkjunnar menn þykir mér líklegt að þeir séu ekki spenntir fyrir þessu. Það er nefnilega líklegt að hópþrýstingurinn minnki þegar fermingarbörnunum er ekki smalað öllum saman í einu til prestsins. Þarna fara hagsmunir þjóðkirkjunnar og kaupmanna saman; að ná að hámarka félagsþrýstinginn á börn á viðkvæmasta aldri.


Árni Árnason - 18/04/06 16:09 #

Mörgum ofbýður mammonslyktin af þessu fermingarstússi öllu saman, þar sem verðmæti fermingargjafa er á stundum farið að hlaupa á hundruðum þúsunda. Maður skyldi ætla að þetta væri ekki síst prestum þyrnir í augum. Eða hvað ? Hafið þið séð eða heyrt einhvern prest reyna að tala þetta óhóf niður af einhverri innlifun ? Það litla sem ég hef heyrt er afskaplega hjáróma og ég fæ vart skilið þetta tómlæti öðruvísi en svo að almennt láti þeir sér þetta vel líka, enda fátt meiri hvati til fermingar en áður óþekkt ríkidæmi.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.