Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sálfræðistjörnuspeki er fúlasta kjaftæði

Á bls. 24 í DV helgarinnar getur að líta viðtal við konu nokkra sem kallar sig sálfræðistjörnuspeking. Það virðist enginn endir ætla að verða á því hvað hindurvitnabullurum dettur í hug að selja fólki.

Greinin byrjar ekki gæfulega:

Fólk hefur öldum saman leitað til stjarnanna til að finna svör og lausnir við spurningum og vandamálum sem á það leitar. Í gegnum tíðina hafa stjörnuspekingar reynt að ráðleggja þeim sem til þeirra leita.

O jæja, blaðamanni er kannski ekki alls varnað, tiltekur að þetta fólk hafi reynt.

Reynt en ekki tekist. Reynslan sýnir að það er álíka mikið að marka spádóma og ráðleggingar stjörnuspekinga og þeirra sem lesa í innyfli dýra. Þetta er sama gagnslausa forneskjan. Og þá spyr maður sig af hverju fólk reynir þetta öldum saman, en lætur sér ekki segjast og afgreiðir þetta fyrir það sem það er - bull.

Eða hvað segja ekki rannsóknir okkur?

Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar sem sýna fram á að fólk beitir valkvæmri hugsun til að fá hvert það stjörnukort sem þeim er gefið til að passa við þær fyrirfram gefnu hugmyndir sem það hefur um sjálft sig og stjörnukortið. Mikið af þeim fullyrðingum sem settar eru fram um stjörnumerki og persónuleika eru óljósar og gætu passað fyrir margt fólk í mörgum stjörnumerkjum. Jafnvel atvinnustjörnuspekingar, sem margir hverjir fyrirlíta sólmerkjastjörnuspeki, geta ekki valið úr rétta stjörnuspá með betri árangri heldur en líkindi segja til fyrir um.

Stjörnuspeki er dægradvöl margra, líkt og spár í spil og bolla. Slíkt er yfirleitt í gamni gert og fólk ekki svo vitlaust að trúa því eins og nýju neti sem upp kemur. Það er ekki fyrr en sjálfskipaðir „fræðingar“ í þessum efnum byrja að halda því að okkur að þetta séu alvarleg vísindi sem hætta er á ferðum. Gefum DV orðið:

Bjandís telur þá kosti sem sálfræðistjörnuspekingar hafa, umfram hefðbundna sálfræðinga, að með því að geta kannað stjörnukort fólks sé mun auðveldara að komast að meininu og vonast hún innilega til þess að fólk fari að nýta sér þessi fræði í ríkara mæli.

Þessi kella er semsagt byrjuð að troða sér í störf sálfræðinga án þess að hafa til þess tilskylda menntun. Þess í stað gekk hún í einhvern kuklskóla sem kallast The Center For Psychological Astrology, en hann reitir af fólki háar peningaupphæðir fyrir kennslu í tómu rugli. Stofnandi skólans, Liz Greene, vílar ekki fyrir sér að ljúga blákalt, þvert ofan í allar rannsóknarniðurstöður og trúgjarnar sálir láta til leiðast að kaupa af henni hindurvitnin.

Ef ég væri sálfræðingur yrði ég bæði áhyggjufullur og reiður yfir þessari innrás kuklara inn á fagsvið mitt. Ég myndi tafarlaust leita einhverra leiða til að koma lögum yfir þessa starfsemi, því líf og heilsa fólks er í húfi.

Birgir Baldursson 14.03.2006
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 14/03/06 09:51 #

Það virðist enginn endir ætla að verða á því hvað hindurvitnabullurum dettur í hug að selja fólki.

Það er fróðleg spurning hvort það séu einhver mörk. Er hægt að koma með hvaða fullyrðingu sem er í fjölmiðla? Við höfðum séð viðtal við fólk sem þykist lækna krabbamein í gegnum látið fólk, við erum með svona sálfræðistjörnuspekikjaftæði aðrir þykjast geta greint sjúkdóma með því að glápa í augun á fólki og enn aðrir selja fólki vatn fyrir stórfé til að lækna ýmsa kvilla.

Eru einhver mörk á trúgirni íslenskra fjölmiðlamanna eða er stéttin stútfull af trúgjörnum fávitum?

Ég held og vona að svo sé ekki en íslenskir fjölmiðlar þurfa að fara að gera eitthvað til að sannfæra mig um að svo sé ekki. Það þýðir ekki að vera með gagnrýnislaus viðtöl við rugludalla trekk í trekk.

Maður spyr sig, hvor er hættulegri, rugludallurinn sem selur svona "þjónustu" eða blaðamaðurinn sem birtir svo að segja gagnrýnislaust viðtal við hann.

Og nei, íslenskir fjölmiðlamenn eru ekki stikkfrí þó þeir birti af og til viðtal við eða grein eftir einhvern sem andmælir bullinu. Það er ekki fréttamennska að birta viðtal við einhvern sem fullyrðir að Alþingishúsið sé bleikt og svo viðtal daginn eftir við annan sem fullyrðir að Alþingishúsið sé gult. Það er fréttamennska að fara á staðinn og athuga hvernig húsið er á litinn.


jogus (meðlimur í Vantrú) - 14/03/06 10:44 #

Ah, en þegar viðmælandinn fullyrðir að tunglið sé úr osti? Þá geta vesalings blaðamennirnir ekki farið og athugað sjálfir og hugsa því með sér, tja, allar skoðanir eru jafn góðar, og ég hef aldrei komið þangað, og ekki heldur þeir sem lesa þetta, og svo set ég bara pínkulítinn fyrirvara um að þetta sé skoðun viðkomandi, og svo er bara gaman að þessu og bla bla bla.

Og þannig er auðvelt að finna afsakanir, því það er jú miklu auðveldara að skrifa gagnrýnislausa grein eða viðtal heldur en að þurfa að kynna sér efnið. Flestir trúa þessu ábyggilega hvort eð er :(


Sverrir Guðmundsson (meðlimur í Vantrú) - 14/03/06 10:57 #

Held að Jogus hafi náð að taka þetta nokkuð vel saman.

Svo má ekki gleyma því að það þarf að fylla 4 dagblöð og einhverjar 4-5 sjónvarpsstöðvar af efni á hverjum einasta degi. Þá er nú gott að eiga suma að sem eru alltaf tilbúnir til þess að mæta (og auk þess lítil hætta á að þeim sé andmælt).


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 14/03/06 12:54 #

Ef ég væri sálfræðingur yrði ég bæði áhyggjufullur og reiður yfir þessari innrás kuklara inn á fagsvið mitt. Ég myndi tafarlaust leita einhverra leiða til að koma lögum yfir þessa starfsemi, því líf og heilsa fólks er í húfi.

Einmitt. Stjörnuspeki er saklaust grín meðan hún er notuð til að sjá hvernig fólk á saman í ástarlífinu eða eitthvað í þá áttina. Kjánalegt grín en saklaust engu að síður. Þegar farið er að kynna hana sem vísindi og flækja henni saman við sálfræði (vesalings sálfræðin) og jafnvel farið að bjóða upp á meðferð í einhverju sem kallað er sálfræðistjörnuspeki er hætta á ferðum.

Þú leysir ekki úr sálarflækjum fólks með því að athuga stöðu Satúrnusar við fæðingu þess. Með því að blanda gervivísindum saman við félagsvísindi er hætta á því að sá sem er í meðferð fái ranga meðhöndlun. Hvað er gert við t.d. menn sem eiga við ofbeldishneigð að stríða? Er þeim sagt að Mars og Júpíter séu áberandi í stjörnukorti þeirra og því séu þeir eins og þeir eru? Spyr sá sem ekki veit.

Það versta er að þessi kona gæti fengið stöðu "græðara" og fengið að stunda sitt kukl með opinberu samþykki. Ég vona að svo verði ekki.


baldursi - 14/03/06 21:13 #

Það er eitt í þessu sem gleymist gjarnan í umræðu um þetta, þar sem allir virðast svo uppteknir af sanngildi kenninga sem þessarar. Það sem gleymist er ábyrgð þeirra sem bjóða upp á (illa?) meðferð.

Lyfjaframleiðendur þurfa að gera rannsóknir á lyfjum sínum til að ganga úr skugga um að þau skili árangri og að aukaverkanir séu ekki of miklar, miðað við ávinninginn af að taka þau. Þessi krafa er ekki að ástæðulausu því meðferð getur, og hefur, valdið skaða, þrátt fyrir að kenningar sem ekki hafa verið prófaðar segi annað.

(Stjörnuspekin er reyndar af því tagi að ekki er hægt að prófa neinar tilgátur undir henni sökum tvíræðni í orðalagi; nánast sama hver niðurstaðan er, það er hægt að fella hana undir það sem stjörnuspekin kennir.)

Væri ekki eðlilegt að gera sömu kröfu til meðferðar af öðru tagi. Sú krafa er ekki gerð til sálfræðinga, þótt þeir geri það nú samt. Geðlæknar geta veitt viðtalsmeðferð (og gera það), þótt þeir hafi enga kunnáttu í viðtalsmeðferð sem búið er að sýna að skili árangri. Ég held að rétt væri að gera þá kröfu til allra sem veita heilbrigðisþjónust að þeir sýni fram á árangur umfram lyfleysur. Það ætti að losa okkur við kuklarana.

Liz green heldur því blákalt fram að sálfræðistjörnuspekin "virki", hvað svo sem hún á við með því. Ef hún er svona viss í sinni sök ætti hún nú ekki að óttast það að þurfa að sýna fram á það með kerfisbundnum aðferðum.


Heiða María - 14/03/06 21:22 #

Ég vona innilega að sálfræðingafélag Íslands beiti sér í þessu máli (og ég er að hugsa mér að þrýsta á það) því samkvæmt lögum má enginn kalla sig sálfræðing nema hafa til þess sérstök réttindi, og það hefur þessi kona svo sannarlega ekki.

Þetta er stóralvarlegt mál, og bætir sannarlega ekki orðspor sálfræði sem vísindagreinar.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 14/03/06 23:05 #

Endilega Heiða María, ekki hika við að benda Sálfræðingafélaginu á þetta. Það verður að gæta hagsmuna félagsmanna sinna.


Turkish - 15/03/06 20:33 #

Það er hætt við því að það mesta sem gert yrði í þessu væri að bann við sálfræði viðskeytinu. Þá gætu þessir fúskarar einfaldlega kallað sig eitthvað annað og haldið áfram iðju sinni. Það þarf að gera eitthvað róttækara í þessu svo að fólk láti ekki blekkjast og leiti sér í staðinn að almennilegri hjálp hjá fagfólki


Matti (meðlimur í Vantrú) - 15/03/06 20:44 #

Um daginn fékk verslunin Nóatún sekt fyrir að segjast vera "bestir í fiski". Slík fullyrðing sem ekki var hægt að standa við stangast á við lög eða reglur.

Má þá ekki leiða líkur að því að fullyrðingin um að hægt sé að hjálpa fólki með aðferðum sálfræðistjörnuspekinnar sé ennþá vafasamari?


Turkish - 16/03/06 00:00 #

Kannski að einhver lögfróður geti svarð mér.

Er það ekki svo að það er hægt að kæra þessa kuklara fyrir svik og að nýta sér bága aðstöðu fólks?

Veit einhver hversu langt þarf að ganga til þess að það verði talið lögbrot?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 16/03/06 12:04 #

Þessi kella var í Ísland í bítið í morgun og kallaði sig stjörnuspekisálfræðing (en ekki sálfræðistjörnuspeking). Og þegar hún lýsir aðferðum sínum sér hver sá sem einhverja innsýn hefur í þessi mál að hún beitir skjalli og háttlestri til að ánetja viðmælanda bullinu í sér.


Kalli - 17/03/06 16:25 #

Ég neyddi mig til að horfa á þetta helv. bull, var að vona að þau ætluðu eitthvað að sauma að manneskjunni og fá hana til að rökstyðja hvernig þetta virkar. En eins og venjulega þegar verið er að draga svona nýaldar-stjörnuspeki-heilunar fólk í þessa tjatt-þætti örlaði ekki á gagnrýni og ekki ein spurning um hvaða rannsóknir liggi að baki þessari "fræðigrein". Bara flissað og "já já, en áhugavert... " - sennilega hafa einhverjar markaðsrannsóknir sýnt að þeir sem horfa á svona þætti séu jafnframt veikir fyrir svona bulli og því verður að kóa með.


jón - 19/04/06 10:52 #

http://www.kaerleikssetrid.is/vid.htm

Hún er enn titluð sálfræðistjörnuspekingur á heimasíðu fyrirtækisins sem hún starfar í

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.