Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Skemmdirnar

Þegar þessi grein birtist á forsíðu Vantrúar er að fara í loftið á Rás eitt þátturinn Lóðrétt eða lárétt, sem öðlingurinn og gáfumennið Ævar Kjartansson stýrir. Þessi þáttur var tekinn upp á föstudaginn var, en þá tók Ævar á móti okkur Jórunni Sörensen. Þetta var hin besta skemmtun og þarna gafst mér loks tækifæri til að hitta Jórunni í eigin persónu. Upptakan fór fram í einni beit og nokkurn veginn allt látið standa eins og það kom af kúnni. Við reyndum að halda umræðunni í þeim farvegi að ræða lífsviðhorf trúlausra fremur en gagnrýna trúarskoðanir, en náðum samt aðeins að lauma inn smá krítík.

En það var eitt sem böggaði mig allan tímann sem viðtalið tók. Málið er nefnilega það að þessi stöðugu varnarviðbrögð trúmanna sem svara gagnrýni okkar hér og felast í að afgreiða málflutning okkar sem ofstækisfullan, eru greinilega farin að skemma mig. Allan tímann sem ég sat þarna og talaði í míkrófóninn var ég stöðugt að fylgjast með því sem kom út um munninn á mér: „Er þetta sem ég er að segja núna ofstækisfullt? Ætli Ævari finnist þetta ofstækisfullt? Ætli þjóðinni ofbjóði ofstækið í mér?“

Svo byrjaði þetta að brjótast út í óhugnanlegri málvöndun, eins og vandlega valin orðin yrðu á einhvern hátt til þess að breiða yfir allan ofstopann.

Ég er ekki nógu ánægður með það að trúmenn hafi náð að slá svona rækilega á fingurna á mér að ég geti ekki lengur tjáð mig hispurslaust um það sem hugarstarfið framleiðir. það gengur ekki að maður byrji að trúa þeim sem afgreiða málflutning manns á þennan þægilega hátt, til að þurfa ekki að færa rök fyrir máli sínu.

Þessi tilfinning er síður en svo ný af nálinni, hefur í raun fylgt mér alveg frá því ég byrjaði að tjá mig um trúmál hér á netinu, enda byrjuðu trúmenn strax að hreyta í mann þessari öfga- og ofstopa-afgreiðslu. Fyrir ári sá ég meira að segja ástæðu til að blogga um þessa upplifun mína:

Ég velti stundum fyrir mér hvort í augum hins almenna borgara sé einhver munur á Vantrú og vefsíðum íslenskra þjóðernissinna. Stundum tekst nefnilega andstæðingum mínum í trúmálaþvarginu næstum að koma inn hjá mér þeirri tilfinningu að ég sé á einhvern hátt jafn heimskur og þvermóðskufullur og þetta nasí lið og málflutningur minn sé af sama meiði.

Aldrei hef ég séð færð fullnægjandi rök fyrir því að kalla mig ofstopafullan. Þegar menn hafa jafnað sig á fyrsta sjokkinu við að sjá trú sína afgreidda á jafn hispurslausan og blátt áfram hátt og við höfum tamið okkur hér á Vantrú, sjá þeir að engu slíku er til að dreifa í málflutningi okkar. Hann er á tíðum harkalegur, en það er líka ærið tilefni til.

Rökin fyrir því að tala hreint út koma upphaflega frá Páli Skúlasyni heimspekingi, sem sagði í inngangi að bók sinni Siðfræði að skoðanir manna væru ekki einkamál þeirra og að ekki væru allar skoðanir jafn réttháar. Og þannig er það líka. Sumar skoðanir eru hættulegri en aðrar og í raun borgaraleg skylda hvers manns að gagnrýna þær skoðanir sem hann telur skaðlegar.

Það gerir biskup Þjóðkirkjunnar í það minnsta þegar hann segir trúleysi ógna mannlegu samfélagi. Engum er greiði gerður með því að hann pukrist með þá skoðun sína á okkur, því ef hún er rétt er eins gott að fólk fái að heyra hana. Og þegar slík skoðun hefur verið gerð ljós getur hver fyrir sig metið rökin á bak við hana og tekið til hennar afstöðu.

Á sama hátt og biskup gagnrýnir okkur gagnrýnum við hann. Þeim skoðunum okkar teljum við nauðsynlegt að varpa fram og fá við þeim viðbrögð, láta meta rökin og fá gagnrök til að skoða. Þessi háttur er í raun hreyfiafl framþróunar og framfara, því eftir því sem málin eru betur rædd, því betur gengur okkur að varpa frá okkur vitlausum hugmyndum um veröldina og koma okkur upp nýjum og betri.

Ofansagt er auðvitað aðeins skoðun mín. Verið getur að einhverjum finnist hún röng, eða jafnvel fádæma vitlaus. Sá hinn sami verður þá auðvitað að láta mig vita af þeirri afstöðu sinni og færa fyrir henni rök, svo ég hafi eitthvað að vinna með. Ekki bara hrópa „Ofstækismaður“.

En þeir sem vilja afgreiða skrif mín sem ofstækisfull verða þá að fallast á það að málflutningur biskups Þjóðkirkjunnar sé það líka, því dómar okkar yfir hugmyndakerfum hvors annars eru svipaðir. Mínir eru þó heldur betur rökstuddir ef eitthvað er.

Ég held að þennan ofstækisstimpil fáum við sem hér skrifum fyrir það eitt að vilja hefja til vegs og virðingar gagnrýna umræðu um trúarbrögð. Slíkt hefur tæpast mátt fram til þessa, enda hafa menn löngum sveipað óraunsæjar trúarskoðanir sínar einhverri viðkvæmnishulu. Og það er í raun skondið að þeir sem þola ekki gagnrýni okkar og krefjast þess að við látum málið (og jafnvel vefinn) niður falla eru að gagnrýna okkur nákvæmlega jafnharkalega og við gagnrýnum trú þeirra.

Af hverju mega þeir en ekki við?

Rök hinna upphrópandi og viðkvæmu eru bara svo sorglega fátækleg að við getum ekki annað en haldið áfram. En djúpt í sálartetrinu hefur samt kviknað eitthvert hugsanaferli sem trúir áfellisdómunum - ritskoðunarforrit sem síðan hamlar frjálsu flæði hugmynda.

Hugarskemmd.

Kæru trúmenn sem hafið móðgast yfir einhverju því sem ég hef sagt, vinsamlegast hættið nú þessum sleggjudómum sem ganga ekki út á annað en klisjuna um ofstækið. Ef ekki má ræða ákveðna hluti opinskátt hamlar það vegferð okkar í átt að fullkomnara samfélagi. Það er ábyrgðarhluti að reyna að kæfa niður raddir sem ykkur finnst óþægilegar með ógeðfelldri stimplun og útskúfun. Ykkur væri nær að reyna að hrekja bara málflutninginn, því aðeins þannig tekst ykkur að fá mig og þau hin sem hér skrifa til að hætta þessu.

En þangað til munum við halda því fram fullum fetum að trú og trúarbrögð séu skaðleg samfélaginu og leggja það stöðugt til að menn og konur láti af þessum vitleysisgangi og hætti að ýta undir það að hugarstarf annarra verði undirlagt þessu kjaftæði.

Birgir Baldursson 29.01.2006
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


dagný - 29/01/06 10:02 #

góðan daginn var að hlusta á spjallið og fannst þetta merkilegt innlegg í trúarumræðuna. allt of oft er litið framhjá þessum möguleika sem raunhæfum valkosti í samfélagi okkar sem nánast er gegnsýrt af trú á einhvern óskiljanlegan og óhöndlanlegan guð! takk fyrir það


Sævar - 29/01/06 12:51 #

Er hægt að nálgast þetta viðtal á netinu?


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 29/01/06 18:46 #

Hér er grein Páls Skúlasonar, þar sem hann er að tala um alvöru umburðarlyndi gagnvart skoðunum annarra.


Sigurður Hólm Gunnarsson - 29/01/06 21:20 #

Ég var að hlusta á þáttinn Birgir. Þið stóðuð ykkur bæði frábærlega! Það var nákvæmlega ekkert “ofstækisfullt” við ykkar málflutning! Mér finnst alltaf skemmtilegt að hlusta á þig ræða um trúarbrögð Birgir því talmáti þinn er svo ólíkur ritmálinu.

Þú hefur oft verið gagnrýndur fyrir “ofstæki” hér á þessum síðum og eins og ég hef sagt við þig persónulega að mér finnist “tónninn” í greinum þínum óþarflega harður stundum sem getur, að mínu mati, fælt fólk frá því að ræða af yfirvegun um trúmál.

Þegar þú talar ertu hins vegar yndislega yfirvegaður og að mínu mati afar sannfærandi. Það er kannski svolítið annað að tala við menn eins og Ævar en að rökræða við bókstafstrúarmenn :)

En alla veganna þá kemur þú mjög vel fyrir í útvarpi. Það getur enginn sakað þig um “ofstæki” þar! :)


Ágúst - 30/01/06 22:53 #

Ég er ekki nógu ánægður með það að trúmenn hafi náð að slá svona rækilega á fingurna á mér að ég geti ekki lengur tjáð mig hispurslaust um það sem hugarstarfið framleiðir.

Þú ert frjáls maður og átt bara að nota frelsi þitt á ábyrgan og viturlegan hátt. Ef þú ferð ekki illa með frelsi þitt þá hefur enginn heimild til að leggja einhver bönd á þig.

Það mest pirrandi við ,,handhafa hins guðlega” er sú forræðishyggja sem þeir viðhafa. Þeir lesa bókstafinn og hrópa ,,svona en ekki hinsegin, svo segir Guðs orð sem stendur hér hreint og klárt”. Eitt skírasta dæmið er hommafobian. Það er talað um þá viðurstyggð þegar tveir karlmenn leggjast saman, en athugið: Orðið ,,samkynhneigð” kemur ekki fyrir og það er ekki minnst á konurnar. Samkvæmt því ætti það ekki að vera synd þótt tvær konur leggist saman! Eða eiga menn allt í einu að fara að gera einhverjar útfæringar?

Forræðishyggjan flokkast ekki undir gott siðferði, vegna þess að hún hefur tilhengingu til að svipta manninn frelsi sínu. Gott siðferði er í grunnþáttum: réttlæti, ást (kærleikur) og frelsi. Siðferði mun ekki ná eðlilegum vexti nema að menn virði þessa þætti. Skynsemi er mikilvægur þáttur til að menn geti valdið því en annar, og jafnvel mikilvægari, er sá sem menn nefna kærleika.

Til að fá menn, eða hvetja, til að viðhafa gott siðferði er hægt að setja fram als kyns boð og bönn með leiðbeinandi hætti um hegðun og umgengni við náttúru og menn . Sá tilgangur hefur, að minnsta kosti, að einhverju leyti verið tilgangur þeirra sem rituðu helgirit þjóðanna. Í því ljósi er heppilegra að lesa gömul helgirit (siðbætandi leiðarvísir), en aftur óheppilegt að nota þau sem ástæðu til ósiðlegrar hegðunar eða verka.

Að lokum: Rétt skoðun er reyst á grunni þekkingar (á grundvöll í traustum veruleika), en röng kemur ekki heim og saman við veruleikann, en aftur vafasöm er sú skoðun sem menn geta ekki staðsett sökum þekkingarskorts. Þær skoðanir sem eru vafasamar en samt réttar eru þær skoðanir sem menn hafa ekki fengið sannanir (þekkingu) fyrir.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 31/01/06 01:52 #

Það er talað um þá viðurstyggð þegar tveir karlmenn leggjast saman, en athugið: Orðið ,,samkynhneigð”...

Ekki í þessu versi, nei. En Páll postuli talar um menn sem brenna í losta hver til annars (samkynhenigð) og á þeim hvílir dauðasök.


Orri - 01/02/06 02:54 #

Elsku Biggi. Ég held að efasemdir þínar um framsetningu á skoðunum þínum séu eðlilegar og þroskamerki. Og stöðug sjálfskoðun er alltaf holl og greindarmerki.

Ég held nefnilega að maður geti presenterað sínar skoðanir með ýmsum hætti, sérstaklega ef maður er vel máli farinn eins og þú.

Þess vegna þarft þú ekki að upplifa það sem einhvern aulagang, kjánahroll eða afturhaldshátt að þú skulir vera varkár í orðavali og hugsa aðeins áður en þú talar.

Mér finnst það bara gott mál og getur verið effektívara þegar ná á til annarra, sem standa fyrir utan vantrúarköltið.

Sumir á vantrú vanda sig ekki einu sinni í rituðu máli. Vaða bara áfram af hvatvísi.

Þú ert þeim flestum framar, enda ekki bara trúlaus - heldur líka afspyrnu greindur.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 01/02/06 06:15 #

Ég er reyndar á því að allir sem skrifa á Vantrú séu afspyrnugreindir. Ég hallast að því að greind sé ekki fasti heldur dýnamískt fyrirbæri og ástundun gagnrýninnar hugsunar hífi upp greindarstigið.

Og svo er ég á því að ég hafi ekkert verið óviðurkvæmilegur í framsetningu skoðana minna um trúmál. Hugtök eins og hryðjuverkamenn hugans, töfralæknar og moðhausafræði eru einfaldlega tilraun mín til greiningar á viðfangsefninu. Mér þykja hins vegar margir trúmenn helst til vikvæmir fyrir þessu, nógu viðkvæmir til að blása upp moldviðri út af orðanotkuninni og sleppa þannig alveg við að svara rökunum sem fylgja.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.