Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Karl biskup berst gegn trúfrelsi

Undanfarið hefur farið mikið fyrir stórum orðum frá prestum um að Alþingi ætli að þvinga þjóðkirkjuna til gefa saman samkynhneigð pör. Fjölmiðlamenn hafa ekki verið duglegir við að benda á að þetta er beinlínis rangt hjá prestunum.

Það er ekki verið að neyða þjóðkirkjuna til að gera eitt eða neitt heldur á bara að veita trúfélögunum almennt heimild til að gefa saman samkynhneigð pör. Það að tala um þvinganir í þessu sambandi er bara fáránlegt. Ég gæti allt eins sagt að með því að samkynhneigðir hafi heimild til að giftast þá sé verið að neyða mig til að giftast karlmanni. Heimild er ekki þvingun.

Það sem er hins vegar alvarlegt við það hvernig prestar hafa náð koma þessu þvingunarmálfari athugasemdalaust inn í umræðuna er að það virðist gleymast hver er hér í hlutverki kúgarans. Karl Sigurbjörnsson og hans kónar eru að núna að reyna hvað þeir geta til að koma í veg fyrir að önnur trúfélög fái heimild til að gefa saman samkynhneigð pör. Það er augljóslega grafalvarlegt og í raun eru þjóðkirkjumenn hér að berjast með kjafti og klóm gegn trúfrelsi í landinu.

Ef Ásatrúarmenn eða Fríkirkjumenn vilja gefa saman samkynhneigð pör þá kemur það Karli Sigurbjörnssyni fjandakornið ekkert við. Þjóðkirkjuliðið á ekkert að vera að skipta sér af því hvernig önnur trúfélög haga sínum trúarathöfnum. Það er ólíðandi að Karl Sigurbjörnsson sé að koma í veg fyrir þetta jafnréttismál bara af því að hann lifir í fortíðinni.

Óli Gneisti Sóleyjarson 06.01.2006
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Dipsí - 06/01/06 03:03 #

Trúfrelsið á Íslandi er takmörkunum háð. Ekki það að ég má alveg trúa því að tréð úti í garði hjá mér stjórni mínu lífi og því telji ég mig ekki vera ábyrgan gjörða minna, en ég má ekki stofna trúfélag utanum þá trú mína því trúfélög verða að byggja á sögulegum og menningarlegum grunni eins og trúfélög gera í dag.

Þjóðkirkjan hefur verið hér við lýði í árhundruðir og aðrir söfnuðir eru útibú amerískra trúarfyrirtækja að mestu.

Hvergi eru til fordæmi fyrir því að kristnir söfnuðir hafi þá stefnu að gifta gay og því engin sögulegur né menningartlegur grunnur fyrir þeirri stefnu, þó vissulega megi halda því fram að kirkjan sé kristin að grunninum til, hún er bara ekki að fara eftir boðum síns guðs.

Er trúfelsi fólgið í því að segja að mjólk sé djús? Að ljúga því að fólki að guð sé sáttur við homma? Hefur þessi síða ekki talað mikið gegn grænsápuguðfræði?

Það er ekki hægt að túlka orð eins og “Eigi skalt þú leggjast með karlmanni sem kona væri. Það er viðurstyggð.” þannig að víst megi gifta gay, það meikar bara engan sens.

En ég hef svosem bent á það áður á þessum vettvangi að þjóðkirkjan giftir fráskilda og að biskup hræsnaði sem aldrei fyrr er hann lagði opinberlega blessun sína yfir hjónaband forseta vors þó svo að kauði standi jafnfætis hommum á efsta degi, enda hórkarl í biblíulegum skilningi.

Trúin á ekki að taka breytingum, orð guðs mun halda um aldir alda o.s.frv... Frekar á hún að standa í stað og deyja þegar fólk loksins gubbast til að fatta hvað hún er úreld og í litlum tengslum við nútíma siðferði.

Engum finnst Óli forseti vera hórkarl nema guði.

Engum finnst Páll Óskar vera viðurstyggð nema guði.

Það er öllum nákvæmlega sama um ríðingar náungans, nema guði.

Engum finnst það vera konu til vansæmdar að vera stuttklippt nema guði.

Engum finnst asnalegt að kona klæði sig í föt úr mörgum efnum nema guði.

Engum finnst að konur eigi að þegja á samkomum og að þær megi ekki segja mönnum til, nema guði.

Ég gæti haldið svona endalaust áfram.

Í stað þess að styðja þá sem vilja lagfæra trú að tískustraumum samtímans og þannig glepja enn fleiri til að dýrka hindurvitni ætti vantru.is að nota þetta tækifæri til að sýna fram á hversu úr takti siðferði biblíunnar sé. Skil reyndar ekki þessa stefnu sem vantru.is hefur tekið í þessu máli. Er allt í einu farin að réttlæta grænsápuguðfræði þegar hún fjallar um að gifta gay. Vill að prestar fái að ljúga af því að það hentar minnihlutahóp og hægt er að tengja lygina við jafnréttismál.

Birgir mælir vel er hann segir að hjónaband sé löggerningur og ætti að gerast hjá löglærðum mönnum. En ef Birgir styður það að prestar fái að ljúga meir en þeir nú þegar gera til að afla sér fylgis, þá er hann að skjóta sig í fótinn. Það munu verða fáir sem muna eftir stuðningi vantru.is þegar fríkirkjan er farin að hala inn fé á því að gifta gay með því að ljúga því að hatur guðs í garð samkynhneigðra sé kærleikur.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 06/01/06 03:23 #

Ertu ekki búinn að ná þessu? Mér er skítsama hvað prestar vilja aðhafast innan kirkna sinna, en siðleysið felst í að meina samkynhneigðum um full mannréttindi, s.s. að giftast borgaralega fullri lögformlegri giftingu.

Þingið á ekki að hlusta á þennan refíng talíbana sem biskupinn er, heldur gera samkynhneigðum kleift að giftast lögformlega. Ef Þjóðkirkjan vill ekki taka þátt í svoleiðis þá er það hennar mál. Kirkjan á ekki giftinguna sem stofnun í samfélaginu, þótt hún haldi það.

Ég væri til í að sjá ásatrúarmenn gifta samkynhneigða. Ég væri líka til í að sjá þá giftast borgaralega. Meira að segja þætti mér allt í lagi að sjá kristna homma og lesbíur giftast í kristinni kirkju, þótt ekki skilji ég svoleiðis fólk. Hefur það ekki lesið Biblíuna?


Árni Árnason - 06/01/06 09:59 #

Þessi deila öll sýnir okkur svart á hvítu hversvegna kirkjan á enn þau ítök í þjóðfélaginu sem raun ber vitni. Hún hefur aðlögunarhæfni kamelljónsins, og flýtur einhvernveginn með straumnum. Hún færist jafnt og þétt frá öllum sínum upphaflegu kenningum, og nær daglega eru tilskipanir biflíunnar færðar í flokkinn "myndlíking" eða dregnar eru úr þeim tennurnar með því að lesa þær "í ljósi krists". Þessvegna eru Geir Waage, Gunnar í Krossinum alls ekki verstu óvinirnir, heldur grænsápuliðið, Bjarni Karlsson ofl. sem hafa bókamerkin sín bara á þægilegu stöðunum í biflíunni. Almenningur nennir ekki lengur að lesa biflíuna, og flestir hafa ekki hugmynd um hvað stendur í henni, en láta grænsápuprestana um að mata sig á "mannúðar og mildis" köflunum. Ég vona að svartstakkarnir hafi sem allra hæst, þannig að augu fólks opnist fyrir því hverskonar afturhald og bábiljur eru kjarninn í trúnni. Ætli afbrotamönnum liðist að lesa hegningarlögin í "ljósi krists" og refsiákvæði sem myndlíkingar?


Felix Bergsson - 06/01/06 11:01 #

Sælir félagar, skemmtileg umræða og um margt stórmerkileg. Þið hittið alveg naglann á höfuðið með ruglið í biskupi um breytingartillöguna sem Gunna Ögmunds er að leggja fram. Hún snýr að því að gefa öllum trúfélögum leyfi til að gifta samkynhneigða. Það er ekki í fyrsta sinn sem þessi kirkja snýr öllu á hvolf (sama kirkjan og barðist gegn lögum um staðfesta samvist, hvað sem líður öllu umburðarlyndiskjaftæðinu..) Og að lesa þessa nýárspredikun! Maðurinn er náttúrulega ekki alveg með réttu ráði! Röflið um barnleysið og allt "hneigða og hvata" talið, undir rós að sjálfsögðu! Klykkir svo út með tali um "forna texta". Mér verður illt.

Hinsvegar finnst mér hinn punkturinn enn merkilegri og hann er hvort kirkjum og trúfélögum eigi yfirleitt að leyfast að framkvæma giftingar. Þeir eiga að geta blessað hvað sem þeir vilja þessar elskur en hjónaband á að vera fyrst fremst gjörningur ríkisins. Um það finnst mér málið snúast. En það er annað mál og á meðan við erum enn að reyna að koma þessum síðustu mannréttindabótum samkynhneigðra í gegn er kannski betra að geyma þann slag.. takk fyrir kraftmikla síðu og mikilvæga, mjög mikilvæga! Felix Bergsson


Guðmundur I. Markússon - 06/01/06 14:50 #

Maður er náttúrulega alveg kjaftstopp yfir biskupi; ekki vegna þess að kirkjan hafi nokkurn tíma verið prógressív stofnun, heldur sökum þess hvernig hún hefur dregið samkynhneigða á asnaeyrunum í öll þessi ár með tali sínu umburðarlyndi og samstöðu. Með sínu öskuhauga- og hneigðatali er hann búinn að sína sitt rétta andlit--sem verður að teljast ófagurt.

Vitanlega ætti hjónaband sem löggjörningur einungis að vera á færi veraldlegra fulltrúa. Fólk getur svo fengið þær trúarlegu blessanir sem það kærir sig um eftir á, óháð giftingunni sem löglegum gjörningi. Ef ég er ekki alveg úti að aka er þetta svo í Frakkalandi.

Hvað sem því líður er það óverjandi að kirkjan sé að skipta sér af þessari heimild og því hvort önnur trúfélög geta nýtt sér hana. Þetta er hins vegar skiljanlegt þar sem þessi stofnun sem ÞJÓÐkirkja getur einungis við illan leik neitað hluta ÞJÓÐarinnar um þjónustu sem samkvæm lögum er almenn. Karl ætti auðvitað að rjúfa samband ríkis og kirkju--þá getur hann útilokað þá sem honum sýnist.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 06/01/06 15:02 #

Halldór Ásgrímsson sagði það í umræðum um þetta frumvarp að þannig væri það í flestum Evrópulöndum.

Auðvitað ætti það að vera þannig, enda kemur það ríkinu ekkert við hvort fólk hafi tekið þátt í einhverri trúarathöfn eða ekki.


Kalli - 06/01/06 18:39 #

Þetta er hins vegar skiljanlegt þar sem þessi stofnun sem ÞJÓÐkirkja getur einungis við illan leik neitað hluta ÞJÓÐarinnar um þjónustu sem samkvæm lögum er almenn. Karl ætti auðvitað að rjúfa samband ríkis og kirkju--þá getur hann útilokað þá sem honum sýnist.

Þarna er ég hjartanlega sammála þér. Fulltrúar kirkjunnar virðast hins vegar leggja mikið upp úr mismuninum á hugtökunum þjóðkirkja og ríkiskirkja. Fyrra hugtakið virðist eiga við kirkju sem fær borgað fyrir að þjónusta þjóðina en geti gert nokkurn veginn það sem henni sýnist en það síðara um stofnun sem er verkfæri ríkisvaldsins.

Í ljósi þess að kirkjan nýtur forréttinda t.d. hvað varðar fjármögnun frá ríkinu spyr maður sig hvort þessari stofnun beri engar sérstakar skyldur gagnvart skattgreiðendum? Er þjóðkirkju, á borð við þá Íslensku, valkvæmt hverjum hún veitir þjónustu? Sérstaklega þar sem hún getur horft framhjá ritningunni hvað varðar flesta aðra en samkynhneigða?

Þú, Guðmundur, nefnir auðvitað einu lausnina. Aðskilnað ríkis og kirkju. Þjóðkirkjan getur þá gert það sem henni sýnist og mismunað fólki um þjónustu eins og henni hentar (því eins og mismununin er í dag virðist það hvort eð er ekki byggjast á neinu öðru). Það er hins vegar alltaf erfitt að rífa sig frá spenanum og sérstaklega þegar heimalningurinn virðist geta sogið hann skilyrðislaust.


Dipsí - 07/01/06 05:05 #

Birgir

Hver væri staða kristninnar í dag ef þeim væri meinað að vígja konur til prests og ef konum væri ekki leyft að tjá sig innan veggja kirkjunnar eins og biblían boðar?

Heldur þú að fólk væri ekki búið að ná því eftir allan þennan tíma að kristnin er ekki í neinu samræmi við nútímann?

Ef biskup segði :”konur eru velkomnar í kirkjuna og við berum mikla virðingu fyrir þeim, þær verða samt að þegja”, væri kirkjan þá enn jafn öflug í dag og hún er?

Í dag segir biskup :”samkynhneigðir eru velkomnir í kirkjuna og við berum mikla virðingu fyrir þeim, þeir fá bara ekki sömu þjónustu og gagnkynhneigðir”.

Hvað tæki það langan tíma fyrir fólk að átta sig á að kristnin er ekki í neinu samræmi við nútímann?

Viðbrögð fólks við orðum biskups benda til þess að fólk veit ekkert hvað trú þeirra boðar. Þið hafið skrifað hér í nokkur ár og hafið sýnt fram á 64 afskráningar sem er álíka árangur og vottar jehóva hafa af að státa. Vinnan ber árangur, hann er bara ekkert rosalega mikill.

Gefðu kreddunum 10-20 ár í viðbót og þú munt sjá massívt hrun kristinnar trúar á Íslandi. Sú er mín framtíðarsýn.

Styddu við þessar breytingar og þú munt horfa upp á sömu stöðu og þú talar gegn eftir sama árafjölda.

Biskup mun sjá að sér og krefjast þessara laga innan tíðar, það gerir hann vegna þess að hann veit að trúin þarf að aðlagast samtíð sinni til að halda lífi. Þeir breyttu skoðun sinni á hlutverki kvenna innan kirkjunnar vegna álíka þrýstings og nú er í gangi. Hefðu þeir ekki gert það værum við ekki að tuða um 4,6 milljarða sem fara í þessa stofnun.

(Annars skil ég þig vel að vera orðinn pirraður á mér þar sem ég á það til að skrifa um annað en þráðurinn fjallar um og fara út og suður. Tuð mitt mun þó væntanlega minnka stórlega eftir helgi.)


urta (meðlimur í Vantrú) - 07/01/06 10:21 #

Sem móðir samkynhneigðrar stúlku hnykkti mér við þegar biskup sagði að með því að gifta samkynhneigða værum við "að kasta hjónabandinu á sorphauga!" Ég fagna fréttum af því að Samtökin 78 eru búin að bjóða biskup og starfsmönnum biskupsstofu á fræðslunámskeið um málefni samkynhneigðra því þessi orð lýsi mikilli fáfræði. Í mínum huga lýsa þessi orð fyrst og fremst grimmd og mannfyrirlitningu. Biskup er skólagenginn maður sem hefur fengið tækifæri til æðri menntunar og slíkur maður hefur enga afsökun til þess að vera fordómafullur vegna vanþekkingar - heimsku!


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 07/01/06 19:23 #

Já en Dipsí, ég er barasta ekkert að krefjast þess að kirkjan gifti samkynhneigða og hef aldrei gert í þessari umræðu síðustu daga og vikna. Ég hef alltaf verið að tala um að kirkjan eigi ekki að standa í vegi fyrir að samkynhneigðir geti gifst (hvar svo sem þeir gera það annars staðar en hjá Þjóðkrikjunni).

Þú ferð örugglega alveg að ná þessu og þá geturðu hætt að gera mér upp þessa skoðun. ;)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.