Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Af ávöxtunum skuluð þið þekkja þá

Í umræðunni um réttindi samkynhneigðra hafa raddir heyrst innan ríkiskirkjunnar að það sé guðfræðilega illframkvæmanlegt að gifta samkynhneigða vegna biblíunnar. Svo vill til að sömu rök voru notuð gegn réttindum kvenna. Fyrst var það réttur kvenna til að ráða yfir sínum eigin líkama og lífi sem æsti upp hámenntaða guðfræðinga. En síðustu víglínur guðfræðinga gegn konum voru störf kvenpresta. Það er góð upprifjun að lesa rök guðfræðinga um þetta efni. Árið 1974 eða fyrir um 30 árum eru skrif þeirra eins og að opna dyr að miðöldum. Á þeim tíma gafst biskup upp fyrir almenningsálitnu, en þá höfðu kvenprestar starfað t.d. í 30 ár í Svíþjóð en ekki á Íslandi. Núverandi biskup ætlar kannski að bíða í 30 ár með réttindi samkynhneigðra, reyndar með sömu rökum og predikað var gegn réttindum kvenna.

Til fróðleiks koma rök tveggja guðfræðinga og presta í Morgunblaðinu 29. september árið 1974 gegn embætti kvenpresta. Feitletrun er mín leturbreyting til að vekja athygli á guðfræðilegum rökum gegn kvenprestum á þeim tíma en svipuð rök eru nú notað gegn hjónabandi samkynhneigðra. Biblíuleg, söguleg, guðfræðileg, vegna barna og hefðarrök.

Tel, að ísl.. kirkjan sé að fara út á hála braut - ef ekki afvega

Sr. Hannes Guðmundsson prestur í Fellsmúla sagði:

Ég vil í upphafi taka það skýrt fram, að skoðun mín á kvenprestum beinist ekki persónulega gagnvart þeirri konu, sem nú hlýtur prestsvígslu fyrsta sinni á Íslandi. Ég óska henni og heimili hennar blessunar Guðs nú og áfram. Ég vona, að hér sé ekki um metnað eða fordild að ræða. Engu að síður tel ég, að íslenzka kirkjan sé hér að fara út á hála braut, ef ekki afvega, þar sem hin heilaga, almenna kirkja hefur frá öndverðu aldrei vígt konur til prestsembættis. Svo auðskilið og sjálfsagt þótti þetta, að engin guðfræðileg rök eru fyrir hendi. Þetta er ekki vanmat á stöðu konunnar innan kirkjunnar, því að kirkjusagan hefur i hávegum minningu helgra kvenna, sem fórnuðu lífi sínu í hennar þágu. Jesús Kristur átti mikilli kvenhylli að fagna og fól konum að flytja postulunum upprisuboðskapinn, en hitt er söguleg staðreynd, að þegar hann valdi postula sína var enginn þeirra kona. Þess vegna stöndum við frammi fyrir þeirri spurningu: hafði Jesús rétt fyrir sér, sá hann það, sem miður var, og einnig framtíð þeirrar jarðar, sem við nú byggjum. Var Jesús maður, takmarkaður eigin umhverfi, meðaldósent í guðfræði eða var hann eilífur Guð? Í mínum huga var og er Jesús Kristur sannur maður og sannur Guð. Þess vegna lit ég á vígslu kvenpresta sem andlega kynvillu, afbrigðilega, en ekki eðlilega. Mér hafði þótt, að nú væri stundin komin til að stofna nýtt embætti innan kirkjunnar, þar sem konan nýtur sín til fulls og fengi heilaga vígslu, sem svaraði til prestsembættis, eins og grísk- og rómverskaþólska kirkjan hafa innan sinna vébanda. Ég er blátt áfram undrandi að núverandi þrír biskupar skuli leggja blessun sína yfir þessi afglöp í þeim eina tilgangi að “geðjast öld þessari”.

Umræðan er tekin upp á röngum forsendum

Sr. Sigfús J. Árnason, prestur á Miklabæ í Skagafirði sagði

Mér lízt engan veginn á þessa ákvörðun að vígja konu til prests. Til að byrja með finnst mér, að umræðan sé tekin upp á röngum grundvelli: hér sé um jafnréttismál að ræða. Ég fæ ekki séð, að þetta eigi neitt skylt við jafnréttisbaráttu kvenna, en ég tek ofan fyrir henni á einu bretti. Svo að við förum allar götur aftur til frumkristninnar þá er sýnt, að konan átti meira en griðland innan kirkjunnar, hún átti þar sína stöðu til jafns við karlmenn og kannski ívið meiri. Að minnsta kosti finnst Páli postula ástæða til að setja ofan í við konur og setja þeim að þegja. Í annan stað er vitað að margir af dyggustu fylgjendum drottins voru konur, en spyrja má, hvers vegna velur hann sér þá 12 postula, sem allir eru karlar? Það, sem mér finnst vega þyngst, er, að löng hefð er rofin með þessu. Svo vikið sé að praktísku hliðinni þá er prestskapur ákaflega mikið álag á manneskjuna og því finnst mér vafamál, að kona, sem jafnframt er móðir, gæti staðið í því mikla stríði, sem starfinu fylgir.Ef það hefði legið í mínu persónulega valdi hvort ætti að vígja konu, þá hefði ég ekki gert það, sagði sr. Sigfús að lokum.

Frelsarinn 17.02.2006
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Elías - 17/02/06 12:36 #

Ef þjóðkirkjunni finnst það "guðfræðilega illframkvæmanlegt" þá geta þeir auðvitað valið að gera það ekki. Ég skil ekki pólitíska merkingu þessa vandamáls þeirra guðfræðinganna. Hjúskapur kemur trú ekkert við, hjúskapur er viðfangsefni lögfræðinnar, ekki guðfræðinnar. Fólk hefur gengið í hjúskap á þessu landi löngu fyrir daga Kristinnar trúar. Það má vera að þetta sé guðfræðilega illframkvæmanlegt. Það væri hins vegar ágætlega framkvæmanlegt lögfræðilega, verkfræðilega, málfræðilega, félagsfræðilega og læknisfræðilega. Hvaða máli skiptir guðfræðin í þessu samhengi?


Magnús - 17/02/06 12:54 #

Svo er hægt að einfalda málið: skilja ríki og kirkju að og þá getur hvaða sjálfstætt félag sem er, til dæmis kristin kirkja, sett hvaða reglur sem er. Það er tenging kirkjunnar við þjóðfélagið og hið ankannalega áhrifavald sem hún hefur á lagasetningar sem er vandamálið hér, hvort sem maður lítur á málið frá sjónarmiði mannréttinda og jafnréttis eða bókstafstrúar.


Vincent - 17/02/06 18:49 #

Ég held að það sé ekki sanngjarnt að dæma heila stétt út frá einungis tveimur 30 ára gömlum ummælum sveitapresta, með fullri virðingu fyrir þeim ábyggilega mætu mönnum. Svo hreinlega furða ég mig á því að gera lítið úr þeirri umræðu sem fram hefur farið meðal guðfræðinga og fleiri um þessi efni því hún hefur verið málefnaleg á báða bóga.

,,Biblíuleg, söguleg, guðfræðileg, vegna barna og hefðarrök..." eru þau rök sem skipta máli í þessari umræðu.


Gyða (meðlimur í Vantrú) - 18/02/06 09:43 #

Ég fyllist bara lotningar fyrir kvennréttingabaráttu mæðra okkar við þennan lestur. Maður á það til að gleyma hvaða umhverfi konur voru að berjast við í kvennréttingabaráttunni fyrir þrjátíu árum.

Vonandi munur börning okkar fá sömu tilfinningu þegar þau lesa umræðuna um hjónaband samkynhneigða á fullorðinsárum þegar hjónaband þeirra verður orðið hluti af venjunni og engum dettur lengur í hug að neitt geti verið neikvætt við það.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.