Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Nýja þjóðkirkjuþýðingin

Í fyrra var mikið deilt um nútímavæðingu Þjóðkirkjunnar á einu versi í biblíunni sem talaði illa um “kynvillinga”. Sumum þótti nýja þýðingin vera röng og fannst það grunsamlegt að breytingin á orðinu virtist haldast ansi vel í hendur við breytingar á viðhorfi fólks. Auðvitað er það út í hött, fólk verður að læra að átta sig á því að það er nauðsynlegt að þýða biblíuna í ljósi Krists og gera sér grein fyrir því í hvaða félagslega samhengi textarnir voru skrifaðir.

Við í Vantrú höfum ákveðið að hjálpa til við þýðinguna. Síðustu mánuðina hefur sérstök þýðinganefnd Vantrúar farið yfir texta nýja testamentisins á upphaflegu forn-grískunni. Við fundum nokkur vers sem virtust við fyrstu sýn vera þvert á boðskap Þjóðkirkjunnar og einmitt út af því eru þau nánast aldrei notuð við predikanir. En þegar við rannsökuðum versin með öllum þeim fræðigræjum sem guðfræðin hefur fært manni í hendurnar tókst okkur að laga versin þannig að nú samræmast þau kenningum Þjóðkirkjunnar. Loksins geta prestar Þjóðkirkjunnar notað þessi vers í predikunum!

Hér verður fyrst birt gamla þýðingin og á eftir henni nýja, betrumbætta útgáfan með breytingar skáletraðar.

Um guðspjöllin:

Við lestur á guðspjöllunum rakst þýðingarnefndin á mörg vers sem gáfu ranga mynd af Jesú. Hann boðaði að heimsendir væri á nánd og var sí og æ látinn hóta fólki helvítisdómi. Auk þess var boðskapur hans í mótsögn við fjölskyldustefnu Þjóðkirkjunnar. Loks læknaði hann fólk með munnvatninu sínu. Þessi vers gætu gefið lesendum þá mynd af Jesú að hann væri klikkaður heimsendaspámaður. Úr því var bætt í nýju þýðingunni:

Mattheusarguðspjall

10:28
Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða, en fá ekki deytt sálina. Hræðist heldur þann, sem megnar að tortíma bæði sálu og líkama í helvíti.

Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða, en fá ekki deytt sálina. Berið virðingu fyrir þeim, sem megnar að tortíma bæði sálu og líkama í því ástandi að vera án Guðs.

13:40-42
Eins og illgresinu er safnað og brennt í eldi, þannig verður við endi veraldar. Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja, og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.

Eins og illgresinu er safnað og brennt í eldi, þannig verður við dauðann. Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja, og kasta þeim í tákn fyrir að vera án Guðs, hvort sem það er í þessu lífi eða því næsta. Þar verður táknræn kvöl.

23:33
Höggormar og nöðru kyn, hvernig fáið þér umflúið helvítisdóm?

Ágætu viðmælendur, hvernig fáið þér umflúið sjálfskipaðan aðskilnað frá guði?

25:41
Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: ,Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans.

Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: ,Farið frá mér, elskurnar mínar, í þá eilífu myndrænu líkingu á aðskilnaði frá Guði, sem búin er táknrænni myndlíkingu hins illa og árum hennar.

24:37-39
Eins og var á dögum Nóa, svo mun verða við komu Mannssonarins. Dagana fyrir flóðið átu menn og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags, er Nói gekk í örkina. Og þeir vissu ekki, fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt. Eins verður við komu Mannssonarins.

Eins og var í ævintýrinu um Nóa, svo mun verða við komu Mannssonarins. Dagana fyrir flóðið átu menn og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags, er Nói gekk í örkina. Og þeir vissu ekki, fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt. Eins verður við komu Mannssonarins.

Markúsarguðspjall

7:32-35
Þá færa þeir til hans mann, daufan og málhaltan, og biðja hann að leggja hönd sína yfir hann. Jesús leiddi hann afsíðis frá fólkinu, stakk fingrum sínum í eyru honum og vætti tungu hans með munnvatni sínu. Þá leit hann upp til himins, andvarpaði og sagði við hann: Effaþa, það er: Opnist þú. Og eyru hans opnuðust, og haft tungu hans losnaði, og hann talaði skýrt.

Þá færa þeir til hans mann, daufan og málhaltan, og biðja hann að leggja hönd sína yfir hann. Jesús leiddi hann afsíðis frá fólkinu og læknaði hann. Og eyru hans opnuðust, og haft tungu hans losnaði, og hann talaði skýrt.

13:24-26, 30
En á þeim dögum, eftir þrenging þessa, mun sólin sortna og tunglið hætta að skína. Stjörnurnar munu hrapa af himni og kraftar himnanna bifast. Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýjum með miklum mætti og dýrð. ... Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram.

En á þeim dögum, eftir þrenging þessa, mun sólin sortna og tunglið hætta að skína. Stjörnurnar munu hrapa af himni og kraftar himnanna bifast. Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýjum með miklum mætti og dýrð, en auðvitað er ég bara að tala í myndlíkingum..... Sannlega segi ég yður: Einhvern tímann í framtíðinni mun þetta koma fram.

Lúkasarguðspjall

8:9-10
En lærisveinar hans spurðu hann, hvað þessi dæmisaga þýddi. Hann sagði: Yður er gefið að þekkja leynda dóma Guðs ríkis, hinir fá þá í dæmisögum, að sjáandi sjái þeir ekki og heyrandi skilji þeir ekki.

En lærisveinar hans spurðu hann, hvað þessi dæmisaga þýddi. Hann sagði: Yður er gefið að þekkja leynda dóma Guðs ríkis, hinir fá þá í dæmisögum, svo þeir skilji betur kærleiksboðskapinn.

14:26
Ef einhver kemur til mín og hatar ekki föður sinn og móður, konu og börn, bræður og systur og enda sitt eigið líf, sá getur ekki verið lærisveinn minn.

Ef einhver kemur til mín og elskar ekki föður sinn og móður, konu og börn, bræður og systur og enda sitt eigið líf, sá getur ekki verið lærisveinn minn.

Um bréf Páls postula

Í bréfum Páls sá þýðinganefndin að Páll boðaði þrælahald, kvennakúgun og fordæmingu á samkynhneigð. Einungis tókst að klára verk þýðingarnefndar Þjóðkirkjunnar og útrýma fordæmingum á samkynhneigð, en einnig voru örfá vers með ranga mynd af Guði færð til betri vegar.

Rómverjabréfið

1:26-27
Þess vegna hefur Guð ofurselt þá svívirðilegum girndum. Bæði hafa konur breytt eðlilegum mökum í óeðlileg, og eins hafa líka karlar hætt eðlilegum mökum við konur og brunnið í losta hver til annars, karlmenn frömdu skömm með karlmönnum og tóku út á sjálfum sér makleg málagjöld villu sinnar.

Þess vegna elskar Guð alla.

12:19
Hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir, heldur lofið hinni refsandi reiði Guðs að komast að, því að ritað er: Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir Drottinn.

Hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir, heldur lofið hinni _óskilyrtu ást Guðs að komast að, því að ritað er: Mín er ástin, ég mun gefa þeim gjafir, segir Drottinn

Síðara Þessaloníkubréfið

2:7-9
En yður, sem þrengingu líðið, veitir hann hvíld ásamt oss, þegar Drottinn Jesús opinberast af himni með englum máttar síns. Hann kemur í logandi eldi og lætur hegningu koma yfir þá, sem þekkja ekki Guð, og yfir þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú. Þeir munu sæta hegningu, eilífri glötun, fjarri augliti Drottins og fjarri dýrð hans og mætti,...

Guð elskar ykkur, og það er betra fyrir eilífa velferð ykkar að taka á móti Jesú.

2:11
Þess vegna sendir Guð þeim megna villu, til þess að þeir trúi lyginni.

Þess vegna sendir Guð þeim auðskiljanlegan boðskap sinn, til þess að þeir þekki sannleikann.


Ef lesendur rekast á einhver vers sem þeir geta þýtt betur þá er þeim velkomið að benda þýðingarnenfnd Vantrúar á það í athugasemd við þessa grein.

Hjalti Rúnar Ómarsson 13.03.2006
Flokkað undir: ( Grín )

Viðbrögð


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 13/03/06 14:57 #

LOL, þetta er gott. Það er mjög mikið sem þarf að þýða í ljósi Krists og hér er smá viðbót frá mér:

JA5.14 Sé einhver sjúkur yðar á meðal, þá kalli hann til sín öldunga safnaðarins og þeir skulu smyrja hann með olíu í nafni Drottins og biðjast fyrir yfir honum. JA5.15 Trúarbænin mun gjöra hinn sjúka heilan

Sé einhver sjúkur yðar á meðal þá kalli hann til sín lækni.

MT10.34 Ætlið ekki, að ég sé kominn að færa frið á jörð. Ég kom ekki að færa frið, heldur sverð.

Ætlið ekki að ég sé kominn að færa sverð á jörð. Ég kom ekki að færa sverð, heldur frið.

MT10.21 Bróðir mun selja bróður í dauða og faðir barn sitt. Börn munu rísa gegn foreldrum og valda þeim dauða.

Bróðir mun bjarga bróður frá dauða og faðir barni sínu. Börn virða foreldra sína og vernda þau.

MT23.9 Þér skuluð ekki kalla neinn föður yðar á jörðu, því einn er faðir yðar, sá sem er á himnum.

Þér skuluð kalla föður yðar á jörðu föður og einnig föður yðar á himnum.

MT5.29 Ef hægra auga þitt tælir þig til falls, þá ríf það úr og kasta frá þér. Betra er þér, að einn lima þinna glatist, en öllum líkama þínum verði kastað í helvíti.

Ef hægra auga þitt tælir þig til falls þá skaltu í ljóðrænni myndlíkingu rífa það úr og kasta frá þér. Betra er þér, að einn lima þinna glatist, en öllum líkama þínum verði kastað í það ástand að vera án Guðs.

MT5.42 Gef þeim, sem biður þig, og snú ekki baki við þeim, sem vill fá lán hjá þér.

Gef þeim, sem biður þig ef það er rökrétt og sanngjarnt, og snú ekki baki við þeim, sem vill fá lán hjá þér ef hann getur gefið þér góða tryggingu.

MT7.7 Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. MT7.8 Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða.

Biðjið, og yður mun gefast ef Guð vill, leitið, og þér munuð finna ef Guð vill, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða ef Guð vill. Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnu, sem leitar, og fyrir þeim sem á knýr, mun upp lokið verða ef það er vilji Guðs.

MT10.35 Ég er kominn að gjöra ,son andvígan föður sínum, dóttur móður sinni og tengdadóttur tengdamóður sinni.

Ég er kominn að gjöra, son sem virðir og elskar föður sinn, dóttur sem virðir og elskar móður sína og tengdadóttur sem virðir tengdamóður sína.

MK10.11 En hann sagði við þá: "Sá sem skilur við konu sína og kvænist annarri, drýgir hór gegn henni. MK10.12 Og ef kona skilur við mann sinn og giftist öðrum, drýgir hún hór".

En hann sagði við þá: "Sá sem skilur við konu sína og kvænist annarri, skal fráskilinn en aftur giftur kallaður. Og ef kona skilur við mann sinn og giftist öðrum, skal hún fráskilin en aftur gift kölluð".

LK12.33 Seljið eigur yðar og gefið ölmusu, fáið yður pyngjur, er fyrnast ekki, fjársjóð á himnum, er þrýtur ekki, þar sem þjófur fær eigi í nánd komist né mölur spillt. LK14.33 Þannig getur enginn yðar verið lærisveinn minn, nema hann segi skilið við allt sem hann á.

Seljið eigur yðar og hriðið gróðann og gefið ölmusu á jólunum ef þið eruð í stuði, fáið yður pyngjur úr góðu leðri. Þannig getur hver sem er verið lærisveinn minn jafnvel þótt hann eigi fullt af pening.

RÓ13.1 Sérhver maður hlýði þeim yfirvöldum, sem hann er undirgefinn. Því ekki er neitt yfirvald til nema frá Guði, og þau sem til eru, þau eru skipuð af Guði.

Sérhver maður hlýði þeim yfirvöldum, sem hann er undirgefinn ef þau boð samræmast siðferðiskennd hans, samvisku og landslögum. Því er ekkert yfirvald til nema frá Guði nema það brjóti gegn góðum siðum, samvisku þinni og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum.

1KÓ14.34 skulu konur þegja á safnaðarsamkomunum, því að ekki er þeim leyft að tala, heldur skulu þær vera undirgefnar, eins og líka lögmálið segir.

Skulu konur tala á safnaðarsamkomum, því að þeim er leyft að tala án þess að vera undirgefnar eins og lögmálið ætti í raun að segja.

2Þ3.10 Því var og það, að þegar vér vorum hjá yður, buðum vér yður: Ef einhver vill ekki vinna, þá á hann heldur ekki mat að fá.

Því var og það, að þegar vér vorum hjá yður, buðum vér yður: Ef einhver vill ekki vinna, þá á hann að fá mat en líka hvatningu til að koma sér á vinnumarkað.

1TÍ2.9 Sömuleiðis vil ég, að konur skrýði sig sæmandi búningi, með blygð og hóglæti, ekki með fléttum og gulli eða perlum og skartklæðum

Sömuleiðis vil ég, að konur skrýði sig sæmandi búningi, með góðum smekk og að eigin vilja, með öllum þeim fléttum, gulli og skartgripum sem þeim sýnist.

1TÍ2.11 Konan á að læra í kyrrþey, í allri undirgefni. 1TI2.12 Ekki leyfi ég konu að kenna eða taka sér vald yfir manninum, heldur á hún að vera kyrrlát.

Konan þarf ekkert að læra í kyrrþey frekar en henni sýnist né í allri undirgefni enda eru kynin jöfn. Ég leyfi konu að kenna og taka hafa vald yfir manni og þarf hún ekkert að vera kyrrlát.


mofi - 13/03/06 17:06 #

Vá... þetta er all svakalegt, það er ekkert eftir af Biblíunni eftir þessar hrakfarir. Vonandi endar þessi þýðing á öskuhaugunum þar sem hún á heima.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/03/06 17:22 #

Þú ert eitthvað að misskilja, mofi. Þetta er grín úr okkar eigin ranni. Hárbeitt grín.


mofi - 13/03/06 17:34 #

Takk fyrir leiðréttinguna, las ekki nógu vandalega... Þið meigið aftur á móti eiga það að þetta eru mjög góðir punktar hjá ykkur.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/03/06 17:59 #

Já, enda lætur grænsápan ekki að sér hæða. :)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.