Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ömmumúslimar

Hér á þessu vefriti höfum við stundum talað um ömmupresta. Þá eigum við við þá sjálfskipuðu helgislepju sem prestar Þjóðkirkjunnar hafa hjúpað sig margir hverjir, slepju sem gerir það að verkum að ekki má gagnrýna trú þeirra og trúarbrögð, segja fökk og sjitt í návist þeirra án þess að þeir takið það allt saman afskaplega nærri sér.

Og nota svo þau sárindi sem gagnrök.

En það eru fleiri þarna úti viðkvæmir fyrir gagnrýni á hugmyndir sínar um heiminn. Mér virðist það hreinlega vera svo að eftir því sem heimsmyndin er afkáralegri og í minni tengslum við raunveruleikann, því verr gengur mönnum að sætta sig við að aðrir séu á öðru máli , gagnrýni eða geri gys að þessum hugmyndum.

Við höfum ferskt dæmi úr samtímanum þar sem er viðkvæmni múslima fyrir því að gert sé grín að Múhameð. En eins og Frelsarinn bendir á í nýlegri grein sinni eru hér á landi okkar við lýði lög sem hreinlega banna að skopast sé með tiltrú manna á yfirnáttúru hvers konar, ef menn hafa myndað um hana löglegt trúarbragðafélag. Það er því nokkuð undarleg staða sem hinn almenni borgari lendir í, þegar hann ætlar að furða sig á þessari viðkvæmni hinna miðausturlensku, að komast að því að þessu sé ekkert öðruvísi farið hér heima. Guðlast er glæpur.

Sem betur fer var lagafrumvarpi Blair og félaga á breska þinginu hafnað, en það hljóðaði upp á svipaða hluti. Breskir grínistar með Rowan Atkinson í forystusveit mótmæltu þessari skerðingu á tjáningarfrelsinu svo stíft að íhaldsþingmenn og sumir í flokki Blair féllust á að þetta væri tóm tjara.

En múslimar hafa hingað til ekki þurft á lagasmíð að halda til að koma í veg fyrir að hinar óraunsæju hugmyndir þeirra fái frið, því hverri tilraun til gagnrýni og gríns hefur af hálfu hinna sárreiðustu þeirra verið svarað með hótunum um manndráp og annað ofbeldi. Þeir hafa terroríserað okkur til að halda kjafti.

Ég fagna þeirri umræðu sem skrípómálið í Danmörku hefur fært okkur, því nú getum við endurmetið þennan guðlastþátt, bæði heima fyrir og gagnvart mannskæðum múslimum. Ég hallast að því að þegar moldviðrinu linnir hafi allir betri skilning á því hve kjánalegt það er að umbera ekki grín og gagnrýni á eitthvað sem engin leið er að verja með skynsamlegum rökum. Kannski þetta sé sú leið sem múslimskar þjóðir þurfa, til að feta sig burt frá miðaldahugarfarinu og til nútímalegs frelsis. Hugsanlegt er að sumir þessara íslamista öðlist jafnvel húmor fyrir því að gert sé grín af trú þeirra og fari að lokum sjálfir að geta gantast með menningararfinn sinn.

Þess væri í það minnsta óskandi.

Birgir Baldursson 05.02.2006
Flokkað undir: ( Hugvekja , Íslam )

Viðbrögð


Ágúst - 06/02/06 01:02 #

Þetta er ekki hugvekja, Þetta er hrollvekja!

Það er með öllu óskiljanlegt að hryðjuverk og morð sem beinast gegn borgurum í Danmörku (og kannski víðar), eins og öfgamennirnir hvetja til, séu sanngjörn og eðlileg viðbrögð í þessu máli. Bera svoleiðis viðbrögð ekki heldur merki um vitfirringu og illsku vondra manna fremur en sanngirni og umburðarlyndi réttlátra manna?

Finnst þessum öfgasinnuðu trúarleiðtogum þessar skopmyndir annarsvegar og hryðjuverk og morð hinsvegar eitthvað til að leggja að jöfnu? Ætla þeir að kynna okkur siðferðishugmyndir trúarbragða sinna (og menningar), OG múslima í heild sinni, þannig (kynna okkur sig þannig)? Eigum við að læra að líta á það sem eðlilegt að menn séu réttdræpir fyrir slíkar skopmyndir, þótt þær geti með réttu verið kallaðar ósmekklegar og óviðeigandi og kyndandi undir fordóma? Hafa þessir menn engan annan mátt en ofbeldisfulla illsku til að beita fyrir sig? Of harkaleg viðbrögð (frá þeirra hálfu) er það sem raunverulega kyndir undir fordóma, því þar liggur gild ástæða fyrir fordómum! Umheimurinn fór ekkert að taka afstöðu fyrr en viðbrögðin komu. Eflaust hafa lesendur hlegið af myndunum, síðan skeint sig á blaðinu og búið.

Þeir koma okkur fyrir sjónir (oft hefur maður orðið þess var að fólk grípur þá mynd) (kynna sig) eins og vitfyrtir villimenn skjótandi upp í loftið af hríðskotabyssum, grýtandi grjóti, kveikjandi í byggingum og brennandi fána (með krossinum, trúartákni okkar og vanvirða okkar trú með því, allt í lagi brennið hann bara, engin dauðasök, ef Guð er til þá dæmir hann(eða er ekkert traust á hann?)). Gerið heldur mótmæli vegna stríðsreksturs gegn ykkur, það er miklu skiljanlegra og samúð okkar (að minnsta kosti íslendinga) er með ykkur þar múslímar, en svertið ekki mynd ykkar fyrir augunum á okkur því að af því hlýst augljós hætta (fordómar, fyrirlitningin).

Viljum við ekki hafa það þannig að menn taki ekki lögin í sínar eigin hendur, heldur sé gert út um misklíð hjá dómara (því allt annað er stríðsátök) (við reynum að starfrækja stofnun eins og Sameinuðu þjóðirnar og við höfum alþjóðadómstóla)?

ÉG freistast til að taka það fram að ég get ekki talið að þessir öfgafullu trúarleiðtogar geti talist miklir spekingar. Í mínum augum (OG FLEIRI) eru þeir af sorphaug menningarinnar og hluti af þeirri hættulegu meinsemd sem kemur í veg fyrir að þjóðir geti lifað í sátt og samlyndi og lifandi dæmi þess að illskan (Satann (sönnun á tilvist þess illa)) á sér bólstað í hjörtum mannanna. HLUTI AF! Hitt gæti verið í okkar ranni (vestræna heimsins með alla sína útþenslu og hræsni).

Og! Hafa ekki Hamassamtökin verið að biðla til Evrópusambandsins um að halda áfram með fjárstuðning sinn til Palestínu, eftir sigur þeirra í þingkosningunum, þótt þau séu bendluð við hryðjuverkastarfsemi og vilja ekki viðurkenna Ísrael? Er þá þetta við hæfi: ,, Einn af helstu leiðtogum Hamassamtakanna, Mahmoud Zahar, segir í blaðaviðtali í dag að skopmyndirnar séu ófyrirgefanlegar og dauðasök.”? Þetta á ekki samhljóm við gildismat okkar vesturlandabúa þótt menn hér séu tilbúnir að draga í efa réttmæti myndbirtingarinnar.

Er það merki um að vera siðmenntaður maður að vilja dæma menn til dauða fyrir að teikna myndir eða skrifa bækur? Er það ekki frekar merki um hættulegt ofstæki sem ekki getur notið náðar í augum allra ,,siðmenntaðra" manna?

Það ber reyndar að varast það að nota þetta til að fordæma alla múslima, eða að tala eða rita niðrandi um þá. Múslímar almennt eiga að njóta virðingar og mannréttinda, en ofstæki og óréttlæti hvaða menningarhópi sem tilheyrir er óþolandi.

Við verjum og viljum tjáningarfrelsið, en það er með það eins og allt annað frelsi; allt frelsi er eðlilegt, verjandi og sjálfsagt að vissum mörkum en þar umfram er það taumleysi vonds siðferðis og eðlilegt að það veki viðbrögð, en viðbrögðin verða að vera innan eðlilegra skynsemismarka og eins og siðmenntuðu fólki sæmir. Í skjóli frelsisins er fólki leyfilegt að hafa viðbrögð, en öllu frelsi fylgir ábyrgð og fólk þarf að þekkja þau mörk sem liggja á milli frelsisins og taumleysisins. Lifið heil og í friði.

En annars Birgir, af hverju koma ekki viðbrögð við þessari annars ágætu grein þinni? Er þetta nokkuð skýring:

Þeir hafa terroríserað okkur til að halda kjafti.

Ef það er skýring, þá ætla þeir að hefja sig yfir okkur fremur en að líta á okkur sem jafningja. Ráðskast og drottna fremur en vera bróðurlegir. Sú skylda hvílir alveg eins á okkur að vera bróðurlegir við þá, en ólgan í heiminum gerir mönnum erfitt fyrir með að sýna hver öðrum traust.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 06/02/06 01:20 #

Mér finnst skína í gegn um þetta allt saman hvað íslam er sterkur þáttur í samkennd fólks í þeim heimshluta sem kenndur er við íslam. Kristni er ekki það stór þáttur í sjálfsmynd Evrópumanna að við kippum okkur sérstaklega upp við það þegar hún er gagnrýnd (nú tala ég sem Evrópumaður, ekki sem trúleysingi), og fyrir vikið vörum við okkur kannski ekki á því hvað margir múslimar taka þetta persónulega. Þar við bætist pólitískt samhengi. Það getur vel verið að Jyllandsposten hafi ekki gengið annað til en að skerpa á málfrelsinu, en það sem gerðist -- og þeir hefðu svosem getað sagt sér sjálfir að mundi gerast -- var að fjöldi múslima leit á þetta sem árás á sig og það er heldur ekki skrítið miðað við áðurnefnt pólitískt samhengi. Fyrir utan þetta er annað að gerast sem mér finnst flækja málið og gerir þetta allt saman ennþá ergilegra. Frjálslyndir Vesturlandabúar (eins og ég sjálfur) hafa gjarnan verið haukar í horni fyrir íbúa Miðausturlanda og annarra sem eru á öfugum enda heimsvaldastefnunnar. Á meðan heimsvaldasinnar hafa rekið heimsvaldastefnu í öðrum heimshlutum hafa þeir sem hafa andæft henni einkum verið (a) heimamenn á viðkomandi svæði og (b) and-heimsvaldasinnaðir Vesturlandabúar, sem hafa meira og minna verið frjálslyndir. Með þessu máli eru frjálslyndir Vesturlandabúar m.ö.o. settir í klípu: Hvort eiga þeir að halda í frjálslynd viðhorf um tjáningar- og málfrelsi, eða standa með þeim sem að er vegið, semsé múslimum? Ég veit ekki hvað skal segja um þetta. Ég get ímyndað mér að það hlakki í sumum. Sarkozy, innanríkisráðherra Frakklands, reis öndverður gegn öllu tali um að þetta væri óhæfa. Hann sagði að málfrelsi væri hornsteinn vestrænnar menningar og lýðveldisskipulags. Sama sagði einhver breskur diplómati sem var í viðtali í fréttum Sjónvarpsins. Sá lét það fylgja að fyrir þetta frelsi -- málfrelsið -- hefðu menn barist og dáið og það yrði aldrei gefið eftir með góðu. Í sjálfu sér er ég sammála þessu sjónarmiði sem fram kom hjá þessum tveim herramönnum, en ég tortryggi þá samt vegna þess að ég efast um að þeir tali svona vegna frjálslyndishugsjóna. Þeir eru fulltrúar valds sem vill aðallega ekki gefa eftir frammi fyrir þessum kröfum -- jæja, ég skal ekki fullyrða um þennan diplómata sem ég þekki ekkert, en Sarkozy er fulltrúi afla sem vilja meiri og sterkari valdstjórn, meira eftirlit, hörku gagnvart innflytjendum (sbr. uppreisnina í Frakklandi í haust) -- hann er að tala sem töffari, ekki sem frjálslyndur. Þegar frjálslyndir standa frammi fyrir því að vestrænir íhaldsmenn -- þeirra klassísku andstæðingar -- eru allt í einu sammála þeim í þessu máli, en náttúrlegir bandamenn -- íbúar hins íslamska heims -- virðast vera gjörsamlega á öndverðum meiði, þá þykir mér ástæða til að staldra við og spyrja hvað sé eiginlega á seyði. Nú þekkjum við, sem búum við víðtækt málfrelsi, hvað það er gott að geta sagt nokkurn veginn það sem manni sýnist. Við höfum fæst samanburðinn, þar sem fæstir hafa verið sviptir málfrelsi, en ég leyfi mér samt að álíta að við kunnum að meta þetta -- vitum hvað málfrelsi er gott. Í London sást mótmælaskilti sem á stóð "til fjandans með málfrelsið". Hvað meinar maðurinn? Mér verður helst hugsað til Jesú á krossinum þegar hann bað guð að fyrirgefa mönnunum sem vissu ekki hvað þeir gerðu.


Thor K - 08/02/06 19:09 #

Jyllandposten hafnaði fyrir nokkrum misserum skopteikningum um Jesú. Ritsjórinn meinti að þær gætu misboðið lesendum og væru auk þess ekki fyndnar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.