Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Heilsuvörur - heimskuvörur

Heilsubissnissinn blómstrar nú sem aldrei fyrr. Aldrei fyrr hefur jafnmikið af hjálækningavarningi verið otað að okkur og ekkert lát virðist ætla að verða á nýjum tegundum. Svo rammt kveður að þessu að veltan hljóðar upp á milljarða á ári hverju, góss sem hefur ekkert garantí er að yfirtaka allt.

Maður er ekki einu sinni öruggur í apótekunum lengur. Lyfjafræðingarnir sem þar ráða ríkjum sjá svo mikla gróðavon í náttúrulegu þessu og heilandi hinu að þetta dót er farið að blasa við okkur úr hillum þeirra. Og verslanir á borð við Heilsuhúsið og Góð heilsa - gulli betri ota að kúnnum sínum fögrum pakkningum utan um töfralausnir sem engar rannsóknir sýna að gerir nokkurt gagn.

Þetta væri allt í lagi ef fólki væri gert grein fyrir vafasamri virkni þessarar skottulækningaaðferða og því ráðlagt að hafa þetta bara svona meðfram því sem byggt er á traustum grunni vísindalegra staðreynda. En svo er ekki og þar með má búast við því að fjöldi fólks kaupi þetta dótarí í staðinn fyrir lyf sem hafa raunverulega virkni.

Ég er ekki bara að tala um pillur, gel og vökva til inntöku, heldur líka tæki og tól sem eiga að lækna allan andskotann. Það sem flest af þessu á sameiginlegt er hversu víðfem meint virkni þessara svindllausna er sögð vera. Lyf sem þróuð eru á vísndalegum grunni hafa jafnan eina sértæka virkni, þau eru framleidd með fókus á eitthvert eitt tiltekið vandamál. Skottulausnirnar má hins vegar þekkja af því að ein og sama aðferðin læknar allt sem nöfnum tjáir að nefna.

Kannski ættum við öll að venja okkur á að skipta út orðinu heilsuvörur, í hvert sinn sem við heyrum það auglýst, fyrir orðið heimskuvörur, svona til að þjálfa hina gagnrýnu hugsun. Og ef við höfum hug á að kaupa eitthvað af þessu dóti skulum við gera það með sama gagnrýna hugarfarinu og krefjast þess að nægilegar rannsóknir sýni fram á gildi vörunnar.

Birgir Baldursson 05.03.2006
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Jens Guð - 08/03/06 01:55 #

Ég hef verið í þessum "heilsubisness" í tvo áratugi. Rak heilsubúð og er núna með heildsölu sem heitir Aloe Vera umboðið. Er með breiða línu, hátt í 200 vörunúmer. Þekktasta merkið heitir Banana Boat. Ég þekki þess vegna þennan vettvang frá A - Ö.

Ég er í grófum dráttum sammála hugleiðingunni hér að ofan. Eins og reyndar flestu sem Birgir Baldursson skrifar. Þó vil ég ekki skrifa undir að allt sem flokkað er undir "heilsuvörur" sé í víðtækastu merkingu plat. En það sem fellur undir "heilsuvörur" og skottulækningar er samt sannarlega varhugavert í meira lagi.

Á sínum tíma lærði ég markaðsfræði og þekki vel "trixin" sem þar tröllríða markaðnum.

Þumalputtaregla er sú að það sem kynnt er með vitnisburði einstaklinga um stórkostlegan árangur á að hringja viðvörunarbjöllum. Þetta er ein af þekktustu brellum þessa markaðar: Að vitna í reynslusögur einstaklinga í stað þess að vitna í vísindalega unnar rannsóknir sem auðvelt er að sannreyna.

Trú flytur fjöll. Rannsóknir með lyfleysur og annað í þá veru hafa margsannað það.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 08/03/06 12:55 #

Þó vil ég ekki skrifa undir að allt sem flokkað er undir "heilsuvörur" sé í víðtækastu merkingu plat.

Einmitt, enda hvet ég fólk til að nálgast þetta með gagnrýnu hugarfari. Ef hægt væri að afgreiða þetta allt sem plat þyrfti þess auðvitað ekki. :)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.