Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Andlegt vald

Eru völd kirkjunnar andleg eða veraldleg? Þegar allt er á botninn hvolft snúast völd hennar um veraldlegar þarfir og hegðun okkar í efnisheimi. Því meint andleg og veraldleg völd snúast um sama efnisheim, aðeins tvær hliðar á sama peningi. Stjórnarskráin okkar löðrar til dæmis í evangelískum trúaráróðri. Eru það andleg ítök ríkiskirkjunnar að hún sé sérstakur forréttindahópur? Svarið er nei. Oft er nefnt að kostur vestrænna samfélaga sé aðskilnaður á milli andlegs og veraldlegs valds. Ég verð að segja að slík umræða er í ójafnvægi. Vissulega hafa ákveðin völd verið tekin af kirkjunni í nokkrum áföngum og í dag er hún harla valdalítil. Þessi völd sem standa eftir eru engu að síður veraldleg völd. Hér á landi hefur ekki einu sinni verið skilið á milli ríkis og kirkju þannig að allt tal um andleg völd er ruglingsleg markleysa.

En hver voru og eru þessi meintu andlegu völd kirkjunnar? Í stuttu máli gengur leikur ríkiskirkjunnar út á að halda utan um landsmenn frá vöggu til grafar. Þannig slær trúarstofnunninn skjaldborg utan um samfélagið sem sameinast um ákveðna stoð og hetjudýrkun. Allir þessir þættir höfða til frumþarfa mannsins sem hópdýrs sem kirkjan reynir að hjúpa ljóma hámenningar. Tími helgislepjunnar er liðinn og hlutina á að kalla réttu nafni. Það er til dæmis óþolandi þegar trúmenn stíga stokk og halda því fram með jákvæðum formerkjum að kristin trú snúist um andleg málefni, að Kristur hafi sagt mönnum að gjalda guði og keisaranum það sem þeim ber. Þannig hafi kristin trú verið jákvætt afl til lýðræðis á meðan til dæmis íslam rugli saman reitum andlegs og veraldlegs valds. Staðreyndin samt sú að kristin trú hélt Evrópu í heljargreipum á sama hátt og öfgaklerkar íslams gera nú. Veraldleg Sharialög íslams hétu til dæmis hér á landi Stóridómur.

Hlutur siðbótar Lúters er vissulega athyglisverður í þessu máli. Eftir siðbótastríðin hræðilegu gerðu höfðingjar kaþólskra og mótmælenda griðasamninga sem mörkuðu þáttaskil í valdi páfans í Róm. Segja má að þar hafi kaþólska kirkjan opinberlega sætt sig við minni völd í Evrópu. Gróflega má segja að með þessum valdaskiptum í Evrópu hafi höfðingjar álfunnar tekið til sín meiri völd. Kaþólska kirkjan hélt sínum eignum en sú evangelískra tapaði mörgum af sínum landareignum til konungsdæma mótmælenda. Þegar kirkjan og einræðisherrarnir deildu um völd var í raun deilt um sömu köku. Sneiðin sem kirkjan fékk á endanum var kölluð andleg á meðan valdsherrarnir fengu stærstu sneiðina sem þeir kölluðu veraldleg völd. Þrátt fyrir þessa meintu skiptingu ríkti mikið valdatafl á milli fylkinganna sem reyndu hvað þær gátu að hafa áhrif á hvor aðra.

Kirkjan sinnti mjög mikilvægum þætti í valdakerfi einræðisherranna. Hún var áróðursráðuneyti sem hélt samfélögunum saman. Fékk lýðinn til sætta sig vald einræðisherranna gegn betra lífi í himnavist. Þegar blása þurfti í herlúðra gat óvinsæll konungur gert það í nafni guðs í stað þess að notast við sitt eigið. Segja má að biskupar og kóngar hafi þannig sleikt tær hvers annars í ákveðnu ógnarjafnvægi sem tryggði völd og auðlegð beggja aðila. Sterkasti hlekkurinn í þessari valdakeðju var engu síður sá veikasti. Það var nákvæmlega það sem gerðist í Evrópu með klofningi kirkjunnar. Hún stóð veikari á eftir og stóðst ekki áhlaup upplýsingarinnar. Eftir sátu einræðisherrar með stórskaðaða heimsmynd sem þeir gátu ekki varið. Völd þeirra hrundu í sama takti og kirkjunni hnignaði.

Andleg völd kirkjunnar snúast þannig um veraldleg gæði og áhrif. Völdin voru í Skáholti og í Kaupmannahöfn en ekki hjá almúganum hér á landi. Auðvitað vildi kirkjan og konungur reyna að greina valdsvið sitt með orðskrúð. Það eru bara til völd í einum efnisheimi og þeim völdum er hægt að skipta á réttlátan hátt. Hver og einn á að hafa áhrif og vald yfir sínu lífi. Tímar orðskrípa eins og trúmenn nota á hátíðarstundum um andleg völd eru liðnir. Það er algjörlega fáránlegt að einstaklingur sé teymdur í skírn (sjálfvirk trúskráning), fermingu (félagsþrýstingur) og jarðaför í nafni ríkiskirkjunnar gegn sínum vilja. Sá tími ætti að vera liðinn að ein stofnun hafi ægivald í félagslegri hegðun einstaklinga.

Frelsarinn 27.03.2006
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.