Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Andlegar reykingar

sigakross.GIFÞað er afar heimskulegt að reykja. Margir reykingarmenn eru meira að segja sammála því og vilja hætta, en fíknin er erfið viðureignar. Tóbaksframleiðendur vita þetta og þess vegna reyna þeir að koma reykingum inn á börn, því annars verða reykingar ekki “lifandi” valkostur” í þeirra augum.

Raunin er sú að þetta á við meira en einungis reykingar. Kristni er afar heimskuleg. Margir trúmenn eru meira að segja sammála því, kalla það bara að vera “handan skynseminnar”. Prestarnir vita þetta og þess vegna reyna þeir að troða kristninni á börn, því annars verður kristnin ekki “lifandi” valkostur í þeirra augum.

Heimspekingurinn Salvör Nordal virðist átta sig á þessu í grein sem birtist í Hugsað með Páli, en í henni reynir Salvör að nota þetta sem rök fyrir því að stunda “trúarlegt uppeldi”, öðru nafni barnatrúboð, í opinberum skólum.

Í greininni notar hún hugtökin “dauð kenning” og “lifandi kenning” úr frægu erindi William James, Trúarvilji. Þær kenningar sem eru raunverulegir möguleikar í auga einhvers eru “lifandi” í hans augum og þær sem eru ekki raunverulegur möguleiki eru “dauðar”. Ég mun ekki nota þessi hugtök hans, heldur mun ég notast við meira lýsandi hugtaki “ekki-kjaftæði”. Inntakið er það sama. Í huga okkar Íslendinga er tilvist Seifs og Heru líklega “dauðar” hugmyndir, kjaftæði. En í augum forn-Grikkja sem urðu fyrir barnatrúboði þeirra sem trúðu á grísku goðin voru þessar hugmyndir “lifandi”, ekki kjaftæði.

Á sama hátt verður kristin trú kjaftæði í augum þeirra sem sleppa við kristið barnatrúboð. Það þarf barnatrúboð til þess að gera kristni að ekki-kjaftæði. Kristindómurinn er þarna í félagsskap með reykingum og grísku goðafræðinni.

En Salvör telur að með því að sleppa barnatrúboðinu sé verið að taka möguleikann á því að gerast trúmaður frá fólki, það sé verið að velja fyrir það. Þess vegna ætti að hennar mati að stunda kristið barnatrúboð í opinberum skólum.

En er virkilega verið að velja fyrir fólk með því að stunda ekki trúboð í opinberum skólum? Er verið að velja fyrir fólk með því að hafa ekki áróður frá tóbaksframleiðendum?

Ég held ekki. Ef fólk sleppur við barnatrúboð mun það beita skynseminni til að dæma um ágæti hugmynda. Það að kristin trú, reykingar og grísku goðin eigi örugglega eftir að falla á því prófi þýðir ekki það hafi verið valið fyrir fólkið. Það þýðir einungis að þessar hugmyndir dæma sig sjálfar úr leik með því að vera óskynsamar, kjaftæði.


Salvör Nordal (2005), „Um trúaruppeldi og kennslu í kristnum fræðum“, í Róbert H. Haraldsson, Salvör Nordal og Vilhjálmur Árnason (ritstj.), Hugsað með Páli: ritgerðir til heiðurs Páli Skúlasyni sextugum, Reykjavík:Háskólaútgáfan.

William James, Trúarvilji

Hjalti Rúnar Ómarsson 15.03.2006
Flokkað undir: ( Skólinn , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Svanur Sigurbjörnsson - 15/03/06 23:40 #

Ágætis sjónarhorn Hjalti Rúnar. Það er erfitt að innræta kjaftæði í sjálfstæða hugsun og því best að byrja á því í æsku þegar varnirnar eru nær engar. Hugtakið "lifandi trú" er "lifandi" bull og er bara tilraun kirkjunnar til að setja kredduna í nýjar umbúðir. Kannski spratt þetta af þeirri hugmynd að það þyrfti mótsögn við það sem eðlilega mætti halda að trúin væri dauð. Það er t.d. ekki nauðsynlegt að tala um "lifandi þyngdarlögmál" eða "lifandi þróunarkenningu" því að engum heilvita manni hefur dottið í hug að þessi fræði væru dauð. Hins vegar verða þær raddir sífelt fleiri og háværari að trúarbrögðin séu úrelt og því "dauðar" hugmyndir. Hatturinn ofan.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.