Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Descartes, Darwin eða Drottinn

Menntun er einskis metin hjá þjóð vorri. Hryðjuverkaflokkur Kristilega Íhaldsflokksins, sem siglir undir hentifána Sjálfstæðisflokksins, hefur enda á umliðnum fimmtán árum lagt skólana og menntakerfið í rúst með fjandsamlegri yfirtöku ráðuneytis menntamála. Stól Menntamálaráðherra vermir nú um stundir maddama Þorgerður Katrín, krossberandi kaþóklikki, en forveri hennar á téðum stóli var ofsatrúar kristlingurinn Björn. Verk beggja hafa öll verið á þann veg að festa í sessi aðgang Ríkiskirkjunnar að varnarlausum barnshuganum, en svo sem öllum er kunnugt er kirkjan eina ríkisstofnunin sem hefur opinbert og stjórnarskrárvarið leyfi til að ljúga. Öllum þegnum þessa volaða lands er jafnframt gert með lögum að greiða ríkiskirkjunni fúlgur fjár á ári hverju til að halda megi lygunum og áróðrinum til streitu.

Ríkiskirkjan íslenska sóar milljörðum króna á ári hverju í hindurvitni og prjál. Þetta vita allir sem til hafa að bera a.m.k. lágmarks greind og eru ekki blindaðir af kærleika Krists. Því miður er hægt að slá því föstu að á þessu verður ekki breyting í lengd og bráð, en hvað er þá til ráða og hvað koma menntamál þessu við? Þannig er mál með vexti að allir skráðir meðlimir í kirkjunni greiða til hennar trúarskatt - sóknargjöld - sem ríkið innheimtir skv. laganna bókstaf. Til að tryggja það að fólk segi sig ekki frá hinni réttu trú greiða allir trúarskattinn, en þeir sem þráast við og ekki vilja gjalda guði skatt greiða í Háskólasjóð, sem er í vörslu rektors Háskóla Íslands.

Fyrir skömmu sátu rektorar HÍ og Háskólans í Reykjavík á rökstólum í sjónvarpssal og ræddu bága stöðu rannsókna og vísindastarfsemi í æðstu menntastofnunum landsins. Þær voru sammála um að veita þyrfti þremur milljörðum króna í samkeppnissjóði, sem vísindamenn gætu sótt í fjármuni til rannsókna. Þetta er nokkurn veginn sú upphæð, fyrir utan sóknargjöldin, sem ríkiskirkjan hefur af landsmönnum með siðlausri skattheimtu ríkisvaldsins. Einnig á HÍ mjög undir högg að sækja vegna fjársveltis, en ein ógeðfelldasta birtingarmynd þess er sífellt ákveðnara tal um upptöku skólagjalda.

Allir þeir sem skráðir eru í ríkiskirkjuna geta hins vegar lagt sitt af mörkum til HÍ hafi þeir til þess vilja og nennu. Úrsögn úr þjóðkirkjunni jafngildir stuðningi við HÍ. Allir núverandi og allir fyrrverandi nemendur HÍ, kennarar og aðrir velunnarar, geta sent öflug skilaboð til kirkju og ríkis um afstöðu sína til þróttmikils vísinda- og fræðastarfs með þessum einfalda hætti. Rektor HÍ hefur lýst sig algerlega andsnúna upptöku skólagjalda og gæti öflugur Háskólasjóður m.a. orðið til að forða slíku. Þjálfunarbúðir ríkiskristninnar innan veggja HÍ, guðfræðideildin, kemur auðvitað til með að njóta ávaxtanna af auknum framlögum í Háskólasjóð, en því samansafni fallista og andlegra arftaka ofskynjana og ranghugmynda útdauðra hirðingja, verður vonandi brátt úthýst úr HÍ.

Segðu þig úr þjóðkirkjunni nú þegar og styddu Háskóla Íslands. Það er eina vitið.


Til að skrá sig utan trúfélaga þarf að fylla út annað hvort eftirfarandi eyðublaða. Senda má eyðublöðin sem símbréf (569 2949) til Þjóðskrár eða í pósti.

Úrsögn 16 ára og eldri: http://www.hagstofa.is/uploads/files/trufull0504.pdf

Úrsögn yngri en 16 ára (þarf samþykki forráðamanns): http://www.hagstofa.is/uploads/files/trubarn0504.pdf

Guðmundur Guðmundsson 20.12.2005
Flokkað undir: ( Vísindi og trú )

Viðbrögð


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 20/12/05 01:01 #

Það er skondið að sumir sjá engann tilgang að segja sig úr þjóðkirkjunni sökum þess að peningarnir fara þá bara í "eitthvað annað" (m.a. guðfræðideild HÍ), þarna er komin ærin ástæða fyrir trúlausa þjóðkirkjumeðlimi að segja sig úr söfnuðinum... æðislegt.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 20/12/05 01:04 #

Mér skilst að þessi sóknargjöld sem renna til Háskólans fari bara í einhvern sukksjóð. Við sem stöndum utan trúfélaga verðum að gera þá kröfu að sóknargjöldum okkar sé varið til reksturs skólans.

Þetta eru nú einu sinni peningarnir okkar.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 20/12/05 01:09 #

Hérna er hægt að sjá í hvað peningarnir fóru á árunum '88-'96. Ekki aur sem fór til guðfræðideildarinnar á þessum tíma.


S - 20/12/05 11:39 #

Mér finnst að höfundur þessarar greinar fari á mis við það sem er stóra málið í innheimtu gjalds til umrædds Háskólasjóðs.

Hin sorglega staðreynd er sú að á Íslandi er lagður sérstakur skattur á trúleysi. Þetta stenst væntanlega ekki jafnræðisákvæði stjórnarskrár lýðveldisins (þótt þetta sé reyndar beinlínis samkvæmt 64.gr. hennar) og betra væri að hvetja trúlausa til að heimta endurgreiðslu á þessari ólöglegu gjaldtöku frekar en að fagna því að vera neyddir til þess að greiða gjald til HÍ sem menn með aðrar trúarskoðanir þurfa ekki að greiða.

Menn geta haft mismunandi skoðanir á því hvort rétt sé að ríkið sjái um innheimtu sóknargjalda til trúfélaga (ríkið gerir þetta ekki fyrir, t.d. stjórnmálaflokka eða íþróttafélög). Ég ætla ekki að fara nánar út í það hér. Ég geri hins vegar ekki athugasemd við það að þeir sem eru félagar í trúfélagi greiði gjald til þess félags. Að ríkið leggi hins vegar sérstakan skatt á þá sem ekki eru aðilar að trúfélagi er skandall sem fær merkilega litla athygli.

Í þeirri grein sem hér eru gerðar athugasemdir við er viðhorfið það að trúleysisskattur sé hið besta mál þar sem það fé sem innheimt er fer í gott málefni. Ég get engan vegin samþykkt svona málflutning. Ekki frekar en að ég myndi samþykkja skatt á hörundsdökkt fólk sem notaður yrði til eflingar heilbrigðiskerfisins eða skatt á rauðhærða sem notaður yrði til að vinna gegn alnæmisfaraldrinum í Afríku.

Mismunun á grunndvelli trúarafstöðu er bönnuð í 65.gr. stjórnarskrárinnar en lögboðin í 64.gr. sama skjals. Síðarnefnda ákvæðinu má reyndar breyta með lagasetningu, en þarfnast ekki stjórnarskrárbreytingar. Ég hefði haldið að það væri forgangsmál í réttindabaráttu trúlausra á Íslandi að hinn sérstaki skattur sem lagður er á trúlausa verði aflagður.

Svo virðist sem flestir íslenskir trúleysingjar átti sig ekki á því að hér á landi er beinlínis í gildi lagaleg mismunum gegn þeim. Frekar en að fagna mismununinni ættu menn að gera það að helsta baráttumáli sínu að jafnræðisákvæði stjórnarskrár lýðveldisins sé túlkað á þann hátt að það eigi líka við um trúlausa. Fyrir þá sem ekki þekkja til læt ég 65.gr. stjórnarskrárinnar fylgja: "Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna."


Matti (meðlimur í Vantrú) - 20/12/05 11:52 #

Í þeirri grein sem hér eru gerðar athugasemdir við er viðhorfið það að trúleysisskattur sé hið besta mál þar sem það fé sem innheimt er fer í gott málefni

Þetta þykir mér langsótt túlkun, í greininni kemur m.a. þetta fram:

Til að tryggja það að fólk segi sig ekki frá hinni réttu trú greiða allir trúarskattinn, en þeir sem þráast við og ekki vilja gjalda guði skatt greiða í Háskólasjóð...

Ekki get ég verið sammála þeirri túlkun S að með þessu sé verið að halda því fram að trúleysisskattur sé hið besta mál. Aftur á móti er þessi skattur staðreynd og meðan svo er þykir mér við rétt og þarft að hvetja fólk til að segja sig úr Þjóðkirkjunni svo þessi peningur rati á betri stað.

Svo virðist sem flestir íslenskir trúleysingjar átti sig ekki á því að hér á landi er beinlínis í gildi lagaleg mismunum gegn þeim.

Ekki veit ég hvaða trúleysingjar þetta eru, a.m.k. ekki félagar í Vantrú, því við gerum okkur fyllilega grein fyrir þessu. Hvatningar S eru góðra gjalda verðar, en þetta höfum við heyrt (og skrifað) áður.

svo eitthvað sé talið


S - 20/12/05 12:29 #

Það má vera að menn séu almennt vel upplýstir um þetta, en ég verð að viðurkenna að mér finns orðanotkunin hér ekki benda til nógu góðs skilning. Að segja að allir landsmenn greiði trúarskatt er að mínu mati alvarlegur misskilningur. Meðlimir í trúfélögum eru ekki að borga skatt heldur er réttara að telja þeirra greiðslu vera aðildargjald að trúfélagi. Þeir sem standa utan trúfélags eru hins vegar að greiða skatt. Ég hvet trúleysingja til þess að taka ekki þátt í þeim leik að setja samasemmerki milli þess að greiða gjald til trúfélags sem maður er aðili að og þess að greiða sérstakann skatt fyrir það að vera trúlaus.

Mér finnst nálgunin í greininn vera jákvæð í garð trúleysisskatts, en vonandi er það rétt hjá Matta að það sé bara minn misskilningur. Þegar menn setja það fram með breiðu letri að úrsögn úr þjóðkirkjunni sé stuðningur við HÍ í samhengi við umræðu um fjárskort menntastofnana tel ég eðlilegt að skilja það sem slíka jákvæðni. Það er kannski rétt að því sé ekki beinlínis haldið fram að skatturinn sé “hið besta mál”, en ég sé eftir sem áður frekar jákvæðni en neikvæni til trúleysisskattsins.

Ég er ekkert að mótmæla því að menn séu hvattir til þess að segja sig úr trúfélögum. Mér finnst hins vegar rétt að setja spurningamerki við það að nota helsta skandalinn í lagalegu umhverfi trúleysis á Íslandi sem rök fyrir úrsögn. Svo ég haldi áfram með dæmið úr síðusta innslagi mínu þá finnst mér hér vera sagt “litið hárið á ykkur rautt til að vinna gegn alnæmi í Afríku” þegar “hættum mismunun gegn rauðhærðum” væri eðlilegra.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 20/12/05 12:45 #

það er alltaf hægt að benda á eitthvað annað og mikilvægara. Við á Vantrú höfum ítrekað mótmælt þeirri mismunum sem felst í að trúlausir skuli borga skatt sem aðrir þurfa ekki að greiða.

Þessi grein er um afmarkað efni, ekki lykilskilgreining á baráttumálum Vantrúarsinna. Mér finnst persónulega þurfa sterkan vilja til að túlka þessa grein á þann hátt sem S gerir :-)


Dipsí - 20/12/05 12:47 #

Fékk tækniháskólinn eitthvað af þessu fé þegar hann var og hét?

Þar fyrir utan hefur S lög að mæla, en það hefur oft verið rætt um þessa hluti af meðlimum vantrúar og það er misskilningur af hans hálfu að menn séu ekki að fatta þetta óréttlæti.

Hefur verið líkt við að afnotagjöld væru innheimt þótt menn ættu ekki útvarp eða sjónvarp og þeim síðan úthlutað til kattholts.

Trúfélög eru áhugaklúbbar um trú. Slík félög eru ekkert merkilegri en golfklúbbar t.d. og væri alveg eins mikið vit í því að gera alla skylduga til að greiða af sínum tekjum til GR eða álíka félaga eins og að láta alla borga til einhvers trúfélags.


Árni Árnason - 20/12/05 12:50 #

Algerlega og 100% sammála S.

Ég hef margoft sagt hér og annarsstaðar að innheimta sóknargjaldsígildis hjá fólki utan safnaða er ekkert annað en lævísleg aðferð til þess að taka þann kaleik frá fólki að segja sig úr þjóðkirkjunni ( eða öðrum söfnuðum ) til þess að spara sér gjaldið.

Ríkið á ekki að vera rukkari fyrir trúarsöfnuði. Sóknargjaldsígildið er óhæfa og skal burt-burt-burt og það strax. Öll réttlæting þess með einhverri aumkun við Háskólann er uppgjöf.

Kirkjan lætur sig dreyma um hækkun sóknargjalda. Ég vona að sú hækkun verði veruleg, og að í framhaldinu finni fólk fyrir því á eigin skinni hvað kostar að reka bábiljuapparatið, vakni og segi stopp.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 20/12/05 12:58 #

Öll réttlæting þess með einhverri aumkun við Háskólann er uppgjöf.

Hér er ekkert verið að réttlæta sóknargjaldsígildið og hér er heldur engin aumkun í gangi. En þessi sóknargjöld eru staðreynd og því sjálfsagt fyrir Vantrú að hvetja fólk til úrsagnar úr Þjóðkirkjum með því að benda á þennan flöt, eflaust eru margir velunnarar Háskólans sem hafa ekki hugsað þetta svona og eru enn skráðir í Þjóðkirkjuna sökum sinnuleysis. Ef nógu margir segja sig úr Þjóðkirkjunni fækkar prestum á launaskrá - hver veit, kannski verður það leikskólaprestur sem verður látinn fjúka næst (maður getur alltaf látið sig dreyma).

Við verðum að spila út þeim spilum sem við höfum á hendi. Það þýðir ekki að barátta okkar takmarkist við þessa hvatningu. Ég tel að sífellt þurfi að hvetja fólk til að segja sig úr Þjóðkirkjunni því hún er stútfull af fólki sem ekki hefur nokkurn áhuga á trúmálum.

Þegar fjöldi þeirra sem greiða þennan ósanngjarna skatt hefur aukist er ég líka viss um að auðveldara verður að þrýsta á um breytingar á þessu fyrirkomulagi. Í dag er þetta því miður alltof fámennur hópur sem auðvelt er fyrir stjórnmálamenn að hunsa. Við verðum að fjölga í hópnum og það gerum við með svona hvatningum.


Guðmundur Guðmundsson (meðlimur í Vantrú) - 20/12/05 13:30 #

Svo það sé á hreinu þá er ég ekki að mæla trúarskattinum bót - hann er valdníðsla. Mörður Árnason tók þetta upp á þingi, en var ekki virtur viðlits.

Þjóðkirkjan verður bráðum samferða risaeðlunum inn í eilífðina, en þangað til er óþarft að liggja fyrir og bölva í hljóði. Í dag er úrsögn úr kirkjunni stuðningur við HÍ, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.


Árni Árnason - 20/12/05 17:18 #

".. sóknargjöld eru staðreynd ..."

Ég skil vel hvað þið eruð að fara og meining ykkar er góð, en vandamálið er að fullyrðing eins og þessi hér að ofan gefur í skyn að við verðum að spinna í kringum þessa staðreynd.

Það má vel til sanns vegar færa að meiri ávinningur geti verið af diplómatískum hægfara aðferðum, en einhverri prinsípphörku, en hvað ef þessu áskorun virkar? Hvað ef utansafnaðafólki fjölgaði fjórfalt? Haldið þið að léttara yrði að berjast fyrir niðurfellingu sóknargjaldsígildisins ef Háskólinn væri farinn að venjast því að fá 100.000.000 á ári? Hvað ef það yrði 200.000.000 ?

Haldið þið að það fengi meiri stuðning að H.Í. yrði af slíkum tekjum, en kirkjan ?

Sóknargjald okkar sem erum ekki í nokkurri einustu sókn er bara bull sem á ekki að líðast - punktur.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 20/12/05 19:57 #

Veit einhver hvenær og hvernig núverandi skipan sóknargjalda var tekin upp og af hverju? Hvaða snillingur fann upp trúarskattinn!


BJanri Jónsson - 22/12/05 21:46 #

Mig langar aðeins að leggja nokkur orð í belg í umræðuna hér. Stjórn Siðmenntar, félag húmanista á Íslandi, hefur unnið að þessu máli í mörg ár en ávallt talað fyrir daufum eyrum. Síðastliðið vor vann lögfræðingur félagsins álit á stöðu annar lífsskoðanna en trúaðra m.a. húmanista, trúleysingja og annara sem kosið hafa að segja sig úr ríkiskirkjunni og kom margt merkilegt í ljós.

Hún telur að lífsskoðanir húmanista og trúleysingja njóti ekki sömu verndar stjórnarskrárinnar eins og S bendir á hér að ofan. Að þeim sé skyllt að greiða í sérstakan sjóð en fá ekki að ráða því hvert peningarnir fara er ekki jafnræði. Bæði sé um mismunun þegnanna að ræða eftir því hvaða lífsskoðun þeir aðhyllast og brot gegn jafnræðisreglu.

Annað enn merkilegra kom fram í áliti lögfræðingsins er að trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar verndar ekki þá sem aðhyllast húmanisma.

Stjórn félagsins er, eins og ég gat um áður, að vinna í þessu máli og hefur sent öllum þingmönnum álit lögfræðingsins og hefur einnig óskað eftir því við Alþingi að það verði skoðað út frá mannréttindaákvæðum.

Krafa Siðmenntar er sú að í fyrsta lagi að þeir sem aðhyllast húmanisma fái jafna og sömu stöðu og aðrir lífsskoðunar- og trúarhópar og fá skráningu sem slíkur félagsskapur. Í öðru lagi að fólk ráði því sjálft hvert sóknargjald þess renni. Í þriðja lagi að þeir sem það kjósi þurfi ekkert gjald að greiða. Ein af kröfum Siðmenntar er síðan að ríkið hætti að rukka félagsgjöld lífsskoðunar- og trúarhópa en við lítum á hana sem langtímakröfu. Aðrar kröfur sem nefndar eru hér að ofan eru einfaldlega spurning um mannréttindi og jafnræði þegnanna og vonandi verður þess ekki langt að bíða að núverandi ástandi verði breytt - annað hvort með lagabreytingum eða málssókn.

Ég hvet hinsvegar fólk að skrá sig úr trúfélögum ekki aðeins þjóðkirkjunni heldur öllum trúfélögum hvaða nafni sem þau nefnast. Ég vona að þessi pistill minn hafi skýrt afstöðu húmanista til málsins.

Með kveðju Bjarni Jónsson

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.