Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Bábiljuslagsíða: Hvað er trú?

Það er kominn tími til að útlista hvað rökhyggja á eða á ekki skylt með trú og hvað átt er við með orðinu trú. Rökhyggjufólk trúir ekki í þeirri merkingu að það fallist á órökstuddar staðhæfingar, heldur trúir það einungis því sem stutt er með rökum. „Trú“ rökhyggjumannsins heitir rökstudd sannfæring og þarf að vera studd gildri röksemdafærslu.

Hins vegar hefur orðið trú öðlast merkinguna „sannfæring úr lausu lofti gripin“, sannfæring án raka, án stuðnings, bara trú. Þess vegna forðumst við hér á Íslandi að nota orðið trú yfir sannfæringu okkar og notumst frekar við önnur orð eins og ég veit, ég held, ég tel, ég er sannfærður, ég er handviss o.s.frv. Hugtakið trú hefur nefnilega þessa leiðinlegu bábiljuslagsíðu fasta við sig.

Þegar rökhyggjufólk í enskumælandi löndum notar „belief“ um sannfæringuna sína, þá er oft átt við rökstudda sannfæringu. Trúfólk vill hinsvegar meina að „belief“ sé alltaf og ávallt án raka eða stuðnings. Rökhyggjufólkið þar hefur hinsvegar náð að koma því við að nota enska orðið yfir að trúa í þessari merkingu. Það er kannski út af því að það er ekki mikið svigrúm í tungumálinu til þess að nota önnur orð yfir það að vera sannfærður.

Annars er merkingarmið trúar allt of mikið á reiki. Sérstaklega þegar prestarnir reyna að útskýra það. Þá vilja þeir hallast að því að skilgreina rakalausa trú alveg eins gilda og rökstudda trú. Til þess einmitt að vefja ruglið sitt inn í bómull svo það fái á sig ásýnd einhvers skynsamlegs. Svona „kasta-sand-í-augun-og-ræna-af-þér-vitinu“ taktík einhver.

Hérna liggur nefnilega munurinn á orðunum faith og belief í ensku. Faith er alltaf tiltrú án rökstuðnings, von um það sem ekki er auðið að sjá, meðan belief getur auðveldlega náð yfir álit sem byggt er á traustum grunni.

Trúaða liðið ruglar iðulega saman þessum tveim hugtökum eftir hentugleika. Þegar við gagnrýnum faith og segjumst ekki hafa slíkt túlka þeir það sem svo að við séum að gagnrýna belief og að við viljum ekki gangast við því að hafa svoleiðis. Svo segja þeir: „Allir hafa trú, enginn getur verið trúlaus, trúleysi er ákveðin gerð trúar.“

Við erum, eins erlendu rökvinir okkar, ekki „belief“-laus, en við erum „faith“-laus. Svo er bara að koma því inn í hausinn á prestahjörðinni.

Kári Svan Rafnsson 07.01.2006
Flokkað undir: ( Vísindi og trú )

Viðbrögð


Svanur Sigurbjörnsson - 08/01/06 21:28 #

Ég deili með þér Kári Svan þeirri hugsun að nafnorðið "trú" eða sagnorðið "að trúa" eru ekki nægilega vel skilgreind. Það fer meira eftir samhenginu hvað mælandi eð höfundur skrifa á við og því er hætt við að það valdi misskilningi.

Meira að segja samsetta sögnin að "trúa á" eithvað er stundum ekki ekki í tengslum við trú á æðri mátt. T.d. "Hann trúði á vísindin" sem í þessu samhengi merkir að hann setji traust sitt á þau. Íslenskan er því hálf ónýt hvað þetta varðar. Fyrir vikið fær maður á sig (trúlaus maðurinn)glósur eins og; "þú ert ekki trúlaus, þú trúir á trúleysi!" Duhhh, þetta getur gert mann brjálaðan.

Ég held að það sé best að reyna að útrýma notkun á orðunum "trú" og "að trúa" eða "trúa á" á öðru en fyrir trú á æðri mátt, þ.e. merkingu í beinum tengslum við trúarbrögð. Í stað þess að segja "ég trúi að best sé að fylgja vísindalegri aðferð" komi "ég aðhyllist vísindalega aðferð og húmanisma" eða "ég treysti á vísindin sem besta kostinn til þess að komast að staðreyndum lífssins".

Enskan er sjálfu sér ekkert betri. Samkvæmt Merriam-Webster orðabókinni er nafnorðið "belief" oftast í merkingunni "sannfæring" eða "hald" og þarf ekki að fela í sér algera vissu líkt og á við um nafnorðið "faith". "Belief" er þó hægt að þýða sem "trú" þó að sú þýðing ætti oftar við um "faith".

Þegar komið er svo að sögninni "to beleive in" verður málið aftur flóknara og það er hægt að þýða bæði sem "að trúa á" eða "að aðhyllast" og er notað af bæði trúlausum og trúuðum einstaklingum. Rétt eins og í íslensku fer það eftir samhenginu hvað er átt við.

Sjálfsagt verður þessu ekki breytt fyrr en trúlausir fara að hafa meiri áhrif á menningu okkar en nú er. Það væri kærkomin framför í tjáningu manna á milli ef að tungumálin yrðu skírari hvað þetta varðar.


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 09/01/06 03:10 #

Já satt segir þú Svanur. Svona hugtakaruglingur er ekkert nema fátækur annmarki á tungumálinu. Þessi hugtakalosungur gerir orðin klunnaleg og minna nothæf. Og vissulega fer þetta eftir því samhengi sem orðin eru sett í, eins og þú segir. Það er sniðugt hvernig þú hefur sett það upp til skýringar.

Og það er sjálfsagt fyrir okkur rökhyggjufólk að geta skilgreint hvað við meinum með þau hugtök sem við notum og laga um leið notkun orða í samfélaginu. Þannig að ef og þegar fjöldi okkar rökhyggjumanna verður orðin nógu stór þá fari skýr merkingarmið að einkenna þau orð sem töluð eru í okkar tungumáli.

Það er fyrsta verkefni að vera meðvitaður um manns eigin orðanotkun og merkingarmið þeirra hugtaka sem maður notar. Fyrst að bæta sjálfan sig og síðan að bæta aðra. Það ætti að vera aðalatriði hjá okkur. Skýrt mál, skýr hugsun.


Halldór E. - 27/01/06 17:29 #

Þessi orðanotkun er flóknari en þú vilt vera að láta. Trú snýst nefnilega ekki bara um það sem við höldum, trúum, finnst. Trú er líka mótandi í atferli fólks. Í þeim skilningi talar t.d. guðfræðingurinn Tillich um Faith sem "Ultimate concern" án tillits til handanvera eða yfirnáttúru. Skv. þeim skilningi eru þeir einir "without faith"/"trúlausir" sem eru skeytingarlausir um umhverfi sitt. Þá hefur trúarlífsfélagsfræðin mismunandi nálganir á trúarbrögð (e. religion - enn eitt enska orðið), þar á meðal atferlisfræðilegar þar sem litið er til félagslegs atferlis hópa og metið út frá þeim hvort um trúarbrögð sé að ræða. Skv. þeim kenningum er auðvelt að benda á Siðmennt sem trúfélag, enda boðið upp á "ritual" og skráðar kenningar. Það sem einkennir umræðu trúleysingja á Íslandi virðist öðru fremur vera andúð á yfirnáttúru annars vegar og stofnanabundnum trúarbrögðum hins vegar. Slík nálgun væri í huga flestra enskumælandi fremur "ateisk" eða guðlaus fremur en trúlaus. Ég hef farið í gegnum þessa umræðu hér margoft og alltaf tekst mér að móðga einhvern, svo það er líklega best að hafa í huga, að best er að leyfa fólki að nota þau hugtök um sjálf sig sem það helst kýs sjálft.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/01/06 18:03 #

Hefur þér dottið í hug, Halldór, að Tillich og trúarlífsfélagsfræðin séu kannski á villigötum?

Ég hallast að því að best sé að tala annars vegar um upplýsta, rökstudda sannfæringu og hins vegar trúarsannfæringu (sem er hvorugt). Yfirnáttúran fellur klárlega undir trúarsannfæringu, en líka allt það sem menn hafa fyrir satt án þess að nein rök séu þar til grundvallar. Siðmenntarfólk byggir sannfæringu sína á því sem vitað er og rökstutt og því getur sú sannfæring ómögulega flokkast undir trú, hvað sem líður ritúölum og „skráðum kenningum“.

Trúarlífssálarfræðin ógildir hugtakið trú með því að láta það ná yfir báðar þessar tegundir sannfæringar. Og með því gerir hún okkur öll að trúmönnum, hvort sem við aðhyllumst guðdóm og aðra órökstudda yfirnáttur eða ekki.

Trúleysingi er einfaldlega sá sem ekki trúir neinu að órökstuddu máli. Sannfæring hans er alltaf rökstudd, því annars væri hann trúmaður.


Halldór E. - 27/01/06 18:18 #

Nei, trúarlífsfélagsfræðin spáir fyrir um og útskýrir ýmiskonar atferli af nokkurri nákvæmni með kenningum sínum og þær má nota til að skilja og útskýra atferli trúarhópa og hópa sem aðhyllast kenningakerfi án yfirnáttúru. Í svari þínu og umfjöllun kemur svo fram annað sígilt vandamál og það er spurningin um rökstuðning. Það er glannalegt að fullyrða að trúleysingi sé sá sem ekki trúir neinu að órökstuddu máli. Slík efasemdahyggja er ekki raunhæfur lífsmáti. Hin hliðin er svo, hvað telst fullnægjandi rökstuðningur. Gagnvart sjálfum mér hef ég ýmsar röksemdir/stuðning fyrir trúarskoðunum mínum. Mannskilningur minn og hegðun fólks í kringum mig, leiðir mig til að álikta að erfðasyndin sé raunveruleiki. Ég veit hins vegar um fólk sem hafnar erfðasyndinni þrátt fyrir að sjá rökin sem við mér blasa. Heimurinn er nefnilega ekki tæknilegt úrlausnarefni. Sannfæring, mannskilningur, trú, trúleysi fá okkur til að meta rök á mismunandi vegu.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/01/06 23:41 #

Það er glannalegt að fullyrða að trúleysingi sé sá sem ekki trúir neinu að órökstuddu máli.

Það er best að árétta það að í þessu samhengi öllu erum við að tala um aðferðir til þekkingaröflunar á veröldinni, ekki satt. Við erum ekki að tala um persónulegan hvunndag hvers og eins, heldur heimsmyndina og hvernig hennar er aflað.

Ég hefði gaman að heyra rök þín fyrir erfðasyndinni, enda fæ ég ekki séð annað en sú hugmynd sé fullkomin bábilja.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 28/01/06 00:22 #

Halldór, ég tek nú lítið mark á skilgreiningum Tillichs, til dæmis talar hans um að guð sé í rauninni "dýpt" og að hann sé tákn fyrir "Ultimate concern".

Það er rétt að það sé ýmislegt sameiginlegt með mörgum félögum og hópum og trúfélögum. Til dæmis Siðmennt og íþróttafélög. En það sem vantar er trúin á yfirnáttúru. Í staðinn fyrir að tala um trúarbrögð sem undirhóp þessara hópa er reynt að trúa trúarstimplinum á hina hópana með því að reyna að skilgreina trú með einhverjum asnalegum hætti.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 28/01/06 15:47 #

Ég tek undir orð Birgis, Halldór, hvaða rök eða vísbendingar sérð þú fyrir erfðasyndinni?


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 28/01/06 23:47 #

Þessi Tillich og trúarlífsálfræðin virðist bara að vera teyja lopan eins og aðrir trúaðir. Alveg eins og ég gerði grein fyrir í grein minni. Þeir gera hugtakið nógu losaralegt og 'flókið' svo að engin tök eru á því festandi. Ja en þá er hugtakið gagnslaust.

Þetta er grænsápuguðfræði og ekkert annað. Engin hagnast af því að gera hugtök að fararbroddi miskilnings, nema þeir sem hagnast af því að breiða skjöld miskilnings og flækingsheit yfir órökstuddu sannfæringu sína. Með öðrum orðum; Trúaðir sem vilja trúa bullið sitt. Og halda því áfram að trúa í friði án þess vera truflaðir með suðið í einhverri kaldri rökhyggju, gangrýni, bláköldum sannleika og svoleiðis óþægilegheit.

Það sem þessi skilgreinig gerir er að kalla lífskoðun sem byggist á rökstuddri trú, í raun lífskoðun sem byggist á órökstuddri trú alveg eins og hver önnur trú. Og að alvöru rökstudd trú sé og getur ekki verið annað en fullkomið skeytingarleysi. Sem er fáránlegt.

Svona 'nýstárlegar' grænsápu-skilgreiningar á hugtökum byggðar á heilagri hundalógík, hagnast aðeins þeim sem leggja átrúnað á einhverri rakalausri þvælu eða lifa á hindurvitnum, hálfsannleika og blindri trú annarra s.s Prestar, Guðfræðingar og jafnvel svokallaðir Trúarlífssálfræðingar.


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 29/01/06 00:03 #

Gagnvart sjálfum mér hef ég ýmsar röksemdir/stuðning fyrir trúarskoðunum mínum.

Ertu að meina rökvillur? Leyfðu okkur að heyra þessar ýmsu röksemdir/stuðning sem þú metur á ýmsa vegu hljóma.

Slík efasemdahyggja er ekki raunhæfur lífsmáti.

Hvað fær þig til að segja það?

Hin hliðin er svo, hvað telst fullnægjandi rökstuðningur.

Sá rökstuðningur sem smellpassar við óskhyggjuna þína væntanlega.

Mannskilningur minn og hegðun fólks í kringum mig, leiðir mig til að álikta að erfðasyndin sé raunveruleiki.

Nú hvernig fékkstu svoleiðis mannskilning og hvernig fékk hann þig til þess að samþyggja þessa niðurstöðu? Er þessi mannskilningur kannski komin í gegnum eitthvað trúaruppeldi? Í studdu máli; Hvernig fer mannskilningurinn þinn að þessu?


Halldór E. - 29/01/06 20:03 #

Birgir, ég er einmitt að tala um þekkingu/skilning á veröldinni í heild. Sá skilningur og sá nálgun sem við höfum byggir m.a. á uppeldi (trúarlegu sem og öðru), samskiptum í æsku (jákvæðum/neikvæðum). Uppeldi okkar verður aldrei aðskilið að fullu frá áliktunum sem við drögum um umhverfi okkar.

Að tala um tilraunir guðfræðinga til að skilja veruleikann út frá þeirri trú sinni að til sé Guð sem grænsápuguðfræði dæmir sig sjálft. Það er þvert á móti eðlilegt að guðfræði sem fræðigrein og raunveruleiki þeirra sem trúa á Guð sé í sífelldri mótun á sama hátt og skilningur okkar allra breytist og mótast með menntun, þroska og lífsreynslu. Þannig hefur Tillich áttað sig á að trúarhugtakið nær ekki að útskýra trúna eins og hún birtist í lífi margra sem lifa trúarlegu lífi, þannig leitast hann við að útskýra það upp á nýtt.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 29/01/06 22:18 #

Ég er að tala um hvernig þekkingar á veruleikanum er aflað. Menn eru í uppvexti varnarlausir gagnvart því upplýsingastreymi sem nánasta umhverfi dælir í haus þeirra, en vaxnir úr grasi eiga þeir að fara á stúfana sjálfir og þrautkanna hvað sé sólítt infó og hvað bábiljur.

Það sem ég hef séð til trúaðra guðfræðinga segir mér að á þessu klikki þeir allir sem einn. Og allir skoða þeir síðan fræðin sín innan frá og með ógagnrýnum hætti þegar kemur að grundvallarspurningum, enda telja þeir að þeim hafði fyrir löngu verið svarað. Það sem þeir eru að fást við er bara einhver nánari útlistun á niðurstöðum sem þeir telja að liggi fyrir, t.d. tilvist guðdómsins.

Guðfræðin mun vera á villigötum séu þessi vinnubrögð ekki tekin til athugunar og vísindaleg rannsókn tekin upp í staðin fyrir fyrirframgefnar niðurstöður.

Það er ekkert að því að kalla þetta grænsápu, en meðan hinir trúuðu neita að sjá í hverju grundvallarmunurinn á guðfræði og öðrum fræðigreinum liggur er ekki von til annars en menn hafni slíkum dómum.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.