Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þögn frjálslyndu þjóðkirkjuprestanna

Undanfarna daga hefur verið mikil umræða um furðulega afstöðu Þjóðkirkjunnar til hjónabanda samkynhneigðra. Það er óþarfi að fara ítarlega í þá sálma hér því um þetta hefur töluvert verið skrifað á Vantrú [Sjá: Á öskuhaugana með siðinn hans Kalla! , Biskup Þjóðkirkjunnar, óvæntur bandamaður , Karl biskup berst gegn trúfrelsi ]

Vantrúarseggir eru iðulega ranglega sakaðir um fordóma gagnvart trúmönnum. Búin er til sú skrípamynd af okkur að við séum þeirrar skoðunar að allir trúmenn séu fordómafullir fávitar. Þetta er að sjálfsögðu glórulaust. Langflestir trúmenn eru skynsamt fólk þegar kemur að öllu öðru en trúmálum og ég veit að upp til hópa er trúað fólk heiðarlegt og góðviljað.

Ég veit líka að innan Þjóðkirkjunnar starfar fjöldi frjálslyndra presta og djákna sem sér ekkert því til fyrirstöðu að gifta samkynhneigða og þykir sá gjörningur á engan hátt jafngilda því að "kasta hjónabandinu á sorphaugana". Á kirkjuþingi árið 1986 voru þessi mál síðast rædd af alvöru. Djákni nokkur sagði eftirfarandi í athugasemd á heimasíðu minni fyrir rúmum tveimur árum:

... Kirkjuþing hefur tekist á við málefni Samkynhneigðra, t.d. var 7. mál á kirkjuþingi 1996 greinargerð starfshóps um þau mál. Þar er lagt til að helgisiðanefnd útbúi ritual um bæn og blessun fyrir samkynhneigt fólk sem staðfest hefur samvist sína. Jafnframt er lagt til að kannað verði hvort samkynhneigð pör geti fengið vígslu í kirkju, en settur fyrirvari um að það feli hugsanlega í sér skuldbindandi aðgerð fyrir forstöðumenn annarra trúfélaga sem er hugsanlega óæskilegt. Þá var auk þess lögð til aukin fræðsla um málefni samkynhneigðra í kirkjunni. Kirkjuþing fagnaði þessari skýrslu og þakkaði hana mjög og vísaði henni áfram til Kirkjuráðs og hugðist taka málið upp aftur að ári. Niðurstaða næsta árs var að auka fræðslu um samkynhneigð innan kirkjunnar, en aðrar hugmyndir voru horfnar að mestu úr ályktuninni. Fræðslan hvarf svo sem einnig. Málið hefur ekki komist upp á borð síðar að ég best veit, enda allt púður kirkjuþinga síðan farið í innra endurskipulag. Það er ljóst að málefni samkynhneigðra voru kæfð í kirkjunni, því verður ekki neitað.

Það er ljóst af orðum djáknans að umræða um málefni samkynhneigðra hefur lögð til hliðar innan þjóðkirkjunnar síðan 1996. Í því ljósi er grátbroslegt að Biskup biðji um umhugsunarfrest um þessar mundir.

Nýlega skrifaði sami djákni færslu í annálinn sinn þar sem hann hundskammar Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra fyrir að hafa ekki þessu títt ræddu heimild til trúfélaga inni í frumvarpinu sem fram hefur verið lagt á þingi. Ég sakna þess að heyra ekki álíka skammir til biskups þessa dagana.

Annan í jólum heyrði ég áræðanlega frásögn af presti sem kom afar vonsvikinn heim af kirkjuþingi sökum þess að málefnum samkynhneigðra hafði verið stungið undir stól enn og aftur. Það er því alveg ljóst í mínum huga að það er hellingur af frjálslyndum prestum og djáknum í Þjóðkirkjunni. Fólki sem er tilbúnið, þegar í dag, til að gefa saman samkynhneigð pör. Það vantar einungis lagaheimild.

En hvar er þetta fólk í dag? Það heyrist ekki bofs frá þeim eftir yfirlýsingar biskups. Hvorki hósti á trú.is né stuna á annálum guðfræðinganna. Hefur biskup virkilega svona mikið ægivald, gugnar frjálslynda liðið þegar á reynir - þorir það ekki að rugga bátnum af hræðslu við að missa sénsinn á góðu brauði?

Ég lýsi eftir frjálslyndu prestunum og djáknunum, látið í ykkur heyra. Leiðréttið þann misskilning biskups að það þurfi frekari umhugsunartíma fyrir þetta sjálfsagða mál. Það hefur verið til umræðu hjá Þjóðkirkjunni í að minnsta kosti tíu ár. Það þarf ekki að grafa málið í nefnd til að heimila trúfélögum þennan gjörning.

Á ég að trúa því að þetta séu, þegar öllu er á botninn hvolft, bara ríkisstarfsmenn sem eru hræddir um að missa bitlinga ef þeir styggja yfirmann sinn!

Matthías Ásgeirsson 08.01.2006
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Guðrún Hrönn - 08/01/06 09:40 #

sko... málið er að þetta er ekkert einfalt mál. AÐ leyfa fólki af sama kyni að ganga í heilagt hjónaband stangast á við mikilvæga kenningu krikjunnar. Það að skylja við maka sinn er allt annað mál. Það er leyfilegt ef framhjáhald er inn í myndinni.

Og með frjálslyndu prestanna þá verð ég að segja að mér finnst þeir haga sér eins og aumingjar. Þeir eru ekki aumingjar en haga sér þannig. Ég veit ekki betur heldur en sonur eins þeirra sé hommi og þess vegna sé hann svona mikið með þessu.


Snæbjörn - 08/01/06 19:36 #

Ef við mættum ekki gera neitt sökum þess að það stangaðist á við heilaga kenningu í biblíunni þá mættum við ekki gera andskoti margt. T.d. raka á okkur skeggið. (Það er bannað í Jesajabók). En þetta sýnir náttúrulega hvað það er fáranlegt að reyna að gera löngu dauðum sérvitringum eitthvað til geðs.


Halldór E. - 10/01/06 04:52 #

Ég get sagt að mér þykir leiðinlegt að biskup hafi þá afstöðu sem fram kemur í orðum hans. Afstaða mín í þessu máli er ljós og skýr og kemur fram í orðum mínum víða á annál og í ummælum á ýmsum síðum. Ég sé hins vegar enga sérstaka ástæðu til að bregðast við orðum biskups, enda er það gagnslaust.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 10/01/06 08:25 #

Ég sé hins vegar enga sérstaka ástæðu til að bregðast við orðum biskups, enda er það gagnslaust.

Það er kannski rétt hjá þér Halldór. En ég tel að þessi skortur á viðbrögðum virki sem vatn á myllu biskups. Það er satt að segja afar erfitt að sjá, útfrá umræðunni í dag, að það séu mjög skiptar skoðanir innan Þjóðkirkjunnar. Það er vissulega sagt frá því að svo sé, en hinar raddirnar heyrast lítið sem ekkert.

Vissulega er það ákveðið sjónarhorn að það þurfi að halda friðinn, en ég tel að stundum sé nauðsynlegt að fórna friðnum þegar málstaðurinn er góður.


Torfi - 20/01/06 15:45 #

Þetta er nú ekki alveg rétt hjá þér Matti. Það eru margir prestar sem hafa komið fram með aðrar skoðanir en þær sem biskup hefur sett fram. Mest áberandi hefur Bjarni Karlsson verið. Þá var Sigfinnur Þorleifsson í sjónvarpinu um daginn ásamt með Bjarna og harmaði ummæli biskups. Auk þess skrifuðu prestvígð systkin (starfandi prestar) grein í Fréttablaðið í gær og lýstu stuðningi sínum yfir tillögu Guðrúnar Ögmundsdóttur um heimild trúfélaga til að gefa samkynhneigða saman í hjónaband. Auk þess tók biskupsritari fram í hádegisfréttum útvarps í dag að yfirlýsingar biskups væru alls ekki skoðun kirkjunnar - og setti þannig óbeint ofan í við biskup. Ég er sammála þér í því að það er fjöldi þjóðkirkjupresta sem eru ósammála biskupi og vilja þessa heimild. Yfirlýsing hans í nýársræðunni var mjög óheppileg og til þess falin að valda ágreiningi innan kirkjunnar. Hann vildi forðast átök innan hennar, en varð þar með valdur að átökum.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 22/01/06 16:09 #

Mér fannst nú að prestarnir hafa flestir komið fram eftir að Matti skrifaði greinina. Lesa kannski Vantrú betur en þeir játa.


Halldór E. - 27/01/06 15:24 #

Ég vil líka benda á áberandi þögn innan kirkjunnar til stuðnings orða biskups. Þannig hafa mjög fáir prestar lýst yfir stuðningi við orð hans. Þar er kannski helst að telja sr. Sigurð Pálsson kollega hans úr Hallgrímskirkju, sem varar við að orð biskups séu oftúlkuð og síðan þessa 3-5 presta sem skrifa undir trúfélagayfirlýsinguna. Það virðast fáir aðrir bakka hann upp, nema þá Steinunn og maðurinn hennar, enda miklir heimilisvinir biskupshjóna til margra ára. Ég er reyndar í BNA og sé ekki allt sem skrifað er, en þessi skortur á stuðningi við biskup hjá starfsfólki þjóðkirkjunnar virðist sláandi.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 27/01/06 16:00 #

Já, stuðningur við Biskup kemur úr óvæntri átt um þessar mundir. Kannski ágæt vísbending um það fyrir hvaða hóp biskup talar, hann ætti kannski að hafa það í huga Karlinn.

Sigurður Pálsson, sem Halldór nefnir, skrifar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann styður biskup og Geir Waage hefur lítið haft sig frammi eftir áramót en mætti þó í Kastljós og mælti gegn þessu frjálsræði öllu saman. Annars hef ég ágætar heimildir fyrir því að umsjónarmenn Kastljóssins hafi þurft að leita vel og lengi áður en þeir fundu Þjóðkirkjuprest sem var andvígur hjónaböndum samkynhneigðra og tilbúinn að koma í sjónvarp og ræða þá skoðun sína.

En eflaust má segja að þögnin sé ekki bara hinna frjálslyndu.


Halldór E. - 27/01/06 17:03 #

Það er rétt, ég las Moggann áður en ég fór að sofa í gær, það var víst blaðið í dag. Tímamunurinn og brenglaður svefntími gerir mann tímavilltan.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.