Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Við erum ekki satanistar

Þátturinn Kompás á NFS sýndi í gærkvöldi viðtöl við tvo íslenska „satanista“ og æðstaprest slíkrar költreglu í New York. Einnig var rætt við íslenska presta og guðfræðinga um hvers konar fyrirbæri þetta væri. Þarna kom ýmislegt áhugavert fram og ærið tilefni fyrir okkur hér á Vantrú að leggja orð í belg.

Æðsti presturinn talaði um að þessi trúarbrögð hans snerust ekki um yfirnáttúrlega hluti, þeir væru materíalistar, rasjónalistar, skeptíkerar og aþeistar. Þessi orð hans koma mér undarlega fyrir sjónir?

Því hvað er slíkt fólk að fitla við trúarleg ritúöl, ef það trúir ekki á þann æðri mátt sem það segist tilbiðja? Hvers konar rugl er þetta eiginlega? Þetta stenst enga rökhugsun.

Trúleysingjar hafna guðum og annarri yfirnáttúru. Það síðasta sem þeim dytti í hug að gera væri að snúa kristindóminum á hvolf og byrja að tileinka sér einhver ritúöl kristninnar með öfugum formerkjum. Skrattinn sjálfur er alveg jafn óvitræn hugmynd og almáttugur skaparinn og hinn eilífi sonur hans Jesús Kristur. Þetta eru allt saman barnalegar mýtur og hvers kyns tilbeiðsla á einhverjum slíkum öflum nauðga skynseminni í hinum trúlausa. En hvað gengur þessum satanistum þá til?

Ég gæti sem best trúað því að þarna sé um einhverskonar ögrun við hina kristnu að ræða. Þetta fólk er, eins og við, í uppreisn gegn bábiljum þeim sem haldið er að fólki í nafni kristindómsins, en í stað þess að eiga um það heiðarlega umræðu og vísa hindurvitnunum á bug leitast þetta fólk við að sjokkera og særa. Og þá er þægilegast að gefa sig út fyrir að tilbiðja þann sem hinum kristnu stendur mest ógn af, auk þess að henda á lofti öll þau hugtök sem trúuðum er hvað mest í nöp við. Og í Bandaríkjunum hefur aþeismi lengi verið hreint og klárt skammaryrði.

Við sem að þessu vefriti stöndum höfum engan áhuga á því að særa og meiða, bara til að særa og meiða. Við erum miklu fremur upptekin af því að skapa heiðarlega umræðu um réttmæti þess að hindurvitni séu boðuð og leiða fólki fyrir sjónir hver skaðsemin af slíku getur verið. Þótt einhverjir stökkvi upp á nef sér við orð okkar og athafnir, þá sjáum við það sem tækifæri viðkomandi til þroska og skilnings á málum sem hann hefur kannski ekki velt fyrir sér af neinu ráði, rétt eins og birting skrípós í dönsku blaði mun vonandi með tímanum verða til að toga hinn múslimska heim út úr hinum hugmyndafræðilegu miðöldum sínum.

Við erum ekki satanistar og sjáum í raun ekkert jákvætt við orð og athafnir þessara ögrandi kjána. Þeir ástunda helgisiði byggða á trúarsetningum kristindómsins, en slíkt væri sennilega það síðasta sem okkur dytti í hug að gera. Heimsmynd okkar innifelur hvorki guði né djöfla og okkur þykir tilbeiðsla á slíkum goðmögnum fullkomlega barnalegt athæfi. En með framgögnu sinni munu satanistarnir styrkja þá skoðun í hugum fávísra trúmanna að aþeisimi jafngildi tilbeiðslu á myrkraöflunum á einhvern hátt. Og með því eru þeir í raun gengnir í lið með hinum kristnu í áróðursstríðinu gegn trúleysi. Vitræn umræða á eftir að líða fyrir það.

En góðu fréttirnar fyrir hina trúuðu, sem hræðast þessa andstæðinga sína eru þær að satanismi er algert kjaftæði. Það er engin ástæða fyrir trúfólk að óttast það glundur sem þeir bera á borð. NFS-umfjöllunin er til þess fallin að skapa ástæðulausan ótta, menn sjá kannski fyrir sér að siðferðið sé í hættu, að nú verði íslenskum hreinum meyjum fórnað og hvað eina. En sá ótti er ástæðulaus.

En allt vekur þetta hjá mér eina mikilvæga spurningu: Ef satanistar sjá ástæðu til að standa í ritúalvafstri gagnvart öflum sem þeir trúa ekki á, getur þá verið að einhverjir kristnir prestar standi í slíkum stórræðum á sömu forsendum? Hversu heiðarlegir eru kristnir prestar í athöfnum sínum?


Sjá einnig: Svarti páfinn og hin sataníska Biblía hans

Birgir Baldursson 13.02.2006
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Eva - 13/02/06 18:46 #

Ég tek fram að ég er ekki Satanisti sjálf en ég hef lítillega kynnt mér hugmyndir Antons LaVey.

Satanistar (allavega í söfnuði LaVey) segjast ekki trúa á Satan sem yfirnáttúrulega veru, heldur sem persónugervingu þeirra mannlegu hneigða sem kristnir menn tala um sem "lægri hvatir". Þegar þeir tilbiðji Satan séu þeir í raun að árétta við sjálfa sig, rétt sinn til að hafa mannlegar ástríður og fá útrás fyrir þær.

Hugmyndir Satanista eru náskyldar húmanisma. Það sem aðgreinir er fyrst og fremst það að Satanistar telja að maðurinn hafi eðlislæga þörf fyrir ritúal. Þeirra svar við áherslu trúleysingja á tilveruleysi hins yfirnáttúrulega er eitthvað á þessa leið: Það er rétt að ekkert er yfirnáttúrulegt og að enginn æðri máttur er til. Hinsvegar hef ég mannlega þörf fyrir þá hugmynd að einhver stórkostlegur máttur sé til. Ég hef þörf fyrir að sýna einhverju eða einhverjum lotningu, tilheyra hópi fólks með sömu hugmyndir, halda hátíðir og nota tákn. Ég sem frjáls maður hef rétt á helgisiðum og söfnuði svo framarlega sem ég skaða engan, jafnvel þótt ég geri mér grein fyrir að enginn andi stjórni heiminum. Og ég ætla bara vessgú að nýta mér þann rétt þótt sé ekkert vit í því og nanananana.

Sjálfsagt er ögrun við kristin gildi og kirkju stór þáttur í því hvernig Satanistar koma fram. Notkun þeirra á táknum, helgisiðum, tónlist og búningum lýsa megnri fyrirlitningu á kristninni. Ég held hinsvegar ekki að megintilgangur þeirra sé að særa og sjokkera þótt þeim finnist það eflaust ágætur bónus.

Satanistakirkjan fordæmir dýrafórnir og ofbeldi.


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 13/02/06 20:58 #

Þörf fyrir ritúöl? Þetta hljómar kjánalega. Er þetta ekki bara gerfiþörf?


Hope Knútsson - 13/02/06 23:52 #

Sem formaður Siðmenntar - félag siðrænna húmanista á Íslandi vil ég mótmæla því að Satanistar og Húmanistar eru náskyldar! Ef einhver hefur áhuga á stefnuskrá Siðmenntar vinsamlegast skoðaðu: http://www.sidmennt.is/sidmennt/#stefnuskra I have been a Humanist for more than 40 years, first as a member of the New York Society for Ethical Culture and the American Ethical Union, and later with the establishment of Siðmennt in Iceland, a member of the International Humanist and Ethical Union with over 100 member societies. In all of my years of reading Humanist, atheist, Freethought, rationalist and skeptical literature I have never heard of any connection between Satanism and Humanism. More about Humanism can be found at www.iheu.org and www.secularhumanism.org Humanists have no interest in the concept of satan any more than the concept of god. Both are irrelevant and unnecessary for leading an ethical, fulfilled, meaningful life.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 14/02/06 00:29 #

Ég hlýt að vera afskaplega léleg manneskja fyrst ég hef enga þörf fyrir nokkurt ritúal. :(


Ari - 14/02/06 01:42 #

http://www.religioustolerance.org/satanis1.htm

"The beliefs, practices and rituals of the Church of Satan have few, if any, points of similarity with the Christian or Muslim concept of Satan. The CoS' Satan is pre-Christian, and derived from the Pagan image of power, virility, sexuality and sensuality. Satan is viewed as a force of nature, not a living quasi-deity. Their Satan has nothing to do with Hell, demons, pitchforks, sadistic torture, demonic possession, and profound evil."


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 14/02/06 01:59 #

Ég held að þessir satanista-prellarar gleymi að nota rakhníf Occam's. Í staðin fyrir að persónugera náttúröfl í einhverri geit, þá er betra bara að viðurkenna náttúruöflin fyrir það sem þau eru; ópersónuleg og einfaldlega eitthvað sem bara, er.

Einhver persónugerfing veraldlegra eiginleika í æfintýrafígúru er einfaldlega útúrdúr. Líka það að dýrka þessa hluti er fáránlegt; það er alveg nóg að vita af þeim og skilja þessi fyrirbæri sem eru persónugerð. Það er engin ástæða fyrir því að flækja þessa eiginleika/fyrirbæri/náttúruöfl að óþörfu.

Hvað gegnur þeim eiginlega til? Að komast í einhverja miskilningarvímu kannski? Með því að flækja hugtökum í einhverja persónugerða ímynd af útdauðum egypskum geita-guði?


Snæbjörn - 14/02/06 23:40 #

Afskaplega skemmtileg umræða að fara í gang skynja ég. Ég ætla nú ekkert að fullyrða um skyldleik húmanisma við Satanisma. Það hef ég ekkert vit á.

En þörfin fyrir Ritúölum tel ég að sé til staðar. Við þurfum fyrst og fremst þá að átta okkur á því hvað ritúöl eru. Ritúal er nefnilega ekki einungis trúarlegt. Busavígslur eru ritúal, sömuleiðis allar innvígslur inn í sérstaka klúbba. Oft eru slíkar vígslur gegnsýrðar af trúarlegum táknum, en þó eru þær nú varla trúarlegar. Busavígslur eru náskyldar fullorðinsvígslum, tökum sem dæmi fermingar. Það er ritúal sem getur verið trúarlegt, en svo er líka hægt að fermast borgaralega. Það er hægt að halda því fram að þegar félagar mála sig í liti fótboltaliðsins sem þeir halda með, horfa saman á fótboltaleik og öskra á sjónvarpið þá eru þeir að framkvæma ritúal. Leikhúsgúrúinn Richard Schehner hefur sett fram kenningar um að leikhús á Vesturlöndum sé sprottið upp úr trúarritúölum. Því samsinnir Aristóteles í skáldskaparlistinni, þegar hann talar um að Tragedían eigi uppruna sinn í trúarritúal. (Reyndar eru leikhús á Austurlöndum yfirleitt nátengd trúarathöfnum).

Hvað eru ritúöl. Ritúal hefur ekki beinlínis áhorfendur, heldur eru allir þátttakendur. Þess vegna er vafasamt að telja tónleika, íþróttaleiki og bíó/leikhúsupplifanir ritúöl. Ritúöl er líka hægt að endurtaka, nokkurn veginn eins. Ritúöl geta haft stjórnendur, nokkurs konar æðstu "presta". Ritúöl ganga út á samsömun, þau staðfesta yfirleitt sjálfsmynd samfélagsins og þjóna einhverjum tilgangi. Hvort sem hann er tengdur hjátrú eins og frjósemisdýrkun, eða því að éta hold guðs síns eða því að bjóða unglinga velkomna í heim fullorðinna, eða þegar fólk giftir sig.

Ég HELD (legg áherslu á held, andstætt: ég veit eða ég trúi) að fólk hafi þörf á ritúölum. Í það minnsta þurfa samfélög á þeim að halda. Við vígjum hluti, við skírum þá, við höldum veislur og það má færa rök fyrir því að þetta séu ritúöl. Það fyllir mann öryggi að tilheyra einhvers konar hópi. Það er því misskilningur að segja að ritúöl séu trúarleg, ég HELD að manneskjan hafi þörf fyrir ritúöl, þótt hún hafi ekki endilega þörf á trú.

Ég vona að þetta hafi verið vitrænt, og þótt að margar rannsóknir séu til á ritúölum og mörg rök hafi verið færð fyrir nauðsyn þeirra, þá er mjög erfitt að sanna hluti. Það er nú líka eðli hugvísinda myndi ég halda, andstætt raunvísindum. Ég er engin sérfræðingur, en hef kynnt mér þó nokkuð ritúöl enda er ég að læra leiklistarfræði og margir þeirra áfanga sem ég tek snúast einmitt um að skoða ritúöl.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 15/02/06 00:02 #

Það gæti vel verið að maðurinn hafi einhverja tilhneigingu til þess að taka þátt í athöfnum.

Ef ég man rétt þá stingur mannfræðingurinn Pascal Boyer upp á því í bók sinni Religion Explained að tenging yfirnáttúru við afhafnir hafi upphaflega ekki verið í athöfnum. Samkvæmt honum þá finnst mönnum það bara einfalt/þægilegt/eðlilegt að tengja yfirnáttúrulegar verur við ýmislegt sem maður skilur ekki, td hvernig athöfn geti breytt félagsstöðu fólks algjörlega, svo sem í manndóms- og hjónavíglsum.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 15/02/06 01:03 #

Ég endurtek: Ég hlýt að vera afskaplega léleg manneskja fyrst ég hef enga þörf fyrir nokkurt ritúal. :(


Snæbjörn - 15/02/06 12:13 #

Ertu samt viss um að þú hafir enga þörf fyrir nokkurs konar "ritúal". (Afsakið slettuna, héðan af mun ég nota orðið athöfn). Þú hefur tekið þátt í þó nokkrum athöfnum, svo það er ómögulegt að segja að þú hafir enga þörf fyrir athöfn. Ég er ekki að segja að hún sé líffræðilegs eðlis. Ég er ekki að segja að þú deyjir án athafnar. En skipti það þig t.d. engu máli þegar þú tókst þátt í útskriftar athöfn, fermingarathöfn o.s.frv.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 15/02/06 12:55 #

Nei, þetta skipti mig engu máli. Ég hef alltaf tekið þátt í athöfnum fyrir aðra. Og sumar þeirra hefur mér þótt algerlega fáránlegar.

Ég væri fullsáttur við að koma ekki nálægt einni einustu athöfn framar.


Eva - 15/02/06 13:08 #

Jú Hope, lífsafstaða Satanista er víst náskyld húmanisma.

Satanistar leggja t.d. áherslu á: -ábyrgð mannsins á eigin lífi -frelsi hans til að velja sér lífsstíl, -ábyrgð mannsins gagnvart meðbræðrum sínum, einkum börnum öðrum minnimáttar -að ábyrgð mannsins gagnvart öðrum takmarkist við hans eigin velferð (t.d. eigi fólk að hjálpa ef það kemur á slysstað en ekki að þurfa að lifa við kúgun fíkils eða geðsjúklings)
-að frelsi mannsins takmarkist af rétti annarra, -frelsi mannsins takmarkist ekki af neinu öðru en rétti annarra, því séu öll utanaðkomandi afskipti af einkalífi fólks eða lagasetningar um trúarlíf, viðskipti, fjölskyldugerð, kynlíf o.s.frv. óþolandi -að mannlegar ástríður séu eðlilegar og að í stað þess að bæla þær eigi að finna þeim útrás sem ekki valdi öðrum tjóni, -að gagnrýnin hugsun sé undirstaða allra framfara -að vísindi séu mikilvægur lykill að betri heimi -að náttúran sé heilög og manninum beri að umgangast hana af virðingu -að ofbeldi, hvort sem er gagnvart mönnum eða dýrum sé viðurstyggð -að það skuli teljast ofbeldi að hvetja börn eða aðra sem ekki hafa aðstæður til að gefa upplýst samþykki til þátttöku í kynlífsathöfnum, vímuefnaneyslu og öðru sem hætta er á að valdi þeim skaða, -þörf mannsins fyrir helgiathafnir

Þér kann að þykja notkun Satanista á trúartáknum ógeðfelld en ég fæ ekki betur séð en að lífsafstaða Satanista sé tekin beint upp eftir húmanistum.


Eva - 15/02/06 13:18 #

Og ef út í það er farið, hver er þá hvatinn að borgaralegum athöfnum, annað en eðlislæg þörf mannsins fyrir ritúal?

Húmanistar nota ekki öfug krossmörk og geitarhaus og hafa sennilega ekki eins djúpstæða andstyggð á tilhneigingu ríkis, trúfélaga og einstaklinga til að koma inn sektarkennd vegna hinna "lægri hvata". Það er nú allur munurinn.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 15/02/06 15:09 #

Enn á ný endurtek ég: Ég hlýt að vera afskaplega léleg manneskja fyrst ég hef enga þörf fyrir nokkurt ritúal. :(


Sigurður Hólm Gunnarsson - 15/02/06 16:01 #

Ætli ég sé ekki léleg manneskja líka þá því ég hef heldur enga þörf fyrir nokkurt ritúal. Ég hafði ekki einu sinni nokkra þörf til að mæta í eigin útskriftarserimóníu þegar ég varð stúdent, en gerði það samt að beiðni fjölskyldu minnar :)

Persónulega er mér líka alveg sama hvernig ég myndi gifta mig, hvernig barnið mitt yrði nefnt eða á hvaða hátt ég yrði lagður til grafar. Þessi atriði skipta mig nánast engu máli. Ég get hins vegar vel skilið að annað fólk hafi skoðanir á þessu.

Annars held ég að Eva hafi nokkuð til síns máls í umfjöllun sinni um Satanista hér. Ég held að fólk sé að tala um tvo ólíka hluti hérna. Annars vegar fólk sem trúir í alvöru á djöfulinn (eins og flestir kristnir gera) og tilbiður hann (ólíkt kristnum) og hins vegar heimspeki umrædds Antons LaVey sem kann vel að vera að sé byggð á húmanískum grunni (án þess ég þekki kenningar hans að nokkru viti).

Hver sem skoðun LaVeys er þá finnst mér endalaust kjánalegt að kenna heimspeki sína við Satan, vísa í bók sem kallast “Satanic bible” og að ganga um í kuflum og halda svartar messur (jafnvel þó það sé bara gert í einhverskonar gríni).

Það er því ekki að ástæðulausu að ég vil ALLS EKKI láta líkja mér við svokallaða Satanista.

Sigurður Hólm Gunnarsson Varaformaður Siðmenntar


Eva - 15/02/06 16:39 #

Ég vil endilega að það sé á hreinu að ég er ekki Satanisti og ekki tengd þeim á neinn hátt. Trúarpraktík þeirra höfðar engan veginn til mín (þótt margt í hugmyndafræði þeirra geri það)og þótt þeir haldi því fram að Satanismi séu einu trúarbrögðin sem séu laus við hroka og sjálfsréttlætingu, get ég ekki séð að það standist.

Mér finnst hinsvegar slæmt að nánast öll umfjöllun sem ég hef séð um Satanista er byggð á fordómum og vanþekkingu. Ég reyni svona almennt að mynda mér ekki afgerandi skoðanir nema vita eitthvað aðeins um hvað málið snýst og þar sem það er einnig markmið margra þeirra sem virða skoðanir sínar hér, vildi ég leggja nokkuð til umræðunnar.

Kjarninn í hugmyndafræði Satanista er þessi: "We create our gods, not the other way around."

Eftir því að dæma sem ég hef lesið um kenningar LaVeys er þetta ekki bara hópur af "ögrandi kjánum" eða samsafn einhverra grínara, heldur fólk með vel ígrundaða lífsspeki, sem langar rosalega mikið að vera trúfélag þótt það trúi ekki á neina guði. Og ég efast um þeir særi Kristna menn nokkuð meira en vantru.is


Snæbjörn - 15/02/06 17:14 #

Skemmtilegt að heyra. Mjög andfélagslegar skoðanir, vissulega er ég ekki mikill aðdáandi fermingarathafna eða útskriftarathafna. Þær eru leiðinlegar og langdregnar.

Að standa á sama um giftingarathöfnina sjálfa er svoldið sérstakt, fremur órómantískt en þó ekki það óalgengt, foreldrar mínir héldu t.d. enga sérstaka veislu heldur giftust bara borgaralega.

Ein athöfn sem ég tel að væri ekki hægt að komast undan er þó jarðarförin. Það er líka athöfn sem ólíkt fermingu eða útskrift skiptir sálrænt séð miklu máli. Þá er ég auðvitað að tala um fyrir nána ættingja, slík athöfn er HELD ég óhjákvæmileg. Fólk verður einhvern veginn að vinna út úr sorginni.

Sem rök fyrir nauðsyn athafna get ég sagt að ekki fyrirfinnist samfélag manna á þessari jörðu sem sé án þeirra. Þetta eru þó hættuleg rök að mörgu leyti, því þá gæti ég allt eins sagt: Það fyrirfinnst ekki mannlegt samfélag án trúarbragða.

Ég held að við getum vel verið án trúarbragða. Ég held samt ekki að við gætum verið án athafna. Það er mikilvægt fyrir fjölskyldur að hafa einhvers konar kveðjuathöfn handa látnum ættingjum. Þetta er ekki beint líffræðileg þörf, það er ekki djúpstæð ástæða fyrir því að við þurfum athöfnina. Hún er félagslegs eðlis.

Einstaklingur getur komist af án þess að hafa athafnir. En geta samfélög og hópar komist af án þeirra? Ef ég væri á eyðieyju þá þyrfti ég ekki á neinni athöfn að halda. Athafnir eins og vígslur eða greftrunarathafnir byggjast á félagslegum aðstæðum. Einhver í hópnum dó, hvernig eigum við að bregðast við? Við ætlum að taka inn einhvern nýjan í hópinn, hvernig innsiglum við hann?

Birgir mun þó væntanlega ekki finna fyrir þörf fyrir "ritúal". En hann verður að taka þátt í þeim til þess að vera fullgildur meðlimur í samfélaginu.

Gætum við hreinsað athafnirnar úr samfélaginu og látið það virka? Það eru vissar vangaveltur og ég ætla ekkert að fullyrða, þótt að skoðanir mínar séu augljósar. Vona að það sé eitthvað vit í því sem ég er að segja.


Eva - 15/02/06 17:28 #

Hvað varðar þörfina fyrir ritúal þá þarf nú enga sérfræðiþekkingu á mannkynssögu til að sjá að trúarþörf og þörf fyrir ýmsar athafnir og tákn er ríkjandi hjá manninum.

Ég finn oft fyrir trúarþörf sjálf. Mig langar stundum til að einhver kraftaverkagaur komi og taki í taumana. Það merkir hinsvegar ekki að ég telji nokkrar líkur á að það gerist. Ég hef líka þörf fyrir ritúal þótt hún taki á sig aðra mynd en kirkjulegar athafnir.

Hinsvegar hvarflar ekki að mér að halda því fram Birgir og Sigurður séu haldnir einhverjum slíkum þörfum "innst inni". Ég held að þeir séu báðir einfærir um að skilgreina tilfinningar sínar í þessum efnum sem öðrum. Það sem er ríkjandi hjá manninum er sjaldan ef nokkurntíma algilt.


Sigurður Hólm Gunnarsson - 15/02/06 23:01 #

Að standa á sama um giftingarathöfnina sjálfa er svoldið sérstakt, fremur órómantískt en þó ekki það óalgengt.

:) það sem ég vildi segja áðan er ekki að mér sé alveg sama um athafnir eins og giftingar og greftranir. Þær skipta mig einfaldlega litlu máli. Kannski breytist sá smekkur minn seinna á lífsleiðinni. Hver veit. Ef ég væri svo lánsamur að eiga kærustu sem vildi giftast mér og halda stóra og mikla athöfn þá myndi ég glaður láta tilleiðast. Að sama skapi væri ég fullkomlega sáttur að staðfesta trúnað og ást mína í kyrrþey, ef svo má að orði komast. Fyrir mér er það ekki athöfnin, eða ritúalið, sem skiptir máli heldur hugurinn á bak við. Ég tel mig vera ágætlega rómantískan og ég er afskaplega tilfinningaríkur maður (jafnvel of tilfinningaríkur stundum :)) Af einhverjum ástæðum skipta svona ritúöl mig bara litlu máli.

Ein athöfn sem ég tel að væri ekki hægt að komast undan er þó jarðarförin.

Ég skil líka afskaplega vel að það skiptir marga máli hvernig jarðaför þeirra fer fram. Flestum finnst að ég held mikilvægt að þeir séu jarðaðir í samræmi við þeirra lífsskoðanir og óskir. Flestir kristnir vilja vera jarðsungnir í kirkju (en t.d. ekki í mosku) og flestir þeir trúleysingjar og húmanistar sem ég þekki vilja eiga kost á því að fá húmaníska kveðjuathöfn. Þessar óskir skil ég mætavel, enda berst ég fyrir því í Siðmennt að hægt verði t.d. að bjóða upp á aðstoð við húmanískar greftranir í framtíðinni.

Af einhverjum ástæðum er mér persónulega sama hvernig verður staðið að minni jarðaför þegar ég fell frá. Ef fjölskylda mín vill t.d. láta jarðsyngja mig í kirkju með tilheyrandi ritúölum þrátt fyrir það að ég sé vita trúlaus þá er mér hreint alveg sama. Þar sem ég verð jú vonandi dauður í eigin jarðaför þá skiptir þetta mig engu máli. Fjölskyldan fær mitt leyfi til að standa að jarðaförinni þannig að þeim líði best. Ég geri þó ekki lítið úr því að mörgum finnst þetta skipta máli.

Eru þetta andfélagslegar skoðanir? Það finnst mér ekki.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 15/02/06 23:55 #

Ég held að ég geti tekið undir hérumbil hvert orð sem fram hefur komið af hálfu Evu hér að ofan. Ég sé mikil líkindi með húmanisma og satanisma að hætti LaVey, en þótt ég gangist við því að vera húmanisti get ég ekki kallað mig LaVey-satanista. Ég las nú Satanic Bible á sínum tíma og fannst hún að miklu leyti vitræn, en þegar kom í ritúal-kaflana í seinni partinum meikaði ég ekki meira. Ég held að það sé auðvelt að misskilja "þörf fyrir ritúal" -- ég held að þeirri þörf sé fullnægt á miklu fjölbreyttari hátt en ætla mætti af orðinu "ritúal". Það mætti kannski kalla það "þörf fyrir upphafningu" eða eitthvað þvíumlíkt -- þörf sem mætti etv. fullægja með því að hlusta á fallega tónlist eða dveljast í (afsakið orðbragðið) guðsgrænni náttúru.


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 16/02/06 01:05 #

Eva sagði

Hvað varðar þörfina fyrir ritúal þá þarf nú enga sérfræðiþekkingu á mannkynssögu til að sjá að trúarþörf og þörf fyrir ýmsar athafnir og tákn er ríkjandi hjá manninum.

En er þetta ekki bara gerfiþörf? Ég tel ekkert vitrænt í rítúölum. Þetta er bert í innvígslum sem ætlað er að breyta félagstöðu á einni svipan. Sem þarf á hindurvitni, tilfinningasemi og uppeppaða upphefð að halda til þess að hafa einhverja merkingu.

Ég er byrjaður að hallast að því að athöfnin busun sé óþörf. Eða ónauðsýn eða jafnvel hamla, ef maður vill koma veg fyrir stéttaskiptingu milli nemenda í skólum.


Snæbjörn - 16/02/06 20:08 #

Varðandi jarðarförina þá átti ég reyndar ekki við hana sem athöfn fyrir hinn látna. Mér sjálfum eins Sigurði, stendur slétt á sama hvernig mín jarðarför verður. Hún snýst kannski um mig, en hún er ekki ætluð handa mér. Hún er handa þeim sem syrgja mig. Þess vegna tel ég jarðarförina mikilvæga, því þetta er athöfn þar sem fólk tekst á við sorg í sameiningu. Sem er sálrænt mikilvægt.


Hope Knútsson - 18/02/06 00:19 #

This may sound paradoxical since I am the person who introduced Icelandic society to borgaraleg ferming and have been coordinating that program now for 18 years, but I absolutely detest ritual! In my mind rituals consist of adhering to some strict performance of certain (religious) activities which were created by people who lived thousands of years ago and who I never knew and have no meaning whatsoever in my life today! I see no reason on earth to participate in such activities. I feel exceedingly uncomfortable when I witness such activities because they seem mindless and meaningless, to say the least. On the other hand I have nothing against people creating traditions for themselves and their families, traditions that mean something to them. There can be some very meaningful and powerful ways of marking the various turning points in life (birth, coming of age, marriage, and death) without the slightest need or referance to anything supernatural. And for that reason I think groups like Humanists have a valid reason to offer alternative, secular, individualized ceremonies for those people who choose a different way of marking those transitions. I have been present at and helped to organize completely secular weddings and funerals and they are very meaningful and personal. I don't think they are rituals at all. Some people might quibble with the meaning of the word ritual but it usually implies strict adherence to a religious or tribal set of rules and is usually symbolic or quasi-symbolic. Secular ceremonies are not rituals. The word ceremony has a much broader meaning and does NOT imply religion. It's hard for me to know, as a foreigner whether the words ritúal og athöfn in Icelandic have the identical connotations.


Snæbjörn - 18/02/06 19:36 #

Ritual and Athöfn don´t mean excactly the same thing. Athöfn is broader: Could just mean any kind of event. But in this context it meant ritual.

Well, I just simply disagree with you. Ritual is an incredibly broad definition, not religious at all (that´s why people say: a religious ritual, not just ritual).

Ceremonies are rituals.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 19/02/06 00:23 #

Ég er sammála Hope; að vísu mundi ég ekki nota jafn sterkt orð og "detest" sjálfur, en ég sé ritúal samt sem óþarfa, allavega sé ég ekki hvaða þörf er í sjálfu sér fyrir ritúal. Á hinn bóginn þykir mér umhugsunarefni hvort menn hafi í raun þörf fyrir ritúal vegna þess að hið hversdagslega sé neikvætt og ófullnægjandi. Ég meina, ef lífið er ekki gjöfult dags daglega, reynir maður þá ekki frekar að fullnægja þörf sinni fyrir gleði á annan hátt, svo sem með ritúali, með skemmtunum eða einhverju öðru? Ég meina, ég held að ef aðstæðurnar sem við lifum við væru ekki firrtar, þá hefðum við ekki þörf fyrir ritúal. Ég held að firring sé orsökin fyrir mörgu -- ritúali, trú, þjóðrembu, kynrembu, knattspyrnudellu og ýmsu öðru. (Firringin á sér síðan orsakir í efnahagskerfinu, sem kannski er betra að ræða á örðum vettvangi...)


Ásgeir - 02/03/06 23:44 #

Ég er satanisti sjálfur, og vill bæta aðeins í þessar umræður. Þegar fólk heyrir orðið "Satan" hugsar það strax um hin kristna satan, þennan illa geit-mann sem dæmir illar sálir. Hinsvegar, þegar þessu hugtaki er beitt í Satanisma er þetta nokkuð líkt og...jah...hvít dúfa. Þetta er hugmynd, merki, ákveðin fílósófískur kjarni (afsakið þessa slettu) sem hefur þann tilgang að styrkja Satanistann. Þegar ég hugsa um Satan (þá auðvitað innan satanisma) þá sé ég sjálfan mig eins og ég vill að ég sé, satan er einskonar übermensch ímynd sem er samt ekki svo "hátt uppi" að ekki sé hægt að ná því takmarki.

"Tilhvers að hafa athafnir og þannig ef þeir eru trúleysingjar?" Þetta er góð og viðeigandi spurning. Lavey talar um "Intellectual decompression chamber" sem er hugtak sem er farið með lengra í Satanic Bible og seinna í Satanic Rituals. Þegar ég sá þetta fyrst þá hélt ég að þarna væri nú kallinn farinn út í eitthvað kjaftæði, en upp að þessu hafði mér fundist þetta alltílagi. Núna fer hann að segja mér hvernig ég á að raða kertum, hversu mikið kindablóð ég á að nota og bráðlega þarf ég bara að senda þeim litla summu, bara 20.000 kr, til að kalla fram einhvern djöful...kjaftæði.

En, aftur að þessum "þrýstiklefa" sem ég kom inn á. Kjarni þessa hugtaks, að mínu mati, er ímyndunarafl og sjálfsálfræði. Setjum upp dæmi: Þú ert svo reið(ur) út í einhverja persónu að þú ræður varla við þig. Þú veist að nema að þú gerir eitthvað þá endar þetta allt í voða. Athöfnin sjálf er einföld, að kalla fram þessa reiði og leysa hana á hátt sem meiðir engan, en hjálpar þér að losa þig við þessar tilfinningar áður en þú gerir eitthvað sem kemur þér í vandræði.

Hope, ég er sammála þér að Satanismi er ekki húmanismi, enda er húmanismi (síðast að ég vissi) ekki trúarbragð.

Hvað varðar þennan fréttaþátt á NFS þá verð ég að segja það að mér fannst þetta nú bara lélegt. Einhverjir gaurar með raddbreyti og í móðu að stama útúr sér að þetta gæti eyðilagt líf þeirra ef þetta kæmist upp? Hvernig álit fær fólk á satanistum og satanisma eftir þetta? Að þetta séu einhverjar rottur sem læðast til að dýrka djöfulinn svona þegar þeir hafa tíma og svo lengi sem enginn sér til? Hinsvegar fannst mér talsmaður CoS komu þessu frá sér skýrt og greinilega.

Þetta er orðið alveg nógu langt. En ég get nú sagt það fyrir mína hönd að ég hef ekki framkvæmt neinar athafnir, drukkið afhelgað messuvín né dansað um í einhverjum kuflum. Hvað er það við satanismann sem...jah...kveikir svona í fólki? Þessi tengsl við neikvæðna kristnu eiginleika? Fjölmiðlaumfjöllun?

Vonandi kemur þetta að einhverjum notum og þakka ég bara fyrir mig.

Kveðja, Ásgeir

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.