Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Er stjörnuspekin sönn?

Þegar ég var krakki og las um stjörnumerkin í kvennatímariti komst ég að því að vogin ég væri alltaf að vega og meta hlutina, væri veik fyrir sælgæti og hefði ríkar listamannshneigðir. Ég gat og get enn tekið undir allt þetta.

Og nákvæmnispúkinn hún móðir mín var auðvitað meyja og vissi vel af þeirri lyndiseinkunn sem fólk í því stjörnumerki á að hafa. Bróðir minn er ljón, stoltur og sperrtur, litla systir krabbi og með öll einkenni þess merkis.

Tilviljun eða lifandi sönnun þess að astrólógían sé nákvæm vísindi?

Nú er það svo að lengst af þegar vogarmerkið mitt er við lýði í „fræðunum“ er sólin í raun í meyju. Þetta er afleiðing af því að síðan stjörnuspekin kom fyrst fram hefur stjörnumerkin „rekið“ á himninum og það munu þau halda áfram að gera. Ég er því meyja, nákvæma móðir mín ljón og bróðir minn krabbi.

Ég er ekki meyjarlegur og mamma hefur engin sérstök ljónseinkenni. Hvað veldur þá því að við erum öll svona lík því stjörnumerki sem var á bak við sólina allt að mánuði eftir að við fæddumst?

Ég er með tilgátu: Við höfum öll sem manneskjur ríka þörf til að þekkja sjálf okkur og samferðamenn okkar og í því skyni skiptum við fólki gjarna niður í týpur. Og sökum þess hversu kellíngablöð eru dugleg við að fæða okkur á persónueinkennum út frá gömlum bábiljum gerum við okkur hreinlega far um að gangast upp í þeim týpum sem troðið er upp á okkur. Við bókstaflega leitum eftir þessum þáttum í fari okkar og ýkjum þá upp.

Stjörnuspekin segir okkur þar af leiðandi ekkert um það hvers konar fólk við erum (æ, erum við ekki bara öll voða svipuð í raun?), heldur er okkur þarna tilkynnt hvernig við eigum að vera. Og það magnaða er að við látum þetta blaður móta hegðun okkar og viðmið.

Kannski var það aðkeypt sjálfsmynd úr Vikunni sem olli því að ég varð tónlistarmaður og súkkulaðiæta. Sem betur fer reyndist ég hafa hæfileika á báðum þessum sviðum. En hvað þá með alla þá sem ævina á enda reyna að gangast upp í persónusköpun sem hentar þeim engan veginn? Mikið er ég feginn að hafa ekki fæðst í janúar og þurft að gera mér upp persónueinkenni Steingeitarinnar. Ég væri sennilega vansæll maður í dag.

Birgir Baldursson 28.03.2006
Flokkað undir: ( Nýöld )

Viðbrögð


Gunnar - 28/03/06 21:16 #

Phil Plait skýrir þetta ágætlega: www.badastronomy.com


Sindri - 29/03/06 23:26 #

Ég er nokkuð sammála þér, en ég tel þetta samt bara af hinu góða. Vegna þess að þetta er persónumótandi, og heimurinn væri ekkert skemmtilegur án tilbreytingar. :)


Jens Guð - 02/04/06 01:29 #

Sennilega er í lagi að ég upplýsi núna gamlan brandara: Fyrir nokkrum áratugum skrifaði vinur minn, mikill grallari, stjörnumerkjabók. Hún seldist í 15.000 eintökum. Vinurinn var meðvitaður um að stjörnumerkjaruglið er bull. Hann ákvað því að gera stólpagrín að einfeldningunum sem taka þetta hátíðlega. Gætti sín á því að skoða ekki eldri stjörnumerkjabækur öðruvísi en bulla í þeirra anda út og suður, hræra öllu saman og henda fram hinu og þessu í gríni.

Ég sá bókina á heimilum vina og kunningja og tók þátt í gríninu. Sagði: Heyrðu, já, þú átt þessa bók. Hún er víst sú albesta um þessi merku fræði." Viðbrögðin voru alltaf jákvæðar undirtektir þar sem bókin var lofuð í bak og fyrir. Sem segir nokkuð um umgengni stjörnumerkjatrúgjarnra við "fræðin".


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 02/04/06 13:54 #

Nú hvað heitir bókin?


Lea - 03/04/06 21:43 #

Ég trúi á stjörnuspár, og skoða alltaf mína á hverjum einasta degi... þegar ég las um hrútinn (sem er stjörnumerkið mitt) þá stóð að ég væri barnaleg... ég hafði ekki tekið því eins vel ef einhver hafði sagt mér svona face to face, en þegar ég las það þarna þá var það allt í læ, því það eru freyri hrútar en ég ;D

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.