Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Að þora að hugsa og hafa skoðanir

Ef heilt samfélag er sammála um að einhver maður sé ofstækismaður með rangar skoðanir, er þá öruggt að hann sé slíkur? Getur heilt samfélag kannski haft rangt fyrir sér?

Það að fjöldi manna aðhyllist ákveðnar skoðanir eru ekki rök fyrir því að þær skoðanir séu réttar. Réttmæti meininga manna ræðst ekki af því hvort hugmyndirnar njóti vinsælda, ekki frekar en vísindamenn greiði atkvæði um þá heimsmynd sem þeir kynna. Vísindin eru ekki lýðræðsleg að þessu leyti, þau leitast við að komast að kjarna tilverunnar og leggja svo heimsmynd okkar það til sem fæst, burtséð frá því hvort það hljómar huggulega eða ekki.

Vísindastarf aldanna og gagnrýnin hugsun hefur skilað samfélaginu gríðarlegum framförum, ekki bara í tæknilegu tilliti heldur hefur aukin þekking okkar á veröldinni og sjálfum okkur skilað heimsmynd sem tekur öllu fram í aldanna rás. Siðferði okkar hefur til dæmis batnað með auknum skilningi á geðsjúkdómum. Áður gengu menn með hroðalegar ranghugmyndir um sjúkt fólk, taldi í því búa illar verur og síðan var reynt að reka þær út með harðfylgi, jafnvel pyntingum sem gengu svo langt að hinn sjúki týndi lífi sínu eða örkumlaðist. Nú vitum við sem er að það sem fólk fortíðar hélt að stjórnaðist af öndum er í raun mekanísk starfsemi heilabúsins og í kjölfarið hefur orðið til þekking til að laga afbrigðilega hugsun og hegðun með lyfjum.

Þetta er allt saman bara físík og kemí.

Ef einstakir rökhugsandi menn hefðu aldrei þorað að ögra viðteknum viðhorfum værum við föst í sömu bábiljum og forfeður okkar. Við getum flest verið samála um að hugmyndir, t.d. Forn-Egypta um heiminn voru í litlum tengslum við raunveruleikann. Meira að segja hinir trúuðustu á meðal okkar viðurkenna ekki guði þeirra og goðsögur, hvaða trúarbrögðum sem tilheyra. Átrúnaður Forn-Egypta og Forn-Grikkja er einfaldlega ekki við lýði lengur, þetta er allt komið á haug sögunnar. Nú umgöngumst við þessar hugmyndir sem bókmenntir sem bera vitni eldgömlum ranghugmyndum.

Hér á Vantrú leyfum við okkur að halda því fram að svipaðar goðsögur og meiningar samborgara okkar um guði og andaverur séu af sömu rót, ranghugmyndir, og sem slíkar séu þær á stundum samfélaginu skaðlegar. Fyrir þetta fáum við gjarna að heyra að við séum klikkað ofstækisfólk, jafnvel frá þeim sem ekki aðhyllast þessar hugmyndir sjálfir. Bara það að hrófla við viðteknum hugmyndum er nóg til að hatursáórðursstimpillinn komi vaðandi í andlitið á okkur.

Paul Graham heitir maður, tölvunörður og fínn penni. Ritgerð hans What You Can't Say tekur firnavel á því hvernig tabú á tilteknum tíma í sögunni verða léttvæg og sjálfsögð þegar tímar líða. Viðhorf okkar og siðferði eru nefnilega undir oki tískustrauma, rétt eins og klæðnaður og hárgreiðsla.

Graham hvetur fólk til þess að þora að hugsa hluti sem eru á skjön við ríkjandi viðhorf. Hann segir (í snörun minni):

Til að koma auga á hver tískan er á okkar tímum þarf að leggja sig meðvitað eftir því. Meðan við höfum ekki tímana til að skapa fjarlægð, þurfum við sjálf að skapa þessa fjarlægð. Í stað þess að láta sig reka með straumnum ættum við að horfa á framvinduna úr eins miklum fjarska og unnt er. Og sér í lagi þarf að veita því sérstaka athygli þegar hugmyndir eru kæfðar. Barnanetsíur og atvinnurekendur koma oft í veg fyrir að hægt sé að skoða klám, ofbeldi og hatursáróður. En hvað flokkast undir klám og ofbeldi? Og hvað nákvæmlega er „hatursáróður“? Þetta hljómar eins og hugtak upp úr skáldsögunni 1984.

Mér finnst að þeir sem gagnrýna okkur hér fyrir að aðhyllast ekki ríkjandi samfélagsviðhorf ættu að slaka á þessu ofstækistali og leyfa sér þann munað að velta því fyrir sér hvort verið geti að við höfum eitthvað til okkar máls. Það sem við segjum hér er ágætlega rökstutt og iðulega sprottið af gagnrýninni hugsun, öfugt við þær hugmyndir sem við gagnrýnum. Þótt einhvert kennivald í samfélaginu gefi sig út fyrir að vera málsvari hins góða þarf ekki að vera að boðun þess sé í nokkrum takti við raunveruleikann. Og ef hægt er að sýna fram á að órökrænar hugmyndir sem samfélaginu eru boðaðar séu skaðlegar og forheimskandi ættu menn ekki að hengja sendiboðann, heldur velta fyrir sér hvort svo sé og í kjölfarið, þegar skynsamleg niðurstaða er fengin, taka höndum saman um að þoka samfélaginu fram á veg.

Frjálst samfélag manna, sem ekki þarf að burðast með þvingandi ranghugmyndir fortíðar, getur frekar lagt grunninn að velferð allra. Látum skynsemina móta mannlífið í framtíðinni og hendum þessum gömlu hindurvitnum öllum á ruslahaug sögunnar. Þar eiga þau svo sannarlega heima.

Þegar sú stund rennur upp að Biblían, Kóran, Mormónsbók og öll hin trúarritin verða lesin sem bókmenntir sem gefa hugmynd um forna hugsun, þá verður gott að lifa.

Birgir Baldursson 26.02.2006
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Gunnar Friðrik Ingibergsson - 26/02/06 13:03 #

Þetta er mjög góð grein hjá þér Birgir. Ég tel þá standa að þessari síðu ekki vera oftækismenn eða neitt slíkt heldur menn sem hafa skoðanir eins og flestir. Hver efast svo sem ekki um trúarkenningar kristni. Ég held að margir geri það þó að þeir viðurkenni það ekki. Eins og David Hume sagði eitt sinn: "Kristin trú var ekki einungis í fyrstu háð kraftaverkum heldur ennþá þann daginn í dag er ómögulegt fyrir skynsama manneskju að játast henni nema fyrir kraftaverk,,.


Pétur Björgvin - 26/02/06 14:56 #

Góðir punktar Birgir og mikilvægt að benda á að það er ekki fjöldi fólksins á bak við orðin sem gera þau að sannleiksorðum.

Umræða um trúmál sem og um önnur mál þarf að vera opin og einlæg og þannig háttað að hver sá sem leggur lóð á vogarskálarnar fái notið sín.

Og því komum við alltaf til með að verða ósammála um eitt eða annað, rétt eins og að fyrir mér er það óhugsandi að Biblían verði einn dag ,,bara bókmenntarit" þó það sé þinn framtíðardraumur. Og um þetta snýst málið, ég verð að fá að segja: ,,Biblían er bók bókanna" og þú verður að fá að segja: ,,Ég hef aðeins takmarkaðan áhuga á þessari Biblíu og þá sem bókmenntariti" eða ...

Láttu þér því ekki detta það í hug að ég sé á móti því að þið haldið úti þessari síðu þó svo að ég setji það ekki í forgang hjá mér að lesa hana.


Finnur - 27/02/06 21:20 #

Það eru fullyrðingar eins og "Engin vísindaleg rök benda til skapara eða hönnuðar af nokkurri sort..." og "...guðleysi hefur vitræna yfirburði yfir trú á guð" sem hljóma ofstækisfull og benda til þess að það er ekki mikil hugsun á bakvið ýmislegt sem þið látið frá ykkur hérna.

En margt hér er bráðskemmtilegt.


Sverrir Ari - 27/02/06 23:09 #

Ólíkt síðustu tveimur ræðumönnum er ég hjartanlega sammála Birgi í þessum efnum. Trúarbrögðin eru gamall draugur sem við ættum að losa okkur við, þau hefta frjálsa hugsun og múgsefja fjöldan. Því miður er það þannig. Skaðsemi þeirra er greinileg. Þau valda barnalegum deilum milli trúarhópa (sbr. skopteikningadeilurnar og átök trúarhópa í Írak og Nígeríu). Byrjunin til betri vegar er að opna umræðuna eins og hægt er og hvetja til gagnrýninar hugsunar eins og þessi frábæra síða gerir. Vona að hún vaxi og dafni.


Finnur - 28/02/06 00:46 #

Trúarbrögðin eru gamall draugur sem við ættum að losa okkur við, þau hefta frjálsa hugsun og múgsefja fjöldan.
Þetta er nú annað dæmi um ofstæki trúlausra. Gjörsamleg rakalausar fullyrðingar eins og þessi geta engan veginn orðið til þess að opna skynsamlega umræðu um trú og trúarbrögð.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 28/02/06 08:40 #

Trúarbrögðin eru gamall draugur sem við ættum að losa okkur við, þau hefta frjálsa hugsun og múgsefja fjöldan.

Þetta er nú annað dæmi um ofstæki trúlausra. Gjörsamleg rakalausar fullyrðingar eins og þessi geta engan veginn orðið til þess að opna skynsamlega umræðu um trú og trúarbrögð.

Hvaða kjaftæði er þetta Finnur, rökin eru þarna í formi dæma: "(sbr. skopteikningadeilurnar og átök trúarhópa í Írak og Nígeríu)"

Það er algjörlega út í hött að tala um "rakalausar fullyrðingar" í þessu dæmi Finnur, hvað í ósköpunum ertu eiginlega að spá? Væri ekki nær að þú slakaðir aðeins á áður en þú ræðst á trúlausa hér, það er farið að verða vandræðalegt að fylgjast með krossferð þinni hér á Vantrú.

Bendi svo á þetta


mofi - 28/02/06 16:03 #

Ég efast um að vantrúar meðlimir hefðu þor til að standa utan trú fjöldans og hafna þróunarhugmyndinni.


Sævar Helgi - 28/02/06 16:05 #

Sumir eru greinilega með þróunarkenninguna á heilanum - verst að það eru ranghugmyndir um þróunarkenninguna.

Annars tengist þetta ekkert efni greinarinnar svo ég held þú ættir að halda þig við spjallborðið.


Finnur - 28/02/06 21:09 #

Hvað finnst ykkur um þessa fullyrðingu: Pólitískir flokkar múgsefjar fjöldann, hefta frjálsa hugsun og stofnar til styrjalda og manndrápa. Því fyrr sem við losnum við pólitíska flokka því betra.

Það eru þessar fáránlegu alhæfingar ykkar vantrúarmanna sem ég er að benda á.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 28/02/06 21:29 #

Hvað finnst ykkur um þessa fullyrðingu: Pólitískir flokkar múgsefjar fjöldann, hefta frjálsa hugsun og stofnar til styrjalda og manndrápa. Því fyrr sem við losnum við pólitíska flokka því betra.

Mér persónulega finnst hún ekki sambærileg, þótt að pólítik sé uppspretta ýmissa illdeilna þá styðjast menn við rök og eitthvað sem er raunverulega til.

Menn sem aðhillast trúarskoðanir hafa ansi fáar staðreyndir á bakvið sig og þegar tveir hópar koma saman þar sem fast er haldið í rakalausann þvætting þá er ekki mikil von að hægt sé að sannfæra menn um nokkur skapaðann hlut.

Ég leyfi mér að fullyrða að ef það væri ekki fyrir trúarkreddur þá væru málin fyrir botni Miðjarðarhafs löngu leyst. Hins vegar er ég þess fullviss að ég verð löngu dauður áður en einhver niðurstaða fæst í þau mál. Það væri strax skömminni skárra ef pólítískur rétttrúnaður réði þarna líkjum frekar en sturlaðir ofsatrúarmenn.


Finnur - 28/02/06 21:36 #

Ég leyfi mér að fullyrða að ef það væri ekki fyrir trúarkreddur þá væru málin fyrir botni Miðjarðarhafs löngu leyst.
Ég leyfi mér að fullyrða að málið er nú ekki alveg svona einfalt Jón. Eða viltu fullyrða að slæm pólitík hafi ekkert að gera með vandamálin við Miðjarðarhaf?
þótt að pólítik sé uppspretta ýmissa illdeilna þá styðjast menn við rök og eitthvað sem er raunverulega til.
Styðjast menn við rök í pólitík? Þetta hef ég nú aldrei heyrt áður. Og eitthvað sem er raunverulegt? Áttu við að pólitískar skoðanir séu raunverulegar en trúarlegar skoðanir ekki?


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 28/02/06 21:52 #

Ég leyfi mér að fullyrða að málið er nú ekki alveg svona einfalt Jón. Eða viltu fullyrða að slæm pólitík hafi ekkert að gera með vandamálin við Miðjarðarhaf?

Auðvitað hefur pólítík eitthvað með málið að segja en að að þetta séu Gyðingar á móti Múslimum gerir þetta ekki einfaldara. Værum við að tala um sömu mál ef Gyðingarnir væru Múslimar - ónei Finnur, við værum ekki að tala um þetta!

Styðjast menn við rök í pólitík? Þetta hef ég nú aldrei heyrt áður. Og eitthvað sem er raunverulegt? Áttu við að pólitískar skoðanir séu raunverulegar en trúarlegar skoðanir ekki?

Menn styðjast við rök jú - en klekkja á andstæðingum sínum með rökleysum en þeir eru að tala um hluti sem raunverulega eru til t.d. heilbrigðiskerfið, skólamál, fjármál o.s.frv. Eða ætlaru að fara segja mér að þessir hlutir séu ekki til og að pólítik sem sambærileg við trú. Finnur, guð er ekki til - sættu þig við það! Og ef þú heldur einhverju öðru fram þá þarftu að sanna það.


Finnur - 28/02/06 22:22 #

Í grundvallaratriðum þá snýst pólitík um völd Jón, það er einfeldni að halda öðru fram. Pólitískar skoðanir byggjast hinsvegar oft á tíðum á hugsjón, og hugsjónir eru sjaldnast studdar af rökum. Pólitík og rök eiga fátt sameiginlegt. Og á sama hátt þá eiga trúarbrögð og rök fátt sameignlegt, og þá er hugmyndafræði vantrúaðra með talin
Og ég ætla að leyfa mér að fullyrða að vandamálin við Miðjarðarhaf snúast um völd. Þau snúast ekki um trúarbrögð. Það er hreinn barnaskapur að halda því fram að með því að útrýma trúarbrögðum þá falli allt í ljúfa löð. Og vandamálin við Miðjarðarhaf verða aldrei leyst á annan hátt en með pólitík. Eða ætlarðu að halda því fram að lausnin felist í því að gera gyðinga og múhameðstrúarmenn guðlausa?


Sverrir Ari - 28/02/06 22:31 #

Dæmin tala einfaldlega sínu máli Finnur. Hefuru skoðað það sem Matti setti fram hér að ofan? Ég fæ hreinlega ekki betur séð en að trúarofstæki í fólki sé sökudólgur endalausra þjáninga í gegnum söguna. Og það er rétt að benda einnig á mannfórnir Azteka. Þar rann fólk á færiböndum til slátrunar til að halda guðum þeirra góðum. Þvílíkur hryllingur. Enn annað dæmið um þjáningu í nafni trúar.

Svo finnst mér einmitt vera hér opin og skynsamleg umræða um trúarbrögð. Þú verður að sætta þig við það að ég er á annarri skoðun en þú.

Og mofi ef þú kemur með einhver sanfærandi rök gegn þróunarkenningunni skal ég taka þau til athugunar. En mér sýnist allt benda til þess að þróun hafi átt sér stað og gerir enn.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 28/02/06 22:32 #

Í grundvallaratriðum þá snýst pólitík um völd Jón, það er einfeldni að halda öðru fram.

Ég var ekkert að hald öðru fram, þú varst að því og yfir hverju eru þessi völd fólgin!? Raunverulegum hlutum, peningum, fólki, landi o.s.frv. sem allt er TIL Í RAUNVERULEIKANUM!

Það er hreinn barnaskapur að halda því fram að með því að útrýma trúarbrögðum þá falli allt í ljúfa löð.

En auðveldara væri það - þú getur varla neitað því?

Eða ætlarðu að halda því fram að lausnin felist í því að gera gyðinga og múhameðstrúarmenn guðlausa?

Ekki ætla ég að standa í því - ég yrði drepinn ef ég reyndi það :-S


Finnur - 28/02/06 23:47 #

Ég fæ hreinlega ekki betur séð en að trúarofstæki í fólki sé sökudólgur endalausra þjáninga í gegnum söguna.
Þessi fullyrðing þín Sverrir bendir nú til þess að þú sért blindaður af trúarandúð. Var trúarofstæki sökudólgur heimstyrjaldanna? Eða kommúnismans? Er trúarofstæki sökudólgur ástandsins í Norður Kóreu?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 01/03/06 00:08 #

Ég fæ hreinlega ekki betur séð en að trúarofstæki í fólki sé sökudólgur endalausra þjáninga í gegnum söguna.

Þessi fullyrðing þín Sverrir bendir nú til þess að þú sért blindaður af trúarandúð. Var trúarofstæki sökudólgur heimstyrjaldanna? Eða kommúnismans? Er trúarofstæki sökudólgur ástandsins í Norður Kóreu?

Finnur, þetta stenst engin rök hjá þér. Sverrir sagði ekki að trúarofstæki væri orsök allra þjáninga í gegnum söguna, heldur ótal þjáninga. Sú fullyrðing hans er sannarlega rétt og greinarflokkurinn um heilagan hrylling er nægilegur rökstuðningur.

Hvað gengur þér eiginlega til með svona fáránlegum málflutning Finnur?


Finnur - 01/03/06 05:12 #

Ég er nú bara að reyna að draga þessa umræðu nær nútímanum.
Það hefur nú ýmislegt gerst frá þeim tíma sem myndabækur frelsarans fjalla um, og margar þjáningarnar orðið án þess að trúarbrögð hafi nokkurstaðar komið nærri. Og ekki hefur Þjóðkirkjan valdið neinum þjáningum.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 01/03/06 10:05 #

Hefur Þjóðkirkjan ekki valdið neinum þjáningum?!? Bíddu, brenndi hún ekki fólk hérna fyrr á öldum fyrir galdra? Var konum ekki drekkt fyrir hórdóm (e-ð sem er runnið undan kristilegu siðferði)?

Hvað ertu eiginlega að tala um Finnur?


Finnur - 01/03/06 11:07 #

Jú, jú, og sjálfsagt fórnaði hún líka fólki í Suður-Ameríku.
Þér er nú varla alvara með þessu innleggi Jón, eða ertu virkilega að saka Þjóðkirkjuna um morð?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 01/03/06 11:11 #

ertu virkilega að saka Þjóðkirkjuna um morð?

Hver var Jón Arason og hvernig endaði lif hans?


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 01/03/06 11:24 #

Finnur, ég hélt að þetta væri kennt í skólum landsins hve margir enduðu á báli fyrir meinta galdra hérna á Íslandi. Ég skal rifja upp fyrir þér hvað það voru margir. Frá 1580 - 1685 voru u.þ.b. 30 brenndir á báli Nánar: Heilagur Hryllingur VII: Galdrafárið og þar af eru 24 fórnarlömb nafngreind.

Síðast þegar ég vissi þá er það morð að varpa einhverjum á bál og láta hann brenna þangað til hann deyr :-S Hvað þá fyrir sakir sem eru jafn furðulegar og fyrir galdra.

Mér finnst það hreint magnað hvað þú ert fattlaus þegar kemur að þessari blessuðu Þjóðkirkju þinni.


mofi - 01/03/06 11:38 #

Sumir eru greinilega með þróunarkenninguna á heilanum - verst að það eru ranghugmyndir um þróunarkenninguna. Annars tengist þetta ekkert efni greinarinnar svo ég held þú ættir að halda þig við spjallborðið.

Greinin fjallar um að þora að hafa ákveðnar skoðanir, ég bara efast um að meðlimar vantrúar myndu þora að standa á móti fjöldanum og segjast ekki trúa á þróun.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 01/03/06 11:52 #

mofi

  • Ég þori ekki að standa á móti fjöldanum og segjast ekki trúa á þróun.

  • Ég þori ekki að standa á móti fjöldanum og segjast ekki trúa á tunglferðirnar

  • Ég þori ekki að standa á móti fjöldanum og segjast ekki trúa á helförina

  • Ég þori að standa á móti fjöldanum og segjast ekki trúa á gvuði.

Veistu hvað er sameiginlegt með þessum atriðum? Ég vel leið skynseminnar í öllum tilvikum, vel þann kostinn sem er rökréttur og í takt við þá vitneskju sem mannkyn hefur öðlast. Ég vel það sem líklegra er að sé satt.

Vertu svo úti.


mofi - 01/03/06 12:07 #

Veistu hvað er sameiginlegt með þessum atriðum? Ég vel leið skynseminnar í öllum tilvikum, vel þann kostinn sem er rökréttur og í takt við þá vitneskju sem mannkyn hefur öðlast. Ég vel það sem líklegra er að sé satt.

Þú velur þann kostinn sem er samþykkur af fjöldanum og þarf engann kjark til að styðja. Afstaða greinarhöfundar er heldur ekki eitthvað sem þarf einhvern kjark til að styðja.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 01/03/06 12:14 #

Hver þykist þú vera að prédika um afstöðu fjöldans? Er afstaða þín ekki nákvæmlega sú sem allir trúfélagar þínir í Sjöunda dags aðventista költinu samþykkja?

Auk þess fellur síðasti kosturinn varla undir þessa skilgreiningu þína.

Ég sagði þér um daginn að þú ættir að hætta að tjá þig á Vantrú, þú getur kommentað á spjallið en ég mun eyða athugasemdum þínum á vefinn. Það var alveg ljóst af orðum þínum að þú hefur ekkert við okkur að ræða.


mofi - 01/03/06 12:39 #

[athugasemd færð á spjallið]


Finnur - 01/03/06 21:21 #

Þið hljótið nú að geta gert greinarmun á Þjóðkirkjunni, ríkistofnun sem hefur engin pólitísk völd og hefur það hlutverk að standa vörð um menningu okkar, standa fyrir félagsstarfsemi og umsjón fasteigna; og kirkjunni til forna, valdastofnun sem oft á tíðum beitti valdi sínu á grimmilegan hátt. Til forna var einnig lítill greinarmunur gerður á guði og kóngi, og kirkjan var einfaldlega handbendi konungs.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 01/03/06 21:47 #

Hin lútersk-evangelíska Þjóðkirkja sem hér ræður ríkjum er ekki arftaki kirjunnar sem hjó höfuðið af Jóni Arasyni og stal öllum eigum Kaþólsku kirkjunnar, þetta er sama stofnunin.

Eigur þessa stofnunar er hægt að rekja aftur til þessa tíma. Forsvarsmenn hennar hika ekki við að vísa í hefðina og réttlæta látlaus útgjöld ríkis til hennar með þeim forsendum að ríkið hafi á móti fengið jarðir - sem þessi kirkja eignaðist hvenær Finnur? Jú, á þeim tíma þegar hún var að drekkja konum á Þingvöllum og brenna fólk hér og þar.

Hin lútersk-evangelíska Þjóðkirkja er kirkjan til forna.


Finnur - 02/03/06 03:53 #

Það væri nú gaman að fá röksemdarfærslu á þessu hjá þér Matti, aðrar en að Þjóðkirkjan hafi umsjón með kirkjujörðunum.
T.d. þá var lýðveldið Ísland ekki til þegar Jón var hálshöggvinn. Og Þjóðkirkjan starfar samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins.
Og Þjóðkirkjan ræður engum ríkjum hér. Við höfum hérna þrískiptingu valdsins, alþingi, ríkistjórn og dómsvald. Þjóðkirkjan kemur hvergi þar nærri.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 02/03/06 08:44 #

Þetta kemur Lýðveldinu Íslandi ekkert við, þetta er sama kirkjan, sami söfnuðurinn, sama stofnunin og kom hérna eftir siðaskipti. Að halda öðru fram er bara vitleysa. Ef þú heldur öðru fram þá vil ég endilega fá að vita hvenær sú stofnun breyttist úr því sem hún var í það sem hún er í dag. Var prestunum sagt upp, kirkjur brenndar o.s.frv. til að "nýr" söfnuður gæti tekið við?!?

Þjóðkirkjan hefur líka einhver völd, meira að segja í dag. Að segja annað er bara rugl. T.d. eru rúmlega 4 milljarðar ávísun á einhver völd!

Auk þess er vert að minnast á að þrískipting valdsins er ekki fullkomin hérna á Íslandi, t.d. er framkvæmdarvaldið og löggjafavaldið næstum því það sama þar sem það eru alþingismenn sem eru ráðherrar.

Og að segja að Þjóðkirkjan komi hvergi nærri er líka bull - út úr hvaða kirkju koma alþingismenn labbandi út úr við setningu þings? Ef þú getur svarað þessari spurningu þá ættir þú að sjá að þjóðkirkjan kemur svo sannarlega nærri okkar stjórnsýslu.


Finnur - 02/03/06 21:12 #

Þau rök að Þjóðkirkjan kom lýðveldinu ekkert við og að völd hennar lýsi sér í því að alþingismenn sitja messu við þingsetningu eru fáránleg og ekki svara verð.
Þetta sýnir nú bara algjört virðingaleysi fyrir þeim lögum og reglum sem gilda hér á landi, og vantrú á lýðræðinu.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 02/03/06 21:34 #

Finnur, hefur minnstu hugmynd um hvað þú ert að segja? Mér sýnist þú vera dálítið ringlaður.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.