Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sárir órökhyggjumenn

Fjölmiðlar greina frá sármóðguðum múslimum sem ætla að beita Dani efnahagsþvingunum um leið og menn brenna þjóðfánann þeirra, allt út af því að spámaðurinn þeirra var hafður í flimtingum í dönsku dagblaði. Hér höfum við enn eitt dæmið um þá skaðsemi sem trúarhugmyndir hafa á samfélagið, með allri þeirri barnalegu viðkvæmni sem orsakast af því að aðhyllast svo einfeldningslegar lífsskoðanir sem trú manna færir þeim. Sárindin eru hálmstrá þess sem ekki getur varið hugmyndakerfi sitt af neinu gagni.

Uppfært: Ný birtingarmynd málsins hér.

Birgir Baldursson 30.01.2006
Flokkað undir: ( Vísun )

Viðbrögð


Rafaugað - 31/01/06 17:04 #

Ég held að það verði að skoða þetta mál aðeins víðara og í samhengi. Það er ekki bara um trú - það vill svo til að "við" (Danir, USA, etc.) erum í árásarstríði við "hina" (múslima). Múslimar eru minnihlutahópur í Danmörku sem á í mjög erfiðri baráttu við að fá að vera til. Mér finnst þetta meira í ætt við kynþáttamóðgun en einhvers konar trúargagnrýni. Ég lít frekar á að trúin hafi verið notuð til að niðurlægja fólk, ekki að höfundar grínsins hafi verið að "gagnrýna" islam - enda hafa þeir enga ástæðu til.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 31/01/06 17:09 #

Ég lít frekar á að trúin hafi verið notuð til að niðurlægja fólk,

Eru ekki heittrúaðir múslimar að nota trúna til að æsa fólk upp til átaka þessa dagana?


Rafauga - 31/01/06 17:44 #

Sem réttlætir hvað? Auk þess hafa þjóðir þar sem ríkjandi trú er islam margar hverjar fullkomlega réttmætar ástæður til að vera æstar, til dæmis þær sem eru hernumdar. Jyllandsposten eða mogginn mundi aldrei birta myndir af þessu tagi með myndum af Jesú eða Guði. Það er eitt aðalatriðið - þetta er ekki vantru.dk, þetta er ekki trúargagnrýni heldur ósanngjörn tilraun til að mála þjóðir og heila menningu sem ofbeldisfulla og ömurlega. Menning múslima er nákvæmlega ekkert verri að þessu leyti en kristinna.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 31/01/06 17:54 #

Hver er að tala um að réttlæta eitthvað? Slakaðu á!

Ég var að lýsa ástandinu í dag. Eru ekki heittrúaðir múslimar að nota trúna til að æsa fólk upp gegn Danmörku og Noregi?

Hér hefur engu verið haldið fram um menningu múslima og þú finnur því miður lítið af gagnrýni á íslam á þessari vefsíðu.


Rafaugað - 31/01/06 18:21 #

Ég er bara að reyna koma þeirri hugmynd á framfæri að trúin sem slík sé aukaatriði. Við skulum segja að trúlaus þjóð væri hernumin, fólkið sallað niður og skilið eftir í rústum. Íhaldsblað birtir myndir þar sem trúleysingjar koma fram sem siðlausir níðingar "enda eru þeir allir þannig" (lestu bara spjallvefina). Væri hægt að æsa hina trúlausu?

ps. Ekki virða skoðanir annarra - en virtu annað fólk.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 31/01/06 18:35 #

En hvernig passar þessi hugmynd, um að trúin sé aukaatriði í þessu máli, við það að múslimar í mörgum löndum sem ekki eru hernumin bregðast svona hart við. T.d. í Íran, Saudi Arabíu og ýmsum Evrópulöndum, þar með talið Danmörku. Ertu viss um að með þessu sé ekki verið að leita að afsökun? Ég er ekki að segja að svo sé, en ég útiloka það ekki. Það er ekki eins og þetta sé í fyrsta skipti sem reiðialda brýst út meðal múslima útaf einhverju gvuðlasti vesturlandabúa.

Afskaplega margt fólk tengir virðingu fyrir manneskju við skoðanir eða trú, því miður. Það sést afar reglulega á Vantrú þar sem við erum sökuð um fordóma því við vogum okkur að setja út á hugmyndir og skoðanir.


Rafauga - 31/01/06 18:55 #

Jájá, fólk upplifir sjálft sig sem hluta af heild, þjóð osfr. á marga vegu: litarhaft, tungumál, siðir af ýmsu tagi, og já trú. Ég held að margir múslimar hafi upplifað þetta sem árás á sig, þó að svona abstrakt séð sé hægt að halda því fram að svo hafi ekki verið, heldur bara smá trúargrín. Ég er auðvitað ekki að segja að það megi bregðast við með morðhótunum og slíku, en ég kýs að trúa því að það sé ekki í raun vilji tugmilljóna.

Við lesum ekki lengur teiknimyndasögur þar sem svertingjar eru allir eins og stórvaxin börn. Ég held að þetta hafi verið upplifað á einhvern sambærilegan hátt.

En ókei ég ætlaði svosem aldrei að fara að verja trú sem slíka. Bara þetta er svolítið flókið...


Sævar Helgi - 31/01/06 20:54 #

Með sömu rökum væri hægt að halda því fram að Life of Brian með Monty Python hafi verið uppfull af rasisma.

Ég sé nákvæmlega engan rasisma í þessum myndum heldur aðeins trúargagnrýni. Ekki veitir þessum drullusokkum af að fá smá skerf af gagnrýni - uppspretta hryðjuverka og eintómra vandræða er bæði kristin trú og íslömsk. Það er bara allt í lagi að gagnrýna slíkt.


Pétur Björgvin - 01/02/06 09:59 #

Takk fyrir að taka þessa umræðu upp hér Birgir. Er sannfærður um að við megum ekki láta eins og þetta sé einhver saklaus brandari. Sjálfum þykir mér afskaplega miður að fjölmiðlar skuli hafa tekið sig til og birt þessa niðurlægjandi mynd af spámanninum. Hér verða þeir sem flokka má í "kristinn menningarheim" að taka sig á.

Hvers vegna þykir mér það miður? Jú vegna þess að ég ímynda mér að fyrir einstaklingi sem þykir vænt um sína íslömsku trú hafi myndin sært hann á svipaðan hátt og ég hefði verið særður ef birst hefði niðrandi mynd af móður minni í dagblaði.

Hitt er að mér þykir einnig miður hvernig þetta tilvik virðist ætla að skapa alvarlega milliríkjadeilur. Hér verða þeir sem flokkast í "íslamskan menningarheim" að taka sig á.

Enn og aftur sjáum við hér dæmi þess að deilur milli ríkja fara af stað af því að einstaklingar úr báðum hópum hafa ekki velt fyrir sér áhrifum þess sem þeir gera inn í "hinn menningarheiminn". Því verður aldrei of seint undirstrikað mikilvægi þess að allir þjálfi eigin fjölmenningarfærni.

Of einfalt þykir mér að segja að hér sé augljóst dæmi um skaðsemi trúarhugmynda á samfélagið. Trú er einn þáttur menningar og við vitum öll betur en svo að vilja halda því fram að sá þáttur sé svo ofurstór í mótun menningar að hægt sé að benda á hann sem einstakan þátt þegar spurt er um orsakir og afleiðingar.

Að lokum þetta: Sem betur fer eigum við enn í heimi hér einstaklinga sem geta komið fram af barnslegri einlægni og sýna óhræddir tilfinningar sínar og viðurkenna þegar þeim sárnar. Í þjóðfélagi lífskjarakapphlaups og peningadýrkunar eru þetta mikilvægir eiginleikar sem viðhalda mýkt og dýnamík í samfélaginu sem jafnvægi við þann ískulda sem stundum mætir manni í viðskiptaheiminum.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 01/02/06 21:47 #

Ég sé ekkert að þessum teiknimyndum og ég skil ekki hvernig Rafaugað getur lesið úr þessu árás á fólk.

En síðan er náttúrulega spurning um hvort fólkið sé ósátt við að birta myndir af Múhameð yfir höfuð eða þá að gera grín af honum.

Mér finnst að við ættum að koma fram við trúarskoðanir alveg eins og við komum fram við stjórnmálaskoðanir. Ætti ekki að banna skopmyndir af stjórnmálamönnum af því að það gæti sært fólk? Auðvitað ekki.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 02/02/06 00:02 #

Mér sýnist meginpunkturinn hjá múslimunum vera sá að það megi ekki birta myndir af Múhameð yfir höfuð, hvort sem þær eru háð eða ekki. Þetta er einhver trúarsetning sem snýr algerlega að þeim sjálfum, en ætti í raun ekki að koma öðrum við. Það væri ferlegt ef menn létu svona uppsteyt og ógnanir hafa þau áhrif að við sem teljumst heiðin í þeirra augum förum að hlýða reglum þeirra.

Það væri svona svipað og ég færi að láta kenninsetningar gyðingkristninnar breyta þeirri hegðun minni að horfa með girndarhug á eiginkonur annarra. Ég ákskil mér til þess fullan rétt og ber fyrir mig þróunarfræðunum. Aldrei myndi ég láta kennisetningar einhverra trúarbragða sem ég ekki tilheyri fara að stjórna mér á slíkan hátt.

Skaðsemin, Pétur Björgvin, sem felst í trúarhugmyndum þessa fólks eru augljósar. Væri það ekki með hausinn fullan af kennisetningum þessara trúarbragða væru þessir dönsku útflytjendur ekki að tapa rekstrargrundvelli sínum.


Magnús - 04/02/06 03:44 #

Mér finnst það nú pínu fyndið að gagnrýna það að menn brenni fána sem andsvar við myndum af Múhameð, sérstaklega í ljósi þess hvaða tákn er á fánanum.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 04/02/06 04:32 #

Já einmitt. Við sýnum trú þeirra vanvirðingu og á móti sýna þeir okkar trú vanvirðingu og þá eru allir kvittir og geta snúið glaðir til vinnu sinnar.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 04/02/06 06:25 #

Með því að brenna þjóðfána Danmerkur hitta þeir reyndar ennþá betur í mark en það. Ég held að krossinn á fánanum sé nú aukaatriði, en hitt skipti meiru að fáninn er tákn fyrir þjóðernið. Sá sem skilgreinir sjálfan sig sem múslima fyrst og fremst tekur kannski árás á íslam sem árás á sig -- en sá sem skilgreinir sjálfan sig sem Dana fyrst og fremst tekur árás á danskt þjóðerni sem árás á sig! Þannig er árás á falska sjálfsmynd svarað með annarri árás, á aðra falska sjálfsmynd. Mjög viðeigandi.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 04/02/06 11:59 #

Já. En hvað maður er heppinn að þurfa hvorki að burðast með trúarviðkvæmni né þjóðerniskennd, heldur getur horft á þetta af hlutlausum sjónarhóli og gert á því félagsfræðilega úttekt. :)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.