Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Jesús og hjónabandið

Erindrekar Þjóðkirkjunnar hafa nýverið gripið til þess ráðs að vitna í Jesús Jósefsson til að réttlæta mismunun gegn ákveðnum hópi íslendinga. Til dæmis skrifar Sigurður Ægisson í grein um hjónabandið á trú.is:

Það er alkunna, að Jesús Kristur breytti ýmsu af því sem í Gamla testamentinu eða öðrum bókum gyðingdóms hafði verið skrifað, bjó til nýjar áherslur. Og þegar ritningargreinar stangast á eru orð hans ávallt látin ráða á kostnað hinna. Um það er ekki deilt.

Einhverra hluta vegna mælti hann samt þetta fram athugasemdalaust, sem greint er frá í Matteusarguðspjalli 19:5-6:

„Hafið þér eigi lesið, að skaparinn gjörði þau frá upphafi karl og konu og sagði: „Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni, og þau tvö skulu verða einn maður.“ Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður.“

Gott og vel, Jesús sagði að maður ætti að bindast konu og þau skulu verða einn maður. Hjónabandið er semsagt, að mati Sigurðar og fleiri, einungis fyrir karl og konu, samkynhneigð pör þurfa að fá einhverja aðra blessun.

En gengur það virkileg upp að vitna í Jesús Jósefsson til að réttlæta á stefnu Þjóðkirkjunnar varðandi hjónaband á 21. öldinni? Skoðum fleiri tilvitnanir í Krosslaf.

MT10:37 Sá sem ann föður eða móður meir en mér, er mín ekki verður, og sá sem ann syni eða dóttur meir en mér, er mín ekki verður. Hver sem tekur ekki sinn kross og fylgir mér, er mín ekki verður.

Lúkas 9:59-62 ...við annan sagði hann: "Fylg þú mér!" Sá mælti: "Herra, leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn." Jesús svaraði: "Lát hina dauðu jarða sína dauðu, en far þú og boða Guðs ríki." Enn annar sagði: "Ég vil fylgja þér, herra, en leyf mér fyrst að kveðja fólk mitt heima." En Jesús sagði við hann: "Enginn, sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur, er hæfur í Guðs ríki."

MT 28:19Sannlega segi ég yður: Þegar allt er orðið endurfætt og Mannssonurinn situr í dýrðarhásæti sínu, munuð þér, sem fylgið mér, einnig sitja í tólf hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels. Og hver sem hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, föður eða móður, börn eða akra sakir nafns míns, mun fá margfalt aftur og öðlast eilíft líf. En margir hinir fyrstu munu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir

Nú spyr ég, er þessi maður, Jesús Jósefsson, virkilega einstaklingur sem mark er á takandi þegar rætt er um fjölskyldugildi hér á Íslandi á 21. öld? Samræmast þessar tilvitnanir fjölskyldustefnu Þjóðkirkjunnar? Ef ekki, af hverju telja erindrekar hennar í lagi að vitna í Jesús til þess að réttlæta mismunun gegn samkynhneigðum en láta svo eins og hann hafi ekki verið til þegar þeir fjalla um fjölskyldugildi?

Skoðum eina tilvitnun enn að lokum:

LK 20:34 Jesús svaraði þeim: "Börn þessarar aldar kvænast og giftast, en þeir sem verðir þykja að fá hlutdeild í komandi veröld og upprisunni frá dauðum, kvænast hvorki né giftast.

Hinkrið við, hvað er hann að segja? "þeir sem verðir þykja að fá hlutdeild í komandi veröld og upprisunni frá dauðum, kvænast hvorki né giftast". Samkvæmt þessu orðum Jesús Jósefssonar munu einungis þeir ógiftu komast til himna. Samt giftir Þjóðkirkjan fólk svo þúsundum skiptir.

Matthías Ásgeirsson 02.02.2006
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 02/02/06 09:06 #

Matti minn þetta er allt saman ljóðræn myndlíking sem ekki ber að taka bókstaflega heldur skoðast í Ljósi Krists..... hóst,hóst


Matti (meðlimur í Vantrú) - 02/02/06 11:57 #

Ég bíð spenntur eftir svari Sigurðar við spurningu minni á trú.is.

Jú, ætli það verði ekki að skoða þetta í ljósi krists, nema þegar það ljós hentar ekki :-)


Árni Þór - 02/02/06 13:33 #

Annar sem hefur tjáð sig um hjónabandið er Páll Postuli. Hann hefur mjög skemmtilegar skoðanir á því, þ.e. að menn eigi bara helst ekki að ganga í hjónaband ef þeir geta komið því við.

"Giftist ekki, heimsendir er í nánd"

ágætis slagorð fyrir nýja fjölskyldustefnu, ekki satt? :)


mofi - 02/02/06 13:36 #

MT10:37 Sá sem ann föður eða móður meir en mér, er mín ekki verður, og sá sem ann syni eða dóttur meir en mér, er mín ekki verður. Hver sem tekur ekki sinn kross og fylgir mér, er mín ekki verður.

Hvað hefurðu á móti þessu? Guð vill að við setjum Hann í fyrsta sætið og ég sé ekkert að því.

Lúkas 9:59-62 ...við annan sagði hann: "Fylg þú mér!" Sá mælti: "Herra, leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn." Jesús svaraði: "Lát hina dauðu jarða sína dauðu, en far þú og boða Guðs ríki." Enn annar sagði: "Ég vil fylgja þér, herra, en leyf mér fyrst að kveðja fólk mitt heima." En Jesús sagði við hann: "Enginn, sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur, er hæfur í Guðs ríki."

Hérna er Kristur aðeins að segja að við eigum að kveðja gamla lífið og horfa fram á við. Þú ert kannski að lesa það út úr þessu að viðkomandi þarna mátti ekki kveðja fjölskyldu sína en það er ekki þarna.

MT 28:19Sannlega segi ég yður: Þegar allt er orðið endurfætt og Mannssonurinn situr í dýrðarhásæti sínu, munuð þér, sem fylgið mér, einnig sitja í tólf hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels. Og hver sem hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, föður eða móður, börn eða akra sakir nafns míns, mun fá margfalt aftur og öðlast eilíft líf. En margir hinir fyrstu munu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir

Hérna er Kristur aðeins að lofa þeim sem misstu eitthvað mikilvægt úr lífi sínu til að sinna sinni köllun, hver sem hún er, að þeir munu fá það bætt.

LK 20:34 Jesús svaraði þeim: "Börn þessarar aldar kvænast og giftast, en þeir sem verðir þykja að fá hlutdeild í komandi veröld og upprisunni frá dauðum, kvænast hvorki né giftast. ... Hinkrið við, hvað er hann að segja? "þeir sem verðir þykja að fá hlutdeild í komandi veröld og upprisunni frá dauðum, kvænast hvorki né giftast". Samkvæmt þessu orðum Jesús Jósefssonar munu einungis þeir ógiftu komast til himna. Samt giftir Þjóðkirkjan fólk svo þúsundum skiptir.

Hvernig væri að lesa eitthvað í samhengi og reyna aðeins á þetta sem er þarna uppi með hárinu á? Þarna er Kristur að svara spurningunni um hvernig þetta verður á himnum og þar mun fólk ekki kvænast og giftast.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 02/02/06 15:02 #

mofi kominn í grænsápuna!


mofi - 02/02/06 16:29 #

mofi kominn í grænsápuna!

Aðeins að lesa hlutina í samhengi.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 02/02/06 16:29 #

Þú verður að muna það, mofi, að Jesús safnaði kringum sig hópi lærissveina akkúrat með þessum hætti, þeir stóðu upp frá verkum sínum og fylgdu honum, köstuðu fiskinetum til hliðar og fóru aldrei aftur til fjölskyldna sinna.

Dæmigert fyrir sjálfskipaðan költleiðtoga, enda var Jesús ekkert annað, hafi hann á annað borð verið til.

Þessar skýringar þínar, að þetta eigi bara við um andlegt viðhorf, en ekki það að menn yfirgefi fjölskyldr sínar í alvöru, eru því rangar, eins og sést best á guðspjöllunum sjálfum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 02/02/06 16:30 #

Hvað með það samhengi að Biblían var skrifuð fyrir nær 2000 árum og því lítið mark að taka á því sem þar er ritað um hjónabandið og siðferði?


Jón Valur Jensson - 02/02/06 16:36 #

Matthías og þið hin, sæl. – Já, Mattías hyggst reiða hér hátt til höggs: Hann telur sig geta afsannað það, að kristnir menn eigi að hlíta leiðsögn Krists og fyrirsögn um það, hverjir megi ganga í hjónaband, með því að benda okkur á, að þá ættum við allt eins að hlýða fyrirmælum Krists um aðra hluti, t.d.: "Sá sem ann föður eða móður meir en mér, er mín ekki verður, og sá sem ann syni eða dóttur meir en mér, er mín ekki verður." Sem sé: Ef við viðurkennum ekki réttmæti þessara orða hans, þá eigum við heldur ekki að fara eftir orðum hans og postula hans sem snerta samkynhneigða. En eins og Mofi bendir á, þá eru þessi orð Krists fullkomlega gild og sönn. Jesús Kristur er enginn Jósefsson nema að uppeldinu til; Jesús Kristur er Drottinn okkar og Guð (Jóh.20.28). M.a.s. eru himnarnir og jörðin verk handa hans (Hebreabréfið, 1.10; hér er engin metafóra, allt er hér bókstaflega meint, nema þar sem talað er um hendur hans, því að Guð Faðir og hinn eilífi Guðssonur hafa engar hendur, en hins vegar er okkur sjálfum gagnlegt að tala í slíkum myndlíkingum, vitandi þó alltaf, að þetta eru einungis myndlíkingar). Og Guði hljótum við að lúta fremur en foreldrum okkar. Þótt maður elski móður sína meira en alla ókunnuga samanlagða, á maður samt að elska Krist heitar en hana og fylgja honum og hans boði, ef það rekst á boð foreldra manns. Þetta er einfaldlega kristindómur, herrar mínir, sem trúir kristnir menn fylgja. Undantekningarnar á þeirri eftirfylgd við Krist eru vissulega margar á meðal okkar, en Guð dæmir það, hygg ég, mildilega, nema um alger svik við hann sé að ræða: þá lætur hann okkur eftir að aðskilja okkur frá honum.

Það var heldur engin "grænsápa" (kattarþvottur var það orð, sem notað var um þetta í mínu ungdæmi), sem fram kom í svari Mofa varðandi orð Krists um að fólk muni ekki kvænast og giftast í himnaríki. Þau orð Krists eru bókstaflega sönn, en rökrétta niðurstaðan af þeim er ekki sú, að einungis ógiftir menn fái inngöngu í ríki Guðs. Nú, af hverju er það ekki niðurstaðan? Jú, Kristur segir einungis, að menn kvænist ekki þar né giftist; hann segir ekki, að þeir sem þegar eru kvæntir og giftist komist þangað ekki. Til að taka mark á þessum orðum Krists þarf því ekki (eins og Aivaz heldur) að varpa frummerkingu þeirra fyrir róða og taka þau í staðinn í e-i þokuguðfræðilegri meiningu sem "ljóðræna myndlíkingu." Og það er heldur engin grænsápa að útleggja orðs Krists hér eins og við Mofi gerum, heldur kórrétt textarýni.

Ergo: Hér gefst mönnum engin átylla til að halda því fram, að fáránlegt sé að taka mark á orðum Krists um, að hjónabandið sé fyrir karl og konu, út frá því að hann hafi sagt eitthvað, sem samræmist engan veginn heilbrigðri fjölskyldustefnu hér á Íslandi á 21. öld. Orð hans samræmast vissulega kærleika okkar til foreldra okkar. En Guði ber að fylgja framar en mönnum, enda eigum við honum miklu meira að þakka en foreldrum okkar og öðrum ástvinum. – Með góðri kveðju.


Jórunn Sörensen (meðlimur í Vantrú) - 02/02/06 16:49 #

Í allri þessari umræðu um samkynhneigð og giftingu þeirra í kirkju er gagnlegt að gera sér grein fyrir því hve mjög hin hellensku fræði runnu saman við hina rómversku kristni. Menn skulu ekki gleyma því að það þurfti lög í Grikklandi hinu forna sem skylduðu karla til þess að ganga í hjónaband með konum og geta með þeim börn. Annars hefðu þeir ekki gert það - fylgisveinar þeirra nægðu þeim fullkomlega.


Jón Valur Jensson - 02/02/06 16:56 #

Matti, hvernig væri að laga til setningu þína í stutta póstinum áðan og skoða hana svo aftur í eftirfarandi ljósi: "Hvað með það samhengi að Ríki Platóns og Siðfræði Nikomakkusar eftir Aristoteles voru skrifuð fyrir nál. 2500 árum og því lítið mark að taka á því sem þar er ritað um hjónabandið og siðferði?"

Fullyrðingin er fáránleg, enda hvílir hér allt of mikill þungi á einu orði: "því" = þess vegna. Hár aldur á einhverju ritverki er aldrei einn sér eða í sjálfum sér ástæða til að hafna gildi þess. Verum harðir á rökfræðinni, strákar.


Jón Valur Jensson - 02/02/06 17:04 #

Jórunn mín, ertu svo viss um þessa frásögn þína? Gættu þess, að "gríska syndin," sem svo var kölluð (homosexualismus), var aldrei eign alþýðustéttanna, heldur yfirstéttarinnar og betur megandi meistara í iðngreinum o.fl. og kom þar ekki til af góðu – m.a. vegna einberrar hjátrúar á það, að hæfileiki meistarans eða t.d. herforingjans gengi áfram til námssveinsins í gegnum sæðið. Þokkaleg hjátrú það, eða þurfum við að vænta þess, að Vantrúarmenn fari að verja þvílíkar bábiljur, bara vegna þess að þær eru ekki kristnar?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 02/02/06 17:05 #

Hár aldur á einhverju ritverki er aldrei einn sér eða í sjálfum sér ástæða til að hafna gildi þess.

Þegar um siðferði er að ræða gildir þetta, Jón Valur, enda er siðferði mannsins í stöðugri framför og þróun.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 02/02/06 17:23 #

Ég hefði nú viljað hafa þetta með:

Lúkasarguðspjall 14:26 ,,Ef einhver kemur til mín og hatar ekki föður sinn og móður, konu og börn, bræður og systur og enda sitt eigið líf, sá getur ekki verið lærisveinn minn.

Eins og Biggi sagði þá er aldurinn ekki ástæðan fyrir því að ekkert mark sé á siðferðisboðskap Bibburnar takandi, heldur það að siðferðið er orðið miklu betra núna. Sbr:

Hvað með það samhengi að Efnafræði 101 var skrifuð fyrir nær 2000 árum og því lítið mark að taka á því sem þar er ritað efnafræði?

Þokkaleg hjátrú það, eða þurfum við að vænta þess, að Vantrúarmenn fari að verja þvílíkar bábiljur, bara vegna þess að þær eru ekki kristnar?

Nei, hvernig dettur þér það í hug. Við gagnrýnum fleira heldur en kristni á þessari síðu. Hefur það alveg farið fram hjá þér?

En annars er þetta ekkert heimskulegra heldur en margt í kristninni þinni td, þrí-einn guð eða breyting brauðs í hold Jesús. En sú bábilja!


Jón Valur Jensson - 02/02/06 17:39 #

Nei, Matti, þetta gildir alls ekki, enda eru mörg dæmi þess, að siðferði manna sé í átakanlegri afturför. Alveg sama þótt Hjalti gangi fram á völlinn bróður sínum til aðstoðar og haldi þessu fram: "að siðferðið er orðið miklu betra núna". – Þið úreldið hvorugur siðfræði Platóns og Aristotelesar með almennum úreldingarfrösum, heldur með rökum, ef þið hafið þau. No shortcuts, please, no substitutes for real argument. Og það tekur lengri tíma en að fylla einn smákassa á tölvuskjánum.

Hjalti vill svo í lokin leiða talið að öðru. Ég kveð.


Jón Valur Jensson - 02/02/06 17:45 #

Nema hvað ég bið sérstaklega að heilsa Birgi, sem ég kallaði þarna óvart Matta.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 02/02/06 17:45 #

Jón, við erum að tala um siðferði þar sem þrælahald var eðlilegur hlutur. Er það fram- eða afturför að hafa afnumið þrælahald?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 02/02/06 17:51 #

Ég legg á það áherslu að spurningu minni er beint að þjóðkirkjupresti, ekki kaþólikka eða sjöunda dags aðventista.

Eftir stendur að Jesús Jósefsson hvetur menn til að yfirgefa konur og börn og fylgja sér frekar. Sú hvatning passar einfaldlega alls ekki við það sem Þjóðkirkjan segist standa fyrir. En reyndar er oft erfitt að átta sig á því hvað hún stendur fyrir.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 02/02/06 17:56 #

Nei, Matti, þetta gildir alls ekki, enda eru mörg dæmi þess, að siðferði manna sé í átakanlegri afturför.

Að þínu mati kannski, enda ertu flæktur í fordómafull ritnigarvers aftan úr forneskju. Viðurkenning á samkynhneigð, viðurkenning á kynlífi utan hjónabands, afnám þrælahalds, aukin réttindi kvenna, viðurkenning á rétti fólks til trúfrelsis og og trúleysis, allt eru þetta atriði sem bera í sér siðferði sem stendur framar fordómunum í Biblíunni.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 02/02/06 18:06 #

Það besta siðferði sem við þekkjum felst í því að menn hafi frelsi til að gera hvað sem hugur þeirra stendur til, svo fremi að þeir valdi ekki öðrum skaða. Tvær fullorðnar manneskjur sem ekki eru í hjónabandi gera engum öðrum skaða þótt þær hafi mök. Biblían fordæmir ekki hluti sem gera öðrum skaða (þrælahald og kúgun kvenna t.d.) heldur styður slíkt.

Það er afkáraleg hegðun og skaðleg að hanga í slíku siðferði, en innræting trúarinnar í samfélaginu sér þó til þess að fólk eins og þú, Jón Valur, sérð ekki út um augun þegar kemur að þessum hlutum.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 02/02/06 18:14 #

Svo ég árétti nú aðeins þetta glæsta siðferði sem ég lýsi hér að ofan með dæmi:

Það er ekkert annað en rennibrautarrökvilla að halda því fram að viðurkenning á kynlífi samkynhneigðra muni draga siðferði okkar niður á það plan að brátt verði sjálfsagt og eðlilegt að taka sér börn til fylgilags, nú eða dýr. Það hefur sannarlega verið sýnt fram á skaðann sem hlýst af því að eiga kynferðislega við ófullþroska einstaklinga og dýr geta heldur ekki gefið upplýst samþykki sitt fyrir mökum. Slík mök flokkast því undir ofbeldi og hið glæsta siðferði sem ég kynni hér að ofan mun aldrei ná til þessara hluta.


Eva - 02/02/06 21:03 #

Halló Mofi

Enn annar sagði: "Ég vil fylgja þér, herra, en leyf mér fyrst að kveðja fólk mitt heima." En Jesús sagði við hann: "Enginn, sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur, er hæfur í Guðs ríki."

Hérna er Kristur aðeins að segja að við eigum að kveðja gamla lífið og horfa fram á við. Þú ert kannski að lesa það út úr þessu að viðkomandi þarna mátti ekki kveðja fjölskyldu sína en það er ekki þarna.

-Hvuslags rugl er þetta eiginlega? það er víst þarna. Gæti ekki verið mikið skýrara.


mofi - 03/02/06 13:05 #

Það er afkáraleg hegðun og skaðleg að hanga í slíku siðferði, en innræting trúarinnar í samfélaginu sér þó til þess að fólk eins og þú, Jón Valur, sérð ekki út um augun þegar kemur að þessum hlutum.

Málið er að við vitum ekki upphafið og endann á því hvenær aðgerðir einhvers skaða þá sem eru í kringum hann. Þetta með samkynhneigða er trúarlegt atriði og þeir sem trúa þessu eiga að hafa rétt til að trúa því og þeir sem trúa þessu ekki eiga að hafa rétt á því líka.

-Hvuslags rugl er þetta eiginlega? það er víst þarna. Gæti ekki verið mikið skýrara.

Hæ Eva,

Mér finnst þannig túlkun vera út í hött og veit ekki um neinn kristinn sem hefur tekið þessu þannig þótt dæmin séu kannski til. Ég sé aðeins að Kristur er að vara manninn við því að hans fjölskyldu meðlimir gætu verið mótfallnir þessu en hann á að fylgja sinni sannfæringu og kveðja sitt gamla líf. Sumir segja "lesa í ljósi Krists" en ég myndi frekar segja "lesa í samhengi var annað sem Kristur sagði", svo að hægt sé að skilja hlutina í samhengi. Biblían kennir engann veginn að við ættum að hafna fjölskyldu okkar en hún segir hiklaust að við eigum að velja Krist frekar en fjölskylduna ef staðan er þannig.

Smá varðandi grænsápuna, ég er aðeins á því að Biblían sé lesin og skilin í samhengi. Einnig að það sem verið er að lesa sé skilið eins og það var skrifað. Biblían er saman safn af handritum margra manna og sumt var skrifað ljóðrænt og þá á það að vera skilið sem svo, annað er hluti af mannkynssögunni og annað fjallar um andleg málefni.


Ormurinn - 08/02/06 14:32 #

"Smá varðandi grænsápuna, ég er aðeins á því að Biblían sé lesin og skilin í samhengi. Einnig að það sem verið er að lesa sé skilið eins og það var skrifað. Biblían er saman safn af handritum margra manna og sumt var skrifað ljóðrænt og þá á það að vera skilið sem svo, annað er hluti af mannkynssögunni og annað fjallar um andleg málefni."

Mikið er þetta heppileg afstaða.


JónValur Jensson - 12/02/06 06:30 #

Þetta er raunsönn afstaða hjá Mofa. Sum ritin eru að miklu leyti sagnfræði, s.s. Króníkubækurnar o.fl., aðrar óefanlega í ljóðaformi, t.d. Predikarinn, Sálmarnir og Ljóðaljóðin. En það þýðir ekki, að viðkomandi rit séu ekki með raunveruleika-innihald. Ljóðaljóðin geta virzt vera einna fjærst því, en ef þau eru það, sem kirkjan hefur talið þau vera, ljóðræn samlíking Guðs og Ísraels eða kirkjunnar, þótt umbreytt sé úr veraldlegu ljóði, þá er þetta heldur ekki innihaldlaust. Alls staðar í Ritningunni er samt bókstafurinn, orðin, setningarnar og samhengið burðarvagn merkingar Guðs til okkar. Án "bókstafsins" í þeirri merkingu er Ritningin ekkert. Bókstafurinn eða öllu heldur merking þess, sem skrifað er, er einfaldlega það sem skilningur okkar þarfnast. Þetta er ekki eitthvað í lausu lofti, við eigum ekki að fanga hið kristna líf og kristna trúarvitund með einhverri schleiermacherskri tilfinningu (sem oft verður bara okkar eigin tilfinningasemi), heldur er merkingin í því, sem skrifað stendur (og því tökum við við í trú, vegna þess að við trúum Guði/Kristi/vitnisberum hans). Þeir kristnir menn, sem telja sig ekki vera bókstafstrúarmenn í þessari merkingu, eru einfaldlega á villugötum. – En athugið, að þið getið ekki jafnað þessu við fundamentalisma, en megið hins vegar kalla það literalisma í þessari skilgreindu, allvíðu merkingu.

Annars hef ég engan tíma (haft) til að svara ykkur, bræður.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.