Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Var Jesús bara góður maður?

Í sunnudagspredikun sinni greindi Örn Bárður Jónsson frá samtali sem hann átti við mann í Vesturbæjarlaug á dögunum. Sá sagði Erni að hann tryði á guð, en teldi Jesú bara hafa verið góðan mann. Örn segist „ekki grunlaus um að þessi sama trú kunni að búa með mörgum Íslendingum“ og ég er ekki grunlaus um að þar hafi hann á réttu að standa. Í svörum við nýlegri könnun á trúarlífi Íslendinga kemur reyndar ekki fram afstaða fólks til möguleikans á guðdómi Jesú (mér dettur í hug að þau svör hafi ekki verið birt vegna þess að þau hafi verið óþægileg fyrir kirkjuna, en það er svosem kannski bara hugdetta...) en miðað við hvað maður hefur heyrt í daglegu spjalli við fólk, þá er þetta líklega rétt.

Margt (flest?) fólk telur Jesú ýmist hafa verið „góðan [mennskan] mann“ eða „mikinn [mennskan] heimspeking“ -- ekki guð. Örn kveðst verða að virða slíka afstöðu þótt hann hafi aðra trú sjálfur -- og ég býst við að ég geti tekið í sama streng. Ég hallast helst að því að maðurinn Jesús hafi ekki verið til heldur -- en að hann hafi verið til er samt ekki fjarstæðukenndara en svo í sjálfu sér, að mér finnst ég varla geta amast við því. En bíðum við: Hvað skyldi kirkjunni finnast sem slíkri? Þegar stofnun á borð við Þjóðkirkjuna er annars vegar kann fólki að þykja ósanngjarnt að setja hana alla undir einn hatt, en ég held að það sé nú óhjákvæmilegt samt, a.m.k. að því leyti að hún er trúfélag -- félag um tiltekna trú. Ég held að það sé lágmark að miða við hina postullegu trúarjátningu ef segja skal hverju Þjóðkirkjan sem slík trúir. Þar segir, orðrétt: „Ég trúi á Jesú Krist, hans einkason, Drottinn vorn“ -- guðdómur Jesú er m.ö.o. grundvallarkennisetning Þjóðkirkjunnar. Ég leyfi mér að efast um að því verði andmælt.

Nú höfum við tvær forsendur: Annars vegar er óhætt að segja að frekar lítill hluti Íslendinga trúi því að Jesús hafi verið guð -- 44,5% skv. skoðanakönnuninni „Trúarlíf Íslendinga“ frá 1987,[1] og hefur annars vegar varla farið fjölgandi síðan, og hins vegar má sennilega draga frá þeim fjölda flesta þá sem tilheyra óháðum, kristnum söfnuðum. Hins vegar eru langflestir Íslendingar (tæp 85%) hluti af Þjóðkirkjunni, sem beinlínis hefur það á stefnuskránni að hann sé það. Gott og vel -- Þjóðkirkjan gengur kannski ekki hart eftir því að meðlimir hennar séu rétttrúaðir lúthersmenn -- en engu að síður er hér hróplegt misræmi á ferðinni! Hvers vegna er allt þetta fólk í félagi þar sem ein grundvallarkennisetningin stangast á við þess eigin skoðanir?

Við þeirri spurningu eru ýmis svör, sem flest leiða að sama brunni. „Þetta eru svo fallegar athafnir.“ „Ég fer í kirkju á jólunum.“ „Þetta er mikilvæg umgjörð um samfélagið.“ „Ég hef nú bara mína barnatrú.“ Með öðrum orðum: Fólk er bara vant þessu. Kirkjan gerir engar kröfur til fólks um að trúa eða taka afstöðu með trúnni -- sem samkvæmt skilgreiningu er afstaða gegn rökhyggju. Ef hún gerði það mætti nefnilega búast við því að raðir hennar mundu grisjast töluvert -- með tilheyrandi tekjumissi.

Það mætti kalla Íslendinga menningarlega kristna. Hér á landi eru næsta fáir sem eru kristnir í eiginlegri merkingu orðsins -- en fólk telur sig kristið vegna þess að það er hluti af sjálfsmynd þess. Að vera Íslendingur felur í sér að vera kristinn (nema maður sé sérvitringur, þá má maður vera í Ásatrúarfélaginu). Þessi kristna sjálfsmynd hefur m.ö.o. minna að gera með trú heldur en hefðir og hugmyndirnar sem fólk hefur um það hvernig Íslendingur „eigi“ að vera. (Svo getum við spurt okkur hvaða hópa þetta útilokar, og þá er ég ekki bara að tala um trúleysingja.)

Barnatrú, hvað er það? Hvað er það annað en værðarvoð sem er notuð til að hugga börn, vitsmunalegt snuð sem er stungið í spurula munna? Kirkjuferðir á þeirri heiðnu hátíð, jólunum, eru undir sömu sök seldar: Hefð, ekki trú. Fallegt, ekki trú. Hitt játa ég, að umgjörð mannfélagsins hefur kirkjan sölsað undir sig -- t.a.m. skírn (ígildi þess að bjóða nýja manneskju velkomna í heiminn), fermingu (ígildi manndómsvígslu), giftingu og greftrun látinna. Ekkert af þessu þarf að koma trú við á nokkurn hátt, en vegur því þyngra til að gera kirkjuna ómissandi sem samfélagsfesti. (Þar af leiðir að það kirkjan má vel missa sín í þessum efnum, svo fremi að eitthvað annað komi í staðinn.)

Hugleiðið nú þetta: „Þið eruð ekki kristin, þið eruð húmanistar“. Sá sem ekki trúir því að Jesús hafi verið guð (fyrir utan ýmislegt annað) er ekki kristinn -- hvað þá lútherskur. Í ljósi þessa hefur Vantrú stundað það þakkláta starf að leiðrétta trúfélagaskráningu fólks sem hefur ekki komið því í verk að skrá sig úr Þjóðkirkjunni -- en okkur Erni Bárði virðist bera saman um að í þeim flokki sé óhætt að ætla að flestir (í það minnsta mjög margir) Íslendingar séu. Viðtökurnar hafa líka verið góðar: 146 leiðréttir þegar þetta er skrifað.

Ég skora á lesendur sem eru skráðir í Þjóðkirkjuna að hugsa nú málið. Er það í einhverjum skilningi eðlilegt að vera skráður í félag um hugmynd sem maður er ekki sammála? Breytið svo í samræmi við niðurstöðuna. Ef maður er skráður utan trúfélaga renna sóknargjöld manns í Háskólasjóð (og Háskóli Íslands er fjárþurfi, eins og kunnugt er). Hagstofa Íslands er í Borgartúni 21a og þar er opið á skrifstofutíma. Eyðublöðin er hægt að prenta út af netinu og það er nóg að senda þau í pósti (athugið að póstnúmerið er 150 Reykjavík).


[1] Björn Björnsson og Pétur Pétursson: Trúarlíf Íslendinga. Félagsfræðileg könnun. Ritröð Guðfræðistofnunar nr. 3, Reykjavík 1990, bls. 18.

Vésteinn Valgarðsson 06.04.2006
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Guðmundur D. Haraldsson - 06/04/06 16:35 #

Áhugavert sem segir í byrjun þessarar könnunar sem þú vísar til:

"Unnið fyrir: Biskupsstofu, Guðfræðideild Háskóla Íslands og Kirkjugarða Reykjavíkur með styrk frá Kristnihátíðarsjóði"

Svo skýrist málið þegar maður skoðar lögin: http://www.althingi.is/altext/stjt/2001.012.html

Jamm, það er ekki allt sem sýnist.


Ágúst - 08/04/06 00:54 #

Ekki er ég til frásagnar um hvort Jesú var Guð eða maður eða þá hvorugt, þá bara saga skáldsins eða lýi lygarans. Það sem mér leikur forvitni á að vita, er hvort lífið er af eigin hvöt eða hvöt alheimsins (????), eða þá bara undarlegt afsprengi óreiðunnar. Alheimurinn og það sem hann rúmar er utan skilnings míns. Ég get aðeins skilið einhver einföld og afmörkuð kerfi hans, án þess þó að skilja forsendur þeirra. Styð þig samt í baráttunni.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.